Monday, March 2, 2009

Á fyrsta farrými

Um daginn var venjulega lestin sem ég tek ekki til taks. Í staðinn var notuð gömul einnar hæðar lest með gömlum innréttingum og klefum. Ég sá að það yrði margt fólk í lest og settist bara á fyrsta farrými í þessari gömlu lest þó að kortið mitt gildi bara fyrir annað farrými. Ég settist í klefa þar sem voru þrjú sæti sitt hvorum megin við ganginn. Ég tók upp tölvuna og horfði svo á allt fólkið fara fram hjá öllum tómu sætunum og yfir á annað farrými. Svo kom bráðlega snyrtilegur eldri maður í frakka og settist í eitt sætið í klefanum. Þetta var greinilega maður sem ferðast á fyrsta farrými. Og viti menn, þar sem við vorum "saman í félagi", þ.e.a.s menn sem ferðast á fyrsta farrými, þá vorum við á sömu hillu og maðurinn spjallaði aðeins við mig. Eftir margar lestarferðir er þetta í fyrsta skipti sem nokkur talar við mig í lestinni, þó að oftast sé nóg af fólki á öðru farrými. Svona auðvelt er að kaupa sig inn í félag ríkra, maður þarf ekki annað en að gefa sig út fyrir að eiga peninga - þá fær maður að vera með.
Baldur og Felix eru í heimsókn hjá mér þessa dagana. Þeir komu á fimmtudag. Felix var með laugardagsútvarpsþáttinn sinn í beinni héðan frá Amsterdam. Svo skruppu þeir til Leiden í gær þar sem Baldur verður með nokkra fyrirlestra við háskólann þar. Þeir koma svo aftur þaðan á morgun. Það var mjög gaman um helgina hjá okkur, borðaður góður matur, fórum í boð til Pierre og Mei, fórum út á lífið og svo framvegis.
Kv Pétur.

No comments: