Sunday, June 28, 2009

Ásgeir átti afmæli



Þetta hefur verið ein allsherjar afmælishelgi. Ásgeir átti afmæli á föstudag og ég var búinn að fá frí í vinnunni. Ferðinni var heitið til Zandfoort sem er strandbær hér í Hollandi. Þetta var óvissuferð en Ásgeir komst að því hvert við værum að fara þegar við komum á aðallestarstöðina. Við byrjuðum á því að fara í stóra sundlaug með rennibrautum, öldulaug og fleiru. Svo fórum við niður á strönd og busluðum í Atlantshafinu, sem var ekki nærri því jafnkalt og við bjuggumst við. Við skrifuðum í sandinn og sólbrunnum pínulítið. Þá héldum við aftur í bæinn og fórum í Vondelpark með hvítvín og Sushi sem við borðuðum með nokkrum vinum. Flúðum síðan undan úrhellisrigningu seint um kvöldið, fyrst undir næsta tré en síðan inn á veitingastað í garðinum þar sem við sátum þar til slotaði.
Á annan í afmæli fórum við til Alkmaar. Þar var miðaldahátíð og stór ostamarkaður. Búið var að dubba hluta miðbæjarins upp í miðaldastemmningu. Fjöldi fólks úr bænum var í búningum og þemað var drungaleg með holdsveiku fólki, plágu-jarðaför, kroppinbökum og vændiskonum. Ásgeir vildi komast þaðan út eftir 5 mínútur þar sem honum fannst þetta hræðilega leiðinlegt. Ýmsar spurningar vöknuðu, s.s.: Var svona mikill hávaði og áreiti á miðöldum? Voru götur svona troðnar af fólki? Gekk fólk um með hrossabresti? Eftir að hafa komið okkur út úr miðaldabrjálæðinu fórum við á bæjartorgið og smökkuðum allar tegundir af ostum og keyptum loks nokkra ljúffenga osta auk afmælisgjafar handa Ben, Frakka sem við þekkjum, en förinni var nefnilega haldið í afmælisveisluna hans um kvöldið. Við mættum fyrir utan Önnu Frank safnið klukkan átta og þar fór hópur fólks, afmælisgestir, um borð í veislubát sem siglt var um sýki Amstedam næstu tvo tímana. Boðið var upp á vín og veitingar. Því næst fórum við á galleríopnun á heimili einhverrar Wöndu, sem einn afmælisgesta þekkti. Þar var boðið upp á afganskan mat sem var ljúffengur. Því næstu fórum við á listaverkasýningu í antikraak-húsnæði sunnarlega í borginni. Antikraak er andheitið við hústöku en þá býr einhver í húsnæði sem ekki gengur að selja og gætir þess, þó aðallega þess að hústökufólk taki húsnæðið. Við héldum svo heim á leið, dauðþreyttir eftir daginn.
Nú er bara rólegur sunnudagur. Það hefur verið mjög hlýtt um helgina. Maður getur farið um á stuttermabol og stuttbuxum þó að komin sé nótt. Við sitjum nú hér og höfum opið út á svalir í hitanum. Ættum kannski að taka fram viftuna.

1 comment:

Anonymous said...

Jiii, ég sem hélt að allir væru hættir að blogga og svo frétti ég af ykkar síðu hér. Gaman að lesa fréttir af ykkur og að þið hafið það næs þarna úti. :)

Knús og kveðjur á ykkur strákar mínir (Barbara isn't the same without you!!) ;-)

Kv
Bimma :)