Jú eins og flestir vita þá erum við fluttir. Nýja íbúðin er að taka á sig ágætismynd. Við erum t.a.m. búnir að endurraða húsgögnunum á smekklegri hátt og svo í gær byrjuðum við að mála. Við erum búnir að mála eitt herbergi og ætlum að klára að mála restina af íbúðinni eftir áramót. Framtaksemin hefur þó örlítið látið á sér standa í internet málum. Við dettum stundum inn á tengingar hjá hinum íbúunum í húsinu eða hjá fólkinu hinum megin við götuna. Netið virkar best í borðstofunni og þá sérstaklega ef maður setur tölvuna upp í efstu hillu á háum glerskáp og stendur síðan sjálfur á stól fyrir framan skápinn. Í kvöld er tengingin sérstaklega góð og af því tilefni er ég búinn að senda fullt af tölvupósti, lesa mbl, hlusta á jólalög á Rás2 og ætti í raun að vera löngu farinn að sofa. En hér stend ég enn, uppá stól fyrir framan skápinn. Pétur er sofandi á sófanum. Þar sofnum við yfirleitt og sofum hálfa nóttina. Það er nefnilega miklu hlýrra í stofunni því þar er eini ofninn í húsinu. Að vísu erum við með rafmagnsofn í svefnherberginu en það heyrist svo mikið í honum og svo kemur líka bræla þegar hann er í gangi. Mig grunar að það liggi gamall sokkur af fyrri leigjanda einhvers staðar á milli elementanna í ofninum.
Auk þess að mála þá keyptum við jólagjafir um helgina og buðum í mat. Það er svolítið varasamt að búa í útlöndum og kaupa jólagjafir eftir íslenskum mælikvarða. Hér eru hlutirnir vissulega aðeins ódýrari en launin hérna eru í samræmi við það. Við rákum okkur aðeins á þetta í jólainnkaupunum........ en jæja. Þetta fór svona núna en á næsta ári fá allir spil og sprittkerti úr IKEA.
sjáumst síðar
Jóla-Geir
Tuesday, December 18, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment