Thursday, September 11, 2008

Smá blogg

Við Ásgeir höfum brallað ýmislegt undanfarið. Í síðustu viku fórum við á tónleika með Madonnu á risastórum leikvangi hér í Amsturdammi. Þetta var mjög skemmtilegt, bæði mjög flott sýning og góð tónlist, þar á meðal mörg gömul lög í nýjum útgáfum.
Ásgeir er byrjaður að vinna í Arnhem, lítilli borg sunnan við Amsterdam. Þar æfir hann með dansflokki verk eftir Jens van Daele sem heitir einni höfuðsyndanna, Leti. Þetta er eins konar sería verka þar sem höfuðsyndirnar eru færðar í dans. Það verður samt ekki eintóm leti á sviðinu því að með leti er átt við ýmiss konar áhuga- og sinnuleysi. Þar sem Arnhem er í allnokkurri fjarlægð frá Amsturdammi gistir Ásgeir þar nokkrar nætur í viku. Sjálfur þarf ég að taka lest í vinnuna frá og með fyrsta október þegar ég fer að vinna í Alkmar, litlum ostabæ (sem reyndar er stærri en Reykjavík hvað varðar íbúafjölda) við sjóinn. Það er hluti af sérnáminu að vinna á minni spítala um skeið. Annars hefur eins og endranær verið nóg að gera í vinnunni. Ég hef verið í cýtólógíu síðustu þrjár vikur. Það er undirgrein meinafræðinnar. Venjulega er ég í svokallaðri líffærameinafræði (líka kallað vefjameinafræði) þar sem maður skoðar líffæri og vefi í samhengi. Í cýtólógíu (frumufræði) eru hins vegar stakar frumur skoðaðar. Oftast er um að ræða svokölluð leghálsstrok þar sem skimað er fyrir leghálskrabbameini og forstigsbreytingum þess með smásjárskoðun. Þá sér maður stakar frumur sem hefur verið klesst á smásjárgler. Síðan er reyndar margt annað skoðað ef ástæða er til, t.d. frumur í heila- og mænuvökva, fleiðruvökva, þvagi og svo fínnálarsýni úr ýmsum líffærum. Það vill svo til að meinafræðingar ná í sum þessara sýna þannig að ég farinn að hitta sjúklinga aftur og sting þá til að ná í sýni. Ég hef séð nokkur áhugaverð sýni, m.a. lymphoplasmocytosis í mænuvökva annars vegar vegna MS og hins vegar vegna Borreliosis, adenoid cystic carcinoma í munnvatnskirtli og smáfrumukrabbamein í fleiðruvökva. Flest sýnin eru reyndar heldur daufleg - alls kyns lausar frumur sem enga sögu hafa að segja. Til hliðar við cýtólógíuna er ég á eins konar húðrotasjón þessa dagana og sé því mikið af alls kyns húðkvillum. Hef séð ýmsar æðabólgur, húðbólgur og margt fleira.
Nú líður að því að ég komi til Íslands út af mastersverkefninu. Verð á Fróni síðustu vikuna nú í september og er því þessa dagana einnig að undirbúa það allt saman.
Þessa dagana eru margar fréttir af verkfalli ljósmæðra sem munu hafa dregist aftur úr almennri launaþróun miðað við menntun og annað. Ég skil ekki af hverju það þarf 6 ára nám til að verða ljósmóðir - 4 ár í hjúkrun og svo tveggja ára ljósmóðurfræði. Þetta virðist óþarflega langt nám í heildina fyrir afmarkað starf og mætti e.t.v. stytta í 4 ár, hafa ljósmóðurfræði sem sérstaka línu í hjúkrunarfræði. Í fréttum voru laun ljósmóður eftir samfellt 6 ára nám borin saman við laun hjúkrunarfræðings eftir 4 ára nám og 2 ára vinnu. Þar munaði ekki miklu, 10-20 krónum á mánuði. Mér finnst þetta í fyrsta lagi lítill munur og í öðru lagi er ég ekki viss um að einhver nýútskrifaður úr námi eigi endilega að hafa sambærileg eða hærri laun en einhver með 2 ára starfsreynslu. Menn þurfa að gera það upp við sig hvort ljósmóðurstarf eigi að vera hærra launað en starf hjúkrunarfræðings. Ef svo er gæti það stutt lengra nám og hærri laun. Sé svo ekki er ástæða til að stytta námið.
Kveðja, Pétur.

3 comments:

SíSí said...

Heijó!
Gott að heyra að Madonna standi sig svona vel á sextugsaldri - við Ólöf eigum nefnilega Bostoníska miða í október...
Annars segi ég breik a leg heima, fæ nú kannski að heyra í þér áður en þú leggur í hann :)

Álfhildur said...

Hejsan Pétur og Ásgeir. Var einmitt að fá tölvupóst frá HÍ um meistaravörnina þína Pétur. Myndi ekki láta mig vanta ef að ég væri á landinu. Gangi þér mikið vel með hana. Hvernig gengur með hollenskuna? Kem pottþétt og kíki á ykkur einhvern daginn. Best væri að slá saman í borg plús danssýningu ( og þá að sjálfsögðu með Ásgeir included in the show). Búin að koma okkur þokkalega fyrir hér í Lundi, þó að enn séum við ekki komin í varanlegt húsnæði. Jón byrjaður í gigtarprógramminu. Ég held að honum finnist það heldur rólegt eins og er. Segist sakna þess "að vera ekki að bjarga mannslífum lengur". þá kemur hjúkkan og talar um aukningu á lífsgæðum og allt það. En eníveis, gangi þér mjög vel með vörnina Pétur og vonandi sjáumst við í vetur. Verið ávalt velkomnir til Lundar.
Álfa

Anonymous said...

amsturdammur.blogspot.com is very informative. The article is very professionally written. I enjoy reading amsturdammur.blogspot.com every day.
payday cash
payday loans canada