Thursday, October 4, 2007

Vinna

Þessa vikuna hef ég bara skoðað húðsýni. Er núna kominn upp í um 25 tilfelli á dag. Þau tala mestmegnis hollensku við mig og þetta gengur bara ágætlega. Sum hollensk orð eru skrýtin, af hverju heitir t.d. bólga "ontsteking"?
Það vinna um 15 unglæknar hér í meinafræðinni. Sumir þeirra eru reyndar í rannsóknavinnu núna og alltaf er einhver að vinna á litla spítalanum sem er tengdur háskólaspítalanum. Aðstaðan er misgóð, svokallað úrskurðarherbergi er lítið og þröngt og angar af formalíni. Hins vegar er góð aðstaða til að taka myndir af sýnum og krufningaaðstaðan er einnig mjög góð. Ég sit í herbergi með fjórum unglæknum. Hef þar skrifborð sem myndar U og hillur á vegg við hliðina. Fyrir framan mig er stór gluggi.
Á spítalanum er eins konar stéttaskipting. Til öryggis þéra ég alla sérfræðinga og ef þeir biðja mig ekki um að þúa sig held ég því áfram. Helst vilja þeir yngri vera þúaðir. Reglulega eru alls kyns fundir þar sem meinafræðingar, klínískir læknar og röntgenlæknar hittast og fjallað er um valin tilfelli. Í gær fór ég á fund á skurðdeildinni. Ég settist bara einhvers staðar en var þá vinsamlegast beðinn um að setjast aftar. Ég hafði sest þar sem sérfræðingarnir sitja vanalega, úps!
Hringdi í dag í RIBIZ til að athuga hvernig gengi með að fá lækningaleyfið skráð. Vildi tala á ensku af því að mér fannst þetta mikilvægt en konan harðneitaði þannig að samtalið fór fram á hollensku. Gekk reyndar ágæglega en var hissa af því að Hollendingar eru svo duglegir að tala ensku. Svarið sem ég fékk var að nú væru öll gögn komin og ég fengi bréf í næstu viku um hvort þetta væri í lagi eða hvort ég þyrfti að senda fleiri gögn eða útskýra eitthvað frekar. Nú er þetta ferli búið að taka um þrjá og hálfan mánuð. Vona að þau vilji ekki neitt meira.
Kveðja, Pétur.

No comments: