Wednesday, May 20, 2009

Léleg bankaþjónusta?

Ég ákvað að skjótast í bankann í gær, komst með herkjum úr vinnunni og ætlaði að millifæra á erlendan reikning. Ég fór í stóran banka í miðbæ Alkmaar, gekk að afgreiðsluborðinu og sagðist vilja millifæra á erlendan reikning. Þá var mér bent á viðskiptavinatölvu úti í horni. Ætlast væri til þess að maður sæi um allt slíkt sjálfur. Reyndar var til önnur tölva en hún var biluð. Þannig að það var aðeins til ein tölva í öllum bankanum til afnota fyrir viðskiptavini - og hún var auðvitað upptekin í dágóða stund því að þar var einhver kona að borga reikningana sína. Þetta var fáránlegt. Á meðan ég beið fjölgaði svo kúnnum sem þurftu að nota tölvuna en á meðan sátu afgreiðslukerlingarnar þrjár fyrir aftan afgreiðsluborðið sitt en gátu ekkert gert til að hjálpa viðskiptavinum sem tíndust inn, þeir áttu bara að fara í röð við tölvuna. Svo þegar kom að mér þurfti ég auðvitað hjálp við þetta en síðan strandaði ég fljótt aftur. Þá var fólk fyrir aftan mig orðið pirrað á biðinni þannig að ég ákvað að hætta þessu og fór - án þess að klára millifærsluna. Það hefði verið mjög fljótlegt og einfalt að fá bara hjálp gjaldkera við þetta.
Hvað var í gangi? Jú, þróunin í bankaþjónustu hér í Hollandi er sú að fólk eigi að gera allt sjálft á netinu og gjaldkerar í bönkum eru nánast útdauð stétt. Hollendingarnir í vinnunni segja að þetta sé vandamál. Gamalt fólk sem ekki kann á tölvu lendir í vandræðum og það er vonlaust fyrir börnin að fara með klynk úr sparibauknum í bankann til að leggja inn á reikning. Þó að netþjónustan sé fín þá var ágætt að geta nýtt sér þjónustu gjaldkera af og til. Ég er á móti þessari þróun sem er greinilega einhvers konar sparnaðarráðstöfun með niðurskurði á þjónustu.

No comments: