Saturday, December 22, 2007

Komnir til byggða

Komum til Íslands síðdegis í gær. Lögðum af stað klukkan 3:00 á Íslenskum tíma og vorum komnir út úr Leifsstöð kl. 17. Þetta var langt ferðalag þar sem við misstum af seinni vélinni okkar frá London-Gattwick til Keflavíkur. Vélin frá Amsterdam til Gattwick með Britisch Airways var sein í loftið vegna flugumferðar, þoku og ísingar. Þurfti síðan að hringsóla yfir Gatwick vegna þoku þar og gat síðan ekki lagt í stæðið strax sem var upptekið. Við vorum býsna stressaðir og þegar við komumst út úr vélinni hlupum við eins og fætur toguðu og stóðum á öndinni við innritunarborð til að komast í framhaldsflugið einnig með British Airways, einni mínútu í brottför. Það var augljóslega of seint og við misstum af vélinni. Tíminn milli véla var stuttur; 55 mínútur, sem er lágmarkstími sem flugfélagið ábyrgist til að maður komist milli véla. Þau hjá British Airways hikuðu ekki og keyptu tvö sæti hjá Flugleiðum og rútumiða yfir á Heathrow þaðan sem við fórum til Íslands seinna um daginn.
Stundum þegar maður er á heimleið til Íslands og maður heyrir í Íslendingum á flugvellinum þá hefur hugsunin "oh, Íslendingar" hvarflað að manni. Í þetta skiptið hugsuðum við ekki svo og höfðum gaman af því að sjá Íslendingana og heyra í þeim, ánægðir að vera á heimleið.
Jólagjafainnkaupum er lokið og nú ætlum við að hafa það gott yfir jól og áramót. Ég þarf reyndar að sinna ristilverkefninu líka - en hvað eru jól án þess? Sjáumst nú yfir hátíðarnar.
Kveðja, Pétur.

Tuesday, December 18, 2007

bloggað inni í skáp

Jú eins og flestir vita þá erum við fluttir. Nýja íbúðin er að taka á sig ágætismynd. Við erum t.a.m. búnir að endurraða húsgögnunum á smekklegri hátt og svo í gær byrjuðum við að mála. Við erum búnir að mála eitt herbergi og ætlum að klára að mála restina af íbúðinni eftir áramót. Framtaksemin hefur þó örlítið látið á sér standa í internet málum. Við dettum stundum inn á tengingar hjá hinum íbúunum í húsinu eða hjá fólkinu hinum megin við götuna. Netið virkar best í borðstofunni og þá sérstaklega ef maður setur tölvuna upp í efstu hillu á háum glerskáp og stendur síðan sjálfur á stól fyrir framan skápinn. Í kvöld er tengingin sérstaklega góð og af því tilefni er ég búinn að senda fullt af tölvupósti, lesa mbl, hlusta á jólalög á Rás2 og ætti í raun að vera löngu farinn að sofa. En hér stend ég enn, uppá stól fyrir framan skápinn. Pétur er sofandi á sófanum. Þar sofnum við yfirleitt og sofum hálfa nóttina. Það er nefnilega miklu hlýrra í stofunni því þar er eini ofninn í húsinu. Að vísu erum við með rafmagnsofn í svefnherberginu en það heyrist svo mikið í honum og svo kemur líka bræla þegar hann er í gangi. Mig grunar að það liggi gamall sokkur af fyrri leigjanda einhvers staðar á milli elementanna í ofninum.

Auk þess að mála þá keyptum við jólagjafir um helgina og buðum í mat. Það er svolítið varasamt að búa í útlöndum og kaupa jólagjafir eftir íslenskum mælikvarða. Hér eru hlutirnir vissulega aðeins ódýrari en launin hérna eru í samræmi við það. Við rákum okkur aðeins á þetta í jólainnkaupunum........ en jæja. Þetta fór svona núna en á næsta ári fá allir spil og sprittkerti úr IKEA.

sjáumst síðar

Jóla-Geir

Thursday, December 13, 2007

Gestagangur

Thad hefur verid gestagangur hjá okkur Ásgeiri. Sjonni var hér í byrjun mánadarins, svo Gulli og Jakob og loks komu Dogg og Grímur en thau gistu reyndar ekki hjá okkur. Thau komu í mat og máttu thola mat úr tilraunaeldhúsinu - vid vonum ad thau treysti sér til ad koma aftur í mat eftir thá raun. Á medan Jakob og Gulli voru hér var naeturlífid skodad gaumgaefilega og stódust their piltar einnig freistingar kvennanna í Rauda hverfinu.
Vid hofum verid ad koma okkur fyrir a nyja heimilinu. Thar er mjog léleg internettenging thannig ad ég ákvad ad blogga bara hér í vinnunni. Dagarnir eru mjog misjafnir hér hvad vardar álag í krufningum - suma daga ekki ein einasta en adra daga nokkrar. Á rólegri dogum gefst tími til ad klára skýrslur. Af áhugaverdum tilfellum í vinnunni hef ég séd m.a. blodrulifur (polycystic liver disease), lungnaskada eftir bleomycin, útbreitt eistakrabbamein, lokun á lungnapípu eftir adgerd, gat milli slegla í hjarta, risafrumuhjartabólgu og vanskopun á litla heila (Dandy-Walker).
Ég fór ad skrá nýja heimilisfangid í byrjun vikunnar á baejarskrifstofunni. Enn einu sinni kom skriffinskudraugurinn til sogunnar og hraeddi mig thar sem konan á skrifstofunni var med vesen; henni leist ekki á leigusamninginn og ad leigjandinn vaeri einnig skrádur á húsnaedid og hélt ad svindl vaeri í gangi. Sem betur fer endadi thad vel en ég rennsvitnadi thegar ég beid og sat á medan hún garfadi í thessu.
Nú styttist í ad vid Ásgeir komum til Íslands. Ad morgu er ad huga ádur en vid komum heim; vid thurfum m.a. ad kaupa jólagjafir og byrja ad mála í íbúdinni okkar nýju.
Kvedja, Pétur.

Tuesday, December 4, 2007

Þoli ekki læknanema

Ég veit að þetta hljómar illa en svona hugsaði ég í dag - og þetta er meira að segja ekki þeim að kenna. Um þessar mundir er ég sem sagt í krufningablokkinni ógurlegu og þegar ég kom í vinnuna í dag lágu fyrir nokkrar krufningar. Hér er það svo að oftar en ekki eru einhverjir áhorfendur til staðar, yfirleitt læknanemar og vill það stundum tefja fyrir vinnunni að mér finnst. Það fer í taugarnar á mér þegar vinna mín er látin hverfast kringum þarfir læknanemanna. Það var þannig að ég var hálfnaður með krufningu þegar læknanemarnir komu úr kynningu og mér var gert að henda öllum líffærunum ofan í formalín, hérumbil óskornum, og byrja á næstu krufningu svo að læknanemarnir gætu verið með frá byrjun. Á morgun þarf ég svo að klára krufninguna á formalínfixeruðum sýnum. Þetta fannst mér óþolandi. Svo gremst mér einnig að krufningafundirnir sem eru alla þriðjudaga hér á deildinni eru læknanemamiðaðir - samt er skyldumæting fyrir okkur deildarlækna, af hverju er þetta ekki deildarlæknamiðað? ... Var pirraður yfir þessu í allan dag.

Annars er það að frétta af Sjonna að hann stóðst allar freistingar í Rauða hverfinu þrátt fyrir að portkonurnar bönkuðu á glugga. Auk þess má nefna að Janette, leigusalinn okkar, er sérstaklega almennileg. Hún kom í dag með handklæði handa okkur, nýja brauðrist, klósettbursta, viskustykki og fleira dót. Þetta er næstum eins og að vera á hótelherbergi.

Sunday, December 2, 2007

Flutningar, heimsókn

Sjonni kom í heimsókn á fimmtudag, daginn sem við fluttum úr úthverfinu. Þar sem við fengum íbúðina ekki fyrr en í gær þurftum við að redda gistingu tvær nætur. Fundum þessa fínu og ódýru íbúð í hjarta Amsterdam, nánar tiltekið í Rauða hverfinu. Við vorum ekki vissir um að þetta yrði í lagi en Hollendingarnir sem við þekkjum höfðu engar áhyggjur af þessu og þetta var bara allt í lagi. Hasslyktin á götunum er áberandi í þessu hverfi og finna mátti staði eins og Cannabis College - free admission.

Erum búnir að túristast með Sjonna, skoðað borgina, farið í bátasiglingu á síkjunum og skoðað van Gogh safnið. Fórum í kvöld á stórtónleika í Het Concergebouw þar sem rússneski píanóleikarinn Arkadi Volodos spilaði. Það var húsfyllir og mjög skemmtilegt. Við fórum á laugardagskvöldið á listdanssýningu þar sem kona klæddi sig úr fötunum með stöng og skeiðum var varpað í áhorfendur úr valslöngvu sem gerð var úr eldhúsáhöldum.

Nýja íbúðin er mjög fín. Það var mjög gott að komast hingað úr litlu íbúðinni í úthverfinu sem var hálfgerð sardínudós, hvað þá úr litla herberginu í Rauða hverfinu.

Kveðja, Pétur.

Saturday, November 24, 2007

Upplyfting

Við Ásgeir höfum verið rólegir undanfarna viku. Raunar hafa flest kvöld farið í rólegheit og sjónvarp. Leigusalinn á ristastóran kassa með allri Vina-seríunni og við höfum horft á slatta af þáttum. Á Íslandi var frítíma oftar en ekki varið í að hitta fólk en hér þekkjum við enn svo fáa að það fer lítið fyrir slíku. Nenntum ekki að hanga inni í þessari pínulitlu kytru í gærkvöldi, lyftum okkur upp og kíktum niður í bæ. Það er annars merkilegt hversu algengt það er að þurfa borga hálfa evru fyrir að fá að fara á klósett á skemmtistöðum bæjarins.

