Sunday, December 27, 2009

Jólatrénu hent fram af svölum

Þá er kominn þriðji í jólum og við erum reynslunni ríkari. Vitum núna að við getum haldið jól og séð um jólamat. Við fengum hvít jól hér í Amsterdam. Ég var á bakvakt en hún var róleg, fékk aðeins tvö símtöl en þurfti ekki að fara niður á spítala. Á Þorláksmessu keyptum við jólatré. Það eina sem var í boði var jólatré í potti. Kallinn á jólatrésölunni sagði að svona væri þetta orðið nú til dags. Tréð kæmi bara í potti í mold. Ég keypti tréð í grennd við spítalann hélt svo á því út á næstu metróstöð (sem var í 20 til 30 mínútna fjarlægð) og var orðinn búinn í handleggjum og öxlum. Þegar heim var komið var fallega grenitrénu okkar umpottað þannig að það stóð lárétt á stofugólfinu. Síðan skreyttum við jólatréð og tókum upp vídeójólakort sem núna er á youtube. Ég losnaði úr vinnu í fyrra fallinu á aðfangadag og komst loksins heim. Við höfðum hamborgarhrygg með brúnuðum kartöflum á aðfangadag, graflax í forrétt og hrísgrjónagraut ("rísalaman") í eftirrétt. Maturinn tókst vel og við opnuðum svo alla pakkana sem voru undir trénu. Reyndar fórum við að taka eftir því á aðfangadag að tréð var ekki líflaust. Litlir maurar birtust af og til, sennilega vöknuðu þeir til lífsins í hitanum. Ég setti upp límbandsvarnargarð. Hann hélt þessum stöku maurum í skefjum en það dugði samt ekki til. Þá var annar ytri límbandsgarður settur upp svo og þykkt sjampó í stóru undirskálina undir blómapottinum. Við rúlluðum upp maurunum með límbandsrúllu til að ná ryki úr fötum. Þegar þetta reyndist ekki virka sem skyldi var stríðinu við maurana tapað. Þeir voru nú ekkert ógurlega margir (náðum kannski 80 maurum) en við nenntum ekki að standa í þessu og losuðum okkur við tréð í gær. Við tókum skrautið af trénu, settum poka utan um rótina og hentum því fram af frönsku svölunum, ofan af þriðju hæð og niður á gangstétt þar sem tréð hlammaðist í stéttina. Vonandi varð maurunum bylt við þetta. Þarna bíður þetta fallega tré en eftir því að vera hirt af ruslakörlum. Þetta er ábyggilega eina tréð á svæðinu sem er strax komið út. Það gerir svo sem ekkert til. Á næsta ári verður keypt gervijólatré (svo vorum við líka með pínulítið ofnæmi fyrir trénu).
Silla og Óli komu í mat á jóladag (hangikjöt auðvitað). Þau komu m.a. með uppstú, vestfirskar flatkökur og eftirrétt. Fyrr um daginn lágum við í leti og lásum. Í gær var afslöppunardagur og í dag kom Marianna (samstarfsfélagi úr vinnunni) í hádegismat ásamt manni sínum og systur. Við höfum spilað mikið lestarspilið þessi jólin. Mér hefur tekist að vinna Ásgeir einu sinni (af ótal skiptum). Síðan höfum við prufað Heilaspilið sem var í möndlugjöf og annað spil sem Silla og Óli komu með sem heitir Spurt að leikslokum (held ég). Ekki á morgun heldur hinn koma Andrés og Gulli í heimsókn og verða hjá okkur yfir áramótin. Við hlökkum mikið til.

Monday, December 14, 2009

Smá helgarblogg

Stutt blogg í símskeytastíl - klukkan er orðin allt of margt:
- Píanó komið heim í stofu. Við Ásgeir spilum jólalög fjórhent. Urðum að flytja til húsgögn.
- Ásgeir fór á fullt af danssýningum: í Rotterdam á þriðjudaginn, hér í Amsterdam í dag og Groningen á föstudag. Þar missti hannaf kvöldlestinni til Amsterdam. Gafst þá gott tækifæri til að kíkja út á lífið í Groningen með Ingu og fleira fólki úr dansinum.
- Fórum í bæinn um helgina og keyptum jólagjafir.
- Kristjana, frænka Ásgeirs sem er í námi í Delft, kom í kvöldmat í gær og gisti eina nótt. Ásgeir er orðinn snillingur að búa til Risotto. Við spiluðum lestarspilið (rosalega skemmtilegt spil).
- Will kom í kvöldmat.
- Fórum í kaffi til Sillu og Óla í kvöld. Ætlum öll að kaupa árskort á hollensk söfn.
- Búið að rigna heilmikið hér. Í dag þurrt en kalt.
- Ísland næstu helgi - hlakka til.

Sunday, November 29, 2009

Helgarblogg

Enn einni helginni að ljúka. Fór í gær í Body Pump í ræktinni - er allur lurkum laminn í dag, með harðsperrur og stirðleika. Við Ásgeir fengum gesti í mat í gærkvöldi; Renate og Sigrúnu. Renate býr í Rotterdam þar sem hún er í sérnámi í meltingarlæknisfræði og Sigrún er nýflutt hingað og er að læra hollensku áður en hún byrjar að vinna á kvennadeildinni á spítala í Amsterdam. Við Ásgeir fórum líka í bæinn í gær og ég keypti nýja síma og ... píanó! Loksins lét ég verða af því. Þetta var reyndar rafmagnspíanó en samt mjög gott að spila á það, hlakka til að fá það hingað heim næsta föstudag. Í dag fórum við svo niður í bæ á kaffihús og svo á danssýningu. Á morgun ný vinnuvika.

Monday, November 23, 2009

Færri blogg

Hef ekkert bloggað í meira en mánuð. Þetta er einhvern veginn lögmál flestra blogga; smám saman fækkar færslunum. Þetta blogg verður í stikkorðastíl - upptaling á því sem hefur gerst frá því síðast:
*Fór til Den Haag að horfa á kynningu á því verki sem Ásgeir er að æfa og sett verður á svið í febrúar (Danshöfundurinn Gabriela Maiorino).
*Kúrs í ónæmisfræði og bólgu í Groningen.
*Palli Einars kom í helgarheimsókn frá Íslandi.
*Horft á Wil og Grace með Ásgeiri og ýmsar bíómyndir.
*Matarboð hjá Valtý og Eddu í Houten.
*Sigrún Perla flutti til Amsterdam til að fara í sérnám í kvensjúkdóma- og fæðingalæknisfræði.
*Ásgeir dansaði á þremur sýningum ásamt fleirum í verki eftir danshöfundinn Bruno.
*Ferð til Barcelona til að hitta Xavier, afmælisveisla í Pýreneafjöllunum og fjallganga.

Og sennilega eitthvað fleira.

Sunday, October 4, 2009

Ásgeir kominn til Amsterdam, hættur í Alkmaar.

Ásgeir kom á föstudaginn, loksins. Hann var í London á námskeiði og svo vinnubúðum í Gautaborg.
Lífið á Nieuwe Achtergracht er því komið í góðan gír. Framundan er vinna hjá Ásgeiri ásamt öðrum dönsurum hjá danshöfundnum Gabriela Maiorino.

Sjonni var í heimsókn síðustu helgi. Auk þess sem kom fram í síðasta pósti fórum við í tveggja tíma kanósiglingu í frábæru veðri í útjaðri Amsterdam. Endurnar máttu forða sér undan okkur. Svo fórum við í dýragarðinn í Amsterdam - sem reyndist miklu stærri og áhugaverðari en ég átti von á. Þá fórum einnig á píanótónleika. Sjonni skrapp til Haarlem á mánudegi en þar reyndist allt hið áhugaverða vera lokað (alræmdar mándagslokanir sem við vitum núna um).

Hvað fleira? Jú, ég lauk vinnu í Alkmaar eftir ár þar. Þar var haldin kveðjuveisla í lok vinnudags þar sem ég fékk nokkrar gjafir; hollenska brandarabók, mjög flotta bók um brjóstameinafræði, blómvönd og bók þar sem allir starfsmennirnir voru búnir að skrifa hver á sína síðu eitthvað skemmtilegt, svo sem þakkir fyrir gott samstarf og óskir um velgengni í framtíðinni. Þetta var sérlega ánægjulegt og skemmtilegt. Ég sá um léttar veitingar sem Sjonni kom með frá Íslandi; þar var um að ræða alls kyns íslenskt nammi og svo smá smakk af harðfiski, lifrarpylsu og sviðasulta. Ég kem til með að sakna vinnunnar í Alkmaar - þar var mjög gott að vera. En mér finnst gott að þurfa ekki að ferðast 2 og hálfa klukkustund á dag héðan í frá.

Saturday, September 26, 2009

Reif buxurnar

Í einu eldra bloggi skrifaði ég um það hvernig spítalalóðin í Alkmaar er að hluta (svona 50%) til girt með hárri girðingu með gaddavír og til að komast í gegn þarf maður að fara í gegnum rammgerð hlið með göddum ofan á. Af einhverjum ástæðum er svo hliðunum lokað á kvöldin og þá þarf maður að fara út að framan og fara stóran krók til að komast á lestarstöðina. Enginn virðist vita af hverju þetta er svona, þetta er eitt af þessu skrýtna sem maður rekur sig á í útlöndum en heimafólki finnst sjálfsagt. Ég var seint á ferðinni og klifraði yfir hliðið líkt og ég hef reyndar oft gert áður. En núna var ég óheppinn - önnur buxnaskálmin festist í göddunum og það kom gat. Mig langar helst til að stoppa upp í lásana með drasli og eyðileggja þessi asnalegu hlið.
Sjonni er í heimsókn (ps hann biður að heilsa). Við fórum í gær á Ríkislistasafnið meðal annars. Í dag er förinni heitið í Amsterdamskóginn til að fara á kanó í lúxusveðri.
Pétur.

Sunday, September 20, 2009

Enn eitt helgarbloggið

Hvar á maður að byrja eftir stutt bloggstopp? Til dæmis með því að segja frá því að þarsíðustu helgi sótti Ásgeir um starf við dans hér í grennd við Amsterdam og fékk það. Það verðu að geta þess að það var á brattan að sækja; 400 manns sóttu um að fá að koma í prufuna, þar af fengu 150 að mæta á svæðið. Fyrsta val fór fram á föstudegi, næsta val á laugardegi og svo loks aftur á sunnudegi uns tæplega 15 manns voru eftir. Þá þurfti að velja 6 til starfans - og Ásgeir fékk auðvitað starfið. Danshöfundurinn heitir Gabriela Majorino (ég skrifa þetta ábyggilega ekki rétt).
Helgina þar á eftir komu Friðrik og Helga í heimsókn. Þá var auðvitað gert margt skemmtilegt, m.a. siglt um síki Amsturdamms á mótorbáti, gengið út um allt, slakað á og borðaður góður matur.
Ásgeir hélt til London síðustu helgi þar sem hann er búinn að vera á vinsælu dansnámskeiði. Hjá mér hefur verið mikið að gera í vinnunni. Ég á bara eina og hálfa viku eftir í Alkmaar - þá fer ég aftur á spítalann í Amsterdam. Fór í brúðkaup á föstudag, glæsilegar veitingar á litlum veitingastað í borginni sem var eingöngu nýttur í þetta, og síðan sigling um síki borgarinnar á gömlum lystibát. Í gær vaknaði ég snemma (þreyttur og myglaður) og fór á dagsnámskeið í nýrnameinafræði. Var svo þreyttur í gærkvöldi að ég gat varla staðið upp af sófanum. Framundan er ýmislegt en það helst að Sjonni kemur í heimsókn næstu helgi.

Sunday, August 30, 2009

Ferðamánuður

Þessi mánuður hefur verið mikill ferðamánuður. Í vinnunni sagði einhver í gríni að ég kæmi stundum til Hollands til að vinna aðeins. Ég er sem sagt búinn að fara til London, Stokkhólms og Graz, allt á 2-3 vikum. Ég fór í helgarferð til London til að hitta Jakob og Garðar bróður, gisti hjá Jakobi. Svo fór ég til Stokkhólms til að heimsækja Þorgeiri, Helgu, Árna og Steinunni. Þar gisti ég hjá Þorgeiri og Helgu. Ég hef komið oft til beggja staða þannig að ég hafði enga þörf fyrir að fara um allt eins og ferðamaður og gat notið þess að vera með öllum vinunum. Svo fór ég til Graz í Austurríki. Þar var ég í nokkra daga á kúrsi í brjóstameinafræði, frábært námskeið þar sem ég lærði mikið. Graz er líka skemmtilegur bær - get alveg mælt með því að fólk fari þangað. Ekki eru fyrirhugaðar ferðir á næstunni en reyndar fáum við heimsóknir, næstu helgi verða hér 2 vinkonur Ásgeirs sem koma til Amsterdam til að fara í prufu, svo koma Friðrik og Helga helgina þar á eftir og loks kemur Sjonni í lok mánaðarins.
Ásgeir var þennan mánuðinn 10 daga í burtu í Berlín. Þar tók hann þátt í verkefninu Bodies in Urban spaces. Í september fer Ásgeir á 2 kúrsa; einn í London og annan í Gautaborg auk þess sem fyrir liggja 2-3 prufur.

Sunday, August 9, 2009

Kanó í Amsterdamse bos

Við Ásgeir hjóluðum til útjaðars Amsturdamms í gær. Ferðinni var heitið til Amsterdamse bos (=skógur) þar sem við leigðum tvo einmenningskanóa. Skógurinn er langt undir sjávarmáli og um allan skóg liggur net af sýkjum. Svo rerum við eftir sýkjunum í frábæru veðri. Á leiðinni heim stoppuðum við á gamla ólympíuleikvanginum í Amsterdam (munið þið ekki eftir ólympíuleikunum í Amsterdam 1928?) þar sem fór fram Hið opna frjálsíþróttamót Amsturdamms. Héldum svo heim, borðuðum indónesískan mat og tókum Will og Grace maraþon, horfðum á svona 5 fimm þætti. Skoðuðum líka íslensku gleðigönguna á netinu sem virtist vera mjög skemmtileg.
Annars höfum við gert ýmislegt skemmtilegt okkur til dundurs. Ásgeir fór á ströndina á fimmtudag og síðustu helgi var auðvitað gleðiganga (gleðisigling!) hér í Amsterdam. Þá var mikið um dýrðir. Við fórum í frábært partí.
Sunnudeginum verður varið í þrif, frágang, matarinnkaup og þvott. Ásgeir heldur til Berlínar á fimmtudag til vinnu og verður þar í tæpar tvær vikur. Á meðan skrepp ég í tvær helgarferðir, fyrst til London og svo til Stokkhólms.

Um daginn gerðist atburður hér í Amsterdam sem staðfesti þá skoðun mína að maður eigi helst ekki að taka leigubíl á aðallestarstöðinni eða Leidseplein (lesist Lækjartorg). Það sem gerðist var að farþegi ætlaði að taka leigubíl á Leidseplein og leigubílstjórinn fór fram á 50 evrur fyrir ferðina (sem er auðvitað rugl innanbæjar því að startgjaldið er 7,5 evrur og ekkert bætist ofan á það fyrstu 2 kílómetrana). Leigubílstjórarnir eru oft einhverjir gaurar sem eru komnir í bæinn til að græða, ósjaldan einhverjir með glæpaferil að baki. Þeir fóru að rífast og það endaði þannig að farþeginn fór í burtu. Þá kom leigubílstjórinn (sem kunni Tai Kwon do) og sló í manninn í höfuðið að aftan, maðurinn féll niður og reyndist svo vera dauður! Við Ásgeir höfum slæma reynslu af leigubílstjórum hér (sjá eldri færslur!) og reynum í lengstu lög að taka ekki leigubíl.

Síðustu viku voru 5 krufningar, þar af voru tveir einstaklingar milli 40 og 45 ára aldurs sem létust úr kransæðastíflu. Það finnst mér ungt. Annars var mikið að gera - og ég sem hélt að það yrði aðeins rólegra þarna á sumrin.

Saturday, July 25, 2009

Billy

Við Ásgeir borðuðum ljúffengan mat í kvöld hér heima. Vitaskuld var það eitthvað sem Ásgeir eldaði. Hann fann uppskriftina í Jamie Oliver. Svo prufaði hann góða uppskrift af heimasíðunni hans Ragnars um daginn - ljúffengur réttur.

Holland hefur verið í fréttum heima. Sama er ekki beinlínis að segja um Ísland sem hefur vart borið á góma. Í DV var frétt um Hollendinga sem ætla að gera árás á Ísland og ná í IceSavepeningana. Ég las þessa síðu í gegn - greinilega samin af einhverjum með stórmennskubrjálæði. IceSavemálið hefur greinilega beint sjónum ruglaðra manna að litla Íslandi. Ég verð alls ekkert var við viðhorf af þessu tagi. Í augum flestra hér er IceSavemálið leyst, eða a.m.k. ekki á döfinni.

Ásgeir fór í vikunni og keypti bókaskápinn Billy í Ikea. Reiddi skápinn heim á hjóli - mikið afrek. Stofan okkar er orðin svakalega fín. Greinin mín um ristilkrabbamein (munur á hægri og vinstri hluta) er alveg að verða búin. Ég vinn að henni þegar tími gefst til og hún er alveg að verða tilbúin. Það verður frábært að klára hana.

Vinnan.. jú, það voru nokkur áhugaverð tilfelli þessa vikuna, t.d. útbreiddar fituembólíur í lungum eftir lærleggsbrot og aðgerð, nokkrar undirtýpur legbolsslímhúðarkrabbameins, vellus hair cyst, erythema chronicum migrans, palmoplantar pustulosis, atypical fibroxanthoma, goblet cel type hyperplastic polyp, nodular melanoma, mesonephric hyperplasia í leghálsi, anaplastic T frumu lymphoma, Kaposi sarcoma í forhúð.

Á næstunni Gay pride hér í Amsterdam, London, Stokkhólmur, Graz og síðustu 2 mánuðirnir í Alkmaar.

Thursday, July 16, 2009

Bloggið

Eru flestir hættir að blogga? Hér til hliðar er listi yfir ýmis blogg en flestir eru hættir.

Annars er allt gott að frétta. Það hefur verið aðeins minna að gera í vinnunni undanfarið og ég er yfirleitt kominn heim klukkan sjö. Við fórum síðustu helgi í kvöldmat til Valtýs sem er að læra barnalæknisfræði í Utrecht. Um þessar mundir erum við einu Íslendingarnir í sérnámi í læknisfræði í Hollandi. Það var mjög gaman að heimsækja Valtý og konuna hans, Eddu. Þau búa í þorpi rétt utan við Utrecht. Þetta þorp er fullkomið fyrir fjölskyldufólk og það var gaman að sjá hversu vel þau búa. Mér hafði verið sagt að það væri mjög gott að ala upp börn í Hollandi og svo sagði Edda mér að kannanir sýni að hollensk börn séu hamingjusömustu börn í heimi.

Við fórum á laugardaginn í danspartí á Melkweg en fyrr um daginn vann ég í enn einni greininni sem ég er að skrifa um ristilkrabbamein.

Vignir kom í heimsókn í dag og verður fram á sunnudag. Hér verður mikið stuð.

Svo er maður að spá í það hvað best sé að gera við peningana heima á Íslandi.... hmmm.

Saturday, July 11, 2009

Staatslotterij

O, vann ekkert í lottóinu hollenska, staatslotterij - hæsti vinningur var 24 milljónir evra auk fjölda smærri peningavinninga en ég vann ekkert á eina lottómiðann sem ég keypti á 15 evrur. Hæsti vinningurinn gekk reyndar ekki út (þeir draga ekki bara út á selda miða). Líkurnar á því að vinna stærsta vinninginn eru reyndar mjög litlar; maður þarf að hafa 6 tölustafi og tvo bókstafi rétta.

Ásgeir tognaði síðastliðinn sunnudag á ökkla og hefur verið mestmegnis heima þessa vikuna. Þetta kom sér mjög illa því að hann var bókaður í prufu í dag í Dusseldorf. Þrátt fyrir meiðslin fór Ásgeir með lest til Dusseldorf í morgun en ætlar að fara mjög varlega til að togna ekki aftur.

Síðusta helgi var mjög skemmtileg. Við fórum niður á strönd á laugardeginum, Zandvoort am Zee. Það er frábær strönd og sjórinn (Atlantshafið!) var meira að segja hlýr inn við land. Ég bjó til stórt sandfjall. Ásgeir og Inga æfðu dans en Kjarri tók myndir af öllu saman.



Í síðustu viku fór ég á námskeið, fyrst kvöldnámskeið í forstigsbreytingum vélindakrabbameins og svo á þriggja daga námskeið í sameindameinafræði. Framfarir í skilningi á sjúkdómum liggja í sameindalíffræði þannig að ef maður ætlar að vera með á nótunum er eins gott að setja sig inn í það efni sem fyrst. Það má segja að sameindameinafræði sé einu stigi lengra inn í líkamann en það sem ég geri dags daglega - en það er annars vegar að skoða vefina með berum augum og svo í smásjá. Sameindirnar sjást hins vegar ekki í smásjánni og þess vegna segi ég að þetta sé einu stigi lengra gengið.
Annars finnst mér stundum skondin sú vanþekking sem fólk hefur á því starf sem ég sinni. Það virðist til dæmis algengur misskilningur að halda að vefjasýni séu send í ræktun. Ræktun???? Jú, strok, vessar og vökvasýni eru send í sýklaræktun. Sýni frá sjálfum vefjunum eru sjaldnar send í sýklarannsókn en oftast í vefjarannsókn - skoðun á því hvernig vefur er byggður upp og hvaða sjúkdómar þar birtast.
En hvað hefur áhugavert drifið á fjörur mínar í vinnunni undanfarið? Granulomatous bólga í eista og eistalyppu, eitlaæxli í eista, teratoid carcinosarcoma í eggjastokk, serous krabbamein í legbolsslímhúð, rauðir hundar í húðsýni frá andliti, Meckels diverticulum með ectópískan brisvef, granulomatous bólga í lifur, phyllodes tumor í brjósti, tærfrumubrjóskkrabbamein, lifrarkrabbamein, legbolsslímhúð með anovulatory breytingar, dilateruð cardiomyopathia, hemochromatosis í lifur, lentigo maligna melanoma, pseudoangiomatous stromal hyperplasia í brjósti, aukabrjóst í handarkrika og ýmislegt fleira.
Og hvað stendur til nú um helgina. Jú, vinna í greininni sem ég er að skrifa. Hún fjallar um mun á krabbameinum hægra megin og vinstra megin í ristli og mun á gömlum og ungum ristilkrabbameinssjúklingum. Svo ætla ég í ræktina í dag.

Sunday, June 28, 2009

Ásgeir átti afmæli



Þetta hefur verið ein allsherjar afmælishelgi. Ásgeir átti afmæli á föstudag og ég var búinn að fá frí í vinnunni. Ferðinni var heitið til Zandfoort sem er strandbær hér í Hollandi. Þetta var óvissuferð en Ásgeir komst að því hvert við værum að fara þegar við komum á aðallestarstöðina. Við byrjuðum á því að fara í stóra sundlaug með rennibrautum, öldulaug og fleiru. Svo fórum við niður á strönd og busluðum í Atlantshafinu, sem var ekki nærri því jafnkalt og við bjuggumst við. Við skrifuðum í sandinn og sólbrunnum pínulítið. Þá héldum við aftur í bæinn og fórum í Vondelpark með hvítvín og Sushi sem við borðuðum með nokkrum vinum. Flúðum síðan undan úrhellisrigningu seint um kvöldið, fyrst undir næsta tré en síðan inn á veitingastað í garðinum þar sem við sátum þar til slotaði.
Á annan í afmæli fórum við til Alkmaar. Þar var miðaldahátíð og stór ostamarkaður. Búið var að dubba hluta miðbæjarins upp í miðaldastemmningu. Fjöldi fólks úr bænum var í búningum og þemað var drungaleg með holdsveiku fólki, plágu-jarðaför, kroppinbökum og vændiskonum. Ásgeir vildi komast þaðan út eftir 5 mínútur þar sem honum fannst þetta hræðilega leiðinlegt. Ýmsar spurningar vöknuðu, s.s.: Var svona mikill hávaði og áreiti á miðöldum? Voru götur svona troðnar af fólki? Gekk fólk um með hrossabresti? Eftir að hafa komið okkur út úr miðaldabrjálæðinu fórum við á bæjartorgið og smökkuðum allar tegundir af ostum og keyptum loks nokkra ljúffenga osta auk afmælisgjafar handa Ben, Frakka sem við þekkjum, en förinni var nefnilega haldið í afmælisveisluna hans um kvöldið. Við mættum fyrir utan Önnu Frank safnið klukkan átta og þar fór hópur fólks, afmælisgestir, um borð í veislubát sem siglt var um sýki Amstedam næstu tvo tímana. Boðið var upp á vín og veitingar. Því næst fórum við á galleríopnun á heimili einhverrar Wöndu, sem einn afmælisgesta þekkti. Þar var boðið upp á afganskan mat sem var ljúffengur. Því næstu fórum við á listaverkasýningu í antikraak-húsnæði sunnarlega í borginni. Antikraak er andheitið við hústöku en þá býr einhver í húsnæði sem ekki gengur að selja og gætir þess, þó aðallega þess að hústökufólk taki húsnæðið. Við héldum svo heim á leið, dauðþreyttir eftir daginn.
Nú er bara rólegur sunnudagur. Það hefur verið mjög hlýtt um helgina. Maður getur farið um á stuttermabol og stuttbuxum þó að komin sé nótt. Við sitjum nú hér og höfum opið út á svalir í hitanum. Ættum kannski að taka fram viftuna.

Sunday, June 21, 2009

Amsterdam, Ísland, NY, Amsterdam.

Hvar á maður að byrja eftir 4 mánaða hlé á bloggi?

Í stuttu máli fór ég til Íslands 23. maí. Það var tími til kominn að hitta Ásgeir! Á Íslandi:
-sá lokasýningu á verkinu Deadheads lament sem Ásgeir dansaði í ásamt bekkjarfélögum sínum.
-útskrift Ásgeirs í Borgarleikhúsinu og útskriftarpartí um kvöldið.
-brúðkaup Bjarka, bróður Ásgeirs, og Helgu.
-Bláa lónið.
-gönguferð upp að Glym á afmælisdaginn, sund í nýju sundlauginni í Mosfellssveit, kvöldmatur hjá mömmu og pabba og svo bíó.
-matur hjá Önnu og Óskari.
-viðkoma í meinafræðinni, að sjálfsögðu.
-hitti vini.
-fór á danssýninguna humanimal með Gulla og Andrési, og Ásgeiri auðvitað.
-góður matur og gestrisni í Álfabergi.
-borðaði langvíuegg.

Flugum frá Íslandi til NY 1. júní. NY:
-gistum á hóteli á Manhattan, fínt hótel sem við mælum með (Marcel at Gramercy).
-söngleikurinn Avenue Q.
-uppistand.
-danssýningin Fuerza Bruta.
-Empire State Building.
-rauðvín í Central Park.
-hittum oft vin okkar Ben Strothman sem býr í NY, frábær leiðsögumaður.
-hittum dansarann Will, vin Ásgeirs, í Brooklyn þar sem hann býr.
-Ellen´s diner með þjónum sem syngja Broadway lög.
-píanóbarinn Don´t Tell Mama.
-risakrabbi á sjávarréttastaðnum City Crab.
-Ásgeir sá í bakið á einhverjum frægum, ég engan.
-gengum út um allt; fjármálahverfið með Wall Street, Twin Tower staðurinn, Kínahverfið, Litla Ítalía, Greenwich Village, alls kyns breiðstræti, Broadway, Times Square, glæsiverslunarhús, Chelsea, Soho, risastórar byggingar, margt fólk, umferðargnýr og fleira og fleira.
-lærðum að gefa þjórfé.
-notuðum metró New York borgar og tókum taxa.
-Museum of Modern Art.
-Djamm
Frábær ferð. Flugum heim 8. júní, lentum í Dusseldorf og tókum lest til Amsterdam.

Síðan við komum heim: rólegheit, vinna, bíó í gær (Sunshine Cleaning), danssýning í Vondelpark, ný blóm á frönsku svölunum, kókosbrauð a la Ásgeir, gott veður og fleira. Fórum í gær á safn, Museum van Loon, sem er safn hér í Amsterdam er sýnir hýbíli mjög ríkrar fjölskyldu er stofnaði meðal annars Hollenska Austur-Indíafélagið sem hafði m.a. einkaleyfi á verslun í Asíu og þrælasölu.

