Wednesday, October 31, 2007

Í vinnunni

Sit hér í vinnunni, klukkan er orðin sex og ég nenni ekki að halda áfram að vinna né að fara læra hollensku fyrir prófið á morgun (fyrri hluti, seinni hluti á mánudag). Dagarnir hjá mér í vinnunni eru misjafnir. Þetta hefur verið þannig að annan hvern dag fæ ég bunka af glerjum, t.d. um 40 tilfelli í dag, sem ég pæli svo í gegnum með tilheyrandi sérfræðingi. Um er að ræða mestmegnis lítil vefjasýni (bíopsíur) en einnig einstöku stærri sýni sem ekki eru mjög flókin, t.d. fylgjur. Sumt klárum við samdægurs en annað tekur nokkra daga eða lengri tíma eftir því hvort einhverjar sérrannsóknir þarf að gera. Tilfellin eru blönduð þannig að ég fæ hvað sem er; húð, legháls, beinmerg, brjósvef, blöðruhálskirtilsvef, heilavef, meltingarfæri, öndunarfæri og svo framvegis. Það sem ég hef séð mest af er húð og efri meltingarvegur. Í dag var smá drama hér í vinnunni. Einn unglæknirinn klárar í janúar doktorsverkefnið sitt eftir fimm ára vinnu og núna virðist vera mikið álag því að hún lenti í þrætu við einn leiðbeinandann, talaði hátt og fór að gráta. Svo féll allt fljótlega í ljúfa löð og það var eins og þetta væri bara ekkert merkilegt, dálítið spes. Ég skildi því miður ekki hvað fór fram en held að þetta hafi snúist um m.a. misvísandi skilaboð frá leiðbeinendunum.

Bankamálin halda áfram að vera óþolandi. Ég fór í bankann í gær. Lét opna aftur kortið mitt af því að það hafði ekki tekist síðast, gekk í þetta skiptið. Einnig gerði ég enn eina tilraun til að fá auðkennislykil fyrir internetbankann. Þau áttu hann ekki til (eins og síðast) en hringdu í næsta útibú og þar voru þeir til. Þegar ég kom þangað sagði bankamaðurinn mér að hann hefði gert mistök, þeir ættu heldur ekki auðkennislykla. Þar að auki var þetta sami lati bankastarfsmaðurinn sem hafði opnað reikninginn minn upphaflega og EKKI sent mér IBAN og SWIFT númer í pósti eins og ég hafði beðið um (hann gat ekki gefið mér þær upplýsingar á staðnum). Í þokkabót hafði ég komist að því að þeir sem opna nýjan reikning (young professional account) í bankanum um þessar mundir ættu að fá 100 gefins. Mér hafði ekki verið boðið upp á það og þegar ég spurði hvers vegna var mér sagt að svo væri vegna þess að ég væri útlendingur! Ég var öskureiður skammaðist yfir þjónustunni, heimtaði að fá þessar hundrað evrur, a.m.k. sem bætur fyrir allt vesenið og lélega þjónustu. Svo var hringt í dag og mér tilkynnt að ég fengi þessar hundrað evrur. Mér er skapi næst að skipta um banka en gallinn er að ég nenni því varla af því að slíkt er svo mikið vesen.

Sunday, October 28, 2007

Frettir

Nokkuð er liðið frá síðustu færslu - það er sennilega til marks um að lífið sé farið að falla í ljúfa löð. Vinnudagurinn hjá mér er frá 8:30 til um 18 til 18:30. Ég hef verið á kvöldkúrsi í hollensku tvisvar í viku en mér finnst ég ekki hafa náð að sinna því nógu vel. Á næstu dögum er svo hollenskupróf sem ég þarf að læra fyrir í dag. Stundum er ég býsna þreyttur á þessu tungumáli, ekki síst í gær en þá var fræðsludagur fyrir unglækna í meinafræði. Ég tók lest til Den Haag í gærmorgun þar sem réttarlæknisfræði í Hollandi var kynnt. Þegar klukkan var orðin fimm var ég gjörsamlega búinn að fá nóg og hugsaði með mér þegar fólk talaði "haltu kj...". Ég skildi auðvitað ekki allt sem fór fram og var orðinn mjög óþreyjufullur að komast út og tala íslensku eða ensku. Fékk far heim en varð ekki að ósk minni og þurfti að tala hollensku þá leiðina því að bílstjórinn kunni svo lítið í ensku.

Í gærkvöldi fórum við í afmælisveislu til stelpu sem heitir Ozden og var með mér á hollenskunámskeiðinu, þar hitti ég bekkjarfélagana frá dagkúrsinum í september sem var skemmtilegt. Á föstudagskvöldið var mikið um að vera tengt vinnunni. Einn meinafræðingurinn var að hætta störfum og þá var öllum meinafræðingum, unglæknum og mökum boðið í þriggja rétta mat og vin á skemmtilegum veitingastað á Museumplein, staðurinn var tekinn frá fyrir allan mannskarann. Þetta var skemmtilegt. Ég var boðinn velkominn og Ásgeir kynntur líka. Annars var þetta svolítið spes. Það er hollensk venja að vera með atriði á hvers kyns skemmtunum. Unglæknarnir tóku sig til og sungu lag með breyttum texta og tveir sérfræðinganna gerðu stutt leikrit sem þar sem valdir kaflar úr lífi þess sem var að hætta voru leiknir. Þetta var skemmtilegt kvöld - og loksins fékk Ásgeir að sjá fólkið sem ég hef verið að tala um þegar ég kem heim. Það var raunar í líka ástæða fyrir Ásgeir að fagna á föstudaginn því að þá lauk óvinsælu námskeiði í skólanum hans.

Smásjáin mín, þessi lélega, fór í viðgerð um daginn og kom betri til baka. Ég ætla samt að garfa í því að fá eitthvað betra vinnutæki. Ég er enn eingöngu að smásjárskoða og er farinn að geta dikterað hraðar en þetta er þó enn frekar stirt og ég rekst á marga veggi í tali. Hef lært mikið í meinafræði síðastliðinn mánuð og séð ýmislegt áhugavert.

Við Ásgeir erum byrjaðir að fara í líkamsrækt. Við förum tvisvar í viku, fórum t.d. í morgun. Erum með einfalt æfingaplan sem við ætlum að fylgja næstu vikurnar. Stöðin þar sem við æfum er lítil og heimilisleg þar sem allir virðast þekkja alla. Svo er hún ódýr og fátt fólk æfir þarna sem okkur finnst ágætt. Við göngum óhindrað í öll tæki, sem eru reyndar aðeins gömul, en samt mestmegnis ágæt.

Bankamálin eru að gera mig brjálaðan. Ég opnaði bankareikning 28. september. Svo átti ég að fá sent debetkort nokkru dögum síðar en fékk ekki. Það leið og beið, ég hringdi og fór í bankann og fékk þau svör að þetta væri á leiðinni í póstinum. Svo kom loks í ljós að það var einhver bilun í kerfinu þannig að ég þurfti að sækja um nýtt kort sem ég fékk þremur vikum eftir að ég hafði opnað reikninginn. Fór svo í bankann til að opna kortið. Samt hefur mér ekki enn tekist að nota það og nú þarf ég enn einu sinni að fara í bankann út af þessu - garg. Þau áttu ekki til auðkennislykil síðast þegar ég kom í bankann þannig að ég hef ekki enn getað farið í netbankann. Þetta gerir mig brjálaðan. Nú þarf ég enn einu sinni að fá leyfi til að fara úr vinnunni til að fara í bankann. Svo get ég lítið gert í bankanum nema sýna vegabréfið mitt. $%"#$%

Hins vegar get ég gert grein fyrir þeim gleðifregnum að ég er kominn með lækningaleyfi hér í hollandi.

Við Ásgeir erum að prufa svolítið nýtt en óhuggulegt - að halda nákvæmt heimilisbókhald. Höfum ekki gert það hingað til en skráum nú allt, stórt sem smátt í skrá sem sýnir mánaðareyðsluna. ... Hingað til hef ég bara notað kreditkortið til þess að fylgjast með eyðslunni en hér nota ég meira seðla þannig að kreditkortayfirlitið dugði ekki lengur.

Við höfum það gott í litlu íbúðinni okkar hér á Van Nijenrodeweg. Íbúðin sem við leigjum hér (með húsgögnum í nýlendustíl, búddastyttum og öðru) hef reynst okkur vel. Þess má reyndar geta að eigandi íbúðarinnar er hávaxinn eins og margir hollendingar og þegar hann innréttaði eldhúsið gerði hann það í samræmi við hæð þannig að skáparnir eru hátt uppi og eldhúsborðið (sem er eiginlega eins konar barborð) er einnig alltof hátt miðað við stólana.

Það er orðið haustlegt um að litast og frekar kalt snemma á morgnana en ég get enn farið um á þunnu úlpunni minni. Þyrfti reyndar að fá mér vettlinga. Ásgeir er hins vegar betur klæddur.

Kveðja, Pétur.

Sunday, October 14, 2007

Einn i kotinu

Það mætti vera meira stuð á sunnudögum hjá mér. Svo er hins hins vegar ekki raunin og sunnudagar hafa verið útnefndir vinnudagar í ristilrannsókninni. Hef hangið inni í allan dag á meðan sólin skín úti. Get samt verið sáttur við að vera búinn að koma ýmsu í verk í dag. Framundan í dag eru þrif, smá hollenskunám og meiri vinna í ristilverkefni.

Í gærkvöldi leigði ég myndina Apocalypto. Það kom mér aðeins á óvart að talið í myndinni er á einhverju sérkennilegu tungumáli og aðeins var hægt að hafa hollenskan texta. Sem betur fer var myndin ekki flókin þannig að þetta hafðist en rýrði myndina kannski eitthvað. Það var áhugavert að sjá hvernig þeir gerðu sér menningu Maya í hugarlund. Samkvæmt þeirri mynd sem dregin er upp í myndinni var þetta frekar grimmt þjóðfélag.

Kvöldkúrsinn sem ég er á núna í hollensku er ágætur. Nemendahópurinn er misjafn en samanstendur m.a. af þýskum skiptinemum, Ítala, Kana, Frökkum, Breta, Marokkóbúa og Ísraela. Almennt séð kunna nemendurnir meira fyrir sér í tungumálinu en þeir sem ég var með á dagkúrsinum en það var kúrs fyrir algjöra byrjendur. Þó eru nemendurnir latir að læra og sumum fer nánast ekkert fram. Kennarinn er ágætur en mætti vera ágengari hvað varðar kröfur. Mér þótti væntingarnar vera meiri á dagkúrsinum. Það sem vefst helst fyrir mér núna (fyrir utan takmarkaðan orðaforða) er beyging sterkra sagna.

Nokkuð er liðið á haustið og aðeins farið að kólna. Hlýrri fatnaður er í kössum heima á Íslandi en þegar við flytjum í nýtt húsnæði eftir um einn og hálfan mánuð er tímabært að fá kassana til landsins. Ég hlakka til að komast í geisladiskana mína. Ég er með einn geisladisk hérna sem ég er búinn að hlusta á milljón sinnum. Reyndar er auðvitað eitthvað af tónlist í tölvunni og á netinu. Þá fáum við líka í hendurnar ýmsa aðra gagnlega hluti. Það er samt merkilegt hvað maður getur verið án margs. Við Ásgeir losuðum okkur við öll húsgögn og heimilistæki, settum alla hluti, bækur og annað í kassa og komum hingað eingöngu með ferðatöskur. Það var mikil vinna að fara í gegnum allt dótið í íbúðinni á Laugaveginum og ótrúlegt hverju við höfðum sankað að okkur á þeim þremur árum sem við bjuggum þar. Íbúðin var hálftóm er við fluttum inn en allt fullt af dóti er við fluttum út. Það er átak að fara í gegnum eigur sínar og flytja en sennilega holt að taka til, velja og hafna og einfalda hlutina.
Kveðja, Pétur.

Friday, October 12, 2007

Pönnsur a föstudagskvöldi

Nú er annarri vinnuviku lokið hjá mér og Ásgeir er kominn í vikulangt haustfrí. Við ætlum að vera heima í kvöld, höfum kveikt á hollenska Idolinu og Ásgeir er að búa til pönnukökur. Ekki höfum við farið varhluta af sviptingum í pólitík heima, fylgjumst með á mbl og ruv.

Þessa vikuna hef ég haldið áfram að skoða húðsýni. Hollenskunni hefuar farið fram, ég tala hraðar og skil meira en vildi gjarnan kunna meira. Mönnum þykir ég hafa lært tungumálið hratt og stundum virðast menn halda að ég skilji meira en raun ber vitni. Þannig var ég t.d. að spjalla við tvo sérfræðinga í dag og eftir að annar sagði að sér þætti ég hafa lært tungumálið hratt þá héldu umræður áfram og ég skildi ekki hvað fór fram - þótti það óþægilegt að geta ekki staðið undir væntingunum.

Inni á vinnuherbergi unglækna er lítill ísskápur. Ég gerði ráð fyrir að menn geymdu nesti í ísskápnum og varð því hissa um daginn þegar ég opnaði hann og sá fullt af léttvíni. Áttaði mig svo aðeins betur á þessu í dag þegar einn prófessorinn kom og opnaði hvítvínsflösku um fimmleitið. Ég spurði hvert tilefnið væri en að reyndist ekki vera neitt sérstakt, bara föstudagur.

Það er að frétta af lækningaleyfi mínu hér í Hollandi að málið er næstum því í höfn. Þeim tókst loksins að samþykkja gögnin sem ég sendi en nú er vandinn sá að stafsetningin á eftirnafninu mínu er með ae hjá RIBIZ (sem sér um skráninguna á lækningaleyfi) en með æ hjá hollensku þjóðskránni. Vona að þetta tefji málið ekki miklu frekar. Hlutirnir taka sem sagt stundum langan tíma hér. Annað dæmi er að ég opnaði bankareikning 28. september (þegar ég var loks kominn með hollenska kennitölu) en er ekki enn kominn með debetkort sem er nauðsynlegt til að fúnkera hér í landi. Einnig hefur þeim í bankanum reynst erfitt að útvega mér IBAN og swift-númer svo að ég geti millifært frá Íslandi. Mér er sagt að ég megi ekki láta þetta ergja mig, svona sé þetta bara. Mér hefur tekist að láta þetta ekki á mig fá en út af þessu hef ég síðastliðnar tvær vikur raunar unnið ólöglega á spítalanum.

Ég er ánægður með að við skyldum um daginn ljúka húsnæðismálum. Ég hef nefnilega fylgst áfram lauslega með markaðnum og ástandið er ekkert betra nú en fyrir 2-3 vikum. Reyndar vænti ég þess að meira úrval verði af íbúðum í nóvember því að sennilega er mest eftirspurn í ágúst-september þegar allir stúdentarnir flykkjast til borgarinnar.

Ásgeir ætlar að skreppa í nokkurra daga ferð til London á morgun. Þar ætlar hann að hitta Vigni vin sinn. Undanfarið hefur Ásgeir verið á kúrs í skólanum sem fyrrverandi skólastýra leiðir. Til eru ýmsar líkamlegar nálganir í nálganir í dansinum en nálgunin í þessum kúrsi er af óhefðbundnu tagi. Svo vill samt til að nálgunin tengist minni vinnu því að þau hreyfa sig út frá líffærum. Kennarinn er algjör hippi og sýrutýpa og flaggar nýaldarbók frá áttunda áratugnum um það hvernig hin og þessi líffæri og líkamsvökvar tengjast tilfinningum og hreyfingum. Sem dæmi má nefna sogæðakerfið sem er ákveðið, hikar ekki, það er samhverft, kallar á ákveðnar hreyfingar, oft í varnarstöðu líkt og í austurlenskum bardagalistum. Lifrin er sterk, jarðbundin og tengir efri og neðri líkama. Liðvökvinn er hins vegar léttur, barnalegur og ósamhverfur. Þessi nálgun hefur ekki höfðað til Ásgeirs en mig hefur stundum langað til að vera fluga á vegg í þessum tímum.

Ásgeir lauk hollenskunámskeiði í gær. Hann hélt átta mínútna fyrirlestur um hitt og þetta. Kennarinn hrósaði sérstaklega, ekki síst með tilliti til þess að hann missti af fyrstu viku skólaársins þar sem aðeins hollenska var á námsskránni. Hollenskunámskeiðinu lýkur eftir 3 vikur hjá mér. Svo þarf ég að gera upp við mig hvort ég fer á framhaldsnámskeið. Ég ætla að ákveða það síðar.

Kveðja, Pétur.

Saturday, October 6, 2007

Komin helgi

Nú er laugardagskvöld og við Ásgeir ætlum að skreppa út rétt bráðum. Ég fór í klippingu í dag, var kominn með svepp á höfuðið. Klippingin kostaði 17 evrur. Auk þess keyptum við í matinn og gerðum að hjólunum okkar. Ásgeir úðaði sitt svart. Síðan skrapp ég í vinnuna og las um húðsjúkdóma og vann í lýsingum á hollensku, en slíkt er býsna tímafrekt til að byrja með.

Ásgeir er kominn í matarklúbb í skólanum. Þau eru fimm sem skiptast á að elda fyrir hádegismatinn. Ásgeir á að elda fyrir mánudaginn. Þetta er mjög gott fyrir budduna. Þar sem ein stelpan í hópnum er grænmetisæta er maturinn á þeim nótunum. Ásgeir fær viku haustfrí mjög bráðlega og skreppur þá til London og hittir þar Vigni, vin sinn.

Eftir að Macintosh-fartölva var keypt á heimilið erum við farnir að nota iChat til að hafa samskipti við þá sem eiga makka. Töluðum við mömmu Ásgeirs lengi vel í dag og systur Ásgeirs og pabba. Það er mjög gaman að geta séð þá sem maður talar við. Fyrr í vikunni töluðum við við Árna og Steinunni. Allir sem eiga makka mega gjarnan láta okkur vita. Notendanafnið okkar er petursn@mac.com. Að öðru leyti höfum við notað Skype, þar er notendanafnið snaebjornsson.

Hingað til hefur yfirleitt verið skýjað hér í Amsturdammi og hangið í rigningu. Þó er enn þá grasið grænt og grænt lauf er á trjánum, starfsmenn bæjarins þurfa að slá grasið þó að komið sé fram á haust. Í dag var mjög gott veður. Sólin skein skært og það var bara sæmilega hlýtt. Við höfum verið heppnir að því leyti að veðrið um helgar er yfirleitt mun betra en í miðri viku. Við höfum þá verið duglegir að fara í hjólatúra um hverfið og drekka í okkur d-vítamínið frá sólinni. Það misfórst að taka með lýsi hingað til Niðurlanda en allt stendur það til bóta.

Píanóið sem var á Laugaveginum var selt í vikunni. Til stendur að kaupa nýtt píanó fyrir peninginn. Reyndar geri ég ekki ráð fyrir vera með píanó í leiguhúsnæðinu sem við flytjum í næst því að þar búum við aðeins til skamms tíma og býsna vont er að koma píanói inn um glugga á þriðju hæð, hvað þá flygli ef af verður.
Kær kveðja, Pétur og Ásgeir.

Thursday, October 4, 2007

Vinna

Þessa vikuna hef ég bara skoðað húðsýni. Er núna kominn upp í um 25 tilfelli á dag. Þau tala mestmegnis hollensku við mig og þetta gengur bara ágætlega. Sum hollensk orð eru skrýtin, af hverju heitir t.d. bólga "ontsteking"?
Það vinna um 15 unglæknar hér í meinafræðinni. Sumir þeirra eru reyndar í rannsóknavinnu núna og alltaf er einhver að vinna á litla spítalanum sem er tengdur háskólaspítalanum. Aðstaðan er misgóð, svokallað úrskurðarherbergi er lítið og þröngt og angar af formalíni. Hins vegar er góð aðstaða til að taka myndir af sýnum og krufningaaðstaðan er einnig mjög góð. Ég sit í herbergi með fjórum unglæknum. Hef þar skrifborð sem myndar U og hillur á vegg við hliðina. Fyrir framan mig er stór gluggi.
Á spítalanum er eins konar stéttaskipting. Til öryggis þéra ég alla sérfræðinga og ef þeir biðja mig ekki um að þúa sig held ég því áfram. Helst vilja þeir yngri vera þúaðir. Reglulega eru alls kyns fundir þar sem meinafræðingar, klínískir læknar og röntgenlæknar hittast og fjallað er um valin tilfelli. Í gær fór ég á fund á skurðdeildinni. Ég settist bara einhvers staðar en var þá vinsamlegast beðinn um að setjast aftar. Ég hafði sest þar sem sérfræðingarnir sitja vanalega, úps!
Hringdi í dag í RIBIZ til að athuga hvernig gengi með að fá lækningaleyfið skráð. Vildi tala á ensku af því að mér fannst þetta mikilvægt en konan harðneitaði þannig að samtalið fór fram á hollensku. Gekk reyndar ágæglega en var hissa af því að Hollendingar eru svo duglegir að tala ensku. Svarið sem ég fékk var að nú væru öll gögn komin og ég fengi bréf í næstu viku um hvort þetta væri í lagi eða hvort ég þyrfti að senda fleiri gögn eða útskýra eitthvað frekar. Nú er þetta ferli búið að taka um þrjá og hálfan mánuð. Vona að þau vilji ekki neitt meira.
Kveðja, Pétur.

Tuesday, October 2, 2007

Vinnan byrjuð

Í gær var fyrsti vinnudagurinn. Hér í meinafræðinni mætir fólk milli klukkan átta og hálf níu en þá er stuttur morgunfundur. Í gær fór reyndar allur dagurinn í langa kynningu fyrir nýja starfsmenn á spítalanum. Það er greinilegt að 1. október er allsherjar byrjunardagur því að á kynninguna komu um 60 manns, hjúkrunarfræðingar, meinatæknar, læknar og alls konar annað starfsfólk. Þetta byrjaði auðvitað á því að allir fengu möppu, svo talaði einhver yfirmaður um hvað spítalinn stæði sig vel í samkeppni við hina háskólaspítalana í Hollandi. Því næst horfðum við á stutta mynd um starfsemi spítalans sem hét VUmc frá morgni til kvölds, eiginlega tilgangslaus mynd. Svo var okkur skipt í hópa og hver hópur dreginn um spítalann sem er stærri en ég hélt. Þar er meira að segja lítil ferðaskrifstofa fyrir starsmenn. Í mötuneyti starfsmanna er mjög huggulegt, arinn og notalegheit. Auðvitað er meinafræðin í elsta hluta spítalans. Í hádeginu fengum við mat en á meðan var rannsóknasviðið kynnt fyrir mínum hópi. Ég skildi ekkert af því sem maðurinn sagði. Svo var kynning fyrir lækna á siðfræði og tilkynningaskyldu vegna mistaka og ferlum í tengslum við kærur. Í tölvutíma var nýjum læknum kennt á forrit sem heldur utan um sjúkrasögu, rannsóknaniðurstöður af öllu tagi og lyf - virtist mjög sniðugt. Mér gramdist að sjá að mér hafði hlotnast býsna gömul og aðeins gölluð smásjá til vinnunnar. Ég get reyndar notað hana en ætla að vita hvað ég get gert í þessu. Svo byrjaði vinnan í morgun. Þetta byrjar rólega. Ég fékk um tólf smásjárgler með ýmsum húðtilfellum og kláraði þau með sérfræðingi á deildinni. Ég fékk nógan tíma til að lesa í kringum tilfellin sem var mjög fínt. Dikteraði á hollensku - gekk vel en þetta var stutt og laggott. Tilfelli dagsins voru m.a. (bara fyrir áhugasama): keratosis seborrhoica, keratosis actinica, verruca vulgaris, condyloma acuminata, lentigo simplex, carcinoma basocellulare og carcinoma squamosum. Allnokkuð er af krufningum hér á spítalanum. Dagurinn byrjaði með krufningafundi í meinafræðinni þar sem áhugaverð líffæri frá síðastliðinni viku voru skoðuð. Svo lauk deginum á dánarmeinafundi á skurðdeildinni.
Á morgun göngum við frá leigusamningi fyrir húsnæðið þar sem við verðum frá og með fyrsta september. Meira um þá íbúð síðar.
Kveðja, Pétur.