Saturday, January 31, 2009

Ljósmynd í líkkistu

Í gærkvöldi lét ég taka mynd af mér í líkkistu. Við Ásgeir höfum kynnst fólki í listabransanum sem stendur fyrir ýmsum viðburðum. Einn slíkur viðburður var opnaður í gær, kallast "Ik R.I.P." (http://www.facebook.com/home.php?#/event.php?eid=41641754430). Þar voru myndir af látnu fólki og líkkistur frá Ghana m.a. í formi kókflösku, bangsa, krabba og Nike-skós. Svo var einhver mjög fríkaður tónlistarmaður og hægt var að fara í tölvuleik þar sem maður átti að láta gamla haltrandi konu ganga að næsta bekk þar sem hún dó eftir að hún hafði setið þar í smá stund og hlustað á lag ("Grand Theft Granny", eða hitt þó heldur). Svo gat fólk látið taka mynd af sér í lokaðri líkkistu, mynd sem var svo sett inn á netið (prófíl sem ég þarf að virkja við tækifæri). Hugmyndin er að fá fólk til að huga að því hvað verður um prófíla fólks á netinu eftir að það fellur frá. Á þessari nýju síðu getur maður svo fengið einhvern til að sjá um prófílinn eftir að maður fellur frá þannig að síðan hverfi ekki, eins og gerist víst t.d. á Facebook þar sem prófílar hverfa eftir ákveðinn tíma ef enginn hreyfing verður.
Í morgun skrapp ég á pósthúsið og sótti þar pakka fyrir Ásgeir. Hér þarf að framvísa skilríkjum þegar maður sækir hluti á pósthúsið og ég neyddist til að þykjast vera Ásgeir, bar mig aumlega og sagðist hafa gleymt skilríkjunum heima. Ótrúlegt en satt, tókst það. Það var líka eins gott því að þetta er eitthvað sem Ásgeir þarf fyrir sýninguna sem hann er að undirbúa og fer til Íslands á morgun.
Þá græjaði ég loks lásinn á hjólinu hans Ásgeirs. Einn þriggja lása var ónýtur og ekki unnt að opna hann. Dröslaði ég hjólinu á verkstæði þar sem lásinn var sagaður í sundur. Þá keypti ég fínan lás sem kostaði reyndar helmingi meira en hjólið sjálft (sem fékkst mjöög ódýrt um árið)!

Kveðja, Pétur.

Wednesday, January 28, 2009

Janúar

Þá er janúarmánuði alveg að ljúka. Ásgeir, sem er nú á Íslandi fram á vor til að klára BA í dansi við Listaháskólann, kom reyndar hingað um daginn og var hér í tvær vikur til að semja dans. Það verður mikið að gera hjá honum næstu vikurnar, hann þarf að klára að semja dansinn og flytja hann (eitt af lokaverkefnunum við skólann) auk þess sem hann þarf að skrifa BA ritgerð. Svo ætla ég til Íslands eina langa helgi fyrri hluta marsmánaðar þegar þessum hasar er lokið og heimsækja Ásgeir.
Við Ásgeir höfðum það gott hér; fengum gesti í mat, horfðum á vídeó og fórum út. Ásgeir lagaði líka þráðlausa netið (sem skaddaðist er dagbók nokkur datt á boxið) sem er mikill munur. Við ætluðum í bíó eitt kvöldið en sáum þá að það voru komnir tveir þættir af Lost, fimmtu seríu, á netið þannig að við horfðum á Lost í staðinn enda forfallnir aðdáendur. Ýmislegt kom strax í ljós, þetta verður æ meira spennandi.

Það er nóg að gera í vinnunni eins og endra nær. Kom samt frekar snemma heim í dag. Þarf að rumpa af fyrstu greininni um ristilkrabbameinið sem birtist vonandi sem fyrst í Læknablaðinu. Af áhugaverðum sýnum í vinnunni hef ég séð papillary cystadenoma í eistalyppu, lymphoma í ristli, synoviitis villonodularis pigmentosa í fingri og intraosseous ganglion í sköflungi, svo eitthvað sé nefnt. Það hafa líka verið margar krufningar undanfarið, þar hef ég séð hjartaþelsbólgu, iliopsoas hematoma, iliac artery thrombosis og coecal blowout með faecal peritonitis í tengslum við proximal tumorstricturu.

