Saturday, March 28, 2009

Flakkarinn bilaður

Á síðasta ári eyðilagðist harða drifið í makkanum. Nú er flakkarinn bilaður, fór tímabundið í gang aftur en núna fæst engin tenging. Leiðinlegt, bögg, vesen. Við Ásgeir höfum notað flakkarann sem geymslu fyrir gögn, fyrst og fremst bíómyndir og ljósmyndir, en þar voru einnig alls konar afrit og skjöl. Nú er bara að sjá hvort einhver viðgerðarmaður telur sig geta komið þessu í gang eða ekki. Sem betur fer brenndum við nýverið allar ljósmyndir á geisladiska til öryggis. Allur dagurinn hefur farið í að vesenast í þessu, símhringingar, netið, tilraunir. Sjáum hvað setur.

Var á námskeiði í gær, dagsnámskeiði fyrir unglækna í meinafræði. Það var mjög fínt.

Það er ergilegt að sjá að krónan sé aftur að veikjast. Gagnvart evru var hún komin niður í 144 krónur en er nú í 160 krónum. Ástandið er greinilega mjög óstöðugt.

Svo er merkilegt að fylgjast með þessum landsfundum. Samfylkingin reynir að hreinsa sig af mistökum og Sjálfstæðismenn eru með fáránlegar ályktanir, s.s. varðandi kvótakerfið auk þess að vilja stefna nú að meiri einkavæðingu í menntakerfi og heilbrigðismálum. Eftir mistökin varðandi einkavæðingu bankanna hljómar allt tal af hálfu Sjálfstæðismanna um einkavæðingu mjög illa. Svo fær maður gubbuna alveg upp í háls þegar Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lætur í sér heyra.

Eitt hef ég ekki skilið. Það er sú árátta öryggisvarða að girða spítalann í Alkmaar af. Spítalinn er að stórum hluta girtur með hárri vírgirðingu með þremur röðum af gaddavír efst. Nokkur hlið eru inn á lóðina aftanverða þar sem allir fara í gegn sem koma frá lestarstöðinni. Ekki er haft fyrir því að hafa öll hliðin opin til að spara fólki sporin og þegar komið er kvöld er hliðunum lokað. Svo að ekki sé hægt að klifra yfir hliðin eru gaddar ofan á þeim. Síðasta útspilið var að loka auka-stigahúsunum á spítalanum sem spöruðu manni ferð um allt sjúkrahúsið til að komast út. Það var gert án þess að láta vita þannig að eitt skiptið var ég kominn inn í stigahús en komst ekki út og varða að hringja í sjúkrahúsið til að unnt væri að hleypa mér út.

Annars er það að frétta að þetta verður róleg helgi. Svo er Ásgeir væntanlegur eftir viku, húrra!!!

Monday, March 23, 2009

Tónleikar

Fór í kvöld á tónleika í Het Concergebouw. Það var píanistinn Sokolov sem spilaði verk eftir Beethoven og Schubert. Mér fannst gaman að hlusta á sónöturnar eftir Beethoven en ég hef aldrei verið sérstakur aðdáandi píanóverka eftir Schubert. Verkið eftir Schubert var langt, næstum endalaust. Sokolov er frábært píanisti. Hann notar sérstakan áslátt sem er mjög mjúkur og fínlegur. Svo er hann svolítið sérstakur. Þetta er gráhærður maður með sítt hár, stóran maga og klæddist auðvitað ekta kjólfötum. Hann gekk inn á sviðið ofan frá, studdi sig við handriðið, hneigði sig fram í sal og aftur í sal og byrjaði svo strax að spila áður en fólk var hætt að klappa. Hann nennti ekki að standa upp til að hneigja sig milli Beethoven-sónata. Svo þegar hann stóð upp hneigði hann sig fram í sal og svo aftur í sal og var byrjaður að ganga út áður hann rétti sig við - hann notaði eiginlega skriðþungann við að halla sér fram í seinna skiptið til að bera sig áfram. Svona hneigði hann sig í hvert skipti. Þá fór hann út af sviðinu til hliðar en ekki upp, eins og venjan er. Þar sem ég sat á fremsta bekk sá ég hvernig hann beið fyrir utan, hlustaði eftir klappinu og kom inn aftur. Hann hikaði ekkert við að spila aukalög, þau voru alls fimm, sem er meira en oftast. Við hliðina á mér var maður sem var mjög upprifinn yfir öllu saman, hann kiptist við að kæti við hvers kyns hljóðeffekta og stundum titraði höfuðið á óskiljanlegan hátt. Hinum megin voru kærustur, sennilega stelpur í tónlistarnámi, sem létu vel að hvor annarri með handstrokum á meðan þær hlustuðu á tónlistina. Uppi á sviði var svo ríka gamla fólkið sem virtist almennt býsna sátt, fyrir kannski utan leiðinlegt en vel spilað verk eftir Schubert.

Sunday, March 22, 2009

Vor í loftinu

Það er enginn vafi að vorið er að koma. Ég vaknaði í morgun og úti var 10 stiga hiti, sól og logn. Nú er opið út á frönsku svalirnar, virkilega notalegt.

Síðastliðna helgi var ég á Íslandi, heimsótti loks Ásgeir. Við fórum í sumarbústað eina nótt sem var mjög gaman. Fórum í göngutúr í nágrenninu og rennblotnuðum í rigninu, keyrðum blindbyl yfir Hellisheiðina, fórum í 2 afmæli á laugardagskvöldinu og borðuðum auðvitað góðan mat. Ásgeir kemur svo hingað eftir rúmar 2 vikur og verður hér yfir páskana. Vonandi helst góða veðrið hér.

Ég var svo óheppinn að fá augnsýkingu. Hvort sem það var út af einhverri veiru eða vegna augnlinsa var þetta vesen. Var með krem fyrir augun og sá þess vegna illa. Mér var sagt í vinnunni að ég liti út eins og ég hefði setið á sumbli alla nóttina. Þetta er sem betur fer að lagast.

Er orðið “boð” gamaldags? Mér var sagt það, ég er alls ekki sammála því. Skoðanir?

Svo er alltaf að verða augljósara og augljósara að græðgi varð íslensku fjármálalífi að falli. Menn fóru inn í fyrirtæki og banka, soguðu allt fjármagn út og skildu eftir rústir einar. Það er augljóst að réttur var brotinn, en allt leyfðist einhvern veginn og menn töldu sig komast upp með hluti í nafni frjálshyggju, viðskiptalögmála og peninga. Í bakgrunninum voru vissar alþjóðlegar aðstæður og innlend stjórnvöld sem vildu hreinlega hafa hlutina eins og þeir voru, þar með talið takmarkað eftirlit.

Sunday, March 8, 2009

Skallaður

Er búinn að hafa það mjög gott undanfarið. Hér voru Baldur og Felix í heimsókn, hef farið út öll kvöld og gert eitthvað skemmtilegt með þeim. Auk þess að fara út að borða, sækja bari og fara í bíó fórum við í innflutningspartí hjá Ali, bandarískri vinkonu minni, og svo skruppum við í árdegisbít (lesist brunch) hjá Pierre. Baldur er búinn að taka hollenskar franskar ástfóstri. Var reyndar svo óheppinn í gær að vera skallaður. Ég sneri mér við og í þann mund gekk einhver árans stelpa sem var að skrifa sms og hallaði höfðinu fram beint á mig og með ennið í kinnbeinið á mér. Það er öruggt að ég fæ marblett, vona bara að hann verði ekki mjög áberandi. Þá verður þetta alveg eins og ég hafi verið kýldur.
Hélt fyrirlestur í vinnunni í gær, gott að það sé búið. Það var um vissa gerð forstigsbreytingar eggjaleiðara- og eggjastokkakrabbameina. Hef séð ýmislegt í vinnunni núna, m.a. Langerhans cell histiocytosis í heila, intracystic papillary brjóstakrabbamein, amyloidosis í lunga, embryonal carcinoma í eista, neurofibroma með storifom vaxtarmynstur, GIST í maga.
Fór í klippingu. Staðurinn sem ég fór á síðast var bara lokaður. Það var sennilega bara ágætt því að ég hefði örugglega ekki fengið jafnfína klippingu þar og ég fékk hjá Serbanum Goran. Ég hjólaði um nokkrar götur og sá svo rakarastofu sem mér leist vel á. Ég hafði ekki áhuga á að vera klipptur upp á klassíska hollenska vísu (þ.e. hár greitt aftur með miklu geli) en sá stað þar sem virtust vera útlendingar við vinnu þannig að ég fór þar inn. Hann Goran sagði að ég hefði verið illa klipptur síðast í hnakkanum. Hann dundaði við verkið í rúman klukkutíma, sagðist hafa viljað vera myndlistamaður en ekki haft efni á slíku námi. Því hafi hann lært að verða klippari, svo sinnir hann myndlistinni meðfram.
Horfði á viðtalið við Evu Joly í Silfri Egils. Það var mjög áhugavert að heyra einhvern tala um efnahagsbrot sem þekkir þau mál mjög vel, mæli með viðtalinu. Hún sagði meðal annars að almenningur þyrfti nú að borga reikninginn fyrir alla glæpina og að reikningurinn væri svo óheyrilega hár að ekki væri tækt á öðru en að menn yrðu dregnir fyrir dóm og sátt skapaðist um framtíðina, samfélagsleg sátt og traust.
Svo er Íslandsferð eftir nokkra daga júhú!!!

Monday, March 2, 2009

Á fyrsta farrými

Um daginn var venjulega lestin sem ég tek ekki til taks. Í staðinn var notuð gömul einnar hæðar lest með gömlum innréttingum og klefum. Ég sá að það yrði margt fólk í lest og settist bara á fyrsta farrými í þessari gömlu lest þó að kortið mitt gildi bara fyrir annað farrými. Ég settist í klefa þar sem voru þrjú sæti sitt hvorum megin við ganginn. Ég tók upp tölvuna og horfði svo á allt fólkið fara fram hjá öllum tómu sætunum og yfir á annað farrými. Svo kom bráðlega snyrtilegur eldri maður í frakka og settist í eitt sætið í klefanum. Þetta var greinilega maður sem ferðast á fyrsta farrými. Og viti menn, þar sem við vorum "saman í félagi", þ.e.a.s menn sem ferðast á fyrsta farrými, þá vorum við á sömu hillu og maðurinn spjallaði aðeins við mig. Eftir margar lestarferðir er þetta í fyrsta skipti sem nokkur talar við mig í lestinni, þó að oftast sé nóg af fólki á öðru farrými. Svona auðvelt er að kaupa sig inn í félag ríkra, maður þarf ekki annað en að gefa sig út fyrir að eiga peninga - þá fær maður að vera með.
Baldur og Felix eru í heimsókn hjá mér þessa dagana. Þeir komu á fimmtudag. Felix var með laugardagsútvarpsþáttinn sinn í beinni héðan frá Amsterdam. Svo skruppu þeir til Leiden í gær þar sem Baldur verður með nokkra fyrirlestra við háskólann þar. Þeir koma svo aftur þaðan á morgun. Það var mjög gaman um helgina hjá okkur, borðaður góður matur, fórum í boð til Pierre og Mei, fórum út á lífið og svo framvegis.
Kv Pétur.