Thursday, September 11, 2008

Smá blogg

Við Ásgeir höfum brallað ýmislegt undanfarið. Í síðustu viku fórum við á tónleika með Madonnu á risastórum leikvangi hér í Amsturdammi. Þetta var mjög skemmtilegt, bæði mjög flott sýning og góð tónlist, þar á meðal mörg gömul lög í nýjum útgáfum.
Ásgeir er byrjaður að vinna í Arnhem, lítilli borg sunnan við Amsterdam. Þar æfir hann með dansflokki verk eftir Jens van Daele sem heitir einni höfuðsyndanna, Leti. Þetta er eins konar sería verka þar sem höfuðsyndirnar eru færðar í dans. Það verður samt ekki eintóm leti á sviðinu því að með leti er átt við ýmiss konar áhuga- og sinnuleysi. Þar sem Arnhem er í allnokkurri fjarlægð frá Amsturdammi gistir Ásgeir þar nokkrar nætur í viku. Sjálfur þarf ég að taka lest í vinnuna frá og með fyrsta október þegar ég fer að vinna í Alkmar, litlum ostabæ (sem reyndar er stærri en Reykjavík hvað varðar íbúafjölda) við sjóinn. Það er hluti af sérnáminu að vinna á minni spítala um skeið. Annars hefur eins og endranær verið nóg að gera í vinnunni. Ég hef verið í cýtólógíu síðustu þrjár vikur. Það er undirgrein meinafræðinnar. Venjulega er ég í svokallaðri líffærameinafræði (líka kallað vefjameinafræði) þar sem maður skoðar líffæri og vefi í samhengi. Í cýtólógíu (frumufræði) eru hins vegar stakar frumur skoðaðar. Oftast er um að ræða svokölluð leghálsstrok þar sem skimað er fyrir leghálskrabbameini og forstigsbreytingum þess með smásjárskoðun. Þá sér maður stakar frumur sem hefur verið klesst á smásjárgler. Síðan er reyndar margt annað skoðað ef ástæða er til, t.d. frumur í heila- og mænuvökva, fleiðruvökva, þvagi og svo fínnálarsýni úr ýmsum líffærum. Það vill svo til að meinafræðingar ná í sum þessara sýna þannig að ég farinn að hitta sjúklinga aftur og sting þá til að ná í sýni. Ég hef séð nokkur áhugaverð sýni, m.a. lymphoplasmocytosis í mænuvökva annars vegar vegna MS og hins vegar vegna Borreliosis, adenoid cystic carcinoma í munnvatnskirtli og smáfrumukrabbamein í fleiðruvökva. Flest sýnin eru reyndar heldur daufleg - alls kyns lausar frumur sem enga sögu hafa að segja. Til hliðar við cýtólógíuna er ég á eins konar húðrotasjón þessa dagana og sé því mikið af alls kyns húðkvillum. Hef séð ýmsar æðabólgur, húðbólgur og margt fleira.
Nú líður að því að ég komi til Íslands út af mastersverkefninu. Verð á Fróni síðustu vikuna nú í september og er því þessa dagana einnig að undirbúa það allt saman.
Þessa dagana eru margar fréttir af verkfalli ljósmæðra sem munu hafa dregist aftur úr almennri launaþróun miðað við menntun og annað. Ég skil ekki af hverju það þarf 6 ára nám til að verða ljósmóðir - 4 ár í hjúkrun og svo tveggja ára ljósmóðurfræði. Þetta virðist óþarflega langt nám í heildina fyrir afmarkað starf og mætti e.t.v. stytta í 4 ár, hafa ljósmóðurfræði sem sérstaka línu í hjúkrunarfræði. Í fréttum voru laun ljósmóður eftir samfellt 6 ára nám borin saman við laun hjúkrunarfræðings eftir 4 ára nám og 2 ára vinnu. Þar munaði ekki miklu, 10-20 krónum á mánuði. Mér finnst þetta í fyrsta lagi lítill munur og í öðru lagi er ég ekki viss um að einhver nýútskrifaður úr námi eigi endilega að hafa sambærileg eða hærri laun en einhver með 2 ára starfsreynslu. Menn þurfa að gera það upp við sig hvort ljósmóðurstarf eigi að vera hærra launað en starf hjúkrunarfræðings. Ef svo er gæti það stutt lengra nám og hærri laun. Sé svo ekki er ástæða til að stytta námið.
Kveðja, Pétur.

Thursday, September 4, 2008

Góðir dagar

Það er sko góð ástæða fyrir því að við höfum ekki bloggað að undanförnu. Við höfum einfaldlega haft annað og betra að gera, sem ég mun nú deila með ykkur hér.

Á föstudaginn síðasta komu þau Bjarki bróðir og Helga mágkona í heimsókn. Það má með sanni segja að þau hafi komið með góða veðrið með sér (þó ekki frá Íslandi) því það hafa ekki sést eins góðir dagar allan ágústmánuð. Sólin byrjaði að skína rétt áður en þau lentu á föstudeginum og hélst fram á mánudagskvöld. Það var gaman að sýna þeim borgina. Við gengum út um allt og vorum fljótlega búin að afgreiða öll fyrirhuguð fata- og gjafakaup. Við Pétur erum orðnir nokkuð sjóaðir í leiðsögumannahlutverkinu og það eru nokkrir staðir sem okkur finnst gaman að sýna gestum okkar: Blómamarkaðurinn við Singel, brýrnar við Amstelána, leðurblökubrúin rétt hjá húsinu okkar, Albert Cuyp markaðurinn, rauða hverfið, skakki barinn frá 17.öld, kastalinn á Nieuwmarkt, kínahverfið og svo auðvitað fínu síkin Heren-, Kaizer- og Prinsengracht.
Þrátt fyrir þó nokkra göngu náðum við sko heldur betur að slappa af. Við nutum þess líka að borða góðan mat, bæði hér heima og á fínum sushistað í kínahverfinu. Ég reyndi að sannfæra alla viðstadda um að prófa marglyttu sushi en það lét enginn til leiðast.
Á sunnudeginum fórum við til Haarlem. Haarlem er aðeins 15 mínútur frá Amsterdam með lestinni. Þetta er mjög rólegur bær sem stendur við bakka árinnar Spaarne og hefur þar staðið síðan á 10.öld. Það var mikil traffík á ánni og allir sem vettlingi, báti eða snekkju gátu valdið sigldu um í veðurblíðunni. Við fylgdumst með af árbakkanum en skoðuðum einnig endurbyggða myllu, kirkjur og torg. Á röltinu álpuðumst við óvart inn í rauða hverfi Haarlem. Það samanstendur af tveimur götum, og býður upp á klámbíó, hjálpatækjabúð og einn glugga með rauðu ljósi. Það virtist sem það hefði ekki verið mikið að gera hjá konunni í glugganum þennan sunnudagseftirmiðdag. Hún reyndi mikið að blikka Bjarka bróður þegar við gengum þarna framhjá. Þegar heim var komið elduðum við krækling með brauði og salati og var þetta í fyrsta skipti sem Helga borðaði ferskan krækling. Mér finnst skipta miklu máli hvernig kræklingur er eldaður. Við vorum sammála um að vel hefði tekist til.

Það var mjög gaman að fá Bjarka og Helgu í heimsókn. Ágústmánuður hefur tvímælalaust verið fjölskyldumánuður því Elín og Mamma komu fyrir 3 vikum.

Ásgeir