O, vann ekkert í lottóinu hollenska, staatslotterij - hæsti vinningur var 24 milljónir evra auk fjölda smærri peningavinninga en ég vann ekkert á eina lottómiðann sem ég keypti á 15 evrur. Hæsti vinningurinn gekk reyndar ekki út (þeir draga ekki bara út á selda miða). Líkurnar á því að vinna stærsta vinninginn eru reyndar mjög litlar; maður þarf að hafa 6 tölustafi og tvo bókstafi rétta.
Ásgeir tognaði síðastliðinn sunnudag á ökkla og hefur verið mestmegnis heima þessa vikuna. Þetta kom sér mjög illa því að hann var bókaður í prufu í dag í Dusseldorf. Þrátt fyrir meiðslin fór Ásgeir með lest til Dusseldorf í morgun en ætlar að fara mjög varlega til að togna ekki aftur.
Síðusta helgi var mjög skemmtileg. Við fórum niður á strönd á laugardeginum, Zandvoort am Zee. Það er frábær strönd og sjórinn (Atlantshafið!) var meira að segja hlýr inn við land. Ég bjó til stórt sandfjall. Ásgeir og Inga æfðu dans en Kjarri tók myndir af öllu saman.
Í síðustu viku fór ég á námskeið, fyrst kvöldnámskeið í forstigsbreytingum vélindakrabbameins og svo á þriggja daga námskeið í sameindameinafræði. Framfarir í skilningi á sjúkdómum liggja í sameindalíffræði þannig að ef maður ætlar að vera með á nótunum er eins gott að setja sig inn í það efni sem fyrst. Það má segja að sameindameinafræði sé einu stigi lengra inn í líkamann en það sem ég geri dags daglega - en það er annars vegar að skoða vefina með berum augum og svo í smásjá. Sameindirnar sjást hins vegar ekki í smásjánni og þess vegna segi ég að þetta sé einu stigi lengra gengið.
Annars finnst mér stundum skondin sú vanþekking sem fólk hefur á því starf sem ég sinni. Það virðist til dæmis algengur misskilningur að halda að vefjasýni séu send í ræktun. Ræktun???? Jú, strok, vessar og vökvasýni eru send í sýklaræktun. Sýni frá sjálfum vefjunum eru sjaldnar send í sýklarannsókn en oftast í vefjarannsókn - skoðun á því hvernig vefur er byggður upp og hvaða sjúkdómar þar birtast.
En hvað hefur áhugavert drifið á fjörur mínar í vinnunni undanfarið? Granulomatous bólga í eista og eistalyppu, eitlaæxli í eista, teratoid carcinosarcoma í eggjastokk, serous krabbamein í legbolsslímhúð, rauðir hundar í húðsýni frá andliti, Meckels diverticulum með ectópískan brisvef, granulomatous bólga í lifur, phyllodes tumor í brjósti, tærfrumubrjóskkrabbamein, lifrarkrabbamein, legbolsslímhúð með anovulatory breytingar, dilateruð cardiomyopathia, hemochromatosis í lifur, lentigo maligna melanoma, pseudoangiomatous stromal hyperplasia í brjósti, aukabrjóst í handarkrika og ýmislegt fleira.
Og hvað stendur til nú um helgina. Jú, vinna í greininni sem ég er að skrifa. Hún fjallar um mun á krabbameinum hægra megin og vinstra megin í ristli og mun á gömlum og ungum ristilkrabbameinssjúklingum. Svo ætla ég í ræktina í dag.
Saturday, July 11, 2009
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment