Thursday, September 4, 2008

Góðir dagar

Það er sko góð ástæða fyrir því að við höfum ekki bloggað að undanförnu. Við höfum einfaldlega haft annað og betra að gera, sem ég mun nú deila með ykkur hér.

Á föstudaginn síðasta komu þau Bjarki bróðir og Helga mágkona í heimsókn. Það má með sanni segja að þau hafi komið með góða veðrið með sér (þó ekki frá Íslandi) því það hafa ekki sést eins góðir dagar allan ágústmánuð. Sólin byrjaði að skína rétt áður en þau lentu á föstudeginum og hélst fram á mánudagskvöld. Það var gaman að sýna þeim borgina. Við gengum út um allt og vorum fljótlega búin að afgreiða öll fyrirhuguð fata- og gjafakaup. Við Pétur erum orðnir nokkuð sjóaðir í leiðsögumannahlutverkinu og það eru nokkrir staðir sem okkur finnst gaman að sýna gestum okkar: Blómamarkaðurinn við Singel, brýrnar við Amstelána, leðurblökubrúin rétt hjá húsinu okkar, Albert Cuyp markaðurinn, rauða hverfið, skakki barinn frá 17.öld, kastalinn á Nieuwmarkt, kínahverfið og svo auðvitað fínu síkin Heren-, Kaizer- og Prinsengracht.
Þrátt fyrir þó nokkra göngu náðum við sko heldur betur að slappa af. Við nutum þess líka að borða góðan mat, bæði hér heima og á fínum sushistað í kínahverfinu. Ég reyndi að sannfæra alla viðstadda um að prófa marglyttu sushi en það lét enginn til leiðast.
Á sunnudeginum fórum við til Haarlem. Haarlem er aðeins 15 mínútur frá Amsterdam með lestinni. Þetta er mjög rólegur bær sem stendur við bakka árinnar Spaarne og hefur þar staðið síðan á 10.öld. Það var mikil traffík á ánni og allir sem vettlingi, báti eða snekkju gátu valdið sigldu um í veðurblíðunni. Við fylgdumst með af árbakkanum en skoðuðum einnig endurbyggða myllu, kirkjur og torg. Á röltinu álpuðumst við óvart inn í rauða hverfi Haarlem. Það samanstendur af tveimur götum, og býður upp á klámbíó, hjálpatækjabúð og einn glugga með rauðu ljósi. Það virtist sem það hefði ekki verið mikið að gera hjá konunni í glugganum þennan sunnudagseftirmiðdag. Hún reyndi mikið að blikka Bjarka bróður þegar við gengum þarna framhjá. Þegar heim var komið elduðum við krækling með brauði og salati og var þetta í fyrsta skipti sem Helga borðaði ferskan krækling. Mér finnst skipta miklu máli hvernig kræklingur er eldaður. Við vorum sammála um að vel hefði tekist til.

Það var mjög gaman að fá Bjarka og Helgu í heimsókn. Ágústmánuður hefur tvímælalaust verið fjölskyldumánuður því Elín og Mamma komu fyrir 3 vikum.

Ásgeir

1 comment:

Helga said...

Jó. Greinilega nóg um að vera hjá ykkur. Ætlið þið að fara til Rotterdam á leikinn? Það er skilst mér hluti af genginu að fara í byrjun október.
Kær kveðja, Helga og lúbbarnir 3