Svo kemst ég varla hjá því að minnast á stjórnmál og efnahagsmál á Íslandi. Það hefur verið fjallað um þetta í hollenskum fjölmiðlum og kona í vinnunni kom að máli við mig og sagði að þetta væri svo skrýtið, áður hafi aldrei verið fjallað um Ísland en nú væri landið oft í fréttum. Þegar mótmælin stóðu sem hæst fyrir utan Alþingishúsið sagði einn við mig að það væri greinilega ekki gáfulegt að reita víkinga til reiði! Ég vona bara að ástandið nái að róast aðeins og stjórnmálamenn einbeiti sér að efnahagsástandinu en ekki flokkapólitík. Vonandi verða kosningar ekki of snemma. Þá ná grasrótarhreyfingar að stofna flokka - enda ekki vanþörf á. Ég kysi ekki neinn af þeim flokkum sem nú er boðið upp á. En hvernig ætli það sé með þá sem búa erlendis? Ég flutti lögheimilið til Hollands, get ég samt kosið og hvernig? Ég þarf að athuga það.

Kv. Pétur.

Tuesday, January 6, 2009

Ís á síkjunum

Það svo kalt hérna að það er kominn ís á síkin í Amsterdam. Ef kuldinn helst verður ísinn nógu þykkur til að fólk geti farið á skautum í vinnuna. Í dag fór fólk fyrr úr vinnunni til að renna sér á skautum. Skautaíþróttin er vinsæl í Hollandi og í hvert skipti sem frystir vaknar sú spurning hvort hægt verði að halda stóru skautakeppnina. Þá þarf að frysta kringum stóra eyju einhvers staðar fyrir norðan Amsterdam. Þessi keppni var síðast haldin 1997 en ekki síðan þar sem kuldinn hefur ekki haldist nógu mikill og nógu lengi.
Svo var ég í ræktinni áðan. Þar eru Hollendingar ólíkir Íslendingum a.m.k. að tvennu leyti. Annað er að margir eru sjálfskipaðir kennarar og vilja gjarnan koma með ábendingar um það sem betur mætti fara. Hitt er að þeir taka stundum nokkur dansspor við tónlistina. Einn tók langa syrpu fyrir framan spegilinn um daginn. Þeir eru ekkert feimnir við það.
Kv. Pétur.

Sunday, January 4, 2009

Jólafríi lokið

Nú er jólafríinu lokið, ég kom til Amsterdam í dag. Eitt það fyrsta sem ég tók eftir er heim var komið var húskuldinn. Reyndar hafði íbúðin ekki verið hituð upp í 2 vikur en húsnæði á Íslandi er samt áberandi hlýrra en hér í Amsterdam. Hér er aðeins einn ofn (gasofn) í allri íbúðinni.
Við Ásgeir höfðum það mjög gott í jólafríinu. Fyrri tvær vikurnar vorum við hjá foreldrum mínum en seinni tvær hjá foreldrum Ásgeirs. Ásgeir varð svo eftir á Íslandi því að þar ætlar hann að vera fram í maí til að klára BA gráðuna sína í dansi.
Stóran hluta jólafrísins vorum við í fjölskylduboðum eða heimsóknum. Við fengum alls staðar góðan mat. Ég tók því rólega til að byrja með en þegar leið undir lok jólafrísins varð ljóst að ég næði ekki að hitta alla sem mig langaði til að hitta og suma hitti ég aðeins í mýflugumynd.
Ristilrannsóknin tók líka sinn toll. Þó að rannsókninni sé í raun lokið þarf að skrifa þetta upp fyrir læknatímarit. Þetta verða nokkrar greinar, sú fyrsta verður væntanlega birt í Læknablaðinu. Ég tala um að rumpa þetta af en Ásgeir talar um að rumpa í ristilinn, hvað sem það nú þýðir.
Þegar komið var til Amsterdam í dag gerðist ég duglegur og tók til, gekk frá jólaskrauti, þvoði tvær þvottavélar, setti meira að segja bókhaldsgögn í möppu og fór út í búð. Nú er allt tilbúið fyrir vinnuvikuna sem hefst á morgun.
Kveðja, Pétur.