Saturday, March 28, 2009

Flakkarinn bilaður

Á síðasta ári eyðilagðist harða drifið í makkanum. Nú er flakkarinn bilaður, fór tímabundið í gang aftur en núna fæst engin tenging. Leiðinlegt, bögg, vesen. Við Ásgeir höfum notað flakkarann sem geymslu fyrir gögn, fyrst og fremst bíómyndir og ljósmyndir, en þar voru einnig alls konar afrit og skjöl. Nú er bara að sjá hvort einhver viðgerðarmaður telur sig geta komið þessu í gang eða ekki. Sem betur fer brenndum við nýverið allar ljósmyndir á geisladiska til öryggis. Allur dagurinn hefur farið í að vesenast í þessu, símhringingar, netið, tilraunir. Sjáum hvað setur.

Var á námskeiði í gær, dagsnámskeiði fyrir unglækna í meinafræði. Það var mjög fínt.

Það er ergilegt að sjá að krónan sé aftur að veikjast. Gagnvart evru var hún komin niður í 144 krónur en er nú í 160 krónum. Ástandið er greinilega mjög óstöðugt.

Svo er merkilegt að fylgjast með þessum landsfundum. Samfylkingin reynir að hreinsa sig af mistökum og Sjálfstæðismenn eru með fáránlegar ályktanir, s.s. varðandi kvótakerfið auk þess að vilja stefna nú að meiri einkavæðingu í menntakerfi og heilbrigðismálum. Eftir mistökin varðandi einkavæðingu bankanna hljómar allt tal af hálfu Sjálfstæðismanna um einkavæðingu mjög illa. Svo fær maður gubbuna alveg upp í háls þegar Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lætur í sér heyra.

Eitt hef ég ekki skilið. Það er sú árátta öryggisvarða að girða spítalann í Alkmaar af. Spítalinn er að stórum hluta girtur með hárri vírgirðingu með þremur röðum af gaddavír efst. Nokkur hlið eru inn á lóðina aftanverða þar sem allir fara í gegn sem koma frá lestarstöðinni. Ekki er haft fyrir því að hafa öll hliðin opin til að spara fólki sporin og þegar komið er kvöld er hliðunum lokað. Svo að ekki sé hægt að klifra yfir hliðin eru gaddar ofan á þeim. Síðasta útspilið var að loka auka-stigahúsunum á spítalanum sem spöruðu manni ferð um allt sjúkrahúsið til að komast út. Það var gert án þess að láta vita þannig að eitt skiptið var ég kominn inn í stigahús en komst ekki út og varða að hringja í sjúkrahúsið til að unnt væri að hleypa mér út.

Annars er það að frétta að þetta verður róleg helgi. Svo er Ásgeir væntanlegur eftir viku, húrra!!!

No comments: