Saturday, July 25, 2009

Billy

Við Ásgeir borðuðum ljúffengan mat í kvöld hér heima. Vitaskuld var það eitthvað sem Ásgeir eldaði. Hann fann uppskriftina í Jamie Oliver. Svo prufaði hann góða uppskrift af heimasíðunni hans Ragnars um daginn - ljúffengur réttur.

Holland hefur verið í fréttum heima. Sama er ekki beinlínis að segja um Ísland sem hefur vart borið á góma. Í DV var frétt um Hollendinga sem ætla að gera árás á Ísland og ná í IceSavepeningana. Ég las þessa síðu í gegn - greinilega samin af einhverjum með stórmennskubrjálæði. IceSavemálið hefur greinilega beint sjónum ruglaðra manna að litla Íslandi. Ég verð alls ekkert var við viðhorf af þessu tagi. Í augum flestra hér er IceSavemálið leyst, eða a.m.k. ekki á döfinni.

Ásgeir fór í vikunni og keypti bókaskápinn Billy í Ikea. Reiddi skápinn heim á hjóli - mikið afrek. Stofan okkar er orðin svakalega fín. Greinin mín um ristilkrabbamein (munur á hægri og vinstri hluta) er alveg að verða búin. Ég vinn að henni þegar tími gefst til og hún er alveg að verða tilbúin. Það verður frábært að klára hana.

Vinnan.. jú, það voru nokkur áhugaverð tilfelli þessa vikuna, t.d. útbreiddar fituembólíur í lungum eftir lærleggsbrot og aðgerð, nokkrar undirtýpur legbolsslímhúðarkrabbameins, vellus hair cyst, erythema chronicum migrans, palmoplantar pustulosis, atypical fibroxanthoma, goblet cel type hyperplastic polyp, nodular melanoma, mesonephric hyperplasia í leghálsi, anaplastic T frumu lymphoma, Kaposi sarcoma í forhúð.

Á næstunni Gay pride hér í Amsterdam, London, Stokkhólmur, Graz og síðustu 2 mánuðirnir í Alkmaar.

Thursday, July 16, 2009

Bloggið

Eru flestir hættir að blogga? Hér til hliðar er listi yfir ýmis blogg en flestir eru hættir.

Annars er allt gott að frétta. Það hefur verið aðeins minna að gera í vinnunni undanfarið og ég er yfirleitt kominn heim klukkan sjö. Við fórum síðustu helgi í kvöldmat til Valtýs sem er að læra barnalæknisfræði í Utrecht. Um þessar mundir erum við einu Íslendingarnir í sérnámi í læknisfræði í Hollandi. Það var mjög gaman að heimsækja Valtý og konuna hans, Eddu. Þau búa í þorpi rétt utan við Utrecht. Þetta þorp er fullkomið fyrir fjölskyldufólk og það var gaman að sjá hversu vel þau búa. Mér hafði verið sagt að það væri mjög gott að ala upp börn í Hollandi og svo sagði Edda mér að kannanir sýni að hollensk börn séu hamingjusömustu börn í heimi.

Við fórum á laugardaginn í danspartí á Melkweg en fyrr um daginn vann ég í enn einni greininni sem ég er að skrifa um ristilkrabbamein.

Vignir kom í heimsókn í dag og verður fram á sunnudag. Hér verður mikið stuð.

Svo er maður að spá í það hvað best sé að gera við peningana heima á Íslandi.... hmmm.

Saturday, July 11, 2009

Staatslotterij

O, vann ekkert í lottóinu hollenska, staatslotterij - hæsti vinningur var 24 milljónir evra auk fjölda smærri peningavinninga en ég vann ekkert á eina lottómiðann sem ég keypti á 15 evrur. Hæsti vinningurinn gekk reyndar ekki út (þeir draga ekki bara út á selda miða). Líkurnar á því að vinna stærsta vinninginn eru reyndar mjög litlar; maður þarf að hafa 6 tölustafi og tvo bókstafi rétta.

Ásgeir tognaði síðastliðinn sunnudag á ökkla og hefur verið mestmegnis heima þessa vikuna. Þetta kom sér mjög illa því að hann var bókaður í prufu í dag í Dusseldorf. Þrátt fyrir meiðslin fór Ásgeir með lest til Dusseldorf í morgun en ætlar að fara mjög varlega til að togna ekki aftur.

Síðusta helgi var mjög skemmtileg. Við fórum niður á strönd á laugardeginum, Zandvoort am Zee. Það er frábær strönd og sjórinn (Atlantshafið!) var meira að segja hlýr inn við land. Ég bjó til stórt sandfjall. Ásgeir og Inga æfðu dans en Kjarri tók myndir af öllu saman.



Í síðustu viku fór ég á námskeið, fyrst kvöldnámskeið í forstigsbreytingum vélindakrabbameins og svo á þriggja daga námskeið í sameindameinafræði. Framfarir í skilningi á sjúkdómum liggja í sameindalíffræði þannig að ef maður ætlar að vera með á nótunum er eins gott að setja sig inn í það efni sem fyrst. Það má segja að sameindameinafræði sé einu stigi lengra inn í líkamann en það sem ég geri dags daglega - en það er annars vegar að skoða vefina með berum augum og svo í smásjá. Sameindirnar sjást hins vegar ekki í smásjánni og þess vegna segi ég að þetta sé einu stigi lengra gengið.
Annars finnst mér stundum skondin sú vanþekking sem fólk hefur á því starf sem ég sinni. Það virðist til dæmis algengur misskilningur að halda að vefjasýni séu send í ræktun. Ræktun???? Jú, strok, vessar og vökvasýni eru send í sýklaræktun. Sýni frá sjálfum vefjunum eru sjaldnar send í sýklarannsókn en oftast í vefjarannsókn - skoðun á því hvernig vefur er byggður upp og hvaða sjúkdómar þar birtast.
En hvað hefur áhugavert drifið á fjörur mínar í vinnunni undanfarið? Granulomatous bólga í eista og eistalyppu, eitlaæxli í eista, teratoid carcinosarcoma í eggjastokk, serous krabbamein í legbolsslímhúð, rauðir hundar í húðsýni frá andliti, Meckels diverticulum með ectópískan brisvef, granulomatous bólga í lifur, phyllodes tumor í brjósti, tærfrumubrjóskkrabbamein, lifrarkrabbamein, legbolsslímhúð með anovulatory breytingar, dilateruð cardiomyopathia, hemochromatosis í lifur, lentigo maligna melanoma, pseudoangiomatous stromal hyperplasia í brjósti, aukabrjóst í handarkrika og ýmislegt fleira.
Og hvað stendur til nú um helgina. Jú, vinna í greininni sem ég er að skrifa. Hún fjallar um mun á krabbameinum hægra megin og vinstra megin í ristli og mun á gömlum og ungum ristilkrabbameinssjúklingum. Svo ætla ég í ræktina í dag.