Sunday, March 28, 2010

Sunnudagsblogg

Ég nenni ekki að gera fyrirlestur og á erfitt með að koma mér að verki. Í næstu viku á ég að flytja fyrirlestur á hollensku meinafræðidögunum um hluta ristilrannsóknarinnar. Þetta er pínulítið spennandi því að ég hef ekki flutt áður fyrirlestur á ráðstefnu. Á fimmtudaginn verður æfingafyrirlestur. Svo get ég endurbætt fyrirlesturinn næstu helgi. Í rannsókninni var ristilkrabbamein ungra borið saman við aldinna og hægra megin í ristli borið saman við vinstra megin. Þetta er áhugavert efni en niðurstöðurnar ekki sláandi.
Ásgeir hélt af landi brott í gær með viðkomu í Kaupmannahöfn til að heimsækja Vigni. Ég er einn í kotinu og hef setið við skrif. Tók líka til og þvoði þvott. Hjálpaði líka Sillu í gær við flutninga og við fórum svo á sérkennilegan veitingastað í hverfinu. Þá gafst tími til að ná í mjög dularfullt bréf á pósthúsið, bréf sem reynt var að færa mér hér heim í ábyrgðarpósti - Ásgeir mátti ekki taka við því. Ég fór á pósthúsið með vegabréfið og fékk hið dularfulla bréf í hendurnar. Þá var þetta bara nýja kreditkortið, ekki meira spennandi en það. Svo hóf ég lestur á bók eftir Sigurð Nordal, bók sem Þórunn amma gaf mér fyrir langa löngu síðan. Ég hafði lengi ætlað mér að lesa bókina en ekki komið því í verk. Undanfarið hef ég tekið eftir bókarkilinum í hillu í stofunni og byrjaði svo dag einn að lesa í henni. Það var eins og bókin kallaði á mig. Hún heitir Áfangar og fjallar um tilgang lífsins, hvorki meira né minna.
Í nótt komst á sumartími og nú er tveggja tíma munur á Hollandi og Íslandi. Ég skildi ekkert í því hvað ég virtist hafa sofið lengi í morgun. Svo er það að nefna að Garðar bróðir kemur í heimsókn næstu helgi.

Tuesday, March 23, 2010

Vlieland

Við Ásgeir fórum í helgarferð til Vlieland síðastliðna helgi. Ferðalagið tók tók tæpa 5 klukkutíma með lest, rútu og ferju. Vlieland er frísnesk eyja norðarlega í Hollandi, eitt strjálbýlasta svæði landsins með 1300 íbúa. Við komum þangað á föstudagskvöldi, leigðum hjól og gistum á góðu hóteli rétt fyrir utan þorpið. Við skoðuðum þorpið og fundum út að aðaltískufyrirbrigðið í gluggakistum eyjaskeggja var symmetría - þ.e.a.s. tvennt af einhverju, yfirleitt tveir vasar (oft með greinum) eða tveir blómapottar, stundum tveir kertastjakar. Við fórum út að borða í þorpinu, keyptum ís og fórum á bar og hlustuðum á trúbador. Svo hjóluðum við um eyna og fórum á afskekkt kaffihús, fengum bæði rok með smá rigningu og sólskin, gengum á langri hvítri strönd, horfðum á seglskútur, sáum hollensk sumarhús og helling af alls konar fuglum, skoðuðum gömul kort sem sýndu að eyjan var miklu stærri áður fyrr og heilt þorp var farið í kaf, horfðum á skemmtilegar bíómyndir, spiluðum, drukkum rauðvín og slökuðum á. Við fórum í túristabúð og keyptum tvö kerti til að hafa symmetrískt skraut heima.
Svo er það að frétta að ég fer nú daglega til den Haag þar sem fæ að kynnast réttarlæknisfræði. Stundum sé ég í fréttum hvort eitthvað verður að gera í vinnunni næsta dag. Í gær fór ég í réttarsal en það var mjög áhugavert að sjá.
Þar til síðar.

Wednesday, March 3, 2010

Kominn mars

Margt hefur verið brallað síðan síðast.
- Axel og Eric komu í heimsókn, gistu eina nótt, skruppuð á djammið.
- Ásgeir vinnur þessa dagana sem statisti í óperu, ýmist munkur eða fangi.
- Dansverkið IOVIODIO, sem Ásgeir dansar í, var frumsýnt, gekk mjög vel.
- Keyptum borð í IKEA, sem varð til þess að við tókum til í öllum skúffum á heimilinu.
- 2 af 3 hjólum fóru í viðgerð í vikunni.
- Eyjólfur flutti til Utrecht, kom með okkur á djammið og gisti í Amsterdam.
- Ég vann lestarspilið, loksins.
- Ristilgreinin sem ég skrifaði í haust ásamt öðrum var samþykkt til birtingar í International Journal of Cancer.
- Höldum áfram að horfa á Will og Grace á netinu, komnir í seríu 3.
- Höldum einnig áfram að horfa á Lost, núna er 5. sería byrjuð.
- Verð 2 vikur í mars með réttarlæknisfræði-rotation. Þarf þá að fara til den Haag daglega. Á laugardag kúrs í blóðmeinafræði. Í apríl kúrs í cýtólógíu. Auk þess verð ég með fyrirlestur á hollensku meinafræðidögunum í byrjun apríl.
- Var á bakvakt í síðustu viku - aldrei hringt.
- Fylgst með Icesafe ... ætlar þetta aldrei að taka enda?
- Loksins farið að hlýna, ekki jafnkalt heima.
- Pabbi 65 ára.
- Ýmis áhugaverð sýni í vinnunni: 2 granulosa cell tumorar, Chagaz disease í smágirni, Malakoplakia í nýra, Langerhans cell histiocytosis, hepatocellular adenoma, hydrops foetalis, sacrococcygeal teratoma, synovial sarcoma, eosinophilic colitis, eosinophilic oesophagitis, autoimmune gastritis, embryonal rhabdomyosarcoma, ganglioneuroblastoma, ependymoma, retinoblastoma, perineurioma, enchondroma og margt fleira sem ég man ekki í svipinn.