Friday, October 12, 2007

Pönnsur a föstudagskvöldi

Nú er annarri vinnuviku lokið hjá mér og Ásgeir er kominn í vikulangt haustfrí. Við ætlum að vera heima í kvöld, höfum kveikt á hollenska Idolinu og Ásgeir er að búa til pönnukökur. Ekki höfum við farið varhluta af sviptingum í pólitík heima, fylgjumst með á mbl og ruv.

Þessa vikuna hef ég haldið áfram að skoða húðsýni. Hollenskunni hefuar farið fram, ég tala hraðar og skil meira en vildi gjarnan kunna meira. Mönnum þykir ég hafa lært tungumálið hratt og stundum virðast menn halda að ég skilji meira en raun ber vitni. Þannig var ég t.d. að spjalla við tvo sérfræðinga í dag og eftir að annar sagði að sér þætti ég hafa lært tungumálið hratt þá héldu umræður áfram og ég skildi ekki hvað fór fram - þótti það óþægilegt að geta ekki staðið undir væntingunum.

Inni á vinnuherbergi unglækna er lítill ísskápur. Ég gerði ráð fyrir að menn geymdu nesti í ísskápnum og varð því hissa um daginn þegar ég opnaði hann og sá fullt af léttvíni. Áttaði mig svo aðeins betur á þessu í dag þegar einn prófessorinn kom og opnaði hvítvínsflösku um fimmleitið. Ég spurði hvert tilefnið væri en að reyndist ekki vera neitt sérstakt, bara föstudagur.

Það er að frétta af lækningaleyfi mínu hér í Hollandi að málið er næstum því í höfn. Þeim tókst loksins að samþykkja gögnin sem ég sendi en nú er vandinn sá að stafsetningin á eftirnafninu mínu er með ae hjá RIBIZ (sem sér um skráninguna á lækningaleyfi) en með æ hjá hollensku þjóðskránni. Vona að þetta tefji málið ekki miklu frekar. Hlutirnir taka sem sagt stundum langan tíma hér. Annað dæmi er að ég opnaði bankareikning 28. september (þegar ég var loks kominn með hollenska kennitölu) en er ekki enn kominn með debetkort sem er nauðsynlegt til að fúnkera hér í landi. Einnig hefur þeim í bankanum reynst erfitt að útvega mér IBAN og swift-númer svo að ég geti millifært frá Íslandi. Mér er sagt að ég megi ekki láta þetta ergja mig, svona sé þetta bara. Mér hefur tekist að láta þetta ekki á mig fá en út af þessu hef ég síðastliðnar tvær vikur raunar unnið ólöglega á spítalanum.

Ég er ánægður með að við skyldum um daginn ljúka húsnæðismálum. Ég hef nefnilega fylgst áfram lauslega með markaðnum og ástandið er ekkert betra nú en fyrir 2-3 vikum. Reyndar vænti ég þess að meira úrval verði af íbúðum í nóvember því að sennilega er mest eftirspurn í ágúst-september þegar allir stúdentarnir flykkjast til borgarinnar.

Ásgeir ætlar að skreppa í nokkurra daga ferð til London á morgun. Þar ætlar hann að hitta Vigni vin sinn. Undanfarið hefur Ásgeir verið á kúrs í skólanum sem fyrrverandi skólastýra leiðir. Til eru ýmsar líkamlegar nálganir í nálganir í dansinum en nálgunin í þessum kúrsi er af óhefðbundnu tagi. Svo vill samt til að nálgunin tengist minni vinnu því að þau hreyfa sig út frá líffærum. Kennarinn er algjör hippi og sýrutýpa og flaggar nýaldarbók frá áttunda áratugnum um það hvernig hin og þessi líffæri og líkamsvökvar tengjast tilfinningum og hreyfingum. Sem dæmi má nefna sogæðakerfið sem er ákveðið, hikar ekki, það er samhverft, kallar á ákveðnar hreyfingar, oft í varnarstöðu líkt og í austurlenskum bardagalistum. Lifrin er sterk, jarðbundin og tengir efri og neðri líkama. Liðvökvinn er hins vegar léttur, barnalegur og ósamhverfur. Þessi nálgun hefur ekki höfðað til Ásgeirs en mig hefur stundum langað til að vera fluga á vegg í þessum tímum.

Ásgeir lauk hollenskunámskeiði í gær. Hann hélt átta mínútna fyrirlestur um hitt og þetta. Kennarinn hrósaði sérstaklega, ekki síst með tilliti til þess að hann missti af fyrstu viku skólaársins þar sem aðeins hollenska var á námsskránni. Hollenskunámskeiðinu lýkur eftir 3 vikur hjá mér. Svo þarf ég að gera upp við mig hvort ég fer á framhaldsnámskeið. Ég ætla að ákveða það síðar.

Kveðja, Pétur.

3 comments:

Anonymous said...

Jójó Amstróbúar! Þetta eru örugglega frábærir tímar,væri líka til í að vera fluga á vegg þarna ;) Þú ættir að prófa að nota þessar lýsingar á morgunfundum með pathologunum, t.d. lýsa lifur sem sterkri og ákveðinni o.s.frv. Hafið það áfram gott, sjáumst fljótt. Kveðja frá Lúbbunum, Helgó og co.

Jakob Jóhannesson said...

hey.....

hvernig virkar þetta ichat ??? á nebbla makka....

og ekki hringirðu í mig!!!!

;)

j

Anonymous said...

Skemmtilegar línur hjá þér Peter;) Held það væri ekkert vitlaust hjá LSH að hafa eina og eina hvítvín í ískápum hússins... Fagna: föstudögum /óvenjugóðum sjúrnölum/hnittnum PAD-svörum o.s.frv.
Hef annars skemmt mér yfir meðallagi vel yfir hugmyndafræðinni í danskennslu Ásgeir. Fólk er náttúrulega stundum bara kengruglað...
kveðja
Addý