Saturday, December 20, 2008

Á leið til Íslands

Við Ásgeir komum til Íslands á morgun. Upp á síðkastið höfum við átt í nógu að snúast. Það voru sýningar hjá Ásgeiri vítt og breitt um Holland síðustu vikuna. Við höfum keypt jólagjafir. Það var jólapartí í vinnunni minni og loks nú loks jólafrí. Það er strax komin vísir að þéttri dagskrá um og fram að jólum, strax veisla annað kvöld. Sjáumst á Íslandi. Pétur.

Sunday, December 7, 2008

Sinterklaas og svarti Piet

Núna um helgina, nánar tiltekið 5. desember, gaf Sinterklaas í skóinn hér í Amsterdam. Þá fá hollensku börnin gjafir og nammi og allir flýttu sér heim úr vinnunni á föstudaginn. Gjafajólin fara því mun fyrr fram hér en heima og útsölurnar byrja hér eftir rúma viku. Sinterklaas kemur samt aðeins fyrr til Hollands, þ.e. 15. nóvember á skipi sínu frá Madríd ásamt þrælunum sínum, zwarte Pieten (svörtu Pétrarnir). Það eru svertingjar sem munu reyndar upprunalega hafa verið sótarar. Þeir hafa nammipoka til að gefa börnunum. Svo kemur Kerstmann (lesist Kólasveinninn) 24. desember og þá er mun minna um gjafir. Ásgeir fékk frá Sinterklaas nærbuxur og kökukefli. Ég fékk líka nærbuxur. Í dag verður hér smá jólabakstur. Við erum með jólatónlist á fóninum. Hún er merkileg sú íslenska formúla að taka ítölsk popplög og breyta í jólalög.

Ég var að horfa á Silfur Egils áðan. Manni blöskrar hversu lélegt regluverkið er í íslenskum viðskiptum; allt má og ekkert er saknæmt, spilling er leyfð. Það eru stjórnmálamenn sem gerðu þetta kleyft, þar á vandamálið uppruna sinn. Nú þarf bæði að koma ónýtum stjórnmálamönnum og lagsmönnum þeirra frá og laga stórkostlega gallað regluverk sem þeir hafa skapað. Ég óska þess að sjá hæft fólk stíga fram, hverjir verða það?

Kveðja, Pétur.

Saturday, December 6, 2008

Bloggað

Tvær vikur þangað til við komum heim, hlökkum mikið til. Ásgeir á núna eftir 7 sýningar af verkinu Sloth. Ein verður í kvöld, nánar tiltekið í bænum Purmerend. Svo er Ásgeir byrjaður að undirbúa einstaklingsverkefni og BA-ritgerð fyrir vorið en þá verður hann á Íslandi til að klára BA-gráðuna í dansi.

Við fórum á sýningu í gær. Það var verk þar sem öll sýningin var þannig að leikararnir sex komu fram á sviðið í "slómó" til að hneigja sig líkt og eftir sýningu. Á meðan því stóð sögðu þeir þær hugsanir sem fóru um hugann. Alveg í lokin endurtóku þau hreyfingarnar á eðlilegum hraða, það tók 2 mínútur.

Hjá mér hefur verið mikið að gera í vinnunni, hef komið seint heim. Sem betur fer hafa nokkur áhugaverð tilfelli dúkkað upp inn á milli rútínunnar, man í svipinn eftir atypical fibroxanthoma og smáfrumukrabbameini í brjósti. Annars var óvanaleg krufning í vikunni, einstaklingur sem hafði látist fyrir 2 vikum í Tælandi og líkið þar smurt en ekki flutt til Hollands þar sem flugsamgöngur til og frá Tælandi voru í lamasessi vegna mótmælanna þar. Formalínlyktin var mjög sterk og rotnun merkilega lítil, sem betur fer.

Kv. Pétur.

Sunday, November 30, 2008

Jólaföndur og tónleikar

Við erum komnir í mikið jólaskap. Ásgeir skipulagði "jólaföndur og dúllerí" og hingað komu ýmsir gestir í dag, drukku heitt súkkulaði, borðuðu hollenskt jólabakkelsi og föndruðu. Gömul handtök voru rifjuð upp, músastigar, jólahjörtu og ýmsilegt fleira. Íslensk jólatónlist hefur ómað allan daginn.

Svo fór ég á píanótónleika í kvöld í Het Concertgbouw að hlusta á Evgeny Kissin, rússneskan píanista. Það er gaman að fara í þetta stóra tónleikahús. Það er frá 19 öld, er skrautlegt en stílhreint. Úr loftunum hanga kristalsljósakrónur, teppin eru rauð og flúr á veggjum. Á veggjunum fyrir utan salinn hanga málverk af listamönnum og inni í salnum má lesa nöfn gömlu tónskáldanna á veggjunum. Kissin spilaði verk eftir Prokofief og Chopin. Fólk átti erfitt með að halda aftur að sér að klappa ekki á milli einstakra Chopin-etýða. Í lokin var hann klappaður margoft upp. Eins og endra nær eftir tónleika segi ég nú við sjálfan mig að ég verði að fara oftar á tónleika. Svo langar mig til að spila sjálfur, hef nú ekki spilað á píanó lengi. Reyni að kippa því í liðinn sem fyrst.

Kveðja, Pétur.

Saturday, November 29, 2008

Matarmiðar á LSH og klósettin í lestunum

Ég var að taka til í veskinu í vikunni. Það kom mér verulega á óvart að finna þar 10 matarmiða af Landsanum, meira en ári eftir að ég flutti hingað til Hollands. Ég held að ég skelli mér bara í hádegismat á LSH þegar ég kem heim til Íslands nú um jólin.

Svo er annað merkilegt sem ég komst að nýlega. Ég var staddur á aðallestarstöðinni þegar ég sá vatngusu koma neðan úr einni lestinni niður á teinana. Mig grunaði strax hvað væri í gangi og staðfesti kenningu mína í næstu lestarferð. Klósettúrgangurinn fer beint niður á lestarteinana! Þá kom upp úr dúrnum að mælst er til þess að maður noti ekki lestarklósettin þegar lestin er stopp á lestarstöðvunum. Síðan þá hef ég séð leyfar af hægðum á teinunum inni á miðri lestarstöð. Samt er engin lykt.

Við vorum að fá nýtt sjónvarp og ný hljómflutningstæki. Leigusalinn okkar kom með þetta í dag, honum fannst þau tæki sem hér voru orðin of gömul. Þetta eru rosalega fín tæki.

Við héldum upp á þakkargjörðardaginn síðastliðinn fimmtudag og hittum vini okkar hér í Amsterdam og borðuðum kalkún. Þetta voru um 20 manns, allt útlendingar hér í Hollandi, sem hittust að frumkvæði Ali sem kemur frá Bandaríkjunum. Við Ásgeir komum með sætar kartöflur. Maturinn var frábær.

Kveðja, Pétur.

Sunday, November 23, 2008

Sigurrósartónleikar og fleira

Við Ásgeir fórum á Sigurrósartónleika hér í Amsterdam í síðastliðinni viku. Það var húsfyllir í stórum tónleikasal og löngu uppselt. Tónleikarnir voru mjög góðir. Ég hef þrívegis áður séð Sigurrós á tónleikum en ætli þessir hafi ekki verið bestir. Það var reyndar eitthvert hljóðvandamál í byrjun, hollenski hljóðmaðurinn gerði einhverja vitleysu og Jónsi ýjaði stuttlega að því á íslensku í hátalarann - en auðvitað skildi hljóðmaðurinn ekki hvað hann var að segja.

Ásgeir skrapp í dag til Brussel til að fara á nokkurra daga dansnámskeið og hitta vini sem þar búa. Brussel er mikil mekka í nútímadansi og reyndar stutt og ódýrt að fara þangað með lest. Ég er því einn hér heima - í hálfgerðum kulda því að íbúðin okkar er gömul og illa einangruð, ofninn er samt á fullu. Hér er einfalt gler og kalt loft kemst milli lista.

Ég hef fylgst frekar hissa með fréttum af mótmælum fyir utan lögreglustöðina. Það fólk sem ég hef heyrt í finnst mótmælin gegn handtökunni hafa gengið of langt.

Í gær fór ég á námskeið í meinafræði lungnasjúkdóma, nánar tiltekið svokallaðra interstitial lungnasjúkdóma, sem eru frekar óalgengir. Þetta var fínn kúrs, skipulagður fyrir unglækna í meinafræði. Svo fórum við Ásgeir um kvöldið í mat til Önnu Þóru og kærasta hennar James.

Annars er ekki fleira í fréttum. Ný vinnuvika hefst á morgun.

Kveðja, Pétur.

Sunday, November 16, 2008

Danssýningar hjá Ásgeiri

Í gærkvöldi fór ég á eina nokkurra sýninga hér í Amsterdam á verkinu Sloth sem Ásgeir dansar í. Danshópurinn varð fyrir því bakslagi að einn dansaranna sneri sig illa á ökkla og því var nýr dansari kallaður til með 2 daga fyrirvara. Þrátt fyrir þetta hafa sýningarnar gengið vel og það var gaman að sjá hvernig verkið hafði þroskast frá frumsýningu. Hér gistu hjá okkur í nokkrar nætur 2 stelpur úr danshópnum, þær Katja og Estelle. Í gærmorgun og í morgun var því mannmargt við morgunverðarborðið, gerðar vöfflur og hrærð egg.

Af vinunni er það að frétta að þar hefa verið ósættir milli meinafræðinganna og yfirmannsins og það hafa verið ítrekaðir fundir á vinnutíma. Ég veit ekki hvað þetta snýst um en það virðist engin lausn í sjónmáli. Það þykir mér miður því að þetta truflar vinnuna. Sá meinafræðingur sem ég átti að vinna með síðastliðinn fimmtudag hafði t.d. engan tíma þann daginn til að skoða með mér það sem skoða skyldi og var því vinnan næsta dag helmingi meiri fyrir vikið. Áhugaverðasta sýnið í vikunni var hóstarkirstilsæxli (thymoma). Annað var vanalegt.

Nú er indónesíski vinur okkar, Herbert, farinn til síns heimalands eftir að hafa gefist upp á að fá atvinnuleyfi hér. Það þykir okkur leitt því að við þekkjum ekki svo marga hér. Annars var gaman í gær því að á sýningu gærkvöldsins komu margir Íslendingar. Ætli maður þurfi að halla sér meira að Íslendingunum hér í borg?

Ég fékk frest hjá skattinum vegna skattskýrslu fyrir 2007 og sendi allt draslið til endurskoðanda sem ætlar að sjá um málið. Er miklu fargi þar með af mér létt.

Kveðja, Pétur.

Friday, November 7, 2008

Ný símanúmer

Elsku ættingjar og vinir, nær og fjær.

Hér í Amsturdammi þarf maður líka að spara og þess vegna höfum við ákveðið að skipta um símafyrirtæki. Núna erum við í bissness við LycaMobile. Lyca er voða gott fyrir þá sem þurfa að hringja löng kreppu- og bankatengd símtöl til Íslands. Svo hringjum við frítt hvor í annan.

Nýju númerin okkar eru:
Ásgeir - 00 31 6 3420 5589
Pétur - 00 31 6 3420 5598

Kveðja, Ásgeir.

Thursday, November 6, 2008

Hollensk fórnarlömb íslensku kreppunnar

Það er lítið fjallað um ástandið á Íslandi í hollenskum fjölmiðlum þessa dagana. Einstöku greinar hafa þó birst um Icesave-málið. Þeir sem áttu pening á Icesave-reikningunum fá allt að 100.000 evrur greiddar (þar af 20.000 evrur frá Íslandi). Þeir einstaklingar sem áttu meira en 100.000 evrur voru um það bil 470 talsins. Þeir hafa stofnað félag og ætla að senda fulltrúa sinn til Íslands til að huga að þessum málum. Í gær birtist í Metró (eins konar Fréttablað) viðtal við 52 árs gamlan hjúkrunarfræðing sem átti meira en 100.000 evrur á Icesave-reikningi og lagði peninginn þar inn síðastliðið sumar. Hún er barnslaus og hafði á löngum tíma náð að nurla saman fé með því að starfa sem hjúkrunarfræðingur, taka að sér yfirvinnu og spara. Þetta var eins konar eftirlaunasjóður sem hún ætlaði að nota til að geta hætt fyrr að vinna, eiga náðugt ævikvöld og til að eiga fyrir umönnun á efri árum. Í októberbyrjun var fótunum kippt undan henni og sagðist hún aldrei hafa grátið jafnmikið og síðastliðinn mánuð. Allt í einu átti hún ekkert nema tæpar 100 evrur til að hafa í sig og á, restin var á Icesave-reikningnum. Tilfinningin væri eins og stolið hefði verið af henni og skilningur fólks á þessu væri lítill.
Aðrar sögur af Icesave-fórnarlömbum hafa einnig birst en ég ætla ekki að tíunda þær. Hvað varð eiginlega um allan þennan pening sem fór inn á Icesave-reikningana?

Annars er það að frétta að ég fékk frest til að skila inn skattskýrslunni. Annars hef ég illan bifur á hollenska skattinum. Reglurnar hér eru öðruvísi en á Íslandi. Þeir skatta t.d. líka höfuðstólinn, ekki bara vextina. Skattleysismörk eru 20.000 evrur. Þannig má búa til dæmi um einhvern sem á 100.000 evrur á vaxtalausum gíróreikningi. Þar minnkar féð árlega með skattheimtu ríkisins. Ríkið gerir ráð fyrir því að hver og einn hafi vit á því að geyma fé þannig að ávöxtun fáist.

Ég hef séð nokkur áhugaverð tilfelli á síðustu vikum í vinnunni: glomangioma, synovial chondromatosis, neuroendocrine carcinoma í smágirni, canalicular adenoma í munnvatnskirtli, extramammary Pagets disease á handarbaki, pigmented villonodular synoviitis, Spitz naevus, lentigo maligna, xanthogranulomatous pyelonephritis og pyonephrosis og aneurysma á kransæð.

Kveðja, Pétur.

Monday, November 3, 2008

Datt og missti af lestinni

Í morgun var ég tæpur á tíma og þegar ég var kominn upp á adallestarstöd hafdi ég 2-3 mínútur til ad komast í lestina, sem ég vissi ad væri hægt. Ég yrdi adeins ad vera fljótur. Ég hélt á tveimur plastpokum med möppum og pappír sem ég þurfti ad fara med í vinnuna. Ég hljóp eins og fætur togudu, inn gangana, fram hjá fólkinu, upp tröppurnar thar sem sé ég glitta í lestina og ... Í efsta þrepinu skreikadi mér einhvern veginn fótur og ég datt á hlaupunum. Ég hlammadist fram fyrir mig nidur á brautarpallinn, annar pokinn rifnadi og pappír dreifdist um stéttina. Í ofbodi reyni ég ad taka saman pappírinn og næ því mjög fljótlega en í þann mund heyrist flaut og dyrnar á lestinni lokast. Thetta var eiginlega eins og í bíómynd. Ég missti af lestinni.

Sunday, November 2, 2008

Frumsýning og slóttugir leigubílstjórar

Ýmislegt hefur verið á döfinni hjá okkur Ásgeiri. Það er helst að frétta að Katrín, dansnemi, var í heimsókn frá Salzburg og loks var verkið sem Ásgeir dansar í frumflutt. Frumsýningin fór fram í den Haag, fyrsta af 20 sýningum, og tókst mjög vel. Verkið heitir Sloth (leti) og nefnist svo eftir einni höfuðsyndanna sjö. Hver dansari hefur vissan karakter, t.d. er Ásgeir maður sem er ávallt með háleitar hugmyndir og yfirlýsingar en síðan gerist aldrei neitt. Áður hefur sami danshöfundur samið verk í þessari seríu, m.a. Matgræðgi.

Eftir sýninguna komum við seint með lestinni til Amsterdam frá den Haag og metró var hættur að ganga. Þá var fátt annað í stöðunni í kuldanum en að taka leigubíl. Það er nokkuð sem mér er meinilla við því að leigubílstjórar í Amsterdam, aðallega þeir sem bíða á aðallestarstöðinni, eru þekktir fyrir að svindla á ferðalöngum. Við settumst inn í leigubíl og sögðum hvert við vildum fara. Hann neitaði að setja mælinn af stað og vildi bara ákveðið gjald, þ.e. 8 evrum meira en eðlilegt taldist. Svo sagði hann að við gætum bara farið út og reynt að finna ódýrari leigubíl. En það er vonlaust því að bílstjórarnir á aðallestarstöðinni standa saman eins og dæmi hafa sannað. Á endanum tókum við fjárans leigubílinn á verði sem var tæpum 6 evrum of hátt. Það er athyglisvert að leigubílstjórarnir á aðallestarstöðinni virðast allir aðfluttir frá sama landinu í Afríku. Þetta er óþolandi ástand og maður skilur ekki af hverju ekkert er gert í þessu. Aldrei tek ég aftur leigbíl þarna.

Svo kom Herbert í mat í kvöld. Hann er einn fárra vina okkar hér í Amsterdam og kemur frá Indónesíu. Hann hefur búið hér í rúmt ár og ég kynntist honum á hollenskunámskeiðinu í september í fyrra. Hann notaði allan síðastliðinn vetur til að læra hollensku og hefur allt þetta ár reynt að fá vinnu á sínu sviði, þ.e.a.s. einhvað lögfræðitengt (t.d. svokallaður aðstoðarmaður lögfræðings, paralegal). ESB-löggjöfin er hins vegar stíf þannig að ef enginn vill ráða hann á vissum lágmarkslaunum þá fær hann ekki að setjast að. Og nú er staðan orðin sú að hann verður að flytja aftur til Indónesíu.

Kveðja, Pétur.

Tuesday, October 28, 2008

Skattskýrsla, garg

Ég er búinn að komast að því að ég get ekki gert þessa skattskýrslu fyrir 2007 sjálfur. Það er of mikil hætta á að einhver villa verði til tvísköttunar eða slíks og mörgum spurningum er ósvarað sem enginn sem ég þekki kann svar við. Og erfitt er að vinda ofan af slíku. Á föstudaginn var sagði einhver hundleiðinlegur karl hjá skattinum að ég gæti ekki fengið frest. Svo hringdi ég aftur í dag og þá var það hægt, ég þyrfti bara að senda inn beiðni. Nú er bara að vona að ég fái frestinn. Í sambandi við óskilvirka skriffinsku er skattskýrslan sem ég þarf að fylla út aðeins til á pappírsformi og það tekur 6-8 vikur að fá nýja skýrslu en ég óskaði eftir því þar sem ég hef fyllt upprunaleug skýrsluna að hluta vitlaust út.

Annars var verst að komast að því að ég hefði e.t.v. getað sleppt því að senda inn skattskýrslu til að byrja með þar sem ég vinn á sjúkrahúsi og borga skatt strax. Nú er skatturinn hins vegar búinn að vasast í þessu og þá verður ekki aftur snúið.

Xavier var í heimsókn hjá okkur um helgina. Það var mjög gaman að fá hann í heimsókn. Við skoðuðum aðeins borgina og næturlífið.

Svo var enn einn langi vinnudagurinn í dag, var að til klukkan 22.

Kveðja, Pétur.

Wednesday, October 22, 2008

Skattskýrslan framhald

Ég var rosalega sniðugur í dag. Illa gekk að skilja allar spurningarnar í skattskýrslunni en ég greip áðan á það ráð að fá ókunnugan Hollending í lestinni til að hjálpa mér. Meira að segja hann skildi ekki allar spurningarnar!! Annars gekk þetta vel, á 40 mínútum fórum við í gegnum um helming spurninganna.

Tuesday, October 21, 2008

Skattskýrslan

Eihvern tímann í sumar tókst mér að skila loks inn hollensku skattskýrslunni fyrir 2007, löngu á eftir áætlun. Það var leiðinlegt verk sem hafðist á endanum. Nú er ég búinn að fá bréf frá skattinum þar sem kemur fram að ég hefi fyllt út vitlausa skýrslu þar sem ég bjó ekki allt árið í Hollandi. Garg. Fékk senda skýrslu, tugi blaðsíðna, sem ég þarf að fara í gegnum og svara. Verst er að ég hnýt um svo margt, tekur allt of langan tíma.
Kveðja, Pétur.

Thursday, October 16, 2008

Arnhem og flugmiðar

Ég er búinn að kaupa flugmiða til Íslands um jólin, náði að kría út 2 vikna frí og kem 21. desember. Ég keypti flugmiða með flugpunktum. Það er ekki í frásögur færandi nema að flugvallarskattar, eldsneytisgjald og skráningargjald var nærri 25.000 krónur!
Við Ásgeir ætlum að dvelja í Arnhem næstu helgi, lítilli borg fyrir sunnan Amsterdam. Þar æfir dansflokkurinn hans Ásgeirs og við verðum með herbergi í íbúð dansflokksins. Á hverjum degi förum við Ásgeir hvor í sína áttina til vinnu, ég í norður til Alkmaar og hann í suður til Arnhem. Ferðalagið tekur mig um klukkutíma og 10 mínútur. Mér líka vel að sitja í lestinni og lesa eitthvað. Ég er farinn að lesa hollensku blöðin. Icesave-reikningarnir voru á forsíðu blaðanna í dag því enn berast fréttir af tapi sveitarfélaga og halda menn að þar séu ekki enn komin öll kurl til grafar. Maður spyr sig óneitanlega hvað varð um alla þessa peninga sem lagðir voru inn á Icesave-reikningana. Fór þetta allt í einhverjar fjárfestingar einhvers staðar í útlöndum, fjárfestingar sem nú eru lítils virði? Og nú þarf íslenska ríkið (þ.e. Íslendingar) að borga hollenskum almenningi tapið. Annars eru Hollendingar bara rólegir yfir þessu og ég verð ekki var við neitt eins og virðist hafa átt sér stað í Bretlandi.

Sunday, October 12, 2008

Tónleikar með Emiliönu Torrini

Við Ásgeir vorum áðan á tónleikum með Emiliönu Torrini sem hún hélt í aflagðri kirkju nálægt miðbænum. Ásgeir var búinn að kaupa miða á tónleikana og ég mátti ekkert vita fyrr en við vorum komnir á staðinn. Tónleikarnir voru auðvitað mjög skemmtilegir og Emilíana á sér marga aðdáendur greinilega. Enginn aðsúgur var gerður að okkur Íslendingum þrátt fyrir Icesave-vandamálið og íslensku fjármálakreppuna sem hefur verið á allra vörum hér undanfarið. Hollendingar virðast frekar rólegir yfir þessu öllu þó að fólki með Icesave-reikninga hafi brugðið.
Mér líkar vel á nýja spítalanum í Alkmaar, hann minnir óneytanlega á LSH, er svipaður að stærð (aðeins minni) og stemmningin í meinafræðinni góð.
Þetta blogg átti að vera lengra en klukkan er orðin allt of margt. Kveðja, Pétur.

Wednesday, October 1, 2008

Mastersverkefni lokið

Þá er mastersverkefninu loks lokið. Ég var á Íslandi frá miðvikudegi til þriðjudags og varði verkefnið á mánudaginn var. Fyrirlesturinn gekk mjög vel. Meginhluti tímans á Íslandi fór í að gera fyrirlesturinn, nokkrar æfingar og ítarlegar yfirferðir með leiðbeinendunum og öðrum sérfræðingum er koma að rannsókninni. Ég er þeim þakklátur fyrir að hafa sett tíma sinn í þetta, fyrirlesturinn varð margfalt betri fyrir vikið.
Auðvitað var margt á síðustu stundu eins og oft vill verða. Ég var seinn að koma mér niður á Læknagarð til að halda fyrirlesturinn og þá mundi ég eftir því að Sigurdís hafði ráðlagt mér að lesa nú til öryggis ritgerðina fyrir fyrirlesturinn því að prófararnir gætu spurt úr hinu og þessu í inngangnum. Ég ákvað því að kíkja á örskotsstundu á tvær blaðsíður sem mér fannst helst þörf á að rifja upp, sit í bílnum á planinu fyrir utan Læknagarð og þá var bíl lagt við hliðina á mér. Þar var gestur kominn á fyrirlesturinn og sér mig, örfáum mínútum fyrir klukkan fjögur, að lesa eigin skrif úti í bíl! Þegar ég kom inn sagði Jón Gunnlaugur, leiðbeinandi: "Gott að þú ert kominn." Kynningin var skondin að því leyti að ég var kynntur sem Bjarni eftir að ég hafði áður verið kynntur sem Pétur rétt áður.
Í Íslandsheimsókninni náði ég ekki að gera ýmislegt sem til hafði staðið. Ég hafði ætlað að djamma pínulítið en var of þreyttur til þess, ég ætlaði í sund en náði því ekki, ég ætlaði í partí á laugardagskvöldið en komst ekki. Ég náði samt að gera heilmikið og er ánægður með að hafa leyst fyrirlesturinn vel af hendi.

Smá ráð til þeirra sem nota flugfélar: Ekki koma 8 mínútum fyrir brottfarartíma út að hliðinu (ég fékk áminningu). Gulli segir að maður verði að vera kominn hálftíma fyrir flug út að hliði, annars megi skilja mann eftir eða láta "standby" farþega fá sætið.

