Saturday, September 26, 2009

Reif buxurnar

Í einu eldra bloggi skrifaði ég um það hvernig spítalalóðin í Alkmaar er að hluta (svona 50%) til girt með hárri girðingu með gaddavír og til að komast í gegn þarf maður að fara í gegnum rammgerð hlið með göddum ofan á. Af einhverjum ástæðum er svo hliðunum lokað á kvöldin og þá þarf maður að fara út að framan og fara stóran krók til að komast á lestarstöðina. Enginn virðist vita af hverju þetta er svona, þetta er eitt af þessu skrýtna sem maður rekur sig á í útlöndum en heimafólki finnst sjálfsagt. Ég var seint á ferðinni og klifraði yfir hliðið líkt og ég hef reyndar oft gert áður. En núna var ég óheppinn - önnur buxnaskálmin festist í göddunum og það kom gat. Mig langar helst til að stoppa upp í lásana með drasli og eyðileggja þessi asnalegu hlið.
Sjonni er í heimsókn (ps hann biður að heilsa). Við fórum í gær á Ríkislistasafnið meðal annars. Í dag er förinni heitið í Amsterdamskóginn til að fara á kanó í lúxusveðri.
Pétur.

Sunday, September 20, 2009

Enn eitt helgarbloggið

Hvar á maður að byrja eftir stutt bloggstopp? Til dæmis með því að segja frá því að þarsíðustu helgi sótti Ásgeir um starf við dans hér í grennd við Amsterdam og fékk það. Það verðu að geta þess að það var á brattan að sækja; 400 manns sóttu um að fá að koma í prufuna, þar af fengu 150 að mæta á svæðið. Fyrsta val fór fram á föstudegi, næsta val á laugardegi og svo loks aftur á sunnudegi uns tæplega 15 manns voru eftir. Þá þurfti að velja 6 til starfans - og Ásgeir fékk auðvitað starfið. Danshöfundurinn heitir Gabriela Majorino (ég skrifa þetta ábyggilega ekki rétt).
Helgina þar á eftir komu Friðrik og Helga í heimsókn. Þá var auðvitað gert margt skemmtilegt, m.a. siglt um síki Amsturdamms á mótorbáti, gengið út um allt, slakað á og borðaður góður matur.
Ásgeir hélt til London síðustu helgi þar sem hann er búinn að vera á vinsælu dansnámskeiði. Hjá mér hefur verið mikið að gera í vinnunni. Ég á bara eina og hálfa viku eftir í Alkmaar - þá fer ég aftur á spítalann í Amsterdam. Fór í brúðkaup á föstudag, glæsilegar veitingar á litlum veitingastað í borginni sem var eingöngu nýttur í þetta, og síðan sigling um síki borgarinnar á gömlum lystibát. Í gær vaknaði ég snemma (þreyttur og myglaður) og fór á dagsnámskeið í nýrnameinafræði. Var svo þreyttur í gærkvöldi að ég gat varla staðið upp af sófanum. Framundan er ýmislegt en það helst að Sjonni kemur í heimsókn næstu helgi.