Í vinnunni var frekar lítið af krufningum þessa vikuna. Sá samt áhugaverða hluti, m.a. hjarta sem vó rúmlega eitt kíló (venjulegt hjarta er undir 400 grömmum), magasár með mikilli blæðingu og útbreitt blöðruhálskirtilskrabbamein. Auk þess fundum við mjög sjaldgæfan fæðingargalla í barni sem lifði bara tvær vikur eftir fæðingu. Eftir því sem við komumst næst hefur aðeins einu sambærilegu slíku tilviki verið lýst áður.

Í næstu viku kemur Sjonni í heimsókn. Auk margs annars ætlum við að fara á tónleika í Het concertgebouw, frægu tónleikahúsi hér í Amsterdam, sem er með þéttskipaða dagskrá allt árið um kring. Við ætlum að hlusta á rússneska píanistann Volodos sem er sérstaklega þekktur fyrir að spila tónlist eftir Liszt og Rachmaninoff. Ég hlakka mikið til. Sjonni kemur á fimmtudaginn kemur, daginn sem við förum út úr þeirri íbúð sem við búum í núna. Við verðum tvær nætur með herbergi niðri í bæ en flytjum svo á laugardeginum í nýju íbúðina okkar. Okkur skilst að þó að leiguverðið sé ekki beinlínis lágt þá sé það býsna gott miðað við staðsetningu og stærð (1125 evrur á mánuði, 65 fermetrar, rafmagn og gas innifalið, öll húsgögn og húsbúnaður). Megum því glaðir við una. Miðað við fréttir af húsnæðismarkaðnum heima á Íslandi er leiguverð hér í Amsterdam áþekkt.

Kveðja, Pétur.

Friday, November 23, 2007

Verwijd-verwijderd

Hér gengur allt sinn vanagang um þessar mundir. Reyndar flytjum við í næstu viku úr úthverfinu Bautenveldert í huggulegt hverfi meira miðsvæðis með útsýni hollenskt sýki.

Einn prófessorinn benti mér vinsamlega á það í gær að ég ætti til að rugla saman vissum orðum. Þannig var nefnilega að síðastliðinn þriðjudag var ég að kynna krufningar vikunnar á undan, hélt á ósæðinni og sagði við alla viðstadda að ósæðin væri "iets verwijderd" sem þýðir víst "það er búið að fjarlægja ósæðina lítillega" en hefði átt að segja "verwijd" sem þýðir "víkkuð".

Kveðja, Pétur.

Sunday, November 18, 2007

Slysó og fleira

Við Ásgeir vorum að koma úr ræktinni. Ég ætla að blogga svolítið áður en ég fer að vinna í ristilverkefninu endalausa. Hef þessa vikuna verið í þjálfun í tengslum við krufningar. Er sjálfur búinn að gera fleiri krufningar en flestir deildarlæknanna hér þannig að þetta er eiginlega bara til þess að sjá hvernig þau gera hlutina enda til mýmargar aðferðir. Hlakka til að fá að gera hlutina einn og án afskipta annarra. Ég þarf að laga mínar aðferðir að þeim venjum sem eru iðkaðar hér. Það er ágætt, þá get ég kannski búið til blöndu af því sem mér finnst gott hér og því sem var betra á Íslandi.
Prófið gekk svo sem ágætlega. Það verður fornvitnilegt að sjá hver árangurinn verður. Spurt var meðal annars um alfa-1 antitrypsínskort, brjóstakrabbamein, sýkingar í miðtaugakerfi, eitlakrabbamein og kjálkasjúkdóma.

Ásgeir var svo óheppinn síðastliðinn fimmtudag að fá fót í andlitið á dansæfingu. Hann fékk skurð á neðri vör, vörina innanverða og heilmikill vökvi kom í annan kjálkaliðinn þannig að hann gat ekki bitið saman. Þurftum að fara á slysadeildina þar sem hann var saumaður að innan sem utan, teknar röntgenmyndir og svo fór hann daginn eftir til sérfræðings í kjálkavandamálum. Þetta er allt batnandi nú á sunnudegi. Okkur þótti afgreiðslan á slysó hér hægfara, erum vanir því að skurðir séu afgreiddir hraðar heima á Íslandi. Hér þurfti að bíða í um tvær og hálfa klukkustund eftir því að fá þetta saumað saman. Okkur fannst það endalaust lengi að líða. Ásgeir má að svo stöddu bara borða mjúkan mat, ekkert hart eða seigt.

Fórum í gær í mat til franskra hjóna sem við höfum kynnst. Þau eru listamenn og reka einnig skóbúð. Við fengum ljúffengan franskan mat að borða. Skruppum í dag í ræktina og tókum til. Helgarnar líða hratt, áður en maður veit af er komin sunnudagur og ný vinnuvika. Við ætlum að reyna að vera duglegri að fara og skoða eitthvað skemmtilegt á laugardögum.

Nú fer að líða að flutningum á nýja staðinn. Þá snýst dæmið við, þ.e. nú hjóla ég í 5-10 mínútur til að komast í vinnuna og Ásgeir í 25 mínútur til að komast í skólann. Á nýja staðnum verður þetta öfugt. Hér er orðið svolítið kalt, hitinn hefur verið 3-7 gráður.

Kveðja, Pétur.

Wednesday, November 14, 2007

Próf á morgun

Ég ætti kannski að vera að lesa en ég veit ekki hvar ég á að byrja. Það er nefnilega árlegt meinafræðipróf á morgun, skriflegt próf þar sem spurt er vítt og breitt um sjúkdóma mannslíkamans. Prófið hefur engar afleiðingar en er ætlað að hvetja mann til lestrar og gefa til kynna hversu mikið maður kann. Mér skilst að um 60 stig af 100 sé býsna góður árangur, 80 stig er mjög gott (sérfræðingar fá um 80-90 stig) en byrjendur fá víst yfirleitt eitthvað lélegt - en er svo ætlað að bæta sig með hverju árinu. Þó að ég hafi flækst í þessu fagi síðustu misseri finnst mér fræðilegri kunnáttu áfátt og ég er með veikar hliðar. Ég hugsa að ég reyni að lesa mér til um eitlakrabbamein í kvöld.
Sigurdís var hjá okkur Ásgeiri síðastliðna helgi. Það var mjög gaman að fá hana í heimsókn. Við kíktum í bæinn bæði að degi til og um kvöldið og elduðum góðan kvöldmat þess á milli. Ég fékk svo frá mömmu vetrarúlpuna mína, húfu og vettlinga, sem var kærkomið. Næst kemur Sjonni í heimsókn og e.t.v. Garðar bróðir.
Kveðja, Pétur.

Monday, November 12, 2007

Nýjasta viðbótin við búslóðina

Á föstudaginn var fór ég í bæinn, miðbæinn, og keypti þetta líka fallega bláa stofustáss.



Eins og sjá má er þetta hin fínasta vindsæng, eða öllu heldur vindrúm. Gripurinn er 200 cm á lengd, 155 á breidd og 42 á hæð. Sjálfuppblásanleg og með VELÚR áferð!

Kveðja,
Stoltur neytandi
Ásgeir

Saturday, November 10, 2007

Laugardagur


Þá er kominn laugardagur. Sigurdís er á leiðinni í stutta heimsókn. Systir hennar býr nú í Rotterdam og hún var þar í heimsókn og ætlar nú að heimsækja okkur Ásgeir hér í Amsturdammi - fyrsti gesturinn okkar. Við erum búnir að kaupa stórt og fínt uppblásanlegt gestarúm, sæng, kodda og sængurföt.

Fórum síðastliðna helgi til Barcelona en Xavier, spænskur vinur okkar, hélt upp á þrítugsafmælið sitt. Fórum á föstudagskvöldi og komum heim á sunnudagskvöldi. Þetta var sem sagt mjög stutt ferð en mjög skemmtileg. Ferðalagið var mjög þægilegt. Við búum 10 frá flugvellinum, bókuðum okkur á netinu og vorum bara með handfarangur. Gátum því á stuttum tíma gengið beint inn í flugvélina.

Á mánudaginn byrjar krufningalota hjá mér. Ég verð þá bara í krufningum næstu vikurnar. Er búinn að læra heilmikið hingað til. Hollenskuprófið gekk vel. Ég nenni ekki að fara strax á framhaldskúrsinn, er búinn að fá nóg af kvöldskóla í bili. Í vændum er árlegt próf í meinafræði á fimmtudaginn, þetta er skriflegt próf á hollensku. Ég sé ekki fyrir mér mikla sigra á þessu prófi.

Myndin sýnir götuna sem við Ásgeir búum við. Meira seinna.

Wednesday, October 31, 2007

Í vinnunni

Sit hér í vinnunni, klukkan er orðin sex og ég nenni ekki að halda áfram að vinna né að fara læra hollensku fyrir prófið á morgun (fyrri hluti, seinni hluti á mánudag). Dagarnir hjá mér í vinnunni eru misjafnir. Þetta hefur verið þannig að annan hvern dag fæ ég bunka af glerjum, t.d. um 40 tilfelli í dag, sem ég pæli svo í gegnum með tilheyrandi sérfræðingi. Um er að ræða mestmegnis lítil vefjasýni (bíopsíur) en einnig einstöku stærri sýni sem ekki eru mjög flókin, t.d. fylgjur. Sumt klárum við samdægurs en annað tekur nokkra daga eða lengri tíma eftir því hvort einhverjar sérrannsóknir þarf að gera. Tilfellin eru blönduð þannig að ég fæ hvað sem er; húð, legháls, beinmerg, brjósvef, blöðruhálskirtilsvef, heilavef, meltingarfæri, öndunarfæri og svo framvegis. Það sem ég hef séð mest af er húð og efri meltingarvegur. Í dag var smá drama hér í vinnunni. Einn unglæknirinn klárar í janúar doktorsverkefnið sitt eftir fimm ára vinnu og núna virðist vera mikið álag því að hún lenti í þrætu við einn leiðbeinandann, talaði hátt og fór að gráta. Svo féll allt fljótlega í ljúfa löð og það var eins og þetta væri bara ekkert merkilegt, dálítið spes. Ég skildi því miður ekki hvað fór fram en held að þetta hafi snúist um m.a. misvísandi skilaboð frá leiðbeinendunum.

Bankamálin halda áfram að vera óþolandi. Ég fór í bankann í gær. Lét opna aftur kortið mitt af því að það hafði ekki tekist síðast, gekk í þetta skiptið. Einnig gerði ég enn eina tilraun til að fá auðkennislykil fyrir internetbankann. Þau áttu hann ekki til (eins og síðast) en hringdu í næsta útibú og þar voru þeir til. Þegar ég kom þangað sagði bankamaðurinn mér að hann hefði gert mistök, þeir ættu heldur ekki auðkennislykla. Þar að auki var þetta sami lati bankastarfsmaðurinn sem hafði opnað reikninginn minn upphaflega og EKKI sent mér IBAN og SWIFT númer í pósti eins og ég hafði beðið um (hann gat ekki gefið mér þær upplýsingar á staðnum). Í þokkabót hafði ég komist að því að þeir sem opna nýjan reikning (young professional account) í bankanum um þessar mundir ættu að fá 100 gefins. Mér hafði ekki verið boðið upp á það og þegar ég spurði hvers vegna var mér sagt að svo væri vegna þess að ég væri útlendingur! Ég var öskureiður skammaðist yfir þjónustunni, heimtaði að fá þessar hundrað evrur, a.m.k. sem bætur fyrir allt vesenið og lélega þjónustu. Svo var hringt í dag og mér tilkynnt að ég fengi þessar hundrað evrur. Mér er skapi næst að skipta um banka en gallinn er að ég nenni því varla af því að slíkt er svo mikið vesen.

Sunday, October 28, 2007

Frettir

Nokkuð er liðið frá síðustu færslu - það er sennilega til marks um að lífið sé farið að falla í ljúfa löð. Vinnudagurinn hjá mér er frá 8:30 til um 18 til 18:30. Ég hef verið á kvöldkúrsi í hollensku tvisvar í viku en mér finnst ég ekki hafa náð að sinna því nógu vel. Á næstu dögum er svo hollenskupróf sem ég þarf að læra fyrir í dag. Stundum er ég býsna þreyttur á þessu tungumáli, ekki síst í gær en þá var fræðsludagur fyrir unglækna í meinafræði. Ég tók lest til Den Haag í gærmorgun þar sem réttarlæknisfræði í Hollandi var kynnt. Þegar klukkan var orðin fimm var ég gjörsamlega búinn að fá nóg og hugsaði með mér þegar fólk talaði "haltu kj...". Ég skildi auðvitað ekki allt sem fór fram og var orðinn mjög óþreyjufullur að komast út og tala íslensku eða ensku. Fékk far heim en varð ekki að ósk minni og þurfti að tala hollensku þá leiðina því að bílstjórinn kunni svo lítið í ensku.

Í gærkvöldi fórum við í afmælisveislu til stelpu sem heitir Ozden og var með mér á hollenskunámskeiðinu, þar hitti ég bekkjarfélagana frá dagkúrsinum í september sem var skemmtilegt. Á föstudagskvöldið var mikið um að vera tengt vinnunni. Einn meinafræðingurinn var að hætta störfum og þá var öllum meinafræðingum, unglæknum og mökum boðið í þriggja rétta mat og vin á skemmtilegum veitingastað á Museumplein, staðurinn var tekinn frá fyrir allan mannskarann. Þetta var skemmtilegt. Ég var boðinn velkominn og Ásgeir kynntur líka. Annars var þetta svolítið spes. Það er hollensk venja að vera með atriði á hvers kyns skemmtunum. Unglæknarnir tóku sig til og sungu lag með breyttum texta og tveir sérfræðinganna gerðu stutt leikrit sem þar sem valdir kaflar úr lífi þess sem var að hætta voru leiknir. Þetta var skemmtilegt kvöld - og loksins fékk Ásgeir að sjá fólkið sem ég hef verið að tala um þegar ég kem heim. Það var raunar í líka ástæða fyrir Ásgeir að fagna á föstudaginn því að þá lauk óvinsælu námskeiði í skólanum hans.

Smásjáin mín, þessi lélega, fór í viðgerð um daginn og kom betri til baka. Ég ætla samt að garfa í því að fá eitthvað betra vinnutæki. Ég er enn eingöngu að smásjárskoða og er farinn að geta dikterað hraðar en þetta er þó enn frekar stirt og ég rekst á marga veggi í tali. Hef lært mikið í meinafræði síðastliðinn mánuð og séð ýmislegt áhugavert.

Við Ásgeir erum byrjaðir að fara í líkamsrækt. Við förum tvisvar í viku, fórum t.d. í morgun. Erum með einfalt æfingaplan sem við ætlum að fylgja næstu vikurnar. Stöðin þar sem við æfum er lítil og heimilisleg þar sem allir virðast þekkja alla. Svo er hún ódýr og fátt fólk æfir þarna sem okkur finnst ágætt. Við göngum óhindrað í öll tæki, sem eru reyndar aðeins gömul, en samt mestmegnis ágæt.

Bankamálin eru að gera mig brjálaðan. Ég opnaði bankareikning 28. september. Svo átti ég að fá sent debetkort nokkru dögum síðar en fékk ekki. Það leið og beið, ég hringdi og fór í bankann og fékk þau svör að þetta væri á leiðinni í póstinum. Svo kom loks í ljós að það var einhver bilun í kerfinu þannig að ég þurfti að sækja um nýtt kort sem ég fékk þremur vikum eftir að ég hafði opnað reikninginn. Fór svo í bankann til að opna kortið. Samt hefur mér ekki enn tekist að nota það og nú þarf ég enn einu sinni að fara í bankann út af þessu - garg. Þau áttu ekki til auðkennislykil síðast þegar ég kom í bankann þannig að ég hef ekki enn getað farið í netbankann. Þetta gerir mig brjálaðan. Nú þarf ég enn einu sinni að fá leyfi til að fara úr vinnunni til að fara í bankann. Svo get ég lítið gert í bankanum nema sýna vegabréfið mitt. $%"#$%

Hins vegar get ég gert grein fyrir þeim gleðifregnum að ég er kominn með lækningaleyfi hér í hollandi.

Við Ásgeir erum að prufa svolítið nýtt en óhuggulegt - að halda nákvæmt heimilisbókhald. Höfum ekki gert það hingað til en skráum nú allt, stórt sem smátt í skrá sem sýnir mánaðareyðsluna. ... Hingað til hef ég bara notað kreditkortið til þess að fylgjast með eyðslunni en hér nota ég meira seðla þannig að kreditkortayfirlitið dugði ekki lengur.

Við höfum það gott í litlu íbúðinni okkar hér á Van Nijenrodeweg. Íbúðin sem við leigjum hér (með húsgögnum í nýlendustíl, búddastyttum og öðru) hef reynst okkur vel. Þess má reyndar geta að eigandi íbúðarinnar er hávaxinn eins og margir hollendingar og þegar hann innréttaði eldhúsið gerði hann það í samræmi við hæð þannig að skáparnir eru hátt uppi og eldhúsborðið (sem er eiginlega eins konar barborð) er einnig alltof hátt miðað við stólana.

Það er orðið haustlegt um að litast og frekar kalt snemma á morgnana en ég get enn farið um á þunnu úlpunni minni. Þyrfti reyndar að fá mér vettlinga. Ásgeir er hins vegar betur klæddur.

Kveðja, Pétur.

Sunday, October 14, 2007

Einn i kotinu

Það mætti vera meira stuð á sunnudögum hjá mér. Svo er hins hins vegar ekki raunin og sunnudagar hafa verið útnefndir vinnudagar í ristilrannsókninni. Hef hangið inni í allan dag á meðan sólin skín úti. Get samt verið sáttur við að vera búinn að koma ýmsu í verk í dag. Framundan í dag eru þrif, smá hollenskunám og meiri vinna í ristilverkefni.

Í gærkvöldi leigði ég myndina Apocalypto. Það kom mér aðeins á óvart að talið í myndinni er á einhverju sérkennilegu tungumáli og aðeins var hægt að hafa hollenskan texta. Sem betur fer var myndin ekki flókin þannig að þetta hafðist en rýrði myndina kannski eitthvað. Það var áhugavert að sjá hvernig þeir gerðu sér menningu Maya í hugarlund. Samkvæmt þeirri mynd sem dregin er upp í myndinni var þetta frekar grimmt þjóðfélag.

Kvöldkúrsinn sem ég er á núna í hollensku er ágætur. Nemendahópurinn er misjafn en samanstendur m.a. af þýskum skiptinemum, Ítala, Kana, Frökkum, Breta, Marokkóbúa og Ísraela. Almennt séð kunna nemendurnir meira fyrir sér í tungumálinu en þeir sem ég var með á dagkúrsinum en það var kúrs fyrir algjöra byrjendur. Þó eru nemendurnir latir að læra og sumum fer nánast ekkert fram. Kennarinn er ágætur en mætti vera ágengari hvað varðar kröfur. Mér þótti væntingarnar vera meiri á dagkúrsinum. Það sem vefst helst fyrir mér núna (fyrir utan takmarkaðan orðaforða) er beyging sterkra sagna.

Nokkuð er liðið á haustið og aðeins farið að kólna. Hlýrri fatnaður er í kössum heima á Íslandi en þegar við flytjum í nýtt húsnæði eftir um einn og hálfan mánuð er tímabært að fá kassana til landsins. Ég hlakka til að komast í geisladiskana mína. Ég er með einn geisladisk hérna sem ég er búinn að hlusta á milljón sinnum. Reyndar er auðvitað eitthvað af tónlist í tölvunni og á netinu. Þá fáum við líka í hendurnar ýmsa aðra gagnlega hluti. Það er samt merkilegt hvað maður getur verið án margs. Við Ásgeir losuðum okkur við öll húsgögn og heimilistæki, settum alla hluti, bækur og annað í kassa og komum hingað eingöngu með ferðatöskur. Það var mikil vinna að fara í gegnum allt dótið í íbúðinni á Laugaveginum og ótrúlegt hverju við höfðum sankað að okkur á þeim þremur árum sem við bjuggum þar. Íbúðin var hálftóm er við fluttum inn en allt fullt af dóti er við fluttum út. Það er átak að fara í gegnum eigur sínar og flytja en sennilega holt að taka til, velja og hafna og einfalda hlutina.
Kveðja, Pétur.

Friday, October 12, 2007

Pönnsur a föstudagskvöldi

Nú er annarri vinnuviku lokið hjá mér og Ásgeir er kominn í vikulangt haustfrí. Við ætlum að vera heima í kvöld, höfum kveikt á hollenska Idolinu og Ásgeir er að búa til pönnukökur. Ekki höfum við farið varhluta af sviptingum í pólitík heima, fylgjumst með á mbl og ruv.

Þessa vikuna hef ég haldið áfram að skoða húðsýni. Hollenskunni hefuar farið fram, ég tala hraðar og skil meira en vildi gjarnan kunna meira. Mönnum þykir ég hafa lært tungumálið hratt og stundum virðast menn halda að ég skilji meira en raun ber vitni. Þannig var ég t.d. að spjalla við tvo sérfræðinga í dag og eftir að annar sagði að sér þætti ég hafa lært tungumálið hratt þá héldu umræður áfram og ég skildi ekki hvað fór fram - þótti það óþægilegt að geta ekki staðið undir væntingunum.

Inni á vinnuherbergi unglækna er lítill ísskápur. Ég gerði ráð fyrir að menn geymdu nesti í ísskápnum og varð því hissa um daginn þegar ég opnaði hann og sá fullt af léttvíni. Áttaði mig svo aðeins betur á þessu í dag þegar einn prófessorinn kom og opnaði hvítvínsflösku um fimmleitið. Ég spurði hvert tilefnið væri en að reyndist ekki vera neitt sérstakt, bara föstudagur.

Það er að frétta af lækningaleyfi mínu hér í Hollandi að málið er næstum því í höfn. Þeim tókst loksins að samþykkja gögnin sem ég sendi en nú er vandinn sá að stafsetningin á eftirnafninu mínu er með ae hjá RIBIZ (sem sér um skráninguna á lækningaleyfi) en með æ hjá hollensku þjóðskránni. Vona að þetta tefji málið ekki miklu frekar. Hlutirnir taka sem sagt stundum langan tíma hér. Annað dæmi er að ég opnaði bankareikning 28. september (þegar ég var loks kominn með hollenska kennitölu) en er ekki enn kominn með debetkort sem er nauðsynlegt til að fúnkera hér í landi. Einnig hefur þeim í bankanum reynst erfitt að útvega mér IBAN og swift-númer svo að ég geti millifært frá Íslandi. Mér er sagt að ég megi ekki láta þetta ergja mig, svona sé þetta bara. Mér hefur tekist að láta þetta ekki á mig fá en út af þessu hef ég síðastliðnar tvær vikur raunar unnið ólöglega á spítalanum.

Ég er ánægður með að við skyldum um daginn ljúka húsnæðismálum. Ég hef nefnilega fylgst áfram lauslega með markaðnum og ástandið er ekkert betra nú en fyrir 2-3 vikum. Reyndar vænti ég þess að meira úrval verði af íbúðum í nóvember því að sennilega er mest eftirspurn í ágúst-september þegar allir stúdentarnir flykkjast til borgarinnar.

Ásgeir ætlar að skreppa í nokkurra daga ferð til London á morgun. Þar ætlar hann að hitta Vigni vin sinn. Undanfarið hefur Ásgeir verið á kúrs í skólanum sem fyrrverandi skólastýra leiðir. Til eru ýmsar líkamlegar nálganir í nálganir í dansinum en nálgunin í þessum kúrsi er af óhefðbundnu tagi. Svo vill samt til að nálgunin tengist minni vinnu því að þau hreyfa sig út frá líffærum. Kennarinn er algjör hippi og sýrutýpa og flaggar nýaldarbók frá áttunda áratugnum um það hvernig hin og þessi líffæri og líkamsvökvar tengjast tilfinningum og hreyfingum. Sem dæmi má nefna sogæðakerfið sem er ákveðið, hikar ekki, það er samhverft, kallar á ákveðnar hreyfingar, oft í varnarstöðu líkt og í austurlenskum bardagalistum. Lifrin er sterk, jarðbundin og tengir efri og neðri líkama. Liðvökvinn er hins vegar léttur, barnalegur og ósamhverfur. Þessi nálgun hefur ekki höfðað til Ásgeirs en mig hefur stundum langað til að vera fluga á vegg í þessum tímum.

Ásgeir lauk hollenskunámskeiði í gær. Hann hélt átta mínútna fyrirlestur um hitt og þetta. Kennarinn hrósaði sérstaklega, ekki síst með tilliti til þess að hann missti af fyrstu viku skólaársins þar sem aðeins hollenska var á námsskránni. Hollenskunámskeiðinu lýkur eftir 3 vikur hjá mér. Svo þarf ég að gera upp við mig hvort ég fer á framhaldsnámskeið. Ég ætla að ákveða það síðar.

Kveðja, Pétur.

Saturday, October 6, 2007

Komin helgi

Nú er laugardagskvöld og við Ásgeir ætlum að skreppa út rétt bráðum. Ég fór í klippingu í dag, var kominn með svepp á höfuðið. Klippingin kostaði 17 evrur. Auk þess keyptum við í matinn og gerðum að hjólunum okkar. Ásgeir úðaði sitt svart. Síðan skrapp ég í vinnuna og las um húðsjúkdóma og vann í lýsingum á hollensku, en slíkt er býsna tímafrekt til að byrja með.

Ásgeir er kominn í matarklúbb í skólanum. Þau eru fimm sem skiptast á að elda fyrir hádegismatinn. Ásgeir á að elda fyrir mánudaginn. Þetta er mjög gott fyrir budduna. Þar sem ein stelpan í hópnum er grænmetisæta er maturinn á þeim nótunum. Ásgeir fær viku haustfrí mjög bráðlega og skreppur þá til London og hittir þar Vigni, vin sinn.

Eftir að Macintosh-fartölva var keypt á heimilið erum við farnir að nota iChat til að hafa samskipti við þá sem eiga makka. Töluðum við mömmu Ásgeirs lengi vel í dag og systur Ásgeirs og pabba. Það er mjög gaman að geta séð þá sem maður talar við. Fyrr í vikunni töluðum við við Árna og Steinunni. Allir sem eiga makka mega gjarnan láta okkur vita. Notendanafnið okkar er petursn@mac.com. Að öðru leyti höfum við notað Skype, þar er notendanafnið snaebjornsson.

Hingað til hefur yfirleitt verið skýjað hér í Amsturdammi og hangið í rigningu. Þó er enn þá grasið grænt og grænt lauf er á trjánum, starfsmenn bæjarins þurfa að slá grasið þó að komið sé fram á haust. Í dag var mjög gott veður. Sólin skein skært og það var bara sæmilega hlýtt. Við höfum verið heppnir að því leyti að veðrið um helgar er yfirleitt mun betra en í miðri viku. Við höfum þá verið duglegir að fara í hjólatúra um hverfið og drekka í okkur d-vítamínið frá sólinni. Það misfórst að taka með lýsi hingað til Niðurlanda en allt stendur það til bóta.

Píanóið sem var á Laugaveginum var selt í vikunni. Til stendur að kaupa nýtt píanó fyrir peninginn. Reyndar geri ég ekki ráð fyrir vera með píanó í leiguhúsnæðinu sem við flytjum í næst því að þar búum við aðeins til skamms tíma og býsna vont er að koma píanói inn um glugga á þriðju hæð, hvað þá flygli ef af verður.
Kær kveðja, Pétur og Ásgeir.

Thursday, October 4, 2007

Vinna

Þessa vikuna hef ég bara skoðað húðsýni. Er núna kominn upp í um 25 tilfelli á dag. Þau tala mestmegnis hollensku við mig og þetta gengur bara ágætlega. Sum hollensk orð eru skrýtin, af hverju heitir t.d. bólga "ontsteking"?
Það vinna um 15 unglæknar hér í meinafræðinni. Sumir þeirra eru reyndar í rannsóknavinnu núna og alltaf er einhver að vinna á litla spítalanum sem er tengdur háskólaspítalanum. Aðstaðan er misgóð, svokallað úrskurðarherbergi er lítið og þröngt og angar af formalíni. Hins vegar er góð aðstaða til að taka myndir af sýnum og krufningaaðstaðan er einnig mjög góð. Ég sit í herbergi með fjórum unglæknum. Hef þar skrifborð sem myndar U og hillur á vegg við hliðina. Fyrir framan mig er stór gluggi.
Á spítalanum er eins konar stéttaskipting. Til öryggis þéra ég alla sérfræðinga og ef þeir biðja mig ekki um að þúa sig held ég því áfram. Helst vilja þeir yngri vera þúaðir. Reglulega eru alls kyns fundir þar sem meinafræðingar, klínískir læknar og röntgenlæknar hittast og fjallað er um valin tilfelli. Í gær fór ég á fund á skurðdeildinni. Ég settist bara einhvers staðar en var þá vinsamlegast beðinn um að setjast aftar. Ég hafði sest þar sem sérfræðingarnir sitja vanalega, úps!
Hringdi í dag í RIBIZ til að athuga hvernig gengi með að fá lækningaleyfið skráð. Vildi tala á ensku af því að mér fannst þetta mikilvægt en konan harðneitaði þannig að samtalið fór fram á hollensku. Gekk reyndar ágæglega en var hissa af því að Hollendingar eru svo duglegir að tala ensku. Svarið sem ég fékk var að nú væru öll gögn komin og ég fengi bréf í næstu viku um hvort þetta væri í lagi eða hvort ég þyrfti að senda fleiri gögn eða útskýra eitthvað frekar. Nú er þetta ferli búið að taka um þrjá og hálfan mánuð. Vona að þau vilji ekki neitt meira.
Kveðja, Pétur.

Tuesday, October 2, 2007

Vinnan byrjuð

Í gær var fyrsti vinnudagurinn. Hér í meinafræðinni mætir fólk milli klukkan átta og hálf níu en þá er stuttur morgunfundur. Í gær fór reyndar allur dagurinn í langa kynningu fyrir nýja starfsmenn á spítalanum. Það er greinilegt að 1. október er allsherjar byrjunardagur því að á kynninguna komu um 60 manns, hjúkrunarfræðingar, meinatæknar, læknar og alls konar annað starfsfólk. Þetta byrjaði auðvitað á því að allir fengu möppu, svo talaði einhver yfirmaður um hvað spítalinn stæði sig vel í samkeppni við hina háskólaspítalana í Hollandi. Því næst horfðum við á stutta mynd um starfsemi spítalans sem hét VUmc frá morgni til kvölds, eiginlega tilgangslaus mynd. Svo var okkur skipt í hópa og hver hópur dreginn um spítalann sem er stærri en ég hélt. Þar er meira að segja lítil ferðaskrifstofa fyrir starsmenn. Í mötuneyti starfsmanna er mjög huggulegt, arinn og notalegheit. Auðvitað er meinafræðin í elsta hluta spítalans. Í hádeginu fengum við mat en á meðan var rannsóknasviðið kynnt fyrir mínum hópi. Ég skildi ekkert af því sem maðurinn sagði. Svo var kynning fyrir lækna á siðfræði og tilkynningaskyldu vegna mistaka og ferlum í tengslum við kærur. Í tölvutíma var nýjum læknum kennt á forrit sem heldur utan um sjúkrasögu, rannsóknaniðurstöður af öllu tagi og lyf - virtist mjög sniðugt. Mér gramdist að sjá að mér hafði hlotnast býsna gömul og aðeins gölluð smásjá til vinnunnar. Ég get reyndar notað hana en ætla að vita hvað ég get gert í þessu. Svo byrjaði vinnan í morgun. Þetta byrjar rólega. Ég fékk um tólf smásjárgler með ýmsum húðtilfellum og kláraði þau með sérfræðingi á deildinni. Ég fékk nógan tíma til að lesa í kringum tilfellin sem var mjög fínt. Dikteraði á hollensku - gekk vel en þetta var stutt og laggott. Tilfelli dagsins voru m.a. (bara fyrir áhugasama): keratosis seborrhoica, keratosis actinica, verruca vulgaris, condyloma acuminata, lentigo simplex, carcinoma basocellulare og carcinoma squamosum. Allnokkuð er af krufningum hér á spítalanum. Dagurinn byrjaði með krufningafundi í meinafræðinni þar sem áhugaverð líffæri frá síðastliðinni viku voru skoðuð. Svo lauk deginum á dánarmeinafundi á skurðdeildinni.
Á morgun göngum við frá leigusamningi fyrir húsnæðið þar sem við verðum frá og með fyrsta september. Meira um þá íbúð síðar.
Kveðja, Pétur.

Saturday, September 29, 2007

E.t.v. komnir með húsnæði

Síðastliðna viku höfum skoðað fimm íbúðir vítt og breitt um borgina. Þær hafa verið misjafnar að gæðum og misvel staðsettar, allar 50-65 fermetrar og leiguverð á bilinu 875-1200 evrur. Að mörgu er að huga, t.d. því að ýmist eru margs kyns þjónustugjöld innifalin eða ekki, t.d. rafmagn, hiti, gas, sorpgjald, holræsagjald, húsnæðisskattur, vatnsskattur og sameign. Við höfum komist að því að Hollendingum finnst ekki nauðsynlegt að eiga frysti, þeir fara bara oftar út í búð. Okkur ísátvöglunum finnst þetta skrýtið. Sömuleiðis eru eldhús oft án venjulegs ofns en í stað þess er örbylgjuofn sem unnt er að nota sem ofn. Stigahús í eldri hverfum borgarinnar eru þröng og brött og til að koma húsgögnum inn þarf oft að hífa þau upp með kaðli og flytja inn um glugga að framan. Í tengslum við það má oft sjá bita efst á gafli húsa með króki. Salernisaðstaða er oft þannig að klósettið er í sér herbergi og sturta í öðru. Stundum er ekki vaskur í herberginu þar sem klósettið er.
Leigumarkaðurinn hér er tvöfaldur; annars vegar er leigumarkaðsverðið sem ræðst af framboði og eftirspurn og hins vegar hafa sveitarfélögin á sínum vegum húsnæðisnefndir sem unnt er að kalla til ef manni finnst leiguverð of hátt og hafa þær heimilid til að lækka leiguverðið. Réttur leigjenda hér er sterkur en leigusalar hafa ráð undir rifi hverju. Yfirleitt er gert ráð fyrir í leigusamningum að maður fari út eftir sex eða tólf mánuði þannig að ef maður klagar þá verður samningurinn ekki framlengdur. Leigusalar vilja frekar útlendinga því að ólíklegra er að þeir verði með vesen (af því að þeir þekkja ekki reglurnar) og yfirleitt staldra þeir ekki mjög lengi við. Hér er vaninn að menn borgi tryggingu (oft eins til sex mánaða leiga) og stundum er það gert samhli­ða því sem skrifað er undir samning. Síðustu dagar hafa snúist mikið um húsnæðisleit og stundum eru margir um hituna. T.d. komu tíu manns að skoða eina íbúðina á fimmtudag. Okkur býðst nú að leigja íbúð frekar miðsvæðis sem hentar okkur að mörgu leyti. Við erum að spá í að skella okkur á hana. ... Framhald fljótlega þar að lútandi.

Í dag keyptum við Apple-fartölvu fyrir heimilið. Það rigndi svo mikið á leiðinni niður í bæ að við lögðum hjólunum og héltum áfram með sporvagninum. Hittum á heimleið fyrir tilviljun Eyva og settumst inn á kaffihús. Í kvöld ætlum við að slaka á heima. Hollenskunámið hefur gengið vel og á mánudag byrjar vinnan. Ég er spenntur að sjá hvernig verður.

Kveðja, Pétur.

Wednesday, September 26, 2007

Húsnæðisleit og skráning

Húsnæðisleitin heldur áfram. Í morgun fór ég að skoða íbúð sem er miðsvæðis milli spítalans og miðbæjarins. Þýsk hjón sem leigja íbúðina en eru að flytja í stærri íbúð á hæðinni fyrir ofan sáu auglýsingu frá okkur Ásgeiri og vildu endilega benda okkur á að íbúðin þeirra væri að losna. Hún var bara ágæt, aðalkosturinn er að hún er frekar ódýr. Fyrirhugað er að skoða fleiri íbúðir á næstu dögum. Þessi húsnæðisleit gengur betur en ég bjóst við.

Fékk loks í dag hina langþráðu kennitölu. Nú er loks hægt að ganga frá ráðningasamningnum og nú ætti ég að geta opnað bankareikning. Svo fékk ég loksins tíma hjá útlendingaeftirlitinu. Þangað fer ég eftir tvær vikur og fæ stimpil í vegabréfið. Áður en ég kom til Hollands fór mikill tími hjá mér í að átta mig á hvaða skjöl og vottorð ég þyrfti að hafa meðferðis og í hvaða röð maður ætti að gera hlutina. Til að einfalda fyrir öðrum unglæknum málið er ég að taka saman smá leiðbeiningar jafnóðum sem verða settar inn á heimasíðu Læknafélagsins undir "Holland".

Ég bíð spenntur eftir að heyra frá RIBIZ sem hefur verið tregt til að veita mér lækningaleyfi. Sendi þýðingu á lækningaleyfinu á mánudaginn og vona að það verði ekki meira vesen.

Bekkjarfélagar Ásgeirs komu í heimsókn á sunnudaginn og fengu pönnukökur. Sum þeirra voru hústökufólk þar til þeim var hent út nýlega. Þau voru agndofa yfir litlu íbúðinni okkar á Van Nijenrodeweg. Við erum reyndar mjög ánægðir þar en gott verður að komast í varanlegra húsnæði og fá kassana senda frá Íslandi. Hér rignir nokkuð og m.a. voru regnföt skilin eftir á Íslandi í kössum.

Sit nú í tölvustofu háskólans og er að fara læra. Fékk mér áðan að borða í mötuneyti skólans sem er bæði ódýrt, gott og með mikið úrval. Það er meira að segja hægt að fá sér borðvín með matnum ef maður vill.

Groetjes, Pétur.

Sunday, September 23, 2007

Góðverk, húsnæðisleit, hollenskunám og útstáelsi

Félagslífið hefur verið í miklum blóma þessa helgina. Á föstudagskvöldið fórum við til Kellýar, bandarískrar konu úr bekknum mínum, og skosks manns hennar. Þau búa í De Pijp sem er skemmtilegt hverfi sem okkur Ásgeir langar til að búa í. Í gærkvöldi fórum við að sjá listdans ásamt bekkjarfélögum Ásgeirs. Það var sýning sem var eins konar ádeila á fátækt í Suður-Ameríku og firringu þar að lútandi. Loks koma bekkjarfélagar Ásgeirs hingað í dag í pönnukökur. Þess má reyndar geta að hústökufólkið hefur verið rekið út, er nú heimilislaust og býr inni á vinum og kunningjum.
Á heimleið úr partíinu hennar Kellýar sáum við gamla konu á gangi í myrkrinu. Hún gekk hægum og stuttum skrefum og virtist ekki eiga að vera þarna, illa klædd og klukkan að ganga þrjú um nótt. Við stoppuðum og snerum við. Konan var á inniskóm í þunnum bleikum bómullarfötum. Í ljós kom að hún hét Hettý, var fædd 1915 og hún rataði ekki heim til sín. Hún hélt á handtösku í annarri hendinni og lyklakyppu í hinni. Hún vissi ekki hvað gatan sín hét og sagðist ýmist hafa búið hér í 3 mánuði eða þrjú ár. Hún virtist frekar skýr, gat haldið uppi samræðum en var orðin aðeins gleymin. Við hringdum í lögregluna sem kom fljótlega. Þá kom í ljós að hún bjó rétt hjá og lögreglan fylgdi henni heim.
Hollenskunámið gengur vel. Í partíinu hennar Kellýar tókst mér að tala býsna lengi um húsnæðismál á hollensku við þolinmóða Hollendinga sem voru hjálpsamir. Nýjasta nýtt í hollenskutímunum er að láta okkur syngja hollensk lög. Ásgeir var látinn syngja þetta en ég var látinn syngja þetta. Hvort finnst ykkur skemmtilegra?
Loks fórum við að skoða íbúðina í gær. Það kom okkur á óvart að ólíkt myndunum var fremur óhreint og subbulegt umhorfs. Við ætlum að hugsa málið, okkur finnst íbúðin heldur í dýrari kantinum miðað við sumt annað. Raunar er erfitt að ákveða eitthvað svona m.t.t. þess að við höfum ekki skoðað aðrar íbúðir og vantar því samanburð.
Karlarnir sem komu og hreinsuðu niðurfallið virtust ekki sérlega áreiðanlegir á að líta. Þeir buðu mér annaðhvort að borga 170 evrur og fá nótu eða borga 90 evrur svart. Eftir að þeir höfðu lokið verkinu og allt virtist í lagi tók ég seinni kostinn. Þeir hefðu getað sagt mér að setja dagblöð á gólfið en gerðu ekki þannig að hér var býsna óhreint þegar dökkar eðjuslettur fóru í allar áttir. Var ég nokkurn tíma að þrífa eftir þá, þurfti m.a. að nota brennsluspritt til þess.
Og já, hollenska skyrið Kwark uppfyllir kröfur mínar og ætti að geta komið í stað súrmjólkurinnar sem ég hef fram að þessu borðað.
Kveðja, Pétur.

Friday, September 21, 2007

Allt að gerast

Það er okkur sönn ánægja að greina frá því að eldhúsvaskurinn er kominn í lag. Húrra húrra! Rétt eftir hádegi í dag komu hingað menn frá stífluþjónustunni með rosalegar græjur og þeyttu upp allri drullunni í rörunum. Reyndar svo rækilega að Pétur var heillengi að þrífa eldhúsið eftir þá. Þrátt fyrir subbuskapinn erum við mjög sáttir við að geta loksins notað eldhúsvaskinn.

Á leiðinni heim úr skólanum í dag fór ég í verslunarmiðstöðina til að kaupa í matinn. Sem er ekki frásögufærandi nema fyrir þær sakir að hjá mjólkurvörunum fann ég það sem Hollendingar kalla KWARK. Kwark er hreint þykkt jógúrt, próteinríkt og með lágri fituprósentu (0.1). Sum sé ekki svo ósvipað íslenska skyrinu að því leiti. Áður en ég lýsi því yfir að ég hafi fundið hollensku hliðstæðu skyrs ætla ég að láta skyrsérfræðinginn á heimilinu smakka. Hann er núna í skólanum og því bíð ég spenntur eftir því að hann komi heim. Ég vona að honum líki vel við kwark því hann hefur saknað skyrsins svo mikið.

Fylgist með í næsta bloggi....

kv. Ásgeir

Thursday, September 20, 2007

Frétt á mbl.is um breytingar í Amsterdam

þessa frétt áðan um Amsterdam.

Annars má nefna að sums staðar þar sem maður fer um borgina má finna hasslykt. Fólk á gangi með jónur í munnvikunum og þokukennt til augnanna.

Á morgun er partý hjá bandarísku bekkjarsystur Péturs úr hollenskunáminu. Af hollenskunni er hins vegar allt gott að frétta. Við erum farnir að geta myndað nokkuð flóknar setningar og kunnum alla litina. Þetta er allt að koma, sannið þið til. Um jólin verðum við sjálfsagt altalandi á nederlands.

Framfarir í húsnæðismálum!
Á laugardaginn erum við búnir að mæla okkur mót við mann sem vill leigja út íbúðina sína frá 1. janúar n.k. Þessi íbúð er í fínu hverfi og lítur ágætlega út. Þið getið kíkt á hana hérna og sagt okkur hvað ykkur finnst. Hún er í dýrari kantinum en þó mubleruð.

Í dag lauk fyrsta námskeiðinu í danssmíðum. Mér finnst ég hafa lært heilmikið á mjög stuttum tíma. Fyrir þá sem ekki vita þá er ég skiptinemi í Listaháskólanum í Amsterdam á danssmíðabraut. Á þessu fyrsta námskeiði var lögð mikil áhersla á að framleiða sem mest efni á sem minnstum tíma. Þar af leiðandi gafst manni ekki tími til þess að vera of gagnrýninn í sjálfu sköpunarferlinu. Þetta var mjög fínt fyrir mig því oft hættir mér til að festast í einhverjum óþarfa efasemdum og það hægir svo á ferlinu hjá mér. Þegar maður leyfir sér að skapa það sem hendi er næst getur maður oft fengið út stórmerkilega hluti. Sumt fínt og sumt slakt. En efnið er þó til staðar og hægt er að byrja að vinna úr því.

Klukkan er orðin margt og við strákarnir þurfum að vakna snemma í fyrramálið til þess að fara í skólann.

Tot ziens,
Ásgeir

ps. vaskurinn er ennþá stíflaður

Aukinn lærdómur, leit að húsnæði

Hingað til hef ég verið í hollensku fjórum sinnum í viku frá 9-13. Þar sem ég byrja bráðum að vinna flyst ég um mánaðamótin yfir á kvöldkúrs - en þar sem þau á kvöldkúrsinum eru komin lengra en minn hópur byrja ég í kvöldkúrsinum í kvöld samhliða dagkúrsinum til að gera skiptin léttari. Þar af leiðandi verður nóg að gera. Fékk í gær einnig í hendurnar meinafræðibók á hollensku sem mér var ráðlagt að lesa til að læra meinafræðihollensku og sömuleiðis ýmsar skýrslur.
Þessa dagana skoðum við Ásgeir auglýsingar með leiguhúsnæði daglega. Það tekur sinn tíma. Erum búnir að skipta liði og skoðum hvor sínar síðurnar á netinu. Þessi vinna tekur samtals um 1-2 klst. daglega. Auk þess erum við með alla anga úti í skólanum. Úrval af íbúðum virðist þokkalegt, a.m.k. ekki slæmt, en það sem við finnum er allajafna í dýrara lagi. Ekkert hefur komið í leitirnar sem telst bæði á góðu verði og vel staðsett. Okkur langar til að búa á milli miðbæjarins og spítalans þar sem ég kem til með að vinna. Þannig verður passlega langt í báðar áttir. Það er algengt að íbúðir séu leigðar út með helstu heimilistækjum og húsgögnum en slíkt húsnæði gæti komið sér vel ef við viljum spara okkur þann tíma, kostnað og fyrirhöfn sem það kostar að koma slíku í kring. Það gæti verið hentugt núna fyrst um sinn á meðan við erum að koma okkur fyrir í vinnu, læra tungumálið og þess háttar. En aftur á móti er kannski heimilislegra að kaupa sínar eigin mublur. Húsnæði nær miðbænum er yfirleitt minna en húnæði fjær. Jæja, þarf að fara læra.
Kveðja, Pétur.

Monday, September 17, 2007

Mánudagur

Þegar við komum í skólann í morgun var sú múslimska hvergi sjáanleg - hún hefur ekki fengið að vera áfram. Í staðinn er hins vegar komin japönsk stelpa sem virðist kunna eitthvað í hollensku. Múslimarnir í bekknum fasta þessa dagana því að Ramadan, mánaðarlangt tímabil var að byrja. Reyndar fylgja þeir þessu misvel - sumir ekki en einn borðar aðeins einu sinni á dag. Skrapp eftir skóla í dag á dæmigerðan fund í meinafræðinni. Þessir fundir eru yfirleitt í hádeginu eða milli fjögur og fimm en þá hittast klínískir læknar og meinafræðingar og farið er yfir innsend sýni. Ég fór á meltingarfundinn. Ég mætti til þess að læra eitthvað í læknisfræðihollensku. Þó að læknisfræðin hér sem annars staðar sé full af slettum úr latínu skildi ég kannski um 20-30% af því sem var sagt. Þó að hollenskunámskeiðið gangi vel er ég samt orðinn spenntur fyrir því að byrja að vinna.
Það var hálfglatað þegar ég keypti mér kaffibolla í dag á hollensku (að ég hélt) og sagði: "Een kopje Koffie, alstublieft." Og hollenska stelpan svaraði á ensku: "One cup of coffee?"
Í kvöld elduðum við Ásgeir góðan indverskan mat. Nú erum við búnir að vera hér saman í um tvær vikur og það var kominn tími á að ég stæði við þær fyrirætlanir mínar að elda nýjan rétt á tveggja vikna fresti. Þetta reyndist góður matur - Satay-súpa nánar tiltekið. Því miður er niðurfallið enn stíflað. Hef ekkert heyrt í eigandanum sem er á bakpokaferðalagi í Tælandi.
Fórum m.a. í hjólatúr í gær í Amsterdamse Bos en það er stór skógur í nágrenni við heimili okkar. Það var mjög notalegt. Þegar ekki rignir og sólin skín er hið ágætasta veður. Borðuðum er heim var komið pönnukökur.
Kveðja, Pétur.

Saturday, September 15, 2007

Nemendur reknir úr bekknum o. fl.

Þegar við mættum í skólann í gær var okkur tilkynnt að tveir nemendur hefðu verið látnir fara eftir prófið; annars vegar múslimakona með slæðu frá Marokkó og hins vegar strákur frá sama landi. Konan talaði enga ensku og virtist ekki fylgja öðrum í bekknum eftir. Gert var ráð fyrir að þau færu á hægara námskeið. Hálftíma eftir að kennslan byrjaði var bankað upp á og inn kom æstur hollenskumælandi maður með konuna í eftirdragi, sennilega bróðir hennar eða eiginmaður. Upphófst þras sem endaði með því að kennarinn fór út og loks fékk konan að setjast inn og vera með okkur. Í lok dagsins kom yfirmanneskja deildarinnar og sótti þá marokkósku í viðtal. Hver veit hvort hún verður með okkur eftir helgi.
Framhaldssagan: Niðurfallið er enn stíflað en stíflueyðirinn hjálpaði aðeins. Nú er eldhúsvaskurinn nothæfur en rennslið þó býsna lélegt. Næsta skref er að fá stíflulosunarþjónustu ef leigusalinn samþykkir það.
Í gær fórum við Ásgeir í matarboð til Frakka sem er deildarlæknir í meinafræðinni. Þar var par frá Bandaríkjunum, ein frá Marokkó og par frá Frakklandi. Frakkinn er með kínverskri konu. Þau búa í draumaíbúð í draumahverfi, íbúð sem þau keyptu í vor og gerðu upp. Við fengum ostarétt úr frönsku Ölpunum sem var mjög góður. Þetta var mjög skemmtilegt kvöld. Indónesinn í hollenskubekknum býður okkur Ásgeiri í mat í kvöld. Það er sem sagt nóg að gera í félagslífinu.
Kveðja, Pétur.

Thursday, September 13, 2007

Stíflað niðurfall

Þó að íbúðin okkar Ásgeirs sé fín þá er tvennt í ólagi; annars vegar einangrunin í sturtunni og hins vegar niðurfallið í eldhúsinu. Rennslið gegnum niðurfallið var lélegt og fór versnandi þannig að vaskurinn fylltist af vatni við uppvaskið. Í gær fór ég því á netið og fann leiðbeiningar til að losa um stíflur í niðurföllum. Byrjaði á því að beita drullusokki en þá stíflaðist vaskurinn hér um bil alveg og síðan hefur aðeins seitlað mjög hægt niður. Stíflueyðir sem ég fann hér í skápnum gerði ekkert gagn. Nú voru góð ráð dýr. Eftir að hafa ráðfært mig við ýmsa og heyrt drama- og hryllingssögur af loddurum sem bjóða upp á stíflulosunarþjónustu og stíflulosunarblöndum sem stífla niðurföll fór ég að ráði eins ritarans á spítalanum og keypti sérstakan stíflueyði fyrir eldhúsvaska sem gerður er úr ensímum sem éta fitu og annan mat. Þurfti í dag að hjóla út í næsta bæjarfélag til að nálgast þessa vöru og var í þann mund að hella þessu í niðurfallið. Nú er bara að bíða og vona. Framhald síðar.
Annars gekk hollenskuprófið vel en sumir nemendur voru teknir á eintal eftir prófið sem var á tölvu. Kaflarnir í bókinni eru verkefnismiðaðir; nú lærum við að tjá okkur um húsnæði, húsgögn og flutninga. Ég þóttist góður að geta spurt til vegar og keypt stíflueyðinn, allt á hollensku. Hér er ég ávarpaður af ókunnugum sem "meneer" sem þýðir herra og ókunnuga þarf yfirleitt að þéra. Á spítalanum þérar maður þá sem eru hærra settir en hollenskukennararnir tveir vilja ekki vera þéraðir. Nú er ég farinn að kynnast betur samnemendum mínum sem er allt hið ágætasta fólk.
Pétur.

Wednesday, September 12, 2007

Skriffinska og próf

Á morgun er hollenskupróf - þá fáum við nemendurnir að vita hvort við megum halda áfram á kúrsinum. Ætti að vera að læra en varð að blása aðeins vegna skriffinskunnar við fá lækningaleyfið skráð. Þau vilja alls konar skjöl, upprunaleg og þýðingar, og nýjasta nýtt er að vilja fá lækningaleyfið mit frá 2005 þýtt í heild sinni á ensku - en athugið, neðst á skjalinu er nokkurn veginn sambærilegur enskur texti sem dugar ekki. Mér finnst þetta vera algjör óþarfi auk þess sem þau eru með nýlegt vottorð útgefið á ensku um að ég hafi fengið lækningaleyfi 2005. Þar að auki gerðu þau athugasemd við að upprunalega skjalið væri á þunnum og ótrúverðugum pappír. En jæja, þetta verður víst að hafa sinn gang. Ég verð þá að setja löggiltan þýðanda í málið.
Hér gengur annars allt sinn vanagang. Erum byrjaðir að skoða húsnæðisauglýsingar. Ekki er um auðugan garð að gresja en samt þó eitthvert úrval.
Skoðaði einnig tónleikadagskrána í Het Concertgebouw, aðaltónleikahúsinu hér í Amsturdammi. Þar er mjög mikið af áhugaverðum tónleikum og ég ætla að vera duglegri að fara á tónleika en heima á Íslandi.

Monday, September 10, 2007

Hollenska o. fl.

Hollenskunámið heldur áfram. Hafið þið tekið eftir þessu:

Dutch (á ensku) = hollenskur, hollenska.
Duits (á hollensku) = þýska.
Deutsch (á þýsku) = þýska; Deutschland (á þýsku) = Þýskaland.

Sem skýringu á þessu fann ég þennan texta á Wikipedia: "Frumgermanska orðið *theodisk („fólksins“ eða „tungumál fólksins“, andstætt opinberu eða vísindamáli, sem var latína, síðar franska) hefur í nútímaþýsku orðið að deutsch („þýskur“). Í hollensku hefur það þróast í tvö form: duits („þýskur“) og diets (þýddi u.þ.b. niðurlenskur/hollenskur, en er fallið úr almennri notkun). Enska orðið Dutch er af sama uppruna og merkti fyrst „þýskur“ (náði þá yfir öll málsvæði há- og lágþýskra mála, m.a. hollensku, s.s. allt Þýskaland, Holland, Belgíu, Austurríki, Sviss, o.s.frv.), en fór í byrjun 17. aldar að merkja einungis „hollenskur“ eða „hollenska“."
http://is.wikipedia.org/wiki/Hollenska

Annars er allt gott að frétta. Hér hefur verið skýjað og fremur hráslagalegt. Laufin eru lítillega byrjuð að gulna. Samt er ekki beinlínis orðið kalt og hægt að fara um á peysu. Keypti mér notað hjól í dag á 150 evrur og mjög massífan lás á 30 evrur. Hjólið er bara ágætt. Hér í grenndinni eru nokkrar líkamsræktarstöðvar en engin er jafngóð og Laugar, kemur svo sem ekki á óvart. Ætla í prufutíma á næstu dögum. Í stóru matvörubúðinni er enga kotasælu að finna, ótrúlegt en satt. Svo ætti að vera hægt að kaupa skyr hérna. Ég væri til í að fá mér skyr núna.

Sunday, September 9, 2007

Lengi á leiðinni heim

Við Ásgeir erum komnir með eitt hjól. Fórum í gær inn í miðbæ og borðudum á mjög skemmtilegum japönskum veitingastað þar sem maturinn var eldaður fyrir framan okkur – mikil skemmtun. Thað var orðið dimmt þegar við héldum heim. Annar okkar sat á böglabera en hinn hjólaði. Við vorum með kort og fórum til að byrja með rétta leið en beygðum á vitlausum stað og vorum komnir langt úr leið þegar við áttuðum okkur á því, stefndum á vafasamt hverfi. Urðum að hjóla til baka og vorum á endanum tvær klukkustundir að komast heim. Það er auðvelt að villast hér í borginni. Göturnar eru margar hverjar bogalaga, sem ruglar mann í ríminu þannig að það er auðveldlega hægt að fara óafvitandi í hring.

Í hollensku er sérstakur bókstafur, það er ypsilon með tveimur kommum. Þessi stafur er notaður í handskrift en ekki prentletri þar sem í staðinn er ritað “ij”. Þegar þessi bókstafur er í upphafi orða, t.d. í orðinu Ísland eru bæði i og j í prentletri hafðir stórir, t.d. IJsland. Spes!
Fyrir þá sem hafa gaman að tungumálum er hér leiðréttur stíll frá mér:

Ik heet Pétur en ik ben dertig jaar. Ik ben IJslander. Mijn achternaam is Snaebjörnsson. Mijn geboorteplaats is in Reykjavík en mijn geboortedatum is 26 mei negentienhonderdzevenenzeventig. Ik woon nu zes dagen in Amsterdam. Ik woon in de Van Nijenrodeweg 708. Mijn postcode is 1082 JD. Ik heb geen Amsterdams telefoonnummer. Ik ben arts-assistent in opleiding. Ik werk in het Vrije Universiteit Medisch Centrum, op de afdeling pathologie, vanaf 1 oktober, maar nu studeer ik Nederlands. Mijn man heet Ásgeir. Zijn achternam is Magnússon. Hij studeert dans aan de Amsterdamse Hogeschool voor de Kunsten. Hij is vijfentwintig jaar.

Hústökufólkið

Ég er í bekk með tíu manns. Fimm strákum og fimm stelpum. Þessir krakkar eru víðs vegar að úr heiminum. Tvær pólskar stelpur, ein austurrísk, ein sænsk og ein frá Curasao sem er hollensk nýlenda í Karabískahafinu. Tveir strákanna eru frá Ítalíu, einn Skoti, einn Frakki og einn brasilískur strákur. Það er erfitt að finna húsnæði í Amsterdam og fólk grípur oft til ýmissa úrræða. Fimm af þessum tíu krökkum sem ég er með í bekk búa saman í yfirgefinni tveggja herbergja íbúð. Þau höfðu leigt hana tímabundið þegar inntökuprófin stóðu yfir í vor en áður en þau skiluðu lyklunum létu þau skipta um skrá. Íbúðin stóð því tóm þangað til að þau komu aftur hingað núna í haust. Í Hollandi kveða lögin á um að ef húsnæði stendur autt lengur en í ár þá er hverjum sem er heimilt að taka það eignarnámi. En fram að þeim tíma búa þau réttlaus í íbúðinni. Íbúðin er víst ekkert í neitt sérstöku ásigkomulagi og núna á fimmtudaginn var farið að leka frá íbúðinni á hæðinni fyrir ofan, sem líka stendur tóm. Greyin eru í óþægilegri aðstöðu. Ekki geta þau farið til eiganda byggingarinnar og kvartað: “Já sæll. Við búum hérna fimm saman í íbúðinni þinni, þér óafvitandi. Ertu nokkuð til í að láta kíkja á lekann hjá okkur?”
Það eru nú fleiri skemmtilegar húsnæðissögur úr skólanum því Frakkinn í bekknum mínum býr í hjólhýsi sem ég held barasta að hann hafi komið með sjálfur frá Frakklandi.

Það verður spennandi að sjá hvernig okkur Pétri kemur til með að ganga í húsnæðisleitinni.

Kveðja Ásgeir

Friday, September 7, 2007

Helgin runnin upp

Já, nú er föstudagskvöld og við Ásgeir ætlum að fara í partí. Á hollenskunámskeiðinu er mjög fjölbreytilegur hópur fólks sem á lítið sameiginlegt. Það er hins vegar meira félagslíf í skólanum hans Ásgeirs og gegnum bekkjarfélaga hans höldum við nú í partí. Fékk mér símanúmer í gær en inneignin kláraðist strax og ekki er enn ljóst hvernig bæta má við hana. Elduðum indónesískan kvöldmat áðan og drukkum enn eitt kvöldið rauðvín með matnum. Ásgeir skrifaði langa færslu í gær á bloggið sem eyddist. Var ég búinn að segja frá því að við Ásgeir fórum í bíó um daginn? Sáum mjög skemmtilega mynd sem heitir Hairspray - mæli með henni eindregið!

Thursday, September 6, 2007

Fréttaskot

Skóli og skráning

Hollenskunámið sækist ágætlega. Gat keypt brauð í dag - á hollensku auðvitað. Á námskeiðinu er kumpánlegur stærðfræðingur frá Íran. Hann talar örlitla ensku og á í mestu vandræðum með hollenskuna. Segist kvíða strax fyrir prófinu eftir nokkrar vikur og er greinilega á eftir áætlun þrátt fyrir að læra fimm klst. á dag.
Fór eftir skóla á bæjarskrifstofuna til að skrá mig og fá kennitölu. Ég hafði pantað tíma daginn áður og mætti tímanlega. Þarna voru alls kyns útlendingar og um 20 afgreiðsluklefar. Skráningin gekk eins og í sögu en nú þarf ég næst að fá tíma hjá útlendingaeftirlitinu (til að fá einhvern stimpil) og skattinum (til að fá kennitöluna langþráðu).
Ritararnir á spítalanum eru duglegir að hræða mig hvað varðar húsnæðismál. Nú búum við Ásgeir í mjög fínni íbúð í nýlegu húsi utarlega í Amsterdam - en við missum hana eftir rúma þrjá mánuði. Hér virðast mestmegnis vera hollendingar en strax og komið er nær miðbænum verður umhverfið fjölþjóðlegra og byggð þéttari. Í samanburði við Kaupmannahöfn er byggðin þó á heildina litið gisnari og lágreistari. Tot ziens.

Wednesday, September 5, 2007

Ýmislegt á seiði

Á miðvikudögum eru engir fyrirlestrar í hollensku. Ég vaknaði samt snemma til að fara á fund með prófessornum í meinafræði kl. 8:30. Þegar ég kom á staðinn hafði fundinum verið frestað til kl. 14. Þá fór ég upp í Háskóla að læra. Stór partur af heimanáminu felst í því að gera verkefni á sérstöku tölvuprógrammi. Mér finnst hollenskunámið skemmtilegt. Sat við tölvuna í fram að hádegi en þá fór ég aftur á spítalann (sem er við hliðina á háskólanum) og fór á hádegisfund í meinafræðinni. Þar var til umræðu sýni úr blöðruhálskirtli. Ég skildi ekkert nema PIN, sem er ensk skammstöfun. Þetta var hálfgert muldur miðað við skýra hollensku í skólanum. Ég náði samt að sýna takmarkaða getu mína fyrir riturunum sem voru mjög ánægðar en gat síðan ekkert þegar ég reyndi að tala við prófessor Meier. Fór líka í hádegismat og reyndi að tala hollensku við einn meinafræðinginn. Fékk í dag kennsluprógramm fyrir næstu fimm ár (hmmm, lýkur 2012 - langt í burtu finnst manni).
Fór kl 16 inn í miðbæ að sjá skólann hans Ásgeirs og síðan fórum við að fá okkur hollensk símanúmer. Nýja númerið mitt er eftirfarandi: +31 6 30 24 7753. Númerið hans Ásgeirs er +31 6 30 24 3037. Sé hringt frá Hollandi kemur núll á undan sexunni. Reyndum líka að kaupa hjól. Komumst að því að ódýrustu hjólin fást hjá dópistum (sem hafa stolið þeim)! Það er reyndar hægt að kaupa hjól í kjallara spítalans á 120 evrur, ég hugsa að ég kaupi bara þar. Gott að fína fjallahjólið mitt er bara á Íslandi, annars yrði því stolið strax.
Háskólinn er stór. Aðalbyggingin er á 15 hæðum, 2 álmur með skrifstofum og kennslustofum. Á fyrstu hæð og í kjallaranum er bókabúð, ljósritun og ritfangabúð auk háskólastjórnsýslunnar. Þar er allt morandi í fólki. Í hádeginu eru lyfturnar fullar af fólki og þær stoppa á hverri hæð á háannatíma. Mötuneytið er mjög stórt. Þar get ég fengið samlokur, kjöt, fisk og fleira - sem kemur sér ágætlega þá daga sem Ásgeir er fram á kvöld í skólanum. Jæja, best að fara læra hollensku (prófessor Meier leggur hart að mér í þeim efnum).

Tuesday, September 4, 2007

Var að koma úr matvörubúðinni. Sú sem er næst okkur Ásgeiri er eins konar Hagkaupsverslun. Úrvalið er mjög mikið (ég fæ vatn í munninn þegar ég hugsa um alla ostana) og verðið virðist ágætt.
Hollenskunámið sækist vel. Allir virðast geta talað ensku hér. Ein á námskeiðinu er frá Spáni og hún hefur búið í Hollandi í sjö ár. Hún sagðist hafa skráð sig á námskeiðið því að kunnáttuleysið í hollensku var orðið vandræðalegt. Við erum með ýmsa kennara og þeir eru allir ágætir. Ætlast er til töluverðs heimalærdóms.
Það er tvennt sem háir okkur Ásgeiri, annars vegar að við erum ekki komnir með símanúmer og hins vegar að okkur vantar enn hjól. Úr því verður ráðið á morgun, m.a. með því að fá sér hollenska kennitölu.

Monday, September 3, 2007

Fyrsti skóladagurinn

Er kominn í tungumálanám við Vrije Universiteit. Þetta er byrjendakúrs í hollensku, virka daga frá 9-13. Við erum 17 talsins nemendurnir. Þar er fólk frá Úganda, Rússlandi, Spáni, Tyrklandi, Kína, Brasilíu, Íran, Indónesíu, Bandaríkjunum og Marokkó - þá er allt upp talið fyrir utan mig. Kennslan og námið leggst vel í mig. Ik heet Pétur, ik woon in Amsterdam. Ik kom uit Ijsland. Þetta byrjar á léttu nótunum. Ýmiss konar skriffinska er í vændum, símamál, tölvumál og fleira. Frétti að einhver stelpukind væri búin að flytja inn í íbúðina á Laugaveginum.
Jæja, þarf að fara læra hollensku.

Sunday, September 2, 2007

Fyrsta færsla

Kom til Amsturdamms í gær. Leigusalarnir, þau Jeroen og Mélanie, ásamt Ásgeiri komu á bíl á flugvöllinn og sóttu mig. Íbúðin er í grennd við háskólann (10 mín. göngufjarlægð) þar sem ég verð í hollenskunámi fyrsta mánuðinn og spítalinn er þar við hliðina. Hér er skýjað en hlýtt þannig að við Ásgeir göngum um á stuttermabolum.
Íbúðin er í blokk á sjöttu hæð. Hún er um 40 fermetrar. Hér býr margt gamalt fólk og við höfum bara rekist á aldnar dömur sem flakka um stigahúsið hægum skrefum. Í lyftunni er sterk "body lotion" lykt. Hverfið er rólegt og út um gluggana sjást bara stór tré. Af og til fljúga þotur framhjá á leið til flugvallarins, ég sá spítalann úr flugvélinni.
Þau Jeroen og Mélanie eru mjög indæl og skemmtileg. Hann er nýútskrifaður skurðhjúkrunarfræðingur en hún vinnur á skrifstofu. Þau ætla á bakpokaferðalag um Tæland en við Ásgeir leigjum íbúðina á meðan. Hér er allt til alls, húsgögn og heimilistæki, sem kemur sér vel því að við tókum bara ferðatöskur með, mín var tæp 28 kg og handfarangur 15 kg. Millilenti í Kaupmannahöfn og var ánægður með að borga bara 3500 krónur í yfirvigt hjá Transavia. Í íbúðinni er eins konar nýlendustíll, ofin teppi og dökkar mublur sem minna á Austurlönd svo ekki sé minnst á Búddalíkneski. Drukkum í gærkveldi rauðvín á svölunum og lærðum hollensku í dag. Nú ætlum við Ásgeir að skreppa út í bíó.