Fyrsti dagurinn í Alkmaar var í dag. Tók lestina út eftir og lenti í smá ævintýri á leiðinni. Flestar lestarstöðvar eru frekar illa merktar í Hollandi og ef maður missir af hinu eina skilti á lestarpallinum er ekki alltaf gott að vita hvar maður er. Ég sat í aftasta vagni lestarinnar, vagninum sem fer til Alkmaar og lestin staðnæmdist á lestarpalli sem ég hélt allt í einu að væri kannski í Alkmaar. Spyr gamla konu: "Is dit Alkmaar?" og hún sagði já. Þá stekk ég út og dyrnar lokast strax á eftir mér. Auðvitað kom í ljós að þetta var 2 stöðvum á undan Alkmaar og horfði ég illilega á konuna gegnum gluggan þegar lestin fór framhjá. Hún hefur sennilega haldið að ég væri að spyrja hvort þetta væri vagninn til Alkmaar. Tók svo næstu lest 10 mínútum seinna og var ekki seinn þar sem ég hafði lagt snemma af stað. Keypti á lestarstöðinni í Alkmaar keypti ég regnhlíf á 4.5 evrur af því að það var farið að rigna. Ég var ekki búinn að nota regnhlífina í mínútu (ég er ekki að ýkja) þegar hún gjörsamlega rústaðist í veðrinu. Fyrst blés undir hana þannig að hún flettist í öfuga átt, við það brotnuðu litlu vírarnir meira og minna og síðan liðaðist prikið af hlífinni og ég kastaði svo draslinu í næstu ruslatunnu. Allt tók þetta ekki meira en 1-2 mínútur. Þar að auki var eiginlega hætt að rigna. Þetta var fáránlegt og fólk í kringum mig gat ekki annað en hlegið.

Allur dagurinn fór í kynningu á spítalanum í Alkmaar. Það var meðal annars stutt skyndihjálparnámskeið, leiðsögn um spítalann og margt fleira. Svo heldur kynningin áfram á morgun.

Kveðja, Pétur.

Thursday, September 11, 2008

Smá blogg

Við Ásgeir höfum brallað ýmislegt undanfarið. Í síðustu viku fórum við á tónleika með Madonnu á risastórum leikvangi hér í Amsturdammi. Þetta var mjög skemmtilegt, bæði mjög flott sýning og góð tónlist, þar á meðal mörg gömul lög í nýjum útgáfum.
Ásgeir er byrjaður að vinna í Arnhem, lítilli borg sunnan við Amsterdam. Þar æfir hann með dansflokki verk eftir Jens van Daele sem heitir einni höfuðsyndanna, Leti. Þetta er eins konar sería verka þar sem höfuðsyndirnar eru færðar í dans. Það verður samt ekki eintóm leti á sviðinu því að með leti er átt við ýmiss konar áhuga- og sinnuleysi. Þar sem Arnhem er í allnokkurri fjarlægð frá Amsturdammi gistir Ásgeir þar nokkrar nætur í viku. Sjálfur þarf ég að taka lest í vinnuna frá og með fyrsta október þegar ég fer að vinna í Alkmar, litlum ostabæ (sem reyndar er stærri en Reykjavík hvað varðar íbúafjölda) við sjóinn. Það er hluti af sérnáminu að vinna á minni spítala um skeið. Annars hefur eins og endranær verið nóg að gera í vinnunni. Ég hef verið í cýtólógíu síðustu þrjár vikur. Það er undirgrein meinafræðinnar. Venjulega er ég í svokallaðri líffærameinafræði (líka kallað vefjameinafræði) þar sem maður skoðar líffæri og vefi í samhengi. Í cýtólógíu (frumufræði) eru hins vegar stakar frumur skoðaðar. Oftast er um að ræða svokölluð leghálsstrok þar sem skimað er fyrir leghálskrabbameini og forstigsbreytingum þess með smásjárskoðun. Þá sér maður stakar frumur sem hefur verið klesst á smásjárgler. Síðan er reyndar margt annað skoðað ef ástæða er til, t.d. frumur í heila- og mænuvökva, fleiðruvökva, þvagi og svo fínnálarsýni úr ýmsum líffærum. Það vill svo til að meinafræðingar ná í sum þessara sýna þannig að ég farinn að hitta sjúklinga aftur og sting þá til að ná í sýni. Ég hef séð nokkur áhugaverð sýni, m.a. lymphoplasmocytosis í mænuvökva annars vegar vegna MS og hins vegar vegna Borreliosis, adenoid cystic carcinoma í munnvatnskirtli og smáfrumukrabbamein í fleiðruvökva. Flest sýnin eru reyndar heldur daufleg - alls kyns lausar frumur sem enga sögu hafa að segja. Til hliðar við cýtólógíuna er ég á eins konar húðrotasjón þessa dagana og sé því mikið af alls kyns húðkvillum. Hef séð ýmsar æðabólgur, húðbólgur og margt fleira.
Nú líður að því að ég komi til Íslands út af mastersverkefninu. Verð á Fróni síðustu vikuna nú í september og er því þessa dagana einnig að undirbúa það allt saman.
Þessa dagana eru margar fréttir af verkfalli ljósmæðra sem munu hafa dregist aftur úr almennri launaþróun miðað við menntun og annað. Ég skil ekki af hverju það þarf 6 ára nám til að verða ljósmóðir - 4 ár í hjúkrun og svo tveggja ára ljósmóðurfræði. Þetta virðist óþarflega langt nám í heildina fyrir afmarkað starf og mætti e.t.v. stytta í 4 ár, hafa ljósmóðurfræði sem sérstaka línu í hjúkrunarfræði. Í fréttum voru laun ljósmóður eftir samfellt 6 ára nám borin saman við laun hjúkrunarfræðings eftir 4 ára nám og 2 ára vinnu. Þar munaði ekki miklu, 10-20 krónum á mánuði. Mér finnst þetta í fyrsta lagi lítill munur og í öðru lagi er ég ekki viss um að einhver nýútskrifaður úr námi eigi endilega að hafa sambærileg eða hærri laun en einhver með 2 ára starfsreynslu. Menn þurfa að gera það upp við sig hvort ljósmóðurstarf eigi að vera hærra launað en starf hjúkrunarfræðings. Ef svo er gæti það stutt lengra nám og hærri laun. Sé svo ekki er ástæða til að stytta námið.
Kveðja, Pétur.

Thursday, September 4, 2008

Góðir dagar

Það er sko góð ástæða fyrir því að við höfum ekki bloggað að undanförnu. Við höfum einfaldlega haft annað og betra að gera, sem ég mun nú deila með ykkur hér.

Á föstudaginn síðasta komu þau Bjarki bróðir og Helga mágkona í heimsókn. Það má með sanni segja að þau hafi komið með góða veðrið með sér (þó ekki frá Íslandi) því það hafa ekki sést eins góðir dagar allan ágústmánuð. Sólin byrjaði að skína rétt áður en þau lentu á föstudeginum og hélst fram á mánudagskvöld. Það var gaman að sýna þeim borgina. Við gengum út um allt og vorum fljótlega búin að afgreiða öll fyrirhuguð fata- og gjafakaup. Við Pétur erum orðnir nokkuð sjóaðir í leiðsögumannahlutverkinu og það eru nokkrir staðir sem okkur finnst gaman að sýna gestum okkar: Blómamarkaðurinn við Singel, brýrnar við Amstelána, leðurblökubrúin rétt hjá húsinu okkar, Albert Cuyp markaðurinn, rauða hverfið, skakki barinn frá 17.öld, kastalinn á Nieuwmarkt, kínahverfið og svo auðvitað fínu síkin Heren-, Kaizer- og Prinsengracht.
Þrátt fyrir þó nokkra göngu náðum við sko heldur betur að slappa af. Við nutum þess líka að borða góðan mat, bæði hér heima og á fínum sushistað í kínahverfinu. Ég reyndi að sannfæra alla viðstadda um að prófa marglyttu sushi en það lét enginn til leiðast.
Á sunnudeginum fórum við til Haarlem. Haarlem er aðeins 15 mínútur frá Amsterdam með lestinni. Þetta er mjög rólegur bær sem stendur við bakka árinnar Spaarne og hefur þar staðið síðan á 10.öld. Það var mikil traffík á ánni og allir sem vettlingi, báti eða snekkju gátu valdið sigldu um í veðurblíðunni. Við fylgdumst með af árbakkanum en skoðuðum einnig endurbyggða myllu, kirkjur og torg. Á röltinu álpuðumst við óvart inn í rauða hverfi Haarlem. Það samanstendur af tveimur götum, og býður upp á klámbíó, hjálpatækjabúð og einn glugga með rauðu ljósi. Það virtist sem það hefði ekki verið mikið að gera hjá konunni í glugganum þennan sunnudagseftirmiðdag. Hún reyndi mikið að blikka Bjarka bróður þegar við gengum þarna framhjá. Þegar heim var komið elduðum við krækling með brauði og salati og var þetta í fyrsta skipti sem Helga borðaði ferskan krækling. Mér finnst skipta miklu máli hvernig kræklingur er eldaður. Við vorum sammála um að vel hefði tekist til.

Það var mjög gaman að fá Bjarka og Helgu í heimsókn. Ágústmánuður hefur tvímælalaust verið fjölskyldumánuður því Elín og Mamma komu fyrir 3 vikum.

Ásgeir

Sunday, August 24, 2008

Kominn heim frá Berlín

Skrapp til Berlínar um helgina. Tími til kominn að lyfta sér upp eftir ritgerðarskilin. Þangað var Ásgeir kominn einum degi á undan mér en við vorum hjá vinkonum Ásgeirs frá Svíþjóð. Það var gaman að koma aftur til Berlínar, var þar síðast fyrir um 5 árum. Þá var uppbygging mjög áberandi en virðist mun lengra komin núna. Við skoðuðum m.a. leifar af múrnum og þar í grenndinni voru leyfar af undirstöðvum höfuðstöðva Gestapo með áhugaverðri myndasýningu. Í borg þar sem minningarnar um það sem gerðist í seinni heimstyrjöldinni eru hvarvetna er skrítið að nýnasismi skuli vera til staðar. Til dæmis sá ég mann á gangi með labradorhundinn sinn og með nasistamerki á úlpuerminni. Þá sáum við nýnasistalega gaura hrópa úr bíl á Tyrkina sem voru margir í hverfinu þar sem við bjuggum. Annars er Berlín ódýr borg. Eftir því sem við fréttum er húsaleiga lægri en t.d. í Amsterdam og matur var greinilega ódýr, sérstaklega alls konar skyndibitastaðir sem voru út um allt. Fékk mér t.d. góðan kebab á 2,8 evrur.
Vinnan hefur gengið sinn vanagang. Síðasta vika var fremur róleg. Hef verið með nokkur áhugaverð sýni, t.d. smáfrumukrabbamein í þvagblöðru, amelanotic large and spindle cell melanoma, ristilkrabbamein með tap á MSI-6 (sem þýðir að viðkomandi er sennilegast með HNPCC), nasopharyngeal carcinoma og síðan enn eitt sýnið sem samanstóð af tungu, barka og hálseitlum.
Kv. Pétur.

Wednesday, August 20, 2008

Senda

Það var einstaklega góð tilfinning að ýta á takkann "send" í gærkvöldi þegar ritgerðin var loks tilbúin og ég sendi hana gegnum alnetið til Íslands.
Kveðja, Pétur.

Sunday, August 10, 2008

Enn ein helgin í verkefninu

Á maður að blogga í tilbreytingarleysinu? Ég þarf að klára mastersverkefnið í vikunni og hef því setið hér alla helgina. Hef ekkert farið út frá því að ég kom heim á föstudag. Gleymdi að fara með hjólið í viðgerð. Hef auðvitað afkastað miklu og loks er komin sæmileg mynd á þetta allt saman. Kveðja, Pétur.

Sunday, August 3, 2008

Gay pride í Amsterdam

Hér var gay pride í dag. Það er samt ekki hægt að kalla þetta gleðigöngu því að ekki er gengið heldur siglt eftir löngu sýki í borginni. Þetta voru um 80 bátar, oftast með tónlist og dansi. Borgarstjórinn fór fyrir stafni á fremsta bátnum. Bæði var um að ræða alls kyns samtök og félög, einkaframtak, skemmtistaði og stórfyrirtæki, s.s. banka. Hvorki var boðið upp á Íslendingabát né meinafræðibát þannig að ég horfði bara á. Annars hef ég setið og unnið í ritgerðinni. Þetta þokast allt í rétta átt. Kveðja, Pétur.

