Wednesday, October 31, 2007

Í vinnunni

Sit hér í vinnunni, klukkan er orðin sex og ég nenni ekki að halda áfram að vinna né að fara læra hollensku fyrir prófið á morgun (fyrri hluti, seinni hluti á mánudag). Dagarnir hjá mér í vinnunni eru misjafnir. Þetta hefur verið þannig að annan hvern dag fæ ég bunka af glerjum, t.d. um 40 tilfelli í dag, sem ég pæli svo í gegnum með tilheyrandi sérfræðingi. Um er að ræða mestmegnis lítil vefjasýni (bíopsíur) en einnig einstöku stærri sýni sem ekki eru mjög flókin, t.d. fylgjur. Sumt klárum við samdægurs en annað tekur nokkra daga eða lengri tíma eftir því hvort einhverjar sérrannsóknir þarf að gera. Tilfellin eru blönduð þannig að ég fæ hvað sem er; húð, legháls, beinmerg, brjósvef, blöðruhálskirtilsvef, heilavef, meltingarfæri, öndunarfæri og svo framvegis. Það sem ég hef séð mest af er húð og efri meltingarvegur. Í dag var smá drama hér í vinnunni. Einn unglæknirinn klárar í janúar doktorsverkefnið sitt eftir fimm ára vinnu og núna virðist vera mikið álag því að hún lenti í þrætu við einn leiðbeinandann, talaði hátt og fór að gráta. Svo féll allt fljótlega í ljúfa löð og það var eins og þetta væri bara ekkert merkilegt, dálítið spes. Ég skildi því miður ekki hvað fór fram en held að þetta hafi snúist um m.a. misvísandi skilaboð frá leiðbeinendunum.

Bankamálin halda áfram að vera óþolandi. Ég fór í bankann í gær. Lét opna aftur kortið mitt af því að það hafði ekki tekist síðast, gekk í þetta skiptið. Einnig gerði ég enn eina tilraun til að fá auðkennislykil fyrir internetbankann. Þau áttu hann ekki til (eins og síðast) en hringdu í næsta útibú og þar voru þeir til. Þegar ég kom þangað sagði bankamaðurinn mér að hann hefði gert mistök, þeir ættu heldur ekki auðkennislykla. Þar að auki var þetta sami lati bankastarfsmaðurinn sem hafði opnað reikninginn minn upphaflega og EKKI sent mér IBAN og SWIFT númer í pósti eins og ég hafði beðið um (hann gat ekki gefið mér þær upplýsingar á staðnum). Í þokkabót hafði ég komist að því að þeir sem opna nýjan reikning (young professional account) í bankanum um þessar mundir ættu að fá 100 gefins. Mér hafði ekki verið boðið upp á það og þegar ég spurði hvers vegna var mér sagt að svo væri vegna þess að ég væri útlendingur! Ég var öskureiður skammaðist yfir þjónustunni, heimtaði að fá þessar hundrað evrur, a.m.k. sem bætur fyrir allt vesenið og lélega þjónustu. Svo var hringt í dag og mér tilkynnt að ég fengi þessar hundrað evrur. Mér er skapi næst að skipta um banka en gallinn er að ég nenni því varla af því að slíkt er svo mikið vesen.

2 comments:

Anonymous said...

Skipta um banka? Skiptu bara um land! Stokkhólmur ´08 er málið, það verður geeeðveeiiikt!!!!!

Árni Grímur

Gulli said...

Þetta er einmitt ástæða þess að ég hef aldrei flutt til útlanda. Ég bara gæti ekki slitið mig frá Landsbankanum.