Saturday, November 24, 2007

Upplyfting

Við Ásgeir höfum verið rólegir undanfarna viku. Raunar hafa flest kvöld farið í rólegheit og sjónvarp. Leigusalinn á ristastóran kassa með allri Vina-seríunni og við höfum horft á slatta af þáttum. Á Íslandi var frítíma oftar en ekki varið í að hitta fólk en hér þekkjum við enn svo fáa að það fer lítið fyrir slíku. Nenntum ekki að hanga inni í þessari pínulitlu kytru í gærkvöldi, lyftum okkur upp og kíktum niður í bæ. Það er annars merkilegt hversu algengt það er að þurfa borga hálfa evru fyrir að fá að fara á klósett á skemmtistöðum bæjarins.

Í vinnunni var frekar lítið af krufningum þessa vikuna. Sá samt áhugaverða hluti, m.a. hjarta sem vó rúmlega eitt kíló (venjulegt hjarta er undir 400 grömmum), magasár með mikilli blæðingu og útbreitt blöðruhálskirtilskrabbamein. Auk þess fundum við mjög sjaldgæfan fæðingargalla í barni sem lifði bara tvær vikur eftir fæðingu. Eftir því sem við komumst næst hefur aðeins einu sambærilegu slíku tilviki verið lýst áður.

Í næstu viku kemur Sjonni í heimsókn. Auk margs annars ætlum við að fara á tónleika í Het concertgebouw, frægu tónleikahúsi hér í Amsterdam, sem er með þéttskipaða dagskrá allt árið um kring. Við ætlum að hlusta á rússneska píanistann Volodos sem er sérstaklega þekktur fyrir að spila tónlist eftir Liszt og Rachmaninoff. Ég hlakka mikið til. Sjonni kemur á fimmtudaginn kemur, daginn sem við förum út úr þeirri íbúð sem við búum í núna. Við verðum tvær nætur með herbergi niðri í bæ en flytjum svo á laugardeginum í nýju íbúðina okkar. Okkur skilst að þó að leiguverðið sé ekki beinlínis lágt þá sé það býsna gott miðað við staðsetningu og stærð (1125 evrur á mánuði, 65 fermetrar, rafmagn og gas innifalið, öll húsgögn og húsbúnaður). Megum því glaðir við una. Miðað við fréttir af húsnæðismarkaðnum heima á Íslandi er leiguverð hér í Amsterdam áþekkt.

Kveðja, Pétur.

Friday, November 23, 2007

Verwijd-verwijderd

Hér gengur allt sinn vanagang um þessar mundir. Reyndar flytjum við í næstu viku úr úthverfinu Bautenveldert í huggulegt hverfi meira miðsvæðis með útsýni hollenskt sýki.

Einn prófessorinn benti mér vinsamlega á það í gær að ég ætti til að rugla saman vissum orðum. Þannig var nefnilega að síðastliðinn þriðjudag var ég að kynna krufningar vikunnar á undan, hélt á ósæðinni og sagði við alla viðstadda að ósæðin væri "iets verwijderd" sem þýðir víst "það er búið að fjarlægja ósæðina lítillega" en hefði átt að segja "verwijd" sem þýðir "víkkuð".

Kveðja, Pétur.

Sunday, November 18, 2007

Slysó og fleira

Við Ásgeir vorum að koma úr ræktinni. Ég ætla að blogga svolítið áður en ég fer að vinna í ristilverkefninu endalausa. Hef þessa vikuna verið í þjálfun í tengslum við krufningar. Er sjálfur búinn að gera fleiri krufningar en flestir deildarlæknanna hér þannig að þetta er eiginlega bara til þess að sjá hvernig þau gera hlutina enda til mýmargar aðferðir. Hlakka til að fá að gera hlutina einn og án afskipta annarra. Ég þarf að laga mínar aðferðir að þeim venjum sem eru iðkaðar hér. Það er ágætt, þá get ég kannski búið til blöndu af því sem mér finnst gott hér og því sem var betra á Íslandi.
Prófið gekk svo sem ágætlega. Það verður fornvitnilegt að sjá hver árangurinn verður. Spurt var meðal annars um alfa-1 antitrypsínskort, brjóstakrabbamein, sýkingar í miðtaugakerfi, eitlakrabbamein og kjálkasjúkdóma.

Ásgeir var svo óheppinn síðastliðinn fimmtudag að fá fót í andlitið á dansæfingu. Hann fékk skurð á neðri vör, vörina innanverða og heilmikill vökvi kom í annan kjálkaliðinn þannig að hann gat ekki bitið saman. Þurftum að fara á slysadeildina þar sem hann var saumaður að innan sem utan, teknar röntgenmyndir og svo fór hann daginn eftir til sérfræðings í kjálkavandamálum. Þetta er allt batnandi nú á sunnudegi. Okkur þótti afgreiðslan á slysó hér hægfara, erum vanir því að skurðir séu afgreiddir hraðar heima á Íslandi. Hér þurfti að bíða í um tvær og hálfa klukkustund eftir því að fá þetta saumað saman. Okkur fannst það endalaust lengi að líða. Ásgeir má að svo stöddu bara borða mjúkan mat, ekkert hart eða seigt.

Fórum í gær í mat til franskra hjóna sem við höfum kynnst. Þau eru listamenn og reka einnig skóbúð. Við fengum ljúffengan franskan mat að borða. Skruppum í dag í ræktina og tókum til. Helgarnar líða hratt, áður en maður veit af er komin sunnudagur og ný vinnuvika. Við ætlum að reyna að vera duglegri að fara og skoða eitthvað skemmtilegt á laugardögum.

Nú fer að líða að flutningum á nýja staðinn. Þá snýst dæmið við, þ.e. nú hjóla ég í 5-10 mínútur til að komast í vinnuna og Ásgeir í 25 mínútur til að komast í skólann. Á nýja staðnum verður þetta öfugt. Hér er orðið svolítið kalt, hitinn hefur verið 3-7 gráður.

Kveðja, Pétur.

Wednesday, November 14, 2007

Próf á morgun

Ég ætti kannski að vera að lesa en ég veit ekki hvar ég á að byrja. Það er nefnilega árlegt meinafræðipróf á morgun, skriflegt próf þar sem spurt er vítt og breitt um sjúkdóma mannslíkamans. Prófið hefur engar afleiðingar en er ætlað að hvetja mann til lestrar og gefa til kynna hversu mikið maður kann. Mér skilst að um 60 stig af 100 sé býsna góður árangur, 80 stig er mjög gott (sérfræðingar fá um 80-90 stig) en byrjendur fá víst yfirleitt eitthvað lélegt - en er svo ætlað að bæta sig með hverju árinu. Þó að ég hafi flækst í þessu fagi síðustu misseri finnst mér fræðilegri kunnáttu áfátt og ég er með veikar hliðar. Ég hugsa að ég reyni að lesa mér til um eitlakrabbamein í kvöld.
Sigurdís var hjá okkur Ásgeiri síðastliðna helgi. Það var mjög gaman að fá hana í heimsókn. Við kíktum í bæinn bæði að degi til og um kvöldið og elduðum góðan kvöldmat þess á milli. Ég fékk svo frá mömmu vetrarúlpuna mína, húfu og vettlinga, sem var kærkomið. Næst kemur Sjonni í heimsókn og e.t.v. Garðar bróðir.
Kveðja, Pétur.

Monday, November 12, 2007

Nýjasta viðbótin við búslóðina

Á föstudaginn var fór ég í bæinn, miðbæinn, og keypti þetta líka fallega bláa stofustáss.



Eins og sjá má er þetta hin fínasta vindsæng, eða öllu heldur vindrúm. Gripurinn er 200 cm á lengd, 155 á breidd og 42 á hæð. Sjálfuppblásanleg og með VELÚR áferð!

Kveðja,
Stoltur neytandi
Ásgeir

Saturday, November 10, 2007

Laugardagur


Þá er kominn laugardagur. Sigurdís er á leiðinni í stutta heimsókn. Systir hennar býr nú í Rotterdam og hún var þar í heimsókn og ætlar nú að heimsækja okkur Ásgeir hér í Amsturdammi - fyrsti gesturinn okkar. Við erum búnir að kaupa stórt og fínt uppblásanlegt gestarúm, sæng, kodda og sængurföt.

Fórum síðastliðna helgi til Barcelona en Xavier, spænskur vinur okkar, hélt upp á þrítugsafmælið sitt. Fórum á föstudagskvöldi og komum heim á sunnudagskvöldi. Þetta var sem sagt mjög stutt ferð en mjög skemmtileg. Ferðalagið var mjög þægilegt. Við búum 10 frá flugvellinum, bókuðum okkur á netinu og vorum bara með handfarangur. Gátum því á stuttum tíma gengið beint inn í flugvélina.

Á mánudaginn byrjar krufningalota hjá mér. Ég verð þá bara í krufningum næstu vikurnar. Er búinn að læra heilmikið hingað til. Hollenskuprófið gekk vel. Ég nenni ekki að fara strax á framhaldskúrsinn, er búinn að fá nóg af kvöldskóla í bili. Í vændum er árlegt próf í meinafræði á fimmtudaginn, þetta er skriflegt próf á hollensku. Ég sé ekki fyrir mér mikla sigra á þessu prófi.

Myndin sýnir götuna sem við Ásgeir búum við. Meira seinna.