Thursday, July 31, 2008

Hitabylgja

Mér skilst að það sé hitabylgja á Íslandi. Hvað þá hér í Amsterdam. Hér er heitt allan daginn og allt of heitt í vinnunni, viftan er stanslaust í gangi. Þaðan er það að frétta að ég fékk allt í einu þau skilaboð að ég ætti að fara á spítalann í Alkmar (lítill bær úti við sjó) eftir tvo mánuði til vera þar í ár. Það er svo í öllu/flestu? sérnámi hér í Hollandi að hluti fer fram á minni spítulum, þ.e.a.s. ekki eingöngu á sérhæfðu háskólasjúkrahúsunum. Samkvæmt skema átti þetta að vera frá og með september 2009 en hefur nú verið ýtt fram um ár vegna einhverra tilfærslna. Mér gremst þessar hrókeringar, aðallega stuttur fyrirvari, þó að mér sé í sjálfu sér ekki illa við að fara á þennan perifera spítala. Það þýðir lest 1 klst. hvora leið daglega. Var svo að basla við ansi svakalegt sýni af skurðstofunni; það samanstóð af öllum neðri kjálka með tungu og áfastur var smá hluti af koki, allur barki með skjaldkirtli, hálseitlar og aðeins af hálsvöðvum. Mæli ekki með reykingum og munntóbaki. Kv., Pétur

Tuesday, July 22, 2008

Rífandi gangur í ristilverkefninu

Ristilverkefnið gengur loksins ágætlega. Tími til kominn. Þrátt fyrir tölvuvesen og tölfræðileg vandamál er þetta á réttri leið. Sótti makkann úr viðgerð í dag. Það var búið að setja inn nýja makkastýrikerfið Leopard, sem ég var býsna ánægður með.

Var að enda við að elda og borða spaghetti carbonara. Ég mæli ekki með því að hollenski osturinn Old Amsterdam sé notaður í staðinn fyrir parmesanost. Þetta bara passar ekki saman.

Síðastliðna viku og þessa viku er krufningatörn hjá mér. Þetta hafa verið hálfgerð réttarlæknisfræðileg tilfelli. Þrisvar sinnum var um að ræða alkóhólista sem höfðu fundist meðvitundarlausir, þar af tveir sem höfðu dottið á höfuðið og hlotið mikinn heilaskaða. Loks var maður sem hafði keyrt á mótorhjóli á tré og hlotið alls kyns háorkuskaða. Eitt sjaldgæft tilfelli rak einnig á fjörur mínar, neurocoeliac disease ("glútenóþol" í heila), eða raunar er það spurningin sem svara þarf með krufningunni.

Framundan er heimsókn til Ásgeirs, til Vínar nánar tiltekið, þar sem hann er á danshátðinni Impulstanz. Þetta er stíf dagskrá með dansnámskeiðum og óteljandi danssýningum. Ég ætla reyndar ekki að fara á dansnámskeið á meðan heimsókninni stendur - var þó tímabundið að íhuga að skrá mig í eitthvað rosalega framúrstefnulegt. Sjáum hvað setur.

Kveðja, Pétur.

Thursday, July 17, 2008

Harði diskurinn ónýtur

Þá er það komið á hreint. Harði diskurinn er ónýtur og nýr verður settur í tölvuna, móðurborðið er í lagi. Tölvugaurinn hafði ekki séð svona tilfelli áður. Ég útskýrði fyrir honum hvað hefði gerst og hann taldi líklegast að sökudólgurinn væri forritið Paralell desktop, forrit sem keyrir Windows á Makka - slegið hefði í brýnu milli þessara tveggja tölvuheima. Sem betur fer vorum við Ásgeir með nýleg afrit af öllum ljósmyndum og allri tónlist auk þess sem ég hafði kvöldið áður tekið afrit af öllum ristilgögnum. Það sem tapast eru hlutir sem ágætt var að vera með, t.d. Microsoft-pakkinn (þurfum að redda honum upp á nýtt) og hin og þessi skjöl og gögn, t.d. heimilisbókhaldið. Mér var sagt að það myndi kosta stórfé að fá einhvern til að bjarga gögnum af harða disknum.
Mig langar til að ráðleggja öllum að taka reglulega afrit af tölvugögnum.

Wednesday, July 16, 2008

Tölvan ónýt?

Makkinn neitar að fara í gang eftir að hafa frosið í gærkvöldi. Þetta var óneitanlega svolítið áfall. Það eina sem gaurinn í tölvubúðinni sagði var að ástandið væri slæmt en vissi lítið um málið og benti mér á að fara með tölvuna á verkstæðið á morgun. Það er dæmigert að þetta árans tölvudrasl virki ekki þegar maður þarf mest á því að halda - aðeins mánuður í skiladag mastersritgerðarinnar. Sem betur fer tapaðist engin vinna þar sem ég hafði afritað allt ristildótið daginn áður og sem betur fer var Ásgeir nýlega búinn að taka afrit af öllum myndum. Eftir situr spurningin um hitt og þetta sem var í tölvunni og væri leiðinlegt að missa. Móðurborðið er víst ónýtt en vonandi hafa gögnin í tölvunni haldist heil. Þetta setur smá strik í reikninginn varðandi vinnuhraða á komandi dögum. Ég hef sem betur fer gamla PC-fartölvu sem ég get notað.

Kveðja, Pétur.

Sunday, July 13, 2008

Á kafi í rannsóknarverkefni

Hef setið hér við tölvuna alla helgina og velt fyrir mér tölfræði, faraldsfræði og framsetningu gagna. Verkefnið silast áfram, gengur ágætlega. Gott kaffi ásamt góðri tónlist og fallegu útsýni út um gluggann gerir þetta sæmilega notalegt. Borðstofuborðið er orðið að tölvuveri; hér eru tvær tölvur á borðinu, ein fyrir tölfræðiforritið og hin fyrir ritvinnslu og síðan er pappír í kring í bunkum. Skilafresturinn er um miðjan ágúst. Á þeim tíma verð ég í fullri vinnu þannig að ég verð að nýta helgar og kvöld vel. Jæja, best að fara aftur í verkefnið.
Kveðja, Pétur.

Thursday, July 10, 2008

Villtist á leiðinni heim

Hélt fyrirlestur í vikunni í vinnunni um eitla í ristilkrabbameini. Til að spara mér tíma ákvað ég að hafa fyrirlesturinn á ensku. Fyrirlesturinn gekk ágætlega. Einum sérfræðingnum þótti reyndar frekar slappt að ég skyldi tala á ensku og sagði að næst yrði fyrirlesturinn á hollensku. Stundum er ég svolítið þreyttur á þessu svo sem ágæta tungumáli - ekki síst undanfarið þar sem ég finn að mig vantar mikið af almennum orðaforða. Ég get talað tungumál vinnunnar en segi frekar oft ha - og ég er búinn að vera hér í 10 mánuði. ... Þetta kemur allt, samt þreytandi að bíða eftir því. Það er ergilegt að missa oft þráðinn þegar ég hlusta á umræður. Ég þyrfti eiginlega að fara að lesa eitthvað á hollensku eða horfa meira á sjónvarp - ég bara nenni því ekki.

Hef verið með ýmis áhugaverð sýni. Fékk eitt sjaldgæft í gær, æxlisvöxt í eyrnagöngunum. Verð væntanlega að baksa með þetta sýni næstu vikurnar á meðan beinið verður í afkölkun og annarri vinnslu fyrir smásjárskoðun.

Hef hjólað ýmsar nýjar leiðir í vinnuna og heim undanfarið. Villtist allsvakalega í gær, vissi ekki hvar ég var og þegar ég spurði til vegar var ég í hinum bæjarendanum og stefndi í öfuga átt.

Kveðja, Pétur.

Sunday, July 6, 2008

Viðrar vel

Hér í Amsturdammi er heitt alla daga og hálfgerðar hitaskúrir suma eftirmiðdagana. Það er oft allt of heitt í vinnunni og viftan höfð í gangi. Ásgeir hefur verið hér í Amsterdam í rúma 10 daga en heldur á morgun til Vínar á Impulstanz danshátíðina í Vín sem stendur í 4-5 vikur. Af 1100 umsækjendum var hann einn af 60 manns sem hlutu styrk til að fara á hátíðina sem samanstendur af námskeiðum, danssýningum, vinnubúðum og fyrirlestrum. Svo fer ég í helgarferð til Vínar að hitta Ásgeir eftir nokkrar vikur. Við Ásgeir höfum nú síðustu daga haft gesti; Gulli kom óvænt og var hjá okkur í tvær nætur og Hjörtur kom frá Delft þar sem hann hafði verið á ráðstefnu. Svo héldum við upp á 26 ára afmæli Ásgeirs síðastliðna helgi, hér var partí og m.a. boðið upp á áfenga hlaupköku. Restin af henni var ekki sérlega lystug daginn eftir.
Það hefur eins og endranær verið nóg að gera í vinnunni og ég hef fengið ýmislegt áhugavert að fást við (t.d. ovarian teratoma with malignant transformation, mixed germ cell tumor í eista, flöguþekjukrabbamein í augnslímu, glomus tumor, 11 kg ovarial mucinous cystadenoma). Ristilverkefnið er komið á fullt skrið og ég vinn í því flestum lausum stundum enda tíminn orðinn knappur til að klára haustútskrift (Óskar, þú getur enn orðið til að útskrifast með MS á undan mér!).

Kveðja, Pétur.

Thursday, June 26, 2008

Óvænt afmælisgjöf

Ég á afmæli í dag. Til hamingju ég!

Fyrir 26 árum síðan fæddist í þennan heim yndislegi, litli, ljóshærði ég.

Í dag er ég ekki bara afmælisbarn heldur líka atvinnulaus. Ég kláraði nefnilega samninginn minn í Newcastle í gær og flaug heim í dag. Nú á ég 10 daga frí hérna í Amsturdammi áður en ég held til Vínar á stærstu danshátíð Evrópu, ImpulsTanz. Þar ætla ég að dansa, horfa á dans, hugsa um dans, tala, skrifa og dreyma dans í fimm vikur.

Í dag fékk ég líka óvænta afmælisgjöf. Óvænt er ekki alltaf gott. Þegar til Hollands var komið uppgötvaðist að farangurinn minn hafði týnst. Ekki gaman... púúúú á KLM og flugvallarstarfsmenn í Newcastle.

Kv. Ásgeir

Saturday, June 14, 2008

Toscana

Þá er ég nýkominn úr frábærri ferð til Toscana þar sem ég var í góðum félagsskap með Þorgeiri og Helgu (ásamt Eyjólfi og Gesti), Árna og Steinunni (ásamt Nínu), Óskari og Önnu (ásamt Atla), Sjonna og Tuma. Við leigðum stóra villu til tveggja vikna. Villan var staðsett miðja vegu milli Písa og Flórens. Þetta var stórt og frekar gamalt hús á tveimur hæðum með mjög fallegt útsýni yfir sveitina, sundlaug, stórt eldhús, sex stór svefnhergbergi á efri hæð og stóra stofu með arni. Þetta er fyrsta sinn sem ég kem til Toscana og er ég heillaður af þessu svæði eftir ferðina. Maturinn var frábær og hvar sem við komum var ótrúlegur menningararfur. Milli þess sem við fórum út að borða á ekta ítölskum veitingastöðum gerðum við okkar eigin ítalskan mat í villunni. Við grilluðum kálfakjöt, við bökuðum pítsur í útiofni og gerðum líka góðan mat í eldhúsinu. Það var eins gott að Helga er áhugasöm um ítalska matargerð enda nutum við góðs af því. Milli þess sem við slökuðum á í villunni fórum við í ferðir um Toscana til að skoða enda margt að sjá. Við fórum m.a. til Flórens, Písa, Lucca, Volterra, San Gimignano og Colle di Val d´Elsa. Ég hafði ekki áður gert mér fyllilega grein fyrir því hversu mikilvægt þetta svæði hefur verið í menningarsögunni, sérstaklega hvað varðar endurreisnina. Það var oft eins og maður væri kominn aftur í miðaldir eða á endurreisnartímann. Ég mæli eindregið með ferð til Toscana.
Kveðja, Pétur.

Tuesday, May 27, 2008

Newcastle

Ég var í Newcastle síðastliðna helgi. Ásgeir er þar tímabundið við vinnu. Hann leigir herbergi hjá fyrrverandi flamengodansara, Spánverjanum Raúl. Ég kom seint á föstudagskvöldið og var sóttur á flugvöllinn en Ásgeir býr í bæ við hliðina á Newcastle sem heitir Wallsend, samanber að þar endaði rómverskur múr sem markaði norðurenda Rómverska heimsveldisins. Enn í dag er hægt að sjá hluta veggjarins. Á laugardeginum skoðuðum við Newcastle, gengum um götur borgarinnar. Newcastle var verkamannaborg sem byggðist upp kringum kolavinnslu og skipasmíði. Nú til dags stundar varla nokkur þessar atvinnugreinar og flestir vinna við alls konar skrifstofustörf. Hollendingar hafa sérkennandi útlit og það er engin spurning að fólk í Newcastle hefur líka ákveðið yfirbragð; algengt var að sjá fremur kringluleit andlit, roða í kinnum, svolítið spik og karlarnir voru oft með lítið hár á höfði. Á laugardeginum var mikið af eirðarlausum unglingahópum í miðbænum og Goth-stíllinn var í tísku en Gilsinegger-útlitið var hvergi að sjá.
Við horfðum á Eurovision á laugardagskvöldið. Við bjuggumst eiginlega við að Ísland fengi fleiri stig. Verst var að sjá slepjulegt atriði frá Rússlandi hljóta flest stig. Skautarinn var einstaklega hallærislegur. Eftir Eurovision skoðuðum við aðeins næturlífið í Newcastle. Það var frekar dýrt og ekki að öllu leyti samkvæmt nýjustu tísku en skemmtilegt að sjá. Eftir frábæra helgi hjá Ásgeiri, þar sem raunar var einnig haldið upp á afmælið mitt, hélt ég heim á sunnudeginum.
Vinnan gengur sinn vanagang. Flest sýni sem ég hef fengið hafa verið býsna venjuleg. Það er merkilegt hvað það er mikið af sortuæxlum enda hefur þeim æxlum farið mikið fjölgandi. Það er gaman að einn meinafræðingurinn er mikill sérfræðingur í sortuæxlum og erfið tilfelli eru send frá öllu Hollandi og víðar til hans til mats. Það vill nefnilega svo til að oft er erfitt að greina þessi æxli og aðrar skyldar breytingar.
Kveðja, Pétur.

Thursday, May 22, 2008

Júró og fleira

Ísland komst áfram og Júróbandið stóð sig mjög vel. Ég hef ámálgað söngvakeppnina við fólk í vinnunni og ýmist virðist fólk ekki vita að keppnin sé í gangi eða segist ekki hafa áhuga - fyrir utan Alexi, deildarlækninn frá Georgíu, sem vildi að ég kysi Georgíu í kvöld. Hollenski þulurinn gerir mikið í því að segja eitthvað neikvætt um keppendur, talaði t.d. um botox-popp frá Svíþjóð og að söngkonan frá Póllandi hefði verið með tennurnar í bleikingu í þrjá mánuði fyrir keppnina. Hann talaði reyndar jákvætt um íslenska lagið og taldi að það kæmist áfram. Þeir Hollendingar sem hafa skoðun á keppninni tala um ofríki austur-evrópskrar blokkar, landa sem áður voru eitt en eru nú aðskilin og kjósa hvert annað. Ég held að þetta skýrist nú líka af metnaðarleysi í Vestur-Evrópu.

Hagsmunaöflum og sumum stjórnmálamönnum ætlar að takast að hafa áhrif á þróun Vatnsmýrarinnar og flugvallar í Reykjavík. Núverandi borgarstjóri, sem virðist ekki fulltrúi eins eða neins í Reykjavík, er alfarið á móti því að flugvöllurinn fari og ætlar að nota stuttan valdatíma til að bolta flugvöllin niður til eilífðarnóns. Í dag voru birtar myndir af fyrirhugaðri samgöngumiðstöð. Flugvöllurinn verður alveg við hliðina á hinum lágreista og víðfeðma framtíðarlandspítala. Var hugmyndin um þéttingu byggðar og tækifæri í Vatnsmýrinni draumur í dós?

Monday, May 19, 2008

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva

Í dag spurði ég einn meinatækninn hvort til stæði að fylgjast með Eurovision. Hún er um það bil 25 ára. Það kom mér á óvart að hún vissi ekki hvað Eurovision var og þegar ég sagði henni að það væri söngvakeppni milli Evrópulanda sagðist hún ekki hafa fylgst með þessu. Þetta var mjög skrýtið. Ég ætla að gera frekari stikkprufur í vinnunni á næstu dögum hvað varðar Eurovisionáhuga.
Kveðja, Pétur.

Sunday, May 18, 2008

Aftur einn í kotinu

Ásgeir fór tímabundið til Newcastle í morgun. Þar verður hann í nokkrar vikur í vinnu. Því er ég orðinn einn í kotinu. Ætla að vera rosalega duglegur næstu daga í ristilverkefninu. Svo skrepp ég næstu helgi til Newcastle til að heimsækja Ásgeir.

Inga Jóna kom við hjá okkur í gær og gisti eina nótt á leið til bróður síns í Groningen. Eftir kvöldmat skruppum við niður í bæ og skoðuðum næturlífið - fórum reyndar ekki í Rauða hverfið en nóg var að sjá á skemmtistöðunum kringum Leidseplein og Rembrandtplein. Á leiðinni heim duttum við inn á skondinn stað við Rembrandtplein. Þarna var mestmegnis fólk á aldrinum 20-25 ára. Um leið og við komum inn kom maður með hollenskt hár (lesist: fremur sítt hrokkið hár greitt aftur og bak við eyru) og reyndi að dáleiða Ingu Jónu með handahreyfingum. Seinna virtist sama trix virka á einhverja stelpu þarna inni en Inga Jóna lét ekki táldragast af þessu dyndilmenni. Við fengum okkur einn bjór þarna inni bara til að skoða og stemmningin var skrýtin. Það var skipt um lög á 1 mínútu fresti og það var allt frá jóðli og gömlum hollenskum lögum í bassaútsetningu yfir í nýrri tónlist af vinsældalistunum. Margir virtust kunna textana við lögin. Reglulega var stórum bjöllum yfir barnum hringt svakalega en án augljóss tilgangs. Einn bjór þarna dugði alveg og þetta var síðasti staðurinn á bæjarröltinu.

Fyrir liggur Söngakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva þessa vikuna. Ég hef aðeins fylgst með þessu og hlakka til að sjá hvernig íslenska hópnum gengur. Hollenska lagið er ekkert spes, mæli með því að haldið sé fyrir eyrun.

Annars er merkilegt að fylgjast með þróun fjármála á Íslandi. Til marks um verðbólguna og hækkun vöruverðs frétti ég af eins og hálfs árs gömlum bíl sem seldist nú á lítið eitt hærra verði en hann var keyptur á.

Kveðja, Pétur.

Friday, May 16, 2008

Veggjakrot

Eins og margir vita fylgdist ég grannt með þróun veggjakrots og umræðu þar að lútandi þegar við Ásgeir bjuggum í miðbænum. Var mér orðið nóg boðið strax fyrir mörgum árum en það er eins og ekki hafi soðið upp úr hjá almennum borgurum fyrr en á síðastliðnu 1-2 árum - enda ekki skrýtið þar sem bæði var um að ræða uppsafnað krot, aukið krot og óforskammaðra. Í umræðunni um veggjakrot, orsakir og lausnir, kom alltaf upp það viðhorf að borgin kæmi ekki til móts við krotara, hefði fækkað leyfilegum krotveggjum og með því að taka upp leyfileg og afmörkuð krotsvæði mætti að einhverju marki leysa vandann. Þessi rök fóru alltaf í taugarnar á mér því að reynslan sýnir að þetta hefur ekkert að segja og er meira að segja líklegt til að auka krot alls staðar í kringum leyfilegu krotsvæðin (Austurbæjarskóli er gott dæmi um þetta). Krotarar nota það sem afsökun og réttlætingu að einhverjir leyfilegir krotveggir hafi verið teknir af þeim og hér sé því um mótsvar að ræða og mótmæli. Þessi rök eru mikil einföldun því að það að stunda veggjakrot er eins konar lífsstíll og í leiðinni árátta sem felst í því að gera eitthvað sem vekur spennu, keppast við að krota sem víðast, samkeppni við aðra krotara og öðlast orðstír í krotheimum. Hvað varðar spennufíknina og samkeppnina er óhjákvæmilegt að gengið sé æ lengra í krotinu og meðal annars þess vegna hefur vandamálið vaxið. Af hverju einhverjir leiðast út í krot er sjálfsagt margþætt en snýst að einhverju leyti um lífsstíl aldurshópsins 11-18 ára og það sem er í tísku.
Til þess að minnka vandamálið þarf væntanlega að beita svipuðum aðferðum og varðandi reykingar, áfengi og fíkniefni - þ.e. að fá fram viðhorfsbreytingu innan hópsins. Áhrif foreldra skipta líka gríðarlegu máli.
Annar partur af núverandi vandamáli er að þeir sem fyrir krotinu verða gera lítið í því, leggja hvorki fram kæru né mála yfir krotið. Það hefur sýnt sig að ein besta forvörnin gegn kroti er að hafa ekkert krot á sínum vegg. Alls staðar þar sem krot er til staðar kemur meira krot í veldisvexti. Hvað varðar kærur tók lögreglan þessum málaflokki áður vettlingatökum og gáfust sumir því upp en það virðist breytt í seinni tíð. Þó er enn vandamál að mörg svæði og margir veggir, sérstaklega í fjölbýlum og verslunarhúsum, eru munaðarlaus, þ.e. enginn hirðir um það eða axlar ábyrgð. Þetta vill líka vera vandamál þegar eigendur og umsjónarmenn húsnæðis skoða aldrei eignir sínar og hirða bara gróðann af leigufé. Þannig virðist veggjakrotsvandinn einnig sumpart skýrast af viðbrögðunum. Ég man t.d. eftir því að þau þrjú ár sem við bjuggum á Laugaveginum var sama krot á framhlið verslunarhússins hinum megin götunnar.
Það verður fróðlegt að koma næst heim til Íslands og sjá stöðuna á veggjakrotsmálum. Hér í Amsterdam er veggjakrot víða en ég tek minna eftir því en í Reykjavík.
Kv. Pétur.

Tuesday, May 13, 2008

Áfram heitt

Það er áfram heitt í veðri. Þó birtust nokkur ský á himni í dag. Í vetur var oft kalt í íbúðinni okkar en nú er eiginlega of heitt. Ég er kominn í nokkurra daga vinnufrí til að komast í ristilverkefnið. Undanfarið hef ég séð nokkur áhugaverð tilfelli í vinnunni, m.a. Wilms tumor, malignant solitary fibrous tumor, serous cystadenoma í brisi og salpingitis isthmica nodosa.
Ásgeir hefur sótt danstíma á morgnana undanfarið og sinnt þar fyrir utan ýmiss konar skriffinsku og umsóknum. Hann fer næstu helgi til Newcastle til að vinna þar næstu vikurnar. Þess má einnig geta að við Ásgeir erum farnir að klippa hvor annan. Ásgeir klippti mig nýlega og ég síðan hann í gær.

Kveðja, Pétur.

Sunday, May 11, 2008

Siglt um síkin

Í gær var níundi góðviðrisdagurinn í röð. 27 stiga hiti og ekki ský á himni. Okkur er sagt að þetta sé óvenjulega gott veður hér.

Í gær fórum við í almenningsgarð með Báru vinkonu okkar. Borðuðum ís, vínber og melónu og lágum í sólbaði. Um eftirmiðdaginn fórum við síðan í bátsferð með hollenskum vinum okkar. Þeir sóttu okkur á bátnum og við sigldum um síkin í Amsterdam frá fimm til hálf ellefu. Báðir fengum við að prófa að stýra bátnum. Við borðuðum um borð í bátnum. Í forrétt fengum við ostrur og svo melónur og hráskinku. Í aðalrétt var pastaréttur og í eftirrétt var ljúffeng súkkulaðikaka sem Ásgeir hafði bakað. Við sigldum um alls kyns síki og líka á ánni Amstel sem rennur gegnum borgina. Borgin er öðruvísi á að líta séð frá síkjunum og margt nýtt að sjá. Bátaeign hér er fremur almenn og ekki aðeins á færi hinna ríkustu. Því má sjá í góða veðrinu opna báta af ýmsum stærðum sigla um síkin. Ekki er óalgengt að hálfgerð partí séu haldin í sumum bátanna. Amsturdammur er fallegur á sumrin og hefur aðra ásýnd en á veturna.

Síðastliðna helgi var mannmargt hér á bæ því að hér gistu fjórir gestir. Það vill svo til að við erum óvanalega vel búnir dýnum og sængum. Þetta voru Jakob og vinir hans frá Barcelona sem komu í helgarferð til Amsturdamms. Þeir nutu auðvitað góða veðursins, skoðuðu næturlífið og fóru í stórt partí sem haldið var í gamalli aflagðri kirkju.

Framundan eru vonandi sem flestir sólardagar. Kveðja frá Amsturdammi, Pétur og Ásgeir.

Saturday, May 3, 2008

Ný blóm

Á frönsku svölunum okkar hanga blómapottar. Í byrjun árs tók ég mig til og plantaði túlípanalaukum í íslensku fánalitunum. Bláir túlípanar yst, þá hvítir og svo rauðir í miðjunni. Við biðum spenntir eftir því að þeir blómstruðu en þegar loks kom að því þá blómstruðu þeir í vitlausum litum, hver á sínum tímanaum eða bara ekki neitt. Blái liturinn, fjallabláminn varð fjólublár. Hvíti liturinn, ísinn varð pissugulur og rauði, eldurinn í iðrum jarðar hélt sig neðanjarðar.

Núna hef ég ákveðið að gera aðra tilraun. Ég fór í hollenska Blómaval (Intratuin) og keypti fimm gasaníur (held ég að þær heiti), þrjár gular og þrjár rauðar. Ég sá reyndar nokkur önnur skemmtileg blóm í búðinni og er að spá í að skipta í ágúst og fá mér hengiblóm.

kv. Ásgeir

Hér fylgir mynd.

Wednesday, April 30, 2008

Drottningardagurinn

Í dag er Drottningardagurinn í Hollandi. Ég var búinn að heyra um þennan dag fyrir löngu og var því forvitinn að sjá stemmninguna. Við Ásgeir fórum og gengum um miðbæinn í dag. Götur út um allt eru fullar af fólki. Á þessum degi er leyfilegt að setja upp sölubása hvar sem er og selja alls kyns dót. Auk þess er áfengi selt í stórum stíl. Við vöknuðum í morgun við að það var búið að búa til lítið partí hér í götunni okkar með gettóblaster og stemmningu. Fullt af fólki er í appelsínugulum fötum (appelsínugulur er litur Hollendinga) og öll torg eru stútfull af fólki. Víða eru plötusnúðar og það er rosaleg djammstemmning hérna sem teygir sig yfir stórt svæði. Sums staðar var svo þröngt að við komumst varla áfram. Um sýkin sigla stórir og litlir bátar með fullt af fólki og stóra gettóblastera með djammtónlist. Djammstemmningin byrjaði reyndar í gærkvöldi og það var greinilegt strax í gær að ferðamenn kæmu í stórum stíl til borgarinnar fyrir þessa hátíð. Bæði í gær og öll næstu kvöld fram á og fram yfir næstu helgi verða stór partí hér og þar. Gaman. Á morgun er líka frídagur. Í matvörubúðinni var búið að hreinsa áfengi úr hillunum. Í Amsterdam er Drottningardagurinn greinilega djammhátíð en þetta virðist vera meiri fjölskylduhátíð annars staðar enda fá börn að sjá í dag hér í Amsterdam, aðallega ungt fólk. Íbúar miðbæjarins fara oft til útlanda á meðan hátíðinni stendur.

Síðan við komum heim frá Madríd hefur verið gott veður, upp undir 20 stiga hiti suma daga og sól. Það er orðið sumarlegt um að litast og bjart langt fram á kvöld. Ásgeir er kominn heim og undirbýr alls kyns umsóknir og eldar góðan mat. Keyptum mintulauf á markaðnum síðustu helgi og við höfum fengið okkur Mohito. Nennum reyndar ekki að elda í kvöld og ætlum bara að fá okkur pítsu. Á morgun vinn ég í ristilverkefninu góða. Vinnan gengur vel - alltaf er frekar mikið að gera. Ég hef haft nokkur áhugaverð tilfelli, t.d. struma ovarii, Peutz-Jegher polyp, lifrarbólgu C með skorpulifur, gliosarcoma og AML.
Kveðja, Pétur.

Thursday, April 17, 2008

Twinsz og Madríd

Ásgeir var hér í Amsterdam síðastliðna helgi. Honum gekk stórvel í prufu fyrir dansverkefni í haust hér í Hollandi þannig að hann fékk starfið. Nú er hann staddur í Madríd til að sýna verkið Mur og ég fer þangað á morgun til að sjá danssýninguna og auðvitað hitta Ásgeir. Þetta er fyrsta skipti sem við báðir komum til Madrídar - verður mjög gaman.
Ég sit núna fyrir framan sjónvarpið. Í hollensku sjónvarpi er mikið af alls konar Idol-þáttum. Nýjasta útspilið er Idol bara fyrir eineggja tvíbura, kallast Twinsz. Hugmyndin er sú að mynda band samsett úr þremur tvíburapörum. Einhvern veginn hefur þeim tekist að hóa saman um 10 tvíburum með misjafna sönghæfileika en ágæta danshæfileika sem vilja reyna fyrir sér í skemmtanabransanum. Það er frekar skrýtið að sjá svona marga eineggja tvíbura saman á sviði. Í salnum er síðan hellingur af tvíburum sem hafa verið fengnir til að horfa á og mynda part af valkerfinu fyrir utan dómarana. Þess er vandlega gætt að tvíburarnir séu svipuðum eða eins fötum. Það verður forvitnilegt að fylgjast með þessu. Ég spái því að tvíburabandið komi til Íslands síðan í sumar og stígi á stokk.
Það hefur verið nóg að gera í vinnunni það sem af er þessa viku. Hef séð m.a. Fordyce spot, basal cell adenoma, spindle cell carcinoma, malignant epitheloid GIST og pulmonary veno-occlusive disease.
Kveðja, Pétur.

Sunday, April 13, 2008

Ferðalög

Ég var í Barcelona síðastliðna helgi; heimsótti þar Ásgeir og horfði á danssýninguna sem sett var á svið í stóru leikhúsi í miðbæ Girona sem er rétt hjá Barcelona. Mjög skemmtileg sýning. Ég kom reyndar einum sólarhring fyrr en til stóð og kom Ásgeiri á óvart þegar ég mætti óvænt síðla kvölds. Á laugardeginum fórum við til Montserrat sem er klaustur hátt í fjöllunum fyrir ofan Barcelona. Við fórum upp með kláfi og útsýnið var frábært í sólinni. Við hittum Xavier og Jakob sem hefur það mjög gott. Á sunnudeginum fór ég til Amsterdam en Ásgeir fór til Newcastle í prufu sem gekk vel svo að Ásgeir fékk þar vinnu í maí-júní. Þar var hann í vikunni í undirbúningsvinnu, gisti á farfuglaheimili og kynntist stéttaskiptingu Norður-Bretlands, óskiljanlegum framburði og skringilegum herbergisfélögum. Hann kom svo hingað til Amsterdam nú um helgina og fer til Barcelona í fyrramálið og þaðan til Madrídar á miðvikudag. Ég fer svo til Madrídar á föstudaginn, sé sýninguna aftur og við dveljum þar svo um helgina. Þetta verður fyrsta skipti okkar Ásgeirs í Madríd. Það er því mikið um ferðalög, ekki síst hjá Ásgeiri. Það hefur verið frábært að vera hér í Amsterdam saman um helgina. Veðrið hefur verið gott, sólskin og 4-13 stiga hiti eftir tíma dags.
Það var mikið annríki í vinnunni þessa vikuna og ég þurfti að vinna öll kvöld frameftir. Nokkur áhugaverð sýni sá ég, m.a. juvenile xanthgranuloma, pilmatricoma, molluscum contagiosum, rudimentary polydactyly, small cell þvagblöðruæxli, Warthin´s tumor, Pott´s disease, anemia perniciosa, smágirniscarcinoid og svo helling af venjulegri sýnum. Fyrir utan úrskurð sem tók til um helmings af vinnutímanum fékk ég um 70 sýni til smásjárskoðunar, sem sagt nóg að gera.

Tuesday, April 1, 2008

Vinnudagur.

Í kvöld var enn eitt sérkvöldið. Í síðastliðinni viku var meinafræðikvöld, svokallaður svartur kassi þar sem meinfræðideildir á Amsterdamsvæðinu hittast og fara yfir erfið tilfelli sem lögð eru fyrir skarann. Þá fáum við fyrirfram kassa með um 15 tilfellum og eigum að finna út hvað er á ferðinni en sá sem sendi inn tilfellið kynnir og gefur síðan rétt svar og fræðslu í leiðinni. Frekar sniðugt. Í kvöld var svo lifrarkvöld en þau eru haldin á um 2-3 mánaða fresti þar sem farið er yfir áhugaverð lifrartilfelli af Amsterdamsvæðinu. Þau kvöld eru blanda af klíník, röntgen og meinafræði. Það er sem sagt lítið að frétta nema bara hitt og þetta í vinnunni. Fyrir áhugasama hef ég augum litið í dag MPNST, aspergilloma, fibrinopurulent pleuropericarditis, pneumonitis, cystic media necrosis og svo framvegis.

Stuðið heldur áfram í krufningasalnum. Til að geta deilt þessu með ykkur varði ég dágóðum tíma á netinu við að finna út hvað þessi lög heita sem óma um salina, hér er það sem ég fann:
http://www.youtube.com/watch?v=1XZ7gi1VRwU&feature=related
http://www.youtube.com/watch?v=IN5EkH3lATY&feature=related
http://www.youtube.com/watch?v=FS2Z_4ZfkyE
Kveðja, Pétur.

Sunday, March 30, 2008

Á sunnudegi

Ég er búinn að vera rosalega duglegur í dag; þreif íbúðina hátt og lágt, búinn að þvo þvott, strauja skyrtur og keypti í matinn. Ég þreif meira að segja örbylgjuofninn. Meðfram hef ég hlustað á góða tónlist og kíkt aðeins á netið. Í gær fór ég á námskeið í taugameinafræði fyrir deildarlækna í meinafræði sem haldið var í Nijmegen, borg sem er nálægt landamærum Hollands og Þýskalands. Þetta var mjög fínt námskeið sem stóð allan daginn. Það er líka gaman að hitta deildarlæknana frá hinum háskólaspítulunum og njósna um aðstæður og bera saman. Á eftir ætla ég að snæða pítsu en síðan ætla ég að vinna í ristilverkefninu.
Fylgist einhver með Lost? Við Ásgeir höfum fylgst spenntir með frá byrjun og horfum nú alltaf á nýjustu þættina á netinu. Alltaf verður þetta skrýtnara.
Kveðja, Pétur.

Friday, March 28, 2008

Föstudagur

Nú er krufningalotunni lokið, a.m.k. í bili. Enn fleiri áhugaverð tilfelli hafa komið í ljós, m.a. "cardiac sarcoidosis" sem til stendur að skrifa grein um. Næsta vika fer í að ljúka krufningaskýrslum og svo fer ég í helgarheimsókn til Ásgeirs. Það var óvænt að mamma hans Ásgeirs ákvað að drífa sig í helgarferð til Barcelona að hitta Ásgeir, hún lendir rétt á eftir.
Ég hef ekkert orðið var við læti út af þessari hollensku mynd um kóraninn og múslimatrú. Ég gerði tilraun til að finna myndina á netinu en hún virðist hafa verið fjarlægð víðast hvar.
Síðdegis í gær fór ég til Utrecht á námskeið í að kódera fyrir meinafræðigagnagrunninn hér í Hollandi. Það er nefnilega svo að allar meinafræðirannsóknastofur í Hollandi nota tölvukerfi þar sem niðurstöður eru skrásettar og fara inn í gagnagrunn. Þannig get ég séð hvort sýni frá sjúklingum sem ég kem að hafi einhvers staðar og einhvern tímann áður farið í rannsókn. Segjum t.d. að ég fái til rannsóknar eitil með meinvarpi. Þá get ég farið í tölvuna og séð hvort sjúklingurinn hafi einhvers staðar í Hollandi farið í aðgerð þar sem sýni sem innihélt frumæxlisvöxt var fjarlægt. Þetta er mjög gagnlegt. Heima á Íslandi eru þrjár meinafræðirannsóknarstofur en gagnagrunnarnir eru ekki tengdir þrátt fyrir smæð landsins. Með því að hafa einn meinafræðigagnagrunn fyrir allt Holland skapast áhugaverðir möguleikar og hægt er að leita að sjaldgæfum sjúkdómum og athuga með fljótlegum hætti tíðni ýmissa sjúkdóma.
Á morgun er svo annað námskeið sem fer fram í Nijmegen. Það er ívið áhugaverðara, dagsnámskeið í taugameinafræði sérsniðið að þörfum unglækna í sérnámi í meinafræði.Eini gallinn er að ég hefði verið til í að sofa út á morgun en þarf í staðinn að vakna klukkan sjö.
Það er fróðlegt að fylgjast með verðbólgu- og niðursveifluástandinu á Íslandi. Menn hafa orðið varir við þetta hér í Hollandi og ég var t.d. spurður um þetta í vinnunni í dag.
Svo datt mér í huga að setja inn tengil á neðangreint lag sem hefur verið vinsælt hér í Hollandi að undanförnu, bara svona til að sýna ykkur hvað er í gangi:
http://www.youtube.com/watch?v=ybmIKkfUzCk&feature=related
Kveðja, Pétur.

Wednesday, March 26, 2008

Tónlist í vinnunni

Að lokinni þessari viku klára ég krufningatörnina og fer í hina venjubundnu vinnu. Ýmislegt er lýtur að krufningunum er öðruvísi hér en heima. Sumt mislíkar mér en annað er ágætt og ég hef lært margt nýtt. Eitt af því sem mér finnst þreytandi er að það eru nánast alltaf áhorfendur. Aðra hverja viku eru hér um bil 12 læknanemar og salurinn því fullur af fólki. Ef það eru ekki læknanemar þá eru hjúkrunarfræðingar, löggur, slökkviliðsmenn, starfsfólk af deildinni eða aðrir í kynningu. Í stað þess að geta byrjað vinnuna strax í upphafi vinnudags þarf ég að bíða á meðan læknanemarnir fá klukkutíma kynningu á mánudagsmorgni og aftur þriðjudagsmorgni. Dragist krufning á langinn á þriðjudögum (m.a. vegna læknanemakynningarinnar sem getur dregist fram úr hófi) missi síðan ég af hádegiskennslunni sem við deildarlæknar fáum. Á þriðjudagsmorgnum eru fundir þar sem krufningar síðastliðinnar viku eru ræddar og sýnin skoðuð. Þetta eru fínir fundir - nema þegar læknanemarnir eru viðstaddir og ég sé að hinir deildarlæknarnir nenna síður að mæta þegar læknanemarnir eru á svæðinu. Það er nefnilega þannig að öll umræða fer niður á byrjendastig þegar þeir eru viðstaddir.
Í krufningasalnum eru hljómflutningstæki og í þeim ávallt einn og sami geisladiskurinn sem einn aðstoðarmaðurinn setur í gang þegar hann fer að ganga frá. Mér finnst lagavalið frekar skondið og þar má finna slagara eins og:
http://www.youtube.com/watch?v=zrCuZd9hed0&feature=related
Það er mjög fínt að í meinafræðinni vinna tveir ljósmyndarar og þeir koma um leið og maður vill láta taka mynd af einhverju. Eins er aðstaðan ágæt fyrir utan nokkur smáatriði.
Ásgeir er á fullu að dansa í Barcelona. Senn líður að fyrstu sýningu. Vignir heimsótti hann yfir páskana. Það hefur ekki verið sérlega hlýtt síðustu daga en síðan Ásgeir kom til borgarinnar hefur veður stundum leyft strandferðir. Ég held til Barcelona að heimsækja Ásgeir þarnæstu helgi - gaman, gaman.

Kveðja, Pétur.

Tuesday, March 25, 2008

Páskar

Það er lítið að frétta. Yfir páskana hef ég mestmegnis setið yfir tölvunni og unnið í ristilverkefninu, varla farið út. Mestur tími hefur farið í að læra á tölfræðiforritið SPSS og möguleika þess. Mér sýnist ég vera að ná tökum á þessu og nú er kominn nokkur skriður á vinnuna, loksins. Það hefur verið hálfkalt hérna og svo snjóaði lítillega í gær.
Ég ætlaði alltaf að bera saman nokkra hluti varðandi Landspítalann og spítalann þar sem ég vinn.
*Einn munurinn er sá að hér fær maður ekki ótakmarkað magn af spítalafötum heldur aðeins tvö sett af hverri flík sem tölvukerfi skammtar manni. Maður fær ekki hreinan fatnað nema maður hafi skilað inn því sem áður hefur verið úthlutað.
*Það er ágætt tölvukerfi hér þar sem hægt er að nálgast allar rannsóknarniðurstöður, læknabréf, aðgerðarlýsingar og slíkt en mér finnst skrýtið að innlagnarnótur eru ekki pikkaðar inn.
*Í Hollandi eru kennitölur ekki notaðar í heilbrigðiskerfinu. Allir eru reyndar með visst númer en það kemur frá skattinum. Þetta getur valdið ruglingi því að þegar sjúklingur innritast á sjúkrahúsið í fyrsta skipti fær hann númer sem er bara notað þar en ekki á öðrum sjúkrahúsum. Fyrst og fremst er stuðst við fæðingardaga og nöfn. Í meinafræðigagnagrunninum sem nær yfir allt landið getur einstaklingum slegið saman út af þessu. T.d. gerði ég krufningu um daginn þar sem öll líffæri voru til staðar en samkvæmt tölvukerfinu var búið að fjarlægja milta og hluta af ristli. Þarna hafði tveimur einstaklingum með algengt nafn og sama fæðingardag verið ruglað saman.
*Hér er engin stimpilklukka og maður fær alltaf full mánaðarlaun. Einu sinni á ári skilar maður skýrslu þar sem kemur fram hversu marga frídaga maður tók sér og þá er reiknað út hvort maður er í plús eða mínus hvað varðar frídagana.

Kveðja, Pétur.

Wednesday, March 19, 2008

Skriffinskudraugurinn

Skriffinskudraugurinn hefur látið á sér kræla. Sýklarannsóknastofan hefur nokkrum sinnum kvartað undan mér því að ég fylgdi ekki alveg reglunum: fyrir hvern sýklaræktunarpinna þarf ég nefnilega að fylla út sér beiðni. Dæmi: Ef ég tek sýni til sýklaræktunar úr hvoru lunga þarf tvær beiðnir með öllum tilheyrandi upplýsingum. Til samanburðar þá koma oft mörg ílát frá einum og sama sjúklingi til rannsóknar í meinafræðinni en bara ein beiðni þar sem er tilgreint hvað er í ílátunum. Eftir að kvartað var yfir mér þá fylgdi ég skriffinskureglunum enda yfirleitt lítið af ræktunum og í mesta lagi 3-4 beiðnir. Hins vegar vildi svo til að fyrr í vikunni þurfti ég að taka um það bil 20 sýkla- og bakteríuræktanir. Ég hafði engan tíma fyrir alla þessa skriffinsku þannig að ég sendi tvær beiðnir, eina fyrir veirurannsókn og eina fyrir sýklarannsókn. Einhver manneskja inni á sýklarannsókn froðufelldi yfir þessum skandal og á endanum fékk ég hjálp við að fylla út beiðnirnar og senda. Næst brá ég á það ráð að ljósrita og vita hvað myndi gerast þá. Þá var aftur hringt. Beiðnirnar eru jú í tvíriti og ljósrit duga því ekki. Telst þetta óhentug skriffinska eða hvað?

Saturday, March 15, 2008

Hvað er að frétta?

Það er nú ekki mikið. Ég hef verið með krufningar þessa vikuna. Í dag sit ég hér og vinn í ristilverkefninu, straujaði áðan skyrtur og þvoði þvott. Svo tókst mér að gleyma pasta á eldavélinni í hádeginu, allt vatnið gufaði upp úr pottinum og þetta var á góðri leið með að brenna. Ég er á bakvakt þessa helgi þannig að allt verður í rólegum gír (svo fremi sem ég læt ekki kvikna í). Á frönsku svölunum hanga blómapottar með túlípönum sem Ásgeir plantaði. Þeir stækka með hverjum deginum og springa von bráðar út. Þá verða íslenskir fánalitir hjá okkur.

Ásgeir er kominn með herbergi í Barcelona. Hann leigir hjá tveimur strákum frá Suður-Ameríku. Þeir eiga ofnæmisvaldandi kött. Það eru hlýindi í Barcelona og Ásgeir fór á ströndina. Mestur tími fer þó í vinnuna sem er krefjandi því að stutt er í fyrstu sýningu og margt að læra og ná tökum á.

Jæja, nú ætla ég að fara út í búð og kaupa í matinn.
Kveðja, Pétur.

Sunday, March 9, 2008

Ásgeir í BCN

Ásgeir ferðaðist fór til Barcelona í morgun. Ekki er komið á hreint hvar Ásgeir verður en hann verður til að byrja með hjá Xavier. Ég sit hér í sófanum og sinni ristilverkefninu óendanlega en ég ætla að reyna að koma því verkefni frá mér sem fyrst. Vonandi verða páskarnir drjúgir hvað þá vinnu varðar. Fyrir liggur að venjast því að vera einn hér í Amsterdam. Einn liðurinn í því er að fara á tónleika í kvöld. Íslenska hljómsveitin Múm ætlar að stíga á stokk og það verður gaman að sjá. Ég fer bæði með Íslendingum og Frökkum sem við Ásgeir þekkjum hér. Ég hef ekki verið í krufningum síðastliðinn einn og hálfan mánuð en byrja á morgun aftur að gera krufningar og stendur það yfir næstu þrjár vikur. Svo get ég hlakkað til þess að fara til Spánar og hitta Ásgeir enda ódýrt og auðvelt að fljúga frá Amsterdam þangað.
Kveðja, Pétur.

Tuesday, March 4, 2008

Heimilislaus en hamingjusamur

Nú styttist óðum í að ég fari til Barcelona en húsnæðisleitin hefur ekki alveg gengið nógu vel. Mér stendur reyndar alltaf til boða að vera í litla gestaherberginu hans Xavier vinar okkar, þannig að ég enda nú ekkert á götunni (mamma, þú getur andað léttar). En þar sem ég á von á Vigni vini mínum í heimsókn um páskana og Pétri helgina eftir þá væri hentugra að vera í örlítið stærra herbergi. Xavier hefur verið mér innan handar í þessum húsnæðismálum og ætlar í dag að skoða fyrir mig herbergi sem er skammt frá þeim stað þar sem dansflokkurinn æfir.
Eins og ég sagði áðan hefur húsnæðisleitin hefur verið nokkuð strembin á köflum og sem dæmi má nefna að á mig hefur verið skellt i miðju símtali og stelpa sem ætlaði að leigja mér herbergi í íbúð sinni fyrir 280 evrur á viku (sem væri þá um 1120 evrur á mánuði!!!!!).
Það er hins vegar eitt sem slær allt saman út. Mér bauðst voða fínt herbergi á ágætu verði. Herbergið staðsett á besta stað, steinsnar frá ströndinni. Leigusalinn virtist líka alveg í lagi með að ég ætla bara að vera í íbúðinni í 5 vikur. Vá, næstum of gott til þess að vera satt. Sem það auðvitað var! Viðkomandi vildi að ég myndi sýna fram á að ég gæti væri borgunarmaður fyrir þessu. Til þess stakk hann upp á að ég myndi bara senda Xavier peninginn fyrir leigunni og tryggingunni. Ég átti svo að senda leigusalanum skannað afrit af færslukvittuninni. Leigusalinn sagði samt að færslan yrði að fara fram í gegnum Western Union money transfer eða Money Gram. Þessar peningasendinar er órekjanlegar og virka þannig að maður fær, á færslukvittuninni kóða sem maður gefur svo upp í hvaða útibúi þeirra í heiminum og hefur þá aðgang að peningunum (maður þarf reyndar líka að vita hvað upphæðin er há og hvaðan hún var send).
Xavier átti svo að borga leigusalanum þegar hann færi að skoða íbúðina ef honum litist á hana. Okkur Pétri fannst við sjá nokkur rauð flögg í þessum pósti og ákváðum að googla setningar úr fyrsta póstinum sem við fengum. Þá duttum við inn á þessa síðu. Þetta er spjallsíða stúdenta í Oxford. Mín samskipti við leigusalann eru nánast nákvæmlega eins og þessi sem Hannah lýsir á síðunni.

Hér er meira að segja fyrsta mailið sem ég fékk. Að öllu leyti eins og það sem þessi stúlka virðist hafa fengið, fyrir utan að ég var að leita á Loquo en hún á Gumtree.

Hello,
I saw your advert on LOQUO and i have an apartment that sweet what you
are looking for,let me know if you are still looking ,so that i can
give you details about the apartment.I await your response asap.
Joleen


Við höldum að þetta sé eitthvað Nígeríu svindl þar sem fólk situr á internet kaffihúsi og þræðir sinn lygavef. Það er voða fáránlegt að lenda í svona. Nú get ég varla skoðað húsnæðisauglýsingar lengur án þess að sjá svindl í hverju horni.

En þrátt fyrir að ég sé ekki búinn að finna íbúð þá er ég mjög hamingjusamur.
Ég hlaut nefnilega styrk til þess að fara á ImpulsTanz í Vín, stærstu danshátíð í evrópu. 9. júlí til 13. ágúst. Það voru yfir 1100 dansarar sem sóttu um að fara en einungis 67 fengu styrk. Ég tel mig því vera mjög heppinn. Þessi danshátíð er algjör suðupunktur í dansheiminum. Þarna koma fremstu kennarar og danshöfundar í evrópu og eru með námskeið og vinnustofur auk þess sem margir af flottustu dansflokkunum koma þangað og sýna. Styrkurinn felur í sér að ég fæ að sækja öll þau námskeið og vinnustofur sem ég vil, ég fæ frítt á allar sýningar, ótakmarkaðan aðgang að videosafni hátíðarinnar (sem telur yfir 250 dansmyndir), gistingu í Vín, ókeypis á fyrirlestra og fleira.

Ég er alveg í skýjunum.
Kv. Ásgeir

Wednesday, February 27, 2008

Mikið að gera

Það hefur verið mikið að gera í vinnunni undanfarna daga. Það hittist þannig á að á mér lenti hellingur af sýnum og í kvöld varð ég að vinna til hálf ellefu til að ná að vinna þetta niður. Af tilfellum sem ég hef séð á síðustu dögum eru sortuæxli, ristilæxli, lungnaæxli, brjóstaæxli, vangakirtilsæxli, tunguæxli, húðæxli, hóstarkirtilsæxli, fylgjur, leggangabelgur, lifrarsýni, ristill með sárum, hellingur af fæðingarblettum og margt fleira smálegt.
Kveðja, Pétur.

Sunday, February 24, 2008

Gamalt og gott

Rifjaði í gær upp teiknimyndir sem sýndar voru í sjónvarpinu þegar ég var barn.

Munið þið eftir Þrumuköttum:
http://www.youtube.com/watch?v=2Qd_IsxgAf8

Og Drekum og dýflissum:
http://www.youtube.com/watch?v=mfif5DiGMYc

Og Perlu:
http://www.youtube.com/watch?v=20BZID081Vk

Hver man ekki eftir He-man:
http://www.youtube.com/watch?v=JEsHUel04dY
Og ef ég man rétt höfðu flestir íslensk nöfn (Beini, ...). Svo er þarna inni á youtube einnig brot úr þáttum sem rifjast fljótt upp fyrir manni.

Svo voru Gúmmíbirnirnir:
http://www.youtube.com/watch?v=Eni0LHAS464

Transformers:
http://www.youtube.com/watch?v=ZhCtVq5iIa0
Hvað hétu þeir á íslensku?

Prúðuleikararnir:
http://www.youtube.com/watch?v=Uh_aG5MzPVM

Hvað var fleira?

Til Barcelona

Við Ásgeir höfum haft í nógu að snúast. Við fórum á fimmtudaginn í stórt matarboð til Shawna, bandarískrar konu sem við kynntumst hérna gegnum sameiginlega vini okkar. Palli, gamall vinur hans Ásgeirs, er búinn að vera í heimsókn. Meðal annars var haldið í Madame Tussauds þar sem fræga fólkið var skoðað og fylgst var með Söngvakeppninni heima á Íslandi af athygli. Síðast en ekki síst skrapp Ásgeir með mjög stuttum fyrirvara til Barcelona, eins sólarhrings ferð, þar sem hann fór í prufu og fékk vinnu við dansverkefni í nokkrar vikur í vor. Þetta er verkið:
http://www.thomasnoonedance.com/weng/06video/video.htm

Og loks framhald af síðasta bloggi: Haldið þið ekki að leigusalarnir okkar gömlu sem við hittum í síðustu viku hafi gefið okkur Búddastyttu. Fyrir þá sem ekki muna var sú íbúð hlaðin búddastyttum og alls kyns hlutum í nýlendustíl.

Tuesday, February 19, 2008

Næstum gripinn fyrir að borga ekki í lestina (óvart)

Nú er pítsa í ofninum og ég ætla að blogga lítillega á meðan við Ásgeir bíðum eftir að hún verði til. Það er að frétt að a allri vinnunni hér við að gera upp íbúðina er lokið. Ásgeir málaði klósettskápinn um helgina og í gær kom leigusalinn og hjálpaði okkur að hengja upp myndir (sem má bara gera á 60 cm fresti vegna þess hvernig veggirnir eru gerðir). Það er enn í bígerð að taka myndir af íbúðinni og setja hér inn á síðuna. Leigusalarnir skoðuðu svo íbúðina í gær og voru svo ánægðir að þeir ákváðu að bjóða okkur út að borða fyrir tvo á veitingastað hér í næstu götu. Ég fór loks í klippingu áðan, fór aftur á kínversku Hello Kitty-rakarastofuna eins og við Ásgeir köllum hana. Var orðinn býsna hárprúður.
Hef verið í eins konar aðlögun síðasliðna viku fyrir þann part vinnunnar sem tekur nú við eftir að krufningablokkinni lauk. Mér fannst þetta aðlögunartímabil of langt og var alveg að mygla. Deildarlæknar sem hafa unnið þarna lengur setja mann inn í vinnuna. Það var stundum ankanalegt að vita í vissum tilvikum meira en kennarinn og sumt í vinnubrögðunum finnst mér skrýtið. Fæ að vinna sjálfstætt á morgun.

Í kvöld ætlum við að hitta Jeroen og Melanie, gömlu leigusalana okkar sem leigðu okkur íbúðina sína þegar þau voru í Taílandi. Það stóð alltaf til að hitta þau og okkur skilst að þau hafi litla gjöf handa okkur, eitthvað með tælensku og hollensku ívafi. Það verður spennandi að sjá.

Metrókerfið hér í Amsterdam er ekki viðamikið, aðeins 4 línur, en svo heppilega vill til að einn metróinn stoppar rétt við heimili okkar og síðan rétt við spítalann þar sem ég vinn. Víða er hægt að komast í metróinn án þess að borga en af og til eru gerðar rassíur og þá eru metróinn stoppaður á einhverri stöð og allir beðnir að sýna miða. Þeir sem ekki hafa miða þurfa að borga háa sekt. Núna hefur verið skipulögð rassía á stöðinni næst okkur þrjú kvöld í röð. Fyrsta kvöldið brá mér mjög mikið því að ég hafði gleymt að láta stimpla kortið mitt. Ég fór út úr lestinni og sagðist hafa skilið kortið eftir í lestinni. Mér var þá gert að fara og finna það. Þar þóttist ég leita að kortinu og svo fór metróinn loks af stað og ég slapp, komst út á næstu stöð og gekk þaðan heim - frekar stressandi.

Thursday, February 14, 2008

Stutt færsla

Vildi bara láta aðdáendur síðunnar að við erum ekki búnir að taka myndir af íbúðinni eftir breytingarnar en látum af því verða um helgina.

Svo er hér smá listi yfir sumt af því hér í Hollandi sem ólíkt er því sem maður á að venjast:
1. Hollendingar ganga á skóm inni. Sennilega gengur barnið á hæðinni fyrir ofan um á gömlum tréklossum. Eins og Íslendingum sæmir förum við úr skónum hér heima og nágrannarnir í stigahúsinu urðu varir við þetta og sáu ástæðu til að spyrja sérstaklega út í þennan furðulega sið.
2. Hollensk klósett eru með stóra plötu ofarlega og aftan til í klósettinu svo að unnt sé að grandskoða hægðir og til að hindra að vatn skvettist upp þegar maður þú veist hvað.
3. Það þarf að panta tíma fyrir alls konar hluti - t.d. ef maður ætlar að stofna bankareikning eða fá að sækja skjal með kennitölunni sinni.
4. Ekki er hægt að kaupa Serjós í Hollandi nema í amerísku búðinni.
5. Ekki þarf að taka lán í banka (eins og á Íslandi) þegar maður kaupir kjúklingabringur.
6. Hér eiga allir að vera með heimilislækni annars er líklegt að einhver skrifstofublók einhvers staðar froðufelli.
7. Ungir hollenskir karlmenn nota mikið gel í hárið.
8. Stundum sést svo hávaxið fólk að það ber sig illa. Ein kenningin er sú að Hollendingar hafi verið aldir á sterakjöti.
Meira seinna.

Kveðja, Pétur.

Wednesday, February 13, 2008

Fyrir myndir

Ég hef ákveðið að taka áskorun og birta myndir af slottinu... í dag fyrir myndir og á morgun eftir myndir.

Hér er stofan okkar með frönskum svölum og gluggum út að síki.


Hér er aukaherbergið sem fyrri leigjandi notaði sem hjólageymslu.


Hér er hinn hlutinn ef stofunni. Inn af stofunni er svefnherbergið og þarna til hægri má sjá dyr inn í andyri


Hér er svo svefnherbergið okkar, við erum nú reyndar búnir að taka flugnanetið niður en það fer að líða að því að það fari upp aftur.


Hér eru þessar áður nefndu dyr og tvær til, hægra megin er klósettið en vinstra megin er vaskur og sturta


Hér er svo eldhúsið. Einhverra hluta vegna tekst mér ekki að láta þessa mynd snúa rétt. Ég treysti því að tæknitröllið Árni Grímur komi mér til bjargar.


dúúúúúúúúúúúíííí (lesist upphátt sem hátíðnihljóð)
Ásgeir

Friday, February 8, 2008

Búnir að fá nettengingu

Eftir rúmlega 4 vikna bið fengum við loks nettengingu í gær - loksins. Síðustu tvo mánuði hefur okkur gengið illa að nota netið hér heima og við höfum þurft að treysta á lélega og stopula tengingu hjá einhverjum nágranna okkar.
Ásgeir málaði íbúðina í janúar mestmegnis sjálfur. Það var mikil vinna því að allir listar og karmar (sem er mikið af) voru gráir en veggir hvítir. Það þurfti síðan tvær umferðir á allt. Íbúðin var þrifin í bak og fyrir og m.a. komu í ljós gamlir inniskór undir sófanum og eldgamalt ryk í haugum. Alls kyns aukaleg vinna fylgdi þessu, svo sem að þvo og strauja gardínur, spasla og þvíumlíkt. Mánudaginn var keyrðum við á litlum sendiferðabíl til Rotterdam og sóttum kassana okkar sem höfðu komið með skipi frá Íslandi. Sjóflutningurinn kostaði rúmar 30.000 krónur. Þetta voru 24 kassar með alls konar dóti, aðallega bókum, geisladiskum, fötum og eldhúsdóti. Þar sem núverandi íbúð er mubleruð og inniheldur allt til alls þurfum við ekki á öllu eldhúsdótinu að halda en höfum þó tekið upp mest allt og nú er orðið býsna heimilislegt hérna. Við keyptum líka flotta hillu í Ikea sem við gátum sett bækurnar okkar í. Garðar bróðir segir að heimili okkar sé lúxus miðað við híbýli hans í London. Garðar var nefnilega í heimsókn síðasliðna helgi sem var mjög gaman. Það er fljótlegt og ódýrt að koma hingað frá London svosem maður sér á steggjahópum og gaurahópum frá Bretlandi sem koma til að djamma í borginni. Við fórum með Garðari til Harlem sem er rétt fyrir utan borgina. Það er gamall og fallegur bær sem Harlem í Bandaríkjunum er kennt við. Þar komst ég í geisladiska á tilboði og keypti heilmikið af píanótónlist.
Krufningalotunni minni er lokið og ég er hérumbil búinn að klára allar krufningaskýrslur. Við tekur meiri smásjárskoðun og vinna við skurðstofusýni.
Þá er þess að geta að ég fór til Finnlands fyrir tveimur vikur yfir helgi. Þetta var framhaldsnámskeið í faraldsfræði krabbameina á vegum norrænu krabbameinsskránna. Þar flutti ég fyrirlestur um ristilverkefnið. Það kom sér vel því að ég var orðinn strand hvað varðaði ýmis mál. Gat ég fengið ábendingar og góðar athugasemdir. Námskeiðið var úti í sveit. Þar var boðið upp á gufubað og þeir sem þorðu (m.a. ég) máttu síðan fara ofan í vök á ísköldu vatni. Því miður missti ég í staðinn af fertugsafmæli Baldurs í París. Ásgeir lét sig hins vegar ekki vanta og fór sem fulltrúi fjölskyldunnar með rútu fram og til baka. Það var langt ferðalag sem verður ekki endurtekið. Auk þess að mála hér heima og ganga frá dóti hefur Ásgeir sótt danstíma og nú eru blikur á lofti um ýmis atvinnutækifæri í dansinum. Meira um það seinna þegar það skýrist.

Wednesday, January 16, 2008

Íbúdin málud

Vid Ásgeir áttum gód jól og áramót heima á Íslandi. Thad var frábaert ad hitta fjolskyldu og vini og fá gódan mat. Vid fengum margar gódar jólagjafir sem hafa reynst mjog vel. Ég fór til Hollands 2. desember en Ásgeir kom sídastlidna helgi. Thá var strax hafist handa vid ad mála íbúdina eins og vid hofdum lofad til ad fá mánadarleiguna laekkada. Ásgeir er heima og málar thessa dagana. Hann fékk lidsinni í dag frá Herberti og Kelly sem vid kynntumst gegnum hollenskunámskeidid sem ég var á í september. Veggirnir eru hvítir og gluggar og listar gráir. Thetta er toluverd vinna en gengur vel. Takmarkid er ad klára ádur en kassarnir koma frá Íslandi med dótid okkar.
Vid hofum verid internetlausir og reynt ad komast inn á net nágrannanna en thad hefur gengid brosulega undanfarid og thví hefur verid lítid um blogg og vid frekar lítid á Skype. Til thess ad fá internettengingu heima hofum vid thurft ad standa upp á stól og halda á fartolvunni út vid glugga. Thví er thetta blogg skrifad í vinnunni. Ég var reyndar ad panta internettengingu ádan en thví midur er thjónustan haeg, thurfum ad bída í 2-4 vikur eftir ad fá thrádlaust módem og tengingu. Verdid er hins vegar fínt og heimasími fylgir, kostar 28 evrur á mánudi, ótakmarkad nidurhal.
Meira seinna, kvedja, Pétur.