Sunday, February 22, 2009

Sessunautur dauðans

Fór á tónleika í kvöld þar sem Pollini, frægur píanisti, lék sónötur eftir Beethoven, Fantasíu eftir Schumann og Mazurka og Scherzo eftir Chopin. Var svo óheppinn að sitja við hliðina á manni sem var með óþolandi hávær öndunarhljóð. Það hljómaði eins og hann væri sofandi. Auk þess var öndunartíðnin hærri en eðlilegt mátti teljast. Ég neyddist til að bretta upp á vinstra eyrað til að brjálast ekki úr pirringi, við það lagaðist ástandið og gat ég notið tónleikanna eftir það. Reglulega eru tónleikar í þessu stóra tónleikahúsi í seríunni Meistarapíanistar. Sætin eru misdýr - ég hef oft verið seinn að kaupa mér miða og setið í ódýrari sætum þar sem útsýni er takmarkað, horfði til dæmis á bakið á píanistanum í dag, en það var svo sem allt í lagi. Fyrir aftan sviðið eru líka sæti og þeir sem sitja þar fremst, eiginlega á sviðinu næst píanistanum, eru sennilega einhverjir ríkir velgjörðarmenn tónleikahússins. Það eru gamlir menn með hvítt hár eða hár eins og silfurrefir. Menn sem minna á auðkýfinga og fyrirtækisforstjóra úr bandarískum bíómyndum. Við hlið þeirra sitja heldri eiginkonur með uppsett hár sem snúa sér við ef þær verða varar við óhljóð aftar í salnum. Þetta er fyrsta skipti sem ég fer á tónleika með Pollini þannig að ég var svolítið spenntur enda á ég nokkra uppáhaldsgeisladiska með honum. Auðvitað var þetta allt mjög fullkomið, sérstaklega Beethovensónöturnar. Fannst mér þó helst að Scherzó nr. 2 eftir Chopin hefði getað verið betra. Það hljómaði eins og hann væri búinn að spila þetta vinsæla verk milljón sinnum, það vantaði andagiftina og vissum smáatriðum virtist hann ekki gefa gaum. Kannski eru sum verk ekki ætluð eldri píanistum.

Svo las ég grein eftir Einar Má Guðmundsson, rithöfund, grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Hann kemst oft svo vel að orði. Þessi klausa fannst mér til dæmis óborganleg: "Þingið er einsog draugskip þar sem framliðin áhöfnin heldur að hún sé enn í skemmtireisu. Eftir sautján ára stjórnarsetu tala Sjálfstæðimenn einsog þeir hafi bara ekki verið á svæðinu og viti ekki hvaða skelfingar þessi stjórnarstefna hefur leitt yfir þjóðina. Í fréttaskýringaþætti sjónvarpsins eru svæsnustu hægrikenningar, einsog þær að fjármálakreppan stafi af “undirmálslánum” í Bandaríkjunum, bornar fram sem sjálfsagður sannleikur. Takið eftir orðinu undirmálslán, hvernig það rímar við undirmálshópa. Í Bandaríkjunum er þessi skýring notuð til að skella skuldinni á minnihlutahópa en firra stjórnvöld Bushtímans ábyrgð. Afbrigði af þessari kenningu á Íslandi er sú að konan í Breiðholtinu sem keypti sér flatskjá hafi sett Ísland á hausinn, sem sé, að alþýðan geti sjálfri sér um kennt."

Saturday, February 21, 2009

Rosalega mikið af fréttum

Eða hitt þó heldur. Hef hugað í dag aðeins að ristilverkefninu. Næst á dagskrá er að skrifa grein um það hvort og með hvaða hætti ristilkrabbamein í hægri hluta ristils er öðruvísi en vinstra megin. Í sömu grein ætlum við að athuga hvort ristilkrabbamein er breytilegt eftir aldri. Hef verið með höfuðið í bleyti varðandi tölfræði og í samráði við tölfræðing er niðurstaðan sú að nota binary logistic regression. Þetta ristilverkefni hefur aukið töluvert við þekkingu mína á tölfræði sem var lítil fyrir.
Ég þarf að flytja stuttan fyrirlestur í næstu viku um forstig vissra krabbameinstegunda í eggjaleiðurum og tók með mér greinar heim til að vinna í þessu.
Eldamennskan hefur gengið betur frá síðasta slysi - gerði hina bestu súpu í kvöld, kjúklingabitar, laukur, sveppir, gulrætur og pastaskrúfur ásamt knorrdufti auðvitað. Núna varð engin olíusprenging.

Wednesday, February 18, 2009

Eldhústilraunir

Mer tókst að óhreinka allt eldhúsið áðan. Tók loks út úr frystinum frystar kjúklingabringur í pakka - pakka sem er búinn að vera þar heillengi. Á pakkanum stóð að setja mætti bringurnar frosnar á pönnu og steikja á hvorri hlið við meðalhita í 5 mínútur. Ég gerði það auðvitað en brá heldur betur þegar ísinn utan á bringunni bráðnaði í hvelli, fór út í heita olíuna og sprakk síðan allsvakalega þannig að vatnsblandaðir olíudropar fóru út um allt eldhús. Eyddi ég dágóðum tíma í að hreinsa upp eftir spreninguna sem virtist standa óþarflega lengi. Að lokum steikti ég svo bringurnar samkvæmt leiðbeiningunum og reyndust þær mjög góðar. Reynslunni ríkari ætla ég að gera aðeins öðruvísi þegar ég steiki hinar bringurnar úr pakkanum.
Kv Pétur.

Sunday, February 15, 2009

London

Heimsótti Garðar bróður í London um helgina. Fór þangað síðastliðið föstudagskvöld eftir vinnu. Þurfti reyndar að skilja ýmislegt óklárað eftir á borðinu enda var föstudagurinn mjög annríkur. Það vakti athygli mína að ferðin með metró frá Heathrow heim til Garðars tók jafnlangan tíma og flugið milli Heathrow og Schiphol. Í London var ýmislegt gert, m.a. fórum við upp í turninn á dómkirkju St. Pauls og á safn Sir John Soane. Það var mjög áhugavert safn. Um er að ræða heimili þekkts arkitekts sem sem breyttist í safn um leið og hann féll frá á fyrri hluta 19. aldar. Hann safnaði fornmunum og raðaði þeim upp á óvenjulegan hátt - svo var hann með múmíulíkkistu í kjallaranum. Mér skilst að hann hafi haldið stórt partí þegar líkkistan var komin ofan í kjallara. Svo hittum við Jakob og Augusto sem hafa það mjög gott í London. Fór líka á Sushi stað með Garðari. Matur á góðum sushi-stað í London er eiginlega orðið að góðri venju.

Þetta viðtal við Geir H Haarde í breska þættinum Hardtalk var merkilegt að ýmsu leyti. Í fyrsta lagi hef ég ekki séð íslenskan stjórnmálamann vera spurðan út úr með þessum hætti. Geir átti í þessum þætti engrar undankomu auðið og gat ekki svarað með skætingi eða snúið út úr eins og maður sér í íslenskum fréttum. Í öðru lagi fannst mér merkilegt að Geir skyldi ekki hafa talað við Gordon Brown eftir að hryðjuverkalögin voru sett á Ísland. Varðandi fyrra atriðið þá held ég að íslenskir fréttamenn séu oft í þeirri erfiðu stöðu að ef þeir eru í ónáð hjá stjórnmálamanni, t.d. vegna erfiðra spurninga, þá fá þeir að gjalda fyrir það, t.d. með því að fá síður að bera upp spurningar. Breski fréttamaðurinn hafði engra hagsmuna að gæta varðandi framtíð sína í fréttamennsku og gat því spurt alls. Þetta var alveg nýtt fyrir mér.

Monday, February 9, 2009

Hvað gerðist?

Það er merkilegt að lesa skýrslu Gylfa og Jóns, hagfræðinga, um hrun íslenska hagkerfisins (http://www.riskresearch.org/). Svo virðist sem einstakt hrun hafi átt sér stað á Íslandi og ólíklegt er að nokkuð þessu líkt komi til með að eiga sér stað t.d. í Bretland þó að þar kunni af koma allnokkur lægð. Margt af því sem þarna kemur fram hefur komið fram áður með einum eða öðrum hætti en þarna er ágæt samantekt á málinu. Þessi skýrsla sannfærir mig um að nauðsynlegt sé að skipta út fólki í íslensku stjórnkerfi sem átti hlut að málum. Það sem er svo ótrúlegt er hversu meingallað íslenskt stjórnkerfi var og er - það er miklu lélegra en mér hefði nokkurn tímann dottið í hug. Þrátt fyrir að kerfið hafi verið jafnlélegt fyrir 10 árum og það er nú þá er samt magnað til þess að hugsa að staða Íslands þá var ótrúlega góð í alþjóðlegu samhengi. Aðeins á tæpum 10 árum var þessu rústað. Hið jákvæða í þessu er að hrunið getur orðið til þess að lög og reglur á Íslandi verði endurskoðaðar og betrumbættar þannig að flokkshagsmunir og spilling lágmarkist og lýðræði og jafnrétti aukist.

Annars er það að nefna að ég skrapp á tónleika í gærkvöldi. Það var Alexander Gavrylyuk, ungur píanisti sem lék skemmtileg verk eftir Mozart, Brahms, Rachmaninov og Bach. Ég keypti miða á síðustu stundu og fékk sæti aftast uppi á sviði við hliðina á orgelinu. Gat hallað mér til hliðar og fram og sá þá aðeins. Það var gaman hversu duglegur hann var að spila aukalög, eftir smá klapp skellti hann sér í næsta og næsta verk. Dagurinn var frekar erfiður. Það voru tvær krufningar ofan á aðra vinnu. Annar sjúklingurinn var með rosalega ásvelgingslungnabólgu - annað eins hef ég ekki séð.

Pétur.

Saturday, February 7, 2009

Ögmundur tekur lækna fyrir

Fór á bíó í gær. Sá myndina Milk sem fjallar um réttindabaráttu samkynhneigðra í Kaliforníu á sjöunda og áttunda áratugnum. Fín mynd, vel leikin. Sem Íslendingur gerir maður auðvitað ráð fyrir að geta greitt með korti fyrir bíómiðann en auðvitað var það ekki hægt. Ekki er hægt að borga fyrir alls kyns afþreyingu, veitingar og mat hér í Amsterdam nema með beinhörðum peningum. Ég geri ráð fyrir að þetta sé sparnaðarráðstöfun en Íslendingar eru mun lengra komnir með að nota bara kort, sem mér finnst miklu þægilegra.

Í dag frétti ég að hinn nýi heilbrigðisráðherra hafi mikinn áhuga á því að spara í heilbrigðiskerfinu með því að lækka laun lækna. Þetta fann ég á heimasíðu Ögmundar:

"Langskólamenntað fólk verður að skilja að menntun er ekki og á ekki að vera óskilyrt ávísun á miklu betri kjör en þeir njóta sem búa yfir minni skólamenntun." Svo skrifaði Ögmundur: "Sjálfsagt er að taka viðmið af kostnaði vegna námslána. Lengra nær mín samúð ekki. Vissulega á heilaskurðlæknirinn að hafa bærileg laun. En það gildir líka um starfsmanninn sem hjálpar ósjálfbjarga einstaklingi að komast í gegnum daginn - og nóttina, þótt sá hafi ekki jafnlangt nám að baki og hinn sem mundar skurðhnífinn.
Menntun segir ekki allt um gildi starfa. Þá síður um hve erfið störf eru eða þakklát. Hrokatal er "menntafólki" eða "prófgráðufólki" hvorki til sóma né er það því til framdráttar. Það vita þeir sem best eru menntaðir - og upplýstir. Þeir tala af hógværð. Þeir vita hvers virði réttlátt þjóðfélag er. Kannski er það í þessu sem munurinn liggur á menntamanni annars vegar og prófgráðumanni hins vegar."

Svo kom fram á visir.is: "Ögmundur sagði að niðurskurður í heilbrigðiskerfinu væri óhjákvæmilegur. Hann hefði hins vegar reynt að setja sér skýr markmið í þessum niðurskurði. Reynt yrði að draga ekki úr aðgengi sjúklinga. Reynt yrði að láta þetta ekki bitna á starfsfólki og reynt yrði að hlífa því starfsfólki sem hefði lágar tekjur og miðlungstekjur á kostnað þeirra sem bera mikið úr býtum."

"Reynt yrði að láta þetta ekki bitna á starfsfólki (...) á kostnað þeirra sem bera mikið úr býtum." Er ekki mótsögn í þessari setningu? Ég held að það sé að minnsta kosti þrennt sem Ögmundur áttar sig ekki á. Í fyrsta lagi á því að það verður helst að vera einhver umbun fyrir að leggja á sig langt nám, mikla vinnu og ábyrgðarmikið starf - fólk vill vera metið að verðleikum. Í öðru lagi að eftir langt nám og sérnám eru læknar "gamlir" þegar þeir byrja að geta lagt fyrir og þegar læknar fara á eftirlaun hefur hver króna verið skemur í ávöxtun en hjá þeim sem byrja fyrr að vinna. Í þriðja lagi getur sú staða komið upp að íslenskir læknar vilji síður fara til Íslands að sérnámi loknu séu kjörin orðin töluvert lélegri en það sem erlendis býðst. Ögmundur er fullur af hugmyndum sem ég hef áhyggjur af.