Kv. Pétur.

Friday, May 22, 2009

Ams í dag, Rvk á morgun, NY eftir viku.

Fer loks til Íslands á morgun. Ásgeir fjarri í rúmar 6 vikur. Get ekki beðið eftir því að komast á klakann! Margt skemmtilegt liggur fyrir, m.a. leikhúsferð, steggjun, fjallferðir, Bláa lónið, brúðkaup Bjarka bróður Ásgeirs, útskriftarveisla Ásgeirs, afmælið mitt og síðast en ekki síst verður förinni heitið síðan til New York eftir vikudvöl á Íslandi. Ég hef aldrei komið þangað og Ásgeir hefur ekki komið til Bandaríkjanna þannig að við erum báðir mjög spenntir.

Jakob og kærasti hans Augusto voru í heimsókn síðastliðna helgi. Það var rosalega gaman að fá þá í heimsókn. Hér var Eurovision-kvöld, borðað íslenskt lambakjöt og farið á galeiðuna. Við skoðuðum Amsterdam á hjólum og höfðum það gott.

Þessa vikuna hef ég lagt kapp við að klára hitt og þetta í vinnunni fyrir fríið. Mér tókst að klára nánast allt fyrir utan tvær krufningaskýrslur sem fengu að bíða. Í dag var kapphlaup við tímann. Ég kláraði að skera sýnin á þremur klukkutímum og fór svo milli sérfræðinganna með smásjárgler til að klára hitt og þetta. Reglulega er gert frammistöðumat. Eitt slíkt var gert í dag og var sérlega jákvætt - gat ég ekki verið annað en hæstánægður. Ég hef verið duglegur að kría út námskeið sem þeir hafa verið tilbúnir að samþykkja og borga. Er ánægður með Alkmaar.

Fylgist vel með fréttum á Íslandi, meira að segja betur en þegar ég var á Íslandi. Alltaf verður málið ljósara, í stórum mjög dráttum varð einkavæðing á almenningseigum (sjávarútvegur og bankar) þar sem fram fór skuldsetning sem síðan lendir á almenningi. Að baki þessu bjó fyrst og fremst græðgi.

Koma svo, gott veður á Íslandi!

Wednesday, May 20, 2009

Léleg bankaþjónusta?

Ég ákvað að skjótast í bankann í gær, komst með herkjum úr vinnunni og ætlaði að millifæra á erlendan reikning. Ég fór í stóran banka í miðbæ Alkmaar, gekk að afgreiðsluborðinu og sagðist vilja millifæra á erlendan reikning. Þá var mér bent á viðskiptavinatölvu úti í horni. Ætlast væri til þess að maður sæi um allt slíkt sjálfur. Reyndar var til önnur tölva en hún var biluð. Þannig að það var aðeins til ein tölva í öllum bankanum til afnota fyrir viðskiptavini - og hún var auðvitað upptekin í dágóða stund því að þar var einhver kona að borga reikningana sína. Þetta var fáránlegt. Á meðan ég beið fjölgaði svo kúnnum sem þurftu að nota tölvuna en á meðan sátu afgreiðslukerlingarnar þrjár fyrir aftan afgreiðsluborðið sitt en gátu ekkert gert til að hjálpa viðskiptavinum sem tíndust inn, þeir áttu bara að fara í röð við tölvuna. Svo þegar kom að mér þurfti ég auðvitað hjálp við þetta en síðan strandaði ég fljótt aftur. Þá var fólk fyrir aftan mig orðið pirrað á biðinni þannig að ég ákvað að hætta þessu og fór - án þess að klára millifærsluna. Það hefði verið mjög fljótlegt og einfalt að fá bara hjálp gjaldkera við þetta.
Hvað var í gangi? Jú, þróunin í bankaþjónustu hér í Hollandi er sú að fólk eigi að gera allt sjálft á netinu og gjaldkerar í bönkum eru nánast útdauð stétt. Hollendingarnir í vinnunni segja að þetta sé vandamál. Gamalt fólk sem ekki kann á tölvu lendir í vandræðum og það er vonlaust fyrir börnin að fara með klynk úr sparibauknum í bankann til að leggja inn á reikning. Þó að netþjónustan sé fín þá var ágætt að geta nýtt sér þjónustu gjaldkera af og til. Ég er á móti þessari þróun sem er greinilega einhvers konar sparnaðarráðstöfun með niðurskurði á þjónustu.

Wednesday, May 6, 2009

Holland skattaparadís

Hollendingar eru aldeilis ekki ánægðir. Í baráttu gegn undanskoti undan skatti hafa Bandríkin gefið út lista yfir skattaparadísir og þar kemst Holland á blað. Ég var nú búinn að heyra það áður að hér væru mjög lágir skattar fyrir fyrirtæki og þess vegna tugir þúsunda póstkassafyrirtækja skráð hér en með starfsemi annars staðar. En Hollendingar voru sko ekki ánægðir með að lenda á þessum svarta lista og fjármálaráðherrann mótmælti, talaði um misskilning og sagði að fyrirtæki vildu vera hér út af góðri tungumálakunnáttu, háu menntunarstigi og nálægð Amsterdam og Rotterdam við góðar flugsamgöngur á Schiphol. Ég hef litla trú á þessum skýringum og tel að auðvitað skipti lágur skattur mestu máli. Hollendingar bjóða nefnilega upp á 25,5% skatt (sem er í lægra meðallagi) og hafa viljandi ýmis göt í skattalöggjöfinni sem gerir fyrirtækjum kleyft að sleppa við skattgreiðslur. Það er ekki skrýtið að almennir Hollendingar skuli vera hissa því að skattlagning á almenna borgara er alls ekki lág. Svo kom næsta frétt um að Bandaríkjamenn hefðu tekið Holland út af listanum og hollensk stjórnvöld töluðu um að misskilningur hefði átt sér stað. Hvaða pólitík ætli hafi farið fram þarna á bak við tjöldin?

Tuesday, May 5, 2009

Mamma og pabbi í heimsókn

Mamma og pabbi voru hér í heimsókn. Þetta hefur verið frábær helgi. Þau komu á fimmtudaginn í síðastliðinni viku, á drottningardaginn. Það er mikill partídagur hér í Amsterdam. Inn í borgina komu 600 þúsund manns og hér var stemmning sem minnir helst á verslunarmannahelgina, á götum, torgum og bátum á síkjunum. Við gengum um miðbæinn og skoðuðum stemmninguna í blíðskaparveðri. Fórum á ítalska veitingastaðinn hér handan við hornið um kvöldið. Seinna í ferðinni fórum við svo á frábæran indónesískan veitingastað hér í grenndinni. Sunnudagskvöldið elduðum við hér heima stóran hvítan aspas og íslenskt lambakjöt. Allt hið helsta í Amsterdam og utan borgarinnar var skoðað. Mamma og pabbi fóru til Alkmaar á föstudaginn að skoða ostamarkaðinn og líta í búðir. Svo fórum við víða um helgina á bílaleigubíl; við skoðuðum ekta hollenska bæi og þorp (Volendam, Hoorn, Haarlem, Leiden), fórum á blómahátíð í Anna Paulowna, sáum túlípanaakra og ótal vindmyllur og skoðuðum háa sandgarða og hollenskar strendurnar. Hér var ljúffengur morgunverður alla morgna og heppnin var með okkur hvað veður varðaði. Nú styttist svo í að ég fari til Íslands.

Sunday, April 26, 2009

Kosningar

Mér líst ágætlega á niðurstöðurnar úr kosningunum. Hið jákvæðasta er að það er mikil endurnýjun, konum fjölgar og nýr óspilltur flokkur kemst inn á þing. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði miklu í samræmi við það að hafa átt stóran þátt í að koma Íslandi á hausinn, hefði eiginlega mátt tapa fleiri þingmönnum. Það var mjög fínt að Sigurður Kári skyldi detta út en fáránlegt að hinn ömurlegi Árni Johnsen skuli haldast inni (er fólk bilað að kjósa þennan mann?). Af fleirum sem hefðu gjarnan mátt detta út má t.d. nefna Birki Jón Jónsson, Össur Skarphéðinsson, Björgvin G. Sigurðsson, ögmund Jónasson og Guðlaug Þór Þórðarson. Sjálfstæðisflokkurinn er enn og aftur með hlutfallslega fáar konur. Svo var athyglisvert hvernig fjölmiðlar útilokuðu Ástþór í kosningabaráttunni, það var hálfgert einelti.

Annars fylgist maður aðeins uggandi með fréttum af svínaflensunni. Samkvæmt hefur 81 dánið úr flensunni. Í einni fréttinni kom fram að í Mexíkó hefðu 59 (7%) dáið af 854 sem greindust með lungnabólgu. Sjálfsagt er fjöldi þeirra sem smitast en fær lítil eða engin einkenni mun hærri en 854. WHO lýsir yfir áhyggjum þar sem flensan er strax orðin útbreidd og óvanalegir aldurshópar hafa smitast (þ.e. ekki bara ungir og gamlir eins og í flestum flensum).

Hef verið býsna duglegur þessa helgina. Ég setti mér nefnilega það takmark að klára næstu grein um ristilkrabbamein. Ég er ekki viss um að það takist en ég er mjög langt kominn. Svo koma Mamma og pabbi næstu helgi í heimsókn, verða hér í fimm daga. Þau koma á drottningardaginn en það er mikill frídagur hér í landi, hálfgerður sautjándi júní.

