Sunday, March 8, 2009

Skallaður

Er búinn að hafa það mjög gott undanfarið. Hér voru Baldur og Felix í heimsókn, hef farið út öll kvöld og gert eitthvað skemmtilegt með þeim. Auk þess að fara út að borða, sækja bari og fara í bíó fórum við í innflutningspartí hjá Ali, bandarískri vinkonu minni, og svo skruppum við í árdegisbít (lesist brunch) hjá Pierre. Baldur er búinn að taka hollenskar franskar ástfóstri. Var reyndar svo óheppinn í gær að vera skallaður. Ég sneri mér við og í þann mund gekk einhver árans stelpa sem var að skrifa sms og hallaði höfðinu fram beint á mig og með ennið í kinnbeinið á mér. Það er öruggt að ég fæ marblett, vona bara að hann verði ekki mjög áberandi. Þá verður þetta alveg eins og ég hafi verið kýldur.
Hélt fyrirlestur í vinnunni í gær, gott að það sé búið. Það var um vissa gerð forstigsbreytingar eggjaleiðara- og eggjastokkakrabbameina. Hef séð ýmislegt í vinnunni núna, m.a. Langerhans cell histiocytosis í heila, intracystic papillary brjóstakrabbamein, amyloidosis í lunga, embryonal carcinoma í eista, neurofibroma með storifom vaxtarmynstur, GIST í maga.
Fór í klippingu. Staðurinn sem ég fór á síðast var bara lokaður. Það var sennilega bara ágætt því að ég hefði örugglega ekki fengið jafnfína klippingu þar og ég fékk hjá Serbanum Goran. Ég hjólaði um nokkrar götur og sá svo rakarastofu sem mér leist vel á. Ég hafði ekki áhuga á að vera klipptur upp á klassíska hollenska vísu (þ.e. hár greitt aftur með miklu geli) en sá stað þar sem virtust vera útlendingar við vinnu þannig að ég fór þar inn. Hann Goran sagði að ég hefði verið illa klipptur síðast í hnakkanum. Hann dundaði við verkið í rúman klukkutíma, sagðist hafa viljað vera myndlistamaður en ekki haft efni á slíku námi. Því hafi hann lært að verða klippari, svo sinnir hann myndlistinni meðfram.
Horfði á viðtalið við Evu Joly í Silfri Egils. Það var mjög áhugavert að heyra einhvern tala um efnahagsbrot sem þekkir þau mál mjög vel, mæli með viðtalinu. Hún sagði meðal annars að almenningur þyrfti nú að borga reikninginn fyrir alla glæpina og að reikningurinn væri svo óheyrilega hár að ekki væri tækt á öðru en að menn yrðu dregnir fyrir dóm og sátt skapaðist um framtíðina, samfélagsleg sátt og traust.
Svo er Íslandsferð eftir nokkra daga júhú!!!

No comments: