Tuesday, October 28, 2008

Skattskýrsla, garg

Ég er búinn að komast að því að ég get ekki gert þessa skattskýrslu fyrir 2007 sjálfur. Það er of mikil hætta á að einhver villa verði til tvísköttunar eða slíks og mörgum spurningum er ósvarað sem enginn sem ég þekki kann svar við. Og erfitt er að vinda ofan af slíku. Á föstudaginn var sagði einhver hundleiðinlegur karl hjá skattinum að ég gæti ekki fengið frest. Svo hringdi ég aftur í dag og þá var það hægt, ég þyrfti bara að senda inn beiðni. Nú er bara að vona að ég fái frestinn. Í sambandi við óskilvirka skriffinsku er skattskýrslan sem ég þarf að fylla út aðeins til á pappírsformi og það tekur 6-8 vikur að fá nýja skýrslu en ég óskaði eftir því þar sem ég hef fyllt upprunaleug skýrsluna að hluta vitlaust út.

Annars var verst að komast að því að ég hefði e.t.v. getað sleppt því að senda inn skattskýrslu til að byrja með þar sem ég vinn á sjúkrahúsi og borga skatt strax. Nú er skatturinn hins vegar búinn að vasast í þessu og þá verður ekki aftur snúið.

Xavier var í heimsókn hjá okkur um helgina. Það var mjög gaman að fá hann í heimsókn. Við skoðuðum aðeins borgina og næturlífið.

Svo var enn einn langi vinnudagurinn í dag, var að til klukkan 22.

Kveðja, Pétur.

Wednesday, October 22, 2008

Skattskýrslan framhald

Ég var rosalega sniðugur í dag. Illa gekk að skilja allar spurningarnar í skattskýrslunni en ég greip áðan á það ráð að fá ókunnugan Hollending í lestinni til að hjálpa mér. Meira að segja hann skildi ekki allar spurningarnar!! Annars gekk þetta vel, á 40 mínútum fórum við í gegnum um helming spurninganna.

Tuesday, October 21, 2008

Skattskýrslan

Eihvern tímann í sumar tókst mér að skila loks inn hollensku skattskýrslunni fyrir 2007, löngu á eftir áætlun. Það var leiðinlegt verk sem hafðist á endanum. Nú er ég búinn að fá bréf frá skattinum þar sem kemur fram að ég hefi fyllt út vitlausa skýrslu þar sem ég bjó ekki allt árið í Hollandi. Garg. Fékk senda skýrslu, tugi blaðsíðna, sem ég þarf að fara í gegnum og svara. Verst er að ég hnýt um svo margt, tekur allt of langan tíma.
Kveðja, Pétur.

Thursday, October 16, 2008

Arnhem og flugmiðar

Ég er búinn að kaupa flugmiða til Íslands um jólin, náði að kría út 2 vikna frí og kem 21. desember. Ég keypti flugmiða með flugpunktum. Það er ekki í frásögur færandi nema að flugvallarskattar, eldsneytisgjald og skráningargjald var nærri 25.000 krónur!
Við Ásgeir ætlum að dvelja í Arnhem næstu helgi, lítilli borg fyrir sunnan Amsterdam. Þar æfir dansflokkurinn hans Ásgeirs og við verðum með herbergi í íbúð dansflokksins. Á hverjum degi förum við Ásgeir hvor í sína áttina til vinnu, ég í norður til Alkmaar og hann í suður til Arnhem. Ferðalagið tekur mig um klukkutíma og 10 mínútur. Mér líka vel að sitja í lestinni og lesa eitthvað. Ég er farinn að lesa hollensku blöðin. Icesave-reikningarnir voru á forsíðu blaðanna í dag því enn berast fréttir af tapi sveitarfélaga og halda menn að þar séu ekki enn komin öll kurl til grafar. Maður spyr sig óneitanlega hvað varð um alla þessa peninga sem lagðir voru inn á Icesave-reikningana. Fór þetta allt í einhverjar fjárfestingar einhvers staðar í útlöndum, fjárfestingar sem nú eru lítils virði? Og nú þarf íslenska ríkið (þ.e. Íslendingar) að borga hollenskum almenningi tapið. Annars eru Hollendingar bara rólegir yfir þessu og ég verð ekki var við neitt eins og virðist hafa átt sér stað í Bretlandi.

Sunday, October 12, 2008

Tónleikar með Emiliönu Torrini

Við Ásgeir vorum áðan á tónleikum með Emiliönu Torrini sem hún hélt í aflagðri kirkju nálægt miðbænum. Ásgeir var búinn að kaupa miða á tónleikana og ég mátti ekkert vita fyrr en við vorum komnir á staðinn. Tónleikarnir voru auðvitað mjög skemmtilegir og Emilíana á sér marga aðdáendur greinilega. Enginn aðsúgur var gerður að okkur Íslendingum þrátt fyrir Icesave-vandamálið og íslensku fjármálakreppuna sem hefur verið á allra vörum hér undanfarið. Hollendingar virðast frekar rólegir yfir þessu öllu þó að fólki með Icesave-reikninga hafi brugðið.
Mér líkar vel á nýja spítalanum í Alkmaar, hann minnir óneytanlega á LSH, er svipaður að stærð (aðeins minni) og stemmningin í meinafræðinni góð.
Þetta blogg átti að vera lengra en klukkan er orðin allt of margt. Kveðja, Pétur.

Wednesday, October 1, 2008

Mastersverkefni lokið

Þá er mastersverkefninu loks lokið. Ég var á Íslandi frá miðvikudegi til þriðjudags og varði verkefnið á mánudaginn var. Fyrirlesturinn gekk mjög vel. Meginhluti tímans á Íslandi fór í að gera fyrirlesturinn, nokkrar æfingar og ítarlegar yfirferðir með leiðbeinendunum og öðrum sérfræðingum er koma að rannsókninni. Ég er þeim þakklátur fyrir að hafa sett tíma sinn í þetta, fyrirlesturinn varð margfalt betri fyrir vikið.
Auðvitað var margt á síðustu stundu eins og oft vill verða. Ég var seinn að koma mér niður á Læknagarð til að halda fyrirlesturinn og þá mundi ég eftir því að Sigurdís hafði ráðlagt mér að lesa nú til öryggis ritgerðina fyrir fyrirlesturinn því að prófararnir gætu spurt úr hinu og þessu í inngangnum. Ég ákvað því að kíkja á örskotsstundu á tvær blaðsíður sem mér fannst helst þörf á að rifja upp, sit í bílnum á planinu fyrir utan Læknagarð og þá var bíl lagt við hliðina á mér. Þar var gestur kominn á fyrirlesturinn og sér mig, örfáum mínútum fyrir klukkan fjögur, að lesa eigin skrif úti í bíl! Þegar ég kom inn sagði Jón Gunnlaugur, leiðbeinandi: "Gott að þú ert kominn." Kynningin var skondin að því leyti að ég var kynntur sem Bjarni eftir að ég hafði áður verið kynntur sem Pétur rétt áður.
Í Íslandsheimsókninni náði ég ekki að gera ýmislegt sem til hafði staðið. Ég hafði ætlað að djamma pínulítið en var of þreyttur til þess, ég ætlaði í sund en náði því ekki, ég ætlaði í partí á laugardagskvöldið en komst ekki. Ég náði samt að gera heilmikið og er ánægður með að hafa leyst fyrirlesturinn vel af hendi.

Smá ráð til þeirra sem nota flugfélar: Ekki koma 8 mínútum fyrir brottfarartíma út að hliðinu (ég fékk áminningu). Gulli segir að maður verði að vera kominn hálftíma fyrir flug út að hliði, annars megi skilja mann eftir eða láta "standby" farþega fá sætið.

Fyrsti dagurinn í Alkmaar var í dag. Tók lestina út eftir og lenti í smá ævintýri á leiðinni. Flestar lestarstöðvar eru frekar illa merktar í Hollandi og ef maður missir af hinu eina skilti á lestarpallinum er ekki alltaf gott að vita hvar maður er. Ég sat í aftasta vagni lestarinnar, vagninum sem fer til Alkmaar og lestin staðnæmdist á lestarpalli sem ég hélt allt í einu að væri kannski í Alkmaar. Spyr gamla konu: "Is dit Alkmaar?" og hún sagði já. Þá stekk ég út og dyrnar lokast strax á eftir mér. Auðvitað kom í ljós að þetta var 2 stöðvum á undan Alkmaar og horfði ég illilega á konuna gegnum gluggan þegar lestin fór framhjá. Hún hefur sennilega haldið að ég væri að spyrja hvort þetta væri vagninn til Alkmaar. Tók svo næstu lest 10 mínútum seinna og var ekki seinn þar sem ég hafði lagt snemma af stað. Keypti á lestarstöðinni í Alkmaar keypti ég regnhlíf á 4.5 evrur af því að það var farið að rigna. Ég var ekki búinn að nota regnhlífina í mínútu (ég er ekki að ýkja) þegar hún gjörsamlega rústaðist í veðrinu. Fyrst blés undir hana þannig að hún flettist í öfuga átt, við það brotnuðu litlu vírarnir meira og minna og síðan liðaðist prikið af hlífinni og ég kastaði svo draslinu í næstu ruslatunnu. Allt tók þetta ekki meira en 1-2 mínútur. Þar að auki var eiginlega hætt að rigna. Þetta var fáránlegt og fólk í kringum mig gat ekki annað en hlegið.

Allur dagurinn fór í kynningu á spítalanum í Alkmaar. Það var meðal annars stutt skyndihjálparnámskeið, leiðsögn um spítalann og margt fleira. Svo heldur kynningin áfram á morgun.

Kveðja, Pétur.