Saturday, April 18, 2009

Bók

Kláraði í morgun bókina Konur eftir Steinar Braga. Þetta er óvenjuleg bók, spennandi. Ég bjóst við öðruvísi enda á bókinni og þegar ég kláraði hana henti ég henni frá mér. Mér leið ekki vel fyrst eftir lesturinn. Í stuttu máli fjallar þetta um konu sem er leidd í gildru, blekkt og hneppt í ánauð. Umhverfið er Ísland útrásarinnar. Ég á erfitt með að gera upp við mig hvort bókin fjallar um konur sem leiksoppa í veröld karlmanna eða raunverulega íslenskan almenning sem strengjabrúðu peningamanna.

Það hefur verið mikið að gera í vinnunni þessa vikuna. Hef líka séð nokkur áhugaverð tilfelli; elastofibrosis, nodular melanoma, balloon cell melanoma, leg með placenta increta, eosinophilic cholecystitis, sjaldgæft afbrigði af og graftarkýli í fylgju vegna Listeria-sýkingar. Ef ég ber saman við það sem ég sá heima er meira af öllu en samt í svipuðum hlutföllum, fyrir utan það að húðæxli eru miklu algengari.

Monday, April 13, 2009

Páskahelgi

Við Ásgeir erum búnir að hafa það mjög gott um páskahelgina. Hér hefur verið 15-20 stiga hiti, sól og frábært veður. Það var reyndar venjulegur vinnudagur hjá mér á föstudaginn langa (fáránlegt, ekkert frí!!) en eftir vinnu fórum við í Vondelpark og drukkum bjór með vinum. Þar var m.a. einhver frakki sem reyndist vera smásjársölumaður og var að reyna að selja mér smásjá á 30.000 evrur. Eftir það fórum við og hittum Renate og Róbert kærasta hennar, Renate flutti til Rotterdam fyrir skömmu síðan til að fara í sérnám í meltingarlækningum. Við fórum fyrst í túristagötuna og keyptum fáránlega dýrar pítsusneiðar. Ásamt þeim fórum við á lokakvöld Mediamtic, sem er eins konar gallerí. Þar lét ég spá fyrir mér, ég dey víst 86 ára gamall. Einnig lét ég farða mig sem aldraðan og fékk hárkollu með gráu hári. Þá var boðið upp á að maður skreytti sína eigin líkkistu, við Ásgeir nenntum því ekki.
Á laugardag fórum við í paintball. Það var mjög gaman. Anna Þóra, gömul vinkona Ásgeirs, sem nú er flutt til Amsterdam skipulagði litboltaferð í tilefni af afmæli kærasta síns. Ég var búinn að fara í litbolta áður á Íslandi og þetta var allt öðru vísi. Það voru margir mismunandi vellir sem við prufuðum, mjög gaman. Um kvöldið fórum við að sjá mjög spes danssýningu, meira um það síðar.
Í gær fórum við í árdegisbít (=brunch) hjá vinum okkar og fengum svo sjálfir gesti um kvöldið, Kjartan og Ingu, Önnu Þóru og James. Við vorum með íslenskt lambakjöt í aðalrétt. Anna Þóra kom með lax í forrétt og Inga með súkkilaðiköku í eftirrétt. Spiluðum svo spilið Hmmmmmbug, þar sem maður á að humma lög og hinir eiga að giska, mjög gaman.
Í dag heldur Ásgeir til Íslands og þangað kem ég eftir 5 vikur.

Sunday, April 5, 2009

Ásgeir kominn til Amsterdam

Þá er Ásgeir kominn til Amsterdam. Hann verður hér fram yfir páska. Við skruppum á markaðinn í gær og keyptum blóm. Elduðum svo kjúklingarétt og horfðum svo auðvitað á Lost, byrjuðum þar sem frá var horfið í nýjustu seríunni. Alltaf verður þetta skrýtnara. Er einhver annar en við sem fylgist með þessu? Ásgeir fór síðan eldsnemma í morgun með lest til Þýskalands í prufu fyrir vinnu næsta vetur. Vonum að allt gangi að óskum.

Það var mikið að gera þessa vikuna. Ég brenndi mat við eldamennsku og það kom hrikaleg fýla í íbúðina - var öll kvöld vikunnar að þrífa og lofta til að losan við þennan óáran fyrir utan síðastliðið mánudagskvöld þar sem ég fór í brúðkaupsveislu. Ég klæddi mig eins og Íslendingar gera venjulega þegar þeir fara í brúðkaupsveislu - í jakkaföt, skyrtu og bindi. Þegar ég kom í veisluna sá ég að ég var sá eini sem var svona "formlega" klæddur, að brúðgumanum meðtöldum. Gat nú verið.

Svo hef ég séð ýmis áhugaverð tilfelli í vinnunni, borderline phyllodes tumor, chronich interstitial pneumonia, neuroendocrine brjóstakrabbamein, glycogen-rich brjóstakrabbamein, Brenner tumor í eggjastokki og útbreitt sarcoidosis í krufningu, svo eitthvað sé nefnt sem ég man eftir. Síðan er merkilegt hvað mikið er um af húðkrabbameinum. Venjuleg húðkrabbamein eru svo algeng að þau eru ekki einu sinni talin með þegar fjallað er um það hversu algeng krabbamein eru. Ég sé yfirleitt á bilinu 1-5 á dag. Þar að auki sé ég yfirleitt nokkur sortuæxli á viku. Þetta er hálfgerður faraldur sem tengist væntanlega sólböðum og slíku.

Svo fékk ég um helgina ritrýnda grein um ristilkrabbamein sem ég ásamt leiðbeinendum skrifuðum í Læknablaðið. Þarf nú að breyta greininni í samræmi við ritrýnina en það ætti ekki að taka lengri tíma en daginn í dag.

Saturday, March 28, 2009

Flakkarinn bilaður

Á síðasta ári eyðilagðist harða drifið í makkanum. Nú er flakkarinn bilaður, fór tímabundið í gang aftur en núna fæst engin tenging. Leiðinlegt, bögg, vesen. Við Ásgeir höfum notað flakkarann sem geymslu fyrir gögn, fyrst og fremst bíómyndir og ljósmyndir, en þar voru einnig alls konar afrit og skjöl. Nú er bara að sjá hvort einhver viðgerðarmaður telur sig geta komið þessu í gang eða ekki. Sem betur fer brenndum við nýverið allar ljósmyndir á geisladiska til öryggis. Allur dagurinn hefur farið í að vesenast í þessu, símhringingar, netið, tilraunir. Sjáum hvað setur.

Var á námskeiði í gær, dagsnámskeiði fyrir unglækna í meinafræði. Það var mjög fínt.

Það er ergilegt að sjá að krónan sé aftur að veikjast. Gagnvart evru var hún komin niður í 144 krónur en er nú í 160 krónum. Ástandið er greinilega mjög óstöðugt.

Svo er merkilegt að fylgjast með þessum landsfundum. Samfylkingin reynir að hreinsa sig af mistökum og Sjálfstæðismenn eru með fáránlegar ályktanir, s.s. varðandi kvótakerfið auk þess að vilja stefna nú að meiri einkavæðingu í menntakerfi og heilbrigðismálum. Eftir mistökin varðandi einkavæðingu bankanna hljómar allt tal af hálfu Sjálfstæðismanna um einkavæðingu mjög illa. Svo fær maður gubbuna alveg upp í háls þegar Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lætur í sér heyra.

Eitt hef ég ekki skilið. Það er sú árátta öryggisvarða að girða spítalann í Alkmaar af. Spítalinn er að stórum hluta girtur með hárri vírgirðingu með þremur röðum af gaddavír efst. Nokkur hlið eru inn á lóðina aftanverða þar sem allir fara í gegn sem koma frá lestarstöðinni. Ekki er haft fyrir því að hafa öll hliðin opin til að spara fólki sporin og þegar komið er kvöld er hliðunum lokað. Svo að ekki sé hægt að klifra yfir hliðin eru gaddar ofan á þeim. Síðasta útspilið var að loka auka-stigahúsunum á spítalanum sem spöruðu manni ferð um allt sjúkrahúsið til að komast út. Það var gert án þess að láta vita þannig að eitt skiptið var ég kominn inn í stigahús en komst ekki út og varða að hringja í sjúkrahúsið til að unnt væri að hleypa mér út.

Annars er það að frétta að þetta verður róleg helgi. Svo er Ásgeir væntanlegur eftir viku, húrra!!!

Monday, March 23, 2009

Tónleikar

Fór í kvöld á tónleika í Het Concergebouw. Það var píanistinn Sokolov sem spilaði verk eftir Beethoven og Schubert. Mér fannst gaman að hlusta á sónöturnar eftir Beethoven en ég hef aldrei verið sérstakur aðdáandi píanóverka eftir Schubert. Verkið eftir Schubert var langt, næstum endalaust. Sokolov er frábært píanisti. Hann notar sérstakan áslátt sem er mjög mjúkur og fínlegur. Svo er hann svolítið sérstakur. Þetta er gráhærður maður með sítt hár, stóran maga og klæddist auðvitað ekta kjólfötum. Hann gekk inn á sviðið ofan frá, studdi sig við handriðið, hneigði sig fram í sal og aftur í sal og byrjaði svo strax að spila áður en fólk var hætt að klappa. Hann nennti ekki að standa upp til að hneigja sig milli Beethoven-sónata. Svo þegar hann stóð upp hneigði hann sig fram í sal og svo aftur í sal og var byrjaður að ganga út áður hann rétti sig við - hann notaði eiginlega skriðþungann við að halla sér fram í seinna skiptið til að bera sig áfram. Svona hneigði hann sig í hvert skipti. Þá fór hann út af sviðinu til hliðar en ekki upp, eins og venjan er. Þar sem ég sat á fremsta bekk sá ég hvernig hann beið fyrir utan, hlustaði eftir klappinu og kom inn aftur. Hann hikaði ekkert við að spila aukalög, þau voru alls fimm, sem er meira en oftast. Við hliðina á mér var maður sem var mjög upprifinn yfir öllu saman, hann kiptist við að kæti við hvers kyns hljóðeffekta og stundum titraði höfuðið á óskiljanlegan hátt. Hinum megin voru kærustur, sennilega stelpur í tónlistarnámi, sem létu vel að hvor annarri með handstrokum á meðan þær hlustuðu á tónlistina. Uppi á sviði var svo ríka gamla fólkið sem virtist almennt býsna sátt, fyrir kannski utan leiðinlegt en vel spilað verk eftir Schubert.

Sunday, March 22, 2009

Vor í loftinu

Það er enginn vafi að vorið er að koma. Ég vaknaði í morgun og úti var 10 stiga hiti, sól og logn. Nú er opið út á frönsku svalirnar, virkilega notalegt.

Síðastliðna helgi var ég á Íslandi, heimsótti loks Ásgeir. Við fórum í sumarbústað eina nótt sem var mjög gaman. Fórum í göngutúr í nágrenninu og rennblotnuðum í rigninu, keyrðum blindbyl yfir Hellisheiðina, fórum í 2 afmæli á laugardagskvöldinu og borðuðum auðvitað góðan mat. Ásgeir kemur svo hingað eftir rúmar 2 vikur og verður hér yfir páskana. Vonandi helst góða veðrið hér.

Ég var svo óheppinn að fá augnsýkingu. Hvort sem það var út af einhverri veiru eða vegna augnlinsa var þetta vesen. Var með krem fyrir augun og sá þess vegna illa. Mér var sagt í vinnunni að ég liti út eins og ég hefði setið á sumbli alla nóttina. Þetta er sem betur fer að lagast.

Er orðið “boð” gamaldags? Mér var sagt það, ég er alls ekki sammála því. Skoðanir?

Svo er alltaf að verða augljósara og augljósara að græðgi varð íslensku fjármálalífi að falli. Menn fóru inn í fyrirtæki og banka, soguðu allt fjármagn út og skildu eftir rústir einar. Það er augljóst að réttur var brotinn, en allt leyfðist einhvern veginn og menn töldu sig komast upp með hluti í nafni frjálshyggju, viðskiptalögmála og peninga. Í bakgrunninum voru vissar alþjóðlegar aðstæður og innlend stjórnvöld sem vildu hreinlega hafa hlutina eins og þeir voru, þar með talið takmarkað eftirlit.

Sunday, March 8, 2009

Skallaður

Er búinn að hafa það mjög gott undanfarið. Hér voru Baldur og Felix í heimsókn, hef farið út öll kvöld og gert eitthvað skemmtilegt með þeim. Auk þess að fara út að borða, sækja bari og fara í bíó fórum við í innflutningspartí hjá Ali, bandarískri vinkonu minni, og svo skruppum við í árdegisbít (lesist brunch) hjá Pierre. Baldur er búinn að taka hollenskar franskar ástfóstri. Var reyndar svo óheppinn í gær að vera skallaður. Ég sneri mér við og í þann mund gekk einhver árans stelpa sem var að skrifa sms og hallaði höfðinu fram beint á mig og með ennið í kinnbeinið á mér. Það er öruggt að ég fæ marblett, vona bara að hann verði ekki mjög áberandi. Þá verður þetta alveg eins og ég hafi verið kýldur.
Hélt fyrirlestur í vinnunni í gær, gott að það sé búið. Það var um vissa gerð forstigsbreytingar eggjaleiðara- og eggjastokkakrabbameina. Hef séð ýmislegt í vinnunni núna, m.a. Langerhans cell histiocytosis í heila, intracystic papillary brjóstakrabbamein, amyloidosis í lunga, embryonal carcinoma í eista, neurofibroma með storifom vaxtarmynstur, GIST í maga.
Fór í klippingu. Staðurinn sem ég fór á síðast var bara lokaður. Það var sennilega bara ágætt því að ég hefði örugglega ekki fengið jafnfína klippingu þar og ég fékk hjá Serbanum Goran. Ég hjólaði um nokkrar götur og sá svo rakarastofu sem mér leist vel á. Ég hafði ekki áhuga á að vera klipptur upp á klassíska hollenska vísu (þ.e. hár greitt aftur með miklu geli) en sá stað þar sem virtust vera útlendingar við vinnu þannig að ég fór þar inn. Hann Goran sagði að ég hefði verið illa klipptur síðast í hnakkanum. Hann dundaði við verkið í rúman klukkutíma, sagðist hafa viljað vera myndlistamaður en ekki haft efni á slíku námi. Því hafi hann lært að verða klippari, svo sinnir hann myndlistinni meðfram.
Horfði á viðtalið við Evu Joly í Silfri Egils. Það var mjög áhugavert að heyra einhvern tala um efnahagsbrot sem þekkir þau mál mjög vel, mæli með viðtalinu. Hún sagði meðal annars að almenningur þyrfti nú að borga reikninginn fyrir alla glæpina og að reikningurinn væri svo óheyrilega hár að ekki væri tækt á öðru en að menn yrðu dregnir fyrir dóm og sátt skapaðist um framtíðina, samfélagsleg sátt og traust.
Svo er Íslandsferð eftir nokkra daga júhú!!!

Monday, March 2, 2009

Á fyrsta farrými

Um daginn var venjulega lestin sem ég tek ekki til taks. Í staðinn var notuð gömul einnar hæðar lest með gömlum innréttingum og klefum. Ég sá að það yrði margt fólk í lest og settist bara á fyrsta farrými í þessari gömlu lest þó að kortið mitt gildi bara fyrir annað farrými. Ég settist í klefa þar sem voru þrjú sæti sitt hvorum megin við ganginn. Ég tók upp tölvuna og horfði svo á allt fólkið fara fram hjá öllum tómu sætunum og yfir á annað farrými. Svo kom bráðlega snyrtilegur eldri maður í frakka og settist í eitt sætið í klefanum. Þetta var greinilega maður sem ferðast á fyrsta farrými. Og viti menn, þar sem við vorum "saman í félagi", þ.e.a.s menn sem ferðast á fyrsta farrými, þá vorum við á sömu hillu og maðurinn spjallaði aðeins við mig. Eftir margar lestarferðir er þetta í fyrsta skipti sem nokkur talar við mig í lestinni, þó að oftast sé nóg af fólki á öðru farrými. Svona auðvelt er að kaupa sig inn í félag ríkra, maður þarf ekki annað en að gefa sig út fyrir að eiga peninga - þá fær maður að vera með.
Baldur og Felix eru í heimsókn hjá mér þessa dagana. Þeir komu á fimmtudag. Felix var með laugardagsútvarpsþáttinn sinn í beinni héðan frá Amsterdam. Svo skruppu þeir til Leiden í gær þar sem Baldur verður með nokkra fyrirlestra við háskólann þar. Þeir koma svo aftur þaðan á morgun. Það var mjög gaman um helgina hjá okkur, borðaður góður matur, fórum í boð til Pierre og Mei, fórum út á lífið og svo framvegis.
Kv Pétur.

Sunday, February 22, 2009

Sessunautur dauðans

Fór á tónleika í kvöld þar sem Pollini, frægur píanisti, lék sónötur eftir Beethoven, Fantasíu eftir Schumann og Mazurka og Scherzo eftir Chopin. Var svo óheppinn að sitja við hliðina á manni sem var með óþolandi hávær öndunarhljóð. Það hljómaði eins og hann væri sofandi. Auk þess var öndunartíðnin hærri en eðlilegt mátti teljast. Ég neyddist til að bretta upp á vinstra eyrað til að brjálast ekki úr pirringi, við það lagaðist ástandið og gat ég notið tónleikanna eftir það. Reglulega eru tónleikar í þessu stóra tónleikahúsi í seríunni Meistarapíanistar. Sætin eru misdýr - ég hef oft verið seinn að kaupa mér miða og setið í ódýrari sætum þar sem útsýni er takmarkað, horfði til dæmis á bakið á píanistanum í dag, en það var svo sem allt í lagi. Fyrir aftan sviðið eru líka sæti og þeir sem sitja þar fremst, eiginlega á sviðinu næst píanistanum, eru sennilega einhverjir ríkir velgjörðarmenn tónleikahússins. Það eru gamlir menn með hvítt hár eða hár eins og silfurrefir. Menn sem minna á auðkýfinga og fyrirtækisforstjóra úr bandarískum bíómyndum. Við hlið þeirra sitja heldri eiginkonur með uppsett hár sem snúa sér við ef þær verða varar við óhljóð aftar í salnum. Þetta er fyrsta skipti sem ég fer á tónleika með Pollini þannig að ég var svolítið spenntur enda á ég nokkra uppáhaldsgeisladiska með honum. Auðvitað var þetta allt mjög fullkomið, sérstaklega Beethovensónöturnar. Fannst mér þó helst að Scherzó nr. 2 eftir Chopin hefði getað verið betra. Það hljómaði eins og hann væri búinn að spila þetta vinsæla verk milljón sinnum, það vantaði andagiftina og vissum smáatriðum virtist hann ekki gefa gaum. Kannski eru sum verk ekki ætluð eldri píanistum.

Svo las ég grein eftir Einar Má Guðmundsson, rithöfund, grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Hann kemst oft svo vel að orði. Þessi klausa fannst mér til dæmis óborganleg: "Þingið er einsog draugskip þar sem framliðin áhöfnin heldur að hún sé enn í skemmtireisu. Eftir sautján ára stjórnarsetu tala Sjálfstæðimenn einsog þeir hafi bara ekki verið á svæðinu og viti ekki hvaða skelfingar þessi stjórnarstefna hefur leitt yfir þjóðina. Í fréttaskýringaþætti sjónvarpsins eru svæsnustu hægrikenningar, einsog þær að fjármálakreppan stafi af “undirmálslánum” í Bandaríkjunum, bornar fram sem sjálfsagður sannleikur. Takið eftir orðinu undirmálslán, hvernig það rímar við undirmálshópa. Í Bandaríkjunum er þessi skýring notuð til að skella skuldinni á minnihlutahópa en firra stjórnvöld Bushtímans ábyrgð. Afbrigði af þessari kenningu á Íslandi er sú að konan í Breiðholtinu sem keypti sér flatskjá hafi sett Ísland á hausinn, sem sé, að alþýðan geti sjálfri sér um kennt."

Saturday, February 21, 2009

Rosalega mikið af fréttum

Eða hitt þó heldur. Hef hugað í dag aðeins að ristilverkefninu. Næst á dagskrá er að skrifa grein um það hvort og með hvaða hætti ristilkrabbamein í hægri hluta ristils er öðruvísi en vinstra megin. Í sömu grein ætlum við að athuga hvort ristilkrabbamein er breytilegt eftir aldri. Hef verið með höfuðið í bleyti varðandi tölfræði og í samráði við tölfræðing er niðurstaðan sú að nota binary logistic regression. Þetta ristilverkefni hefur aukið töluvert við þekkingu mína á tölfræði sem var lítil fyrir.
Ég þarf að flytja stuttan fyrirlestur í næstu viku um forstig vissra krabbameinstegunda í eggjaleiðurum og tók með mér greinar heim til að vinna í þessu.
Eldamennskan hefur gengið betur frá síðasta slysi - gerði hina bestu súpu í kvöld, kjúklingabitar, laukur, sveppir, gulrætur og pastaskrúfur ásamt knorrdufti auðvitað. Núna varð engin olíusprenging.

Wednesday, February 18, 2009

Eldhústilraunir

Mer tókst að óhreinka allt eldhúsið áðan. Tók loks út úr frystinum frystar kjúklingabringur í pakka - pakka sem er búinn að vera þar heillengi. Á pakkanum stóð að setja mætti bringurnar frosnar á pönnu og steikja á hvorri hlið við meðalhita í 5 mínútur. Ég gerði það auðvitað en brá heldur betur þegar ísinn utan á bringunni bráðnaði í hvelli, fór út í heita olíuna og sprakk síðan allsvakalega þannig að vatnsblandaðir olíudropar fóru út um allt eldhús. Eyddi ég dágóðum tíma í að hreinsa upp eftir spreninguna sem virtist standa óþarflega lengi. Að lokum steikti ég svo bringurnar samkvæmt leiðbeiningunum og reyndust þær mjög góðar. Reynslunni ríkari ætla ég að gera aðeins öðruvísi þegar ég steiki hinar bringurnar úr pakkanum.
Kv Pétur.

Sunday, February 15, 2009

London

Heimsótti Garðar bróður í London um helgina. Fór þangað síðastliðið föstudagskvöld eftir vinnu. Þurfti reyndar að skilja ýmislegt óklárað eftir á borðinu enda var föstudagurinn mjög annríkur. Það vakti athygli mína að ferðin með metró frá Heathrow heim til Garðars tók jafnlangan tíma og flugið milli Heathrow og Schiphol. Í London var ýmislegt gert, m.a. fórum við upp í turninn á dómkirkju St. Pauls og á safn Sir John Soane. Það var mjög áhugavert safn. Um er að ræða heimili þekkts arkitekts sem sem breyttist í safn um leið og hann féll frá á fyrri hluta 19. aldar. Hann safnaði fornmunum og raðaði þeim upp á óvenjulegan hátt - svo var hann með múmíulíkkistu í kjallaranum. Mér skilst að hann hafi haldið stórt partí þegar líkkistan var komin ofan í kjallara. Svo hittum við Jakob og Augusto sem hafa það mjög gott í London. Fór líka á Sushi stað með Garðari. Matur á góðum sushi-stað í London er eiginlega orðið að góðri venju.

Þetta viðtal við Geir H Haarde í breska þættinum Hardtalk var merkilegt að ýmsu leyti. Í fyrsta lagi hef ég ekki séð íslenskan stjórnmálamann vera spurðan út úr með þessum hætti. Geir átti í þessum þætti engrar undankomu auðið og gat ekki svarað með skætingi eða snúið út úr eins og maður sér í íslenskum fréttum. Í öðru lagi fannst mér merkilegt að Geir skyldi ekki hafa talað við Gordon Brown eftir að hryðjuverkalögin voru sett á Ísland. Varðandi fyrra atriðið þá held ég að íslenskir fréttamenn séu oft í þeirri erfiðu stöðu að ef þeir eru í ónáð hjá stjórnmálamanni, t.d. vegna erfiðra spurninga, þá fá þeir að gjalda fyrir það, t.d. með því að fá síður að bera upp spurningar. Breski fréttamaðurinn hafði engra hagsmuna að gæta varðandi framtíð sína í fréttamennsku og gat því spurt alls. Þetta var alveg nýtt fyrir mér.

Monday, February 9, 2009

Hvað gerðist?

Það er merkilegt að lesa skýrslu Gylfa og Jóns, hagfræðinga, um hrun íslenska hagkerfisins (http://www.riskresearch.org/). Svo virðist sem einstakt hrun hafi átt sér stað á Íslandi og ólíklegt er að nokkuð þessu líkt komi til með að eiga sér stað t.d. í Bretland þó að þar kunni af koma allnokkur lægð. Margt af því sem þarna kemur fram hefur komið fram áður með einum eða öðrum hætti en þarna er ágæt samantekt á málinu. Þessi skýrsla sannfærir mig um að nauðsynlegt sé að skipta út fólki í íslensku stjórnkerfi sem átti hlut að málum. Það sem er svo ótrúlegt er hversu meingallað íslenskt stjórnkerfi var og er - það er miklu lélegra en mér hefði nokkurn tímann dottið í hug. Þrátt fyrir að kerfið hafi verið jafnlélegt fyrir 10 árum og það er nú þá er samt magnað til þess að hugsa að staða Íslands þá var ótrúlega góð í alþjóðlegu samhengi. Aðeins á tæpum 10 árum var þessu rústað. Hið jákvæða í þessu er að hrunið getur orðið til þess að lög og reglur á Íslandi verði endurskoðaðar og betrumbættar þannig að flokkshagsmunir og spilling lágmarkist og lýðræði og jafnrétti aukist.

Annars er það að nefna að ég skrapp á tónleika í gærkvöldi. Það var Alexander Gavrylyuk, ungur píanisti sem lék skemmtileg verk eftir Mozart, Brahms, Rachmaninov og Bach. Ég keypti miða á síðustu stundu og fékk sæti aftast uppi á sviði við hliðina á orgelinu. Gat hallað mér til hliðar og fram og sá þá aðeins. Það var gaman hversu duglegur hann var að spila aukalög, eftir smá klapp skellti hann sér í næsta og næsta verk. Dagurinn var frekar erfiður. Það voru tvær krufningar ofan á aðra vinnu. Annar sjúklingurinn var með rosalega ásvelgingslungnabólgu - annað eins hef ég ekki séð.

Pétur.

Saturday, February 7, 2009

Ögmundur tekur lækna fyrir

Fór á bíó í gær. Sá myndina Milk sem fjallar um réttindabaráttu samkynhneigðra í Kaliforníu á sjöunda og áttunda áratugnum. Fín mynd, vel leikin. Sem Íslendingur gerir maður auðvitað ráð fyrir að geta greitt með korti fyrir bíómiðann en auðvitað var það ekki hægt. Ekki er hægt að borga fyrir alls kyns afþreyingu, veitingar og mat hér í Amsterdam nema með beinhörðum peningum. Ég geri ráð fyrir að þetta sé sparnaðarráðstöfun en Íslendingar eru mun lengra komnir með að nota bara kort, sem mér finnst miklu þægilegra.

Í dag frétti ég að hinn nýi heilbrigðisráðherra hafi mikinn áhuga á því að spara í heilbrigðiskerfinu með því að lækka laun lækna. Þetta fann ég á heimasíðu Ögmundar:

"Langskólamenntað fólk verður að skilja að menntun er ekki og á ekki að vera óskilyrt ávísun á miklu betri kjör en þeir njóta sem búa yfir minni skólamenntun." Svo skrifaði Ögmundur: "Sjálfsagt er að taka viðmið af kostnaði vegna námslána. Lengra nær mín samúð ekki. Vissulega á heilaskurðlæknirinn að hafa bærileg laun. En það gildir líka um starfsmanninn sem hjálpar ósjálfbjarga einstaklingi að komast í gegnum daginn - og nóttina, þótt sá hafi ekki jafnlangt nám að baki og hinn sem mundar skurðhnífinn.
Menntun segir ekki allt um gildi starfa. Þá síður um hve erfið störf eru eða þakklát. Hrokatal er "menntafólki" eða "prófgráðufólki" hvorki til sóma né er það því til framdráttar. Það vita þeir sem best eru menntaðir - og upplýstir. Þeir tala af hógværð. Þeir vita hvers virði réttlátt þjóðfélag er. Kannski er það í þessu sem munurinn liggur á menntamanni annars vegar og prófgráðumanni hins vegar."

Svo kom fram á visir.is: "Ögmundur sagði að niðurskurður í heilbrigðiskerfinu væri óhjákvæmilegur. Hann hefði hins vegar reynt að setja sér skýr markmið í þessum niðurskurði. Reynt yrði að draga ekki úr aðgengi sjúklinga. Reynt yrði að láta þetta ekki bitna á starfsfólki og reynt yrði að hlífa því starfsfólki sem hefði lágar tekjur og miðlungstekjur á kostnað þeirra sem bera mikið úr býtum."

"Reynt yrði að láta þetta ekki bitna á starfsfólki (...) á kostnað þeirra sem bera mikið úr býtum." Er ekki mótsögn í þessari setningu? Ég held að það sé að minnsta kosti þrennt sem Ögmundur áttar sig ekki á. Í fyrsta lagi á því að það verður helst að vera einhver umbun fyrir að leggja á sig langt nám, mikla vinnu og ábyrgðarmikið starf - fólk vill vera metið að verðleikum. Í öðru lagi að eftir langt nám og sérnám eru læknar "gamlir" þegar þeir byrja að geta lagt fyrir og þegar læknar fara á eftirlaun hefur hver króna verið skemur í ávöxtun en hjá þeim sem byrja fyrr að vinna. Í þriðja lagi getur sú staða komið upp að íslenskir læknar vilji síður fara til Íslands að sérnámi loknu séu kjörin orðin töluvert lélegri en það sem erlendis býðst. Ögmundur er fullur af hugmyndum sem ég hef áhyggjur af.

Saturday, January 31, 2009

Ljósmynd í líkkistu

Í gærkvöldi lét ég taka mynd af mér í líkkistu. Við Ásgeir höfum kynnst fólki í listabransanum sem stendur fyrir ýmsum viðburðum. Einn slíkur viðburður var opnaður í gær, kallast "Ik R.I.P." (http://www.facebook.com/home.php?#/event.php?eid=41641754430). Þar voru myndir af látnu fólki og líkkistur frá Ghana m.a. í formi kókflösku, bangsa, krabba og Nike-skós. Svo var einhver mjög fríkaður tónlistarmaður og hægt var að fara í tölvuleik þar sem maður átti að láta gamla haltrandi konu ganga að næsta bekk þar sem hún dó eftir að hún hafði setið þar í smá stund og hlustað á lag ("Grand Theft Granny", eða hitt þó heldur). Svo gat fólk látið taka mynd af sér í lokaðri líkkistu, mynd sem var svo sett inn á netið (prófíl sem ég þarf að virkja við tækifæri). Hugmyndin er að fá fólk til að huga að því hvað verður um prófíla fólks á netinu eftir að það fellur frá. Á þessari nýju síðu getur maður svo fengið einhvern til að sjá um prófílinn eftir að maður fellur frá þannig að síðan hverfi ekki, eins og gerist víst t.d. á Facebook þar sem prófílar hverfa eftir ákveðinn tíma ef enginn hreyfing verður.
Í morgun skrapp ég á pósthúsið og sótti þar pakka fyrir Ásgeir. Hér þarf að framvísa skilríkjum þegar maður sækir hluti á pósthúsið og ég neyddist til að þykjast vera Ásgeir, bar mig aumlega og sagðist hafa gleymt skilríkjunum heima. Ótrúlegt en satt, tókst það. Það var líka eins gott því að þetta er eitthvað sem Ásgeir þarf fyrir sýninguna sem hann er að undirbúa og fer til Íslands á morgun.
Þá græjaði ég loks lásinn á hjólinu hans Ásgeirs. Einn þriggja lása var ónýtur og ekki unnt að opna hann. Dröslaði ég hjólinu á verkstæði þar sem lásinn var sagaður í sundur. Þá keypti ég fínan lás sem kostaði reyndar helmingi meira en hjólið sjálft (sem fékkst mjöög ódýrt um árið)!

Kveðja, Pétur.

Wednesday, January 28, 2009

Janúar

Þá er janúarmánuði alveg að ljúka. Ásgeir, sem er nú á Íslandi fram á vor til að klára BA í dansi við Listaháskólann, kom reyndar hingað um daginn og var hér í tvær vikur til að semja dans. Það verður mikið að gera hjá honum næstu vikurnar, hann þarf að klára að semja dansinn og flytja hann (eitt af lokaverkefnunum við skólann) auk þess sem hann þarf að skrifa BA ritgerð. Svo ætla ég til Íslands eina langa helgi fyrri hluta marsmánaðar þegar þessum hasar er lokið og heimsækja Ásgeir.
Við Ásgeir höfðum það gott hér; fengum gesti í mat, horfðum á vídeó og fórum út. Ásgeir lagaði líka þráðlausa netið (sem skaddaðist er dagbók nokkur datt á boxið) sem er mikill munur. Við ætluðum í bíó eitt kvöldið en sáum þá að það voru komnir tveir þættir af Lost, fimmtu seríu, á netið þannig að við horfðum á Lost í staðinn enda forfallnir aðdáendur. Ýmislegt kom strax í ljós, þetta verður æ meira spennandi.

Það er nóg að gera í vinnunni eins og endra nær. Kom samt frekar snemma heim í dag. Þarf að rumpa af fyrstu greininni um ristilkrabbameinið sem birtist vonandi sem fyrst í Læknablaðinu. Af áhugaverðum sýnum í vinnunni hef ég séð papillary cystadenoma í eistalyppu, lymphoma í ristli, synoviitis villonodularis pigmentosa í fingri og intraosseous ganglion í sköflungi, svo eitthvað sé nefnt. Það hafa líka verið margar krufningar undanfarið, þar hef ég séð hjartaþelsbólgu, iliopsoas hematoma, iliac artery thrombosis og coecal blowout með faecal peritonitis í tengslum við proximal tumorstricturu.

Svo kemst ég varla hjá því að minnast á stjórnmál og efnahagsmál á Íslandi. Það hefur verið fjallað um þetta í hollenskum fjölmiðlum og kona í vinnunni kom að máli við mig og sagði að þetta væri svo skrýtið, áður hafi aldrei verið fjallað um Ísland en nú væri landið oft í fréttum. Þegar mótmælin stóðu sem hæst fyrir utan Alþingishúsið sagði einn við mig að það væri greinilega ekki gáfulegt að reita víkinga til reiði! Ég vona bara að ástandið nái að róast aðeins og stjórnmálamenn einbeiti sér að efnahagsástandinu en ekki flokkapólitík. Vonandi verða kosningar ekki of snemma. Þá ná grasrótarhreyfingar að stofna flokka - enda ekki vanþörf á. Ég kysi ekki neinn af þeim flokkum sem nú er boðið upp á. En hvernig ætli það sé með þá sem búa erlendis? Ég flutti lögheimilið til Hollands, get ég samt kosið og hvernig? Ég þarf að athuga það.

Kv. Pétur.

Tuesday, January 6, 2009

Ís á síkjunum

Það svo kalt hérna að það er kominn ís á síkin í Amsterdam. Ef kuldinn helst verður ísinn nógu þykkur til að fólk geti farið á skautum í vinnuna. Í dag fór fólk fyrr úr vinnunni til að renna sér á skautum. Skautaíþróttin er vinsæl í Hollandi og í hvert skipti sem frystir vaknar sú spurning hvort hægt verði að halda stóru skautakeppnina. Þá þarf að frysta kringum stóra eyju einhvers staðar fyrir norðan Amsterdam. Þessi keppni var síðast haldin 1997 en ekki síðan þar sem kuldinn hefur ekki haldist nógu mikill og nógu lengi.
Svo var ég í ræktinni áðan. Þar eru Hollendingar ólíkir Íslendingum a.m.k. að tvennu leyti. Annað er að margir eru sjálfskipaðir kennarar og vilja gjarnan koma með ábendingar um það sem betur mætti fara. Hitt er að þeir taka stundum nokkur dansspor við tónlistina. Einn tók langa syrpu fyrir framan spegilinn um daginn. Þeir eru ekkert feimnir við það.
Kv. Pétur.

Sunday, January 4, 2009

Jólafríi lokið

Nú er jólafríinu lokið, ég kom til Amsterdam í dag. Eitt það fyrsta sem ég tók eftir er heim var komið var húskuldinn. Reyndar hafði íbúðin ekki verið hituð upp í 2 vikur en húsnæði á Íslandi er samt áberandi hlýrra en hér í Amsterdam. Hér er aðeins einn ofn (gasofn) í allri íbúðinni.
Við Ásgeir höfðum það mjög gott í jólafríinu. Fyrri tvær vikurnar vorum við hjá foreldrum mínum en seinni tvær hjá foreldrum Ásgeirs. Ásgeir varð svo eftir á Íslandi því að þar ætlar hann að vera fram í maí til að klára BA gráðuna sína í dansi.
Stóran hluta jólafrísins vorum við í fjölskylduboðum eða heimsóknum. Við fengum alls staðar góðan mat. Ég tók því rólega til að byrja með en þegar leið undir lok jólafrísins varð ljóst að ég næði ekki að hitta alla sem mig langaði til að hitta og suma hitti ég aðeins í mýflugumynd.
Ristilrannsóknin tók líka sinn toll. Þó að rannsókninni sé í raun lokið þarf að skrifa þetta upp fyrir læknatímarit. Þetta verða nokkrar greinar, sú fyrsta verður væntanlega birt í Læknablaðinu. Ég tala um að rumpa þetta af en Ásgeir talar um að rumpa í ristilinn, hvað sem það nú þýðir.
Þegar komið var til Amsterdam í dag gerðist ég duglegur og tók til, gekk frá jólaskrauti, þvoði tvær þvottavélar, setti meira að segja bókhaldsgögn í möppu og fór út í búð. Nú er allt tilbúið fyrir vinnuvikuna sem hefst á morgun.
Kveðja, Pétur.