Wednesday, October 1, 2008

Mastersverkefni lokið

Þá er mastersverkefninu loks lokið. Ég var á Íslandi frá miðvikudegi til þriðjudags og varði verkefnið á mánudaginn var. Fyrirlesturinn gekk mjög vel. Meginhluti tímans á Íslandi fór í að gera fyrirlesturinn, nokkrar æfingar og ítarlegar yfirferðir með leiðbeinendunum og öðrum sérfræðingum er koma að rannsókninni. Ég er þeim þakklátur fyrir að hafa sett tíma sinn í þetta, fyrirlesturinn varð margfalt betri fyrir vikið.
Auðvitað var margt á síðustu stundu eins og oft vill verða. Ég var seinn að koma mér niður á Læknagarð til að halda fyrirlesturinn og þá mundi ég eftir því að Sigurdís hafði ráðlagt mér að lesa nú til öryggis ritgerðina fyrir fyrirlesturinn því að prófararnir gætu spurt úr hinu og þessu í inngangnum. Ég ákvað því að kíkja á örskotsstundu á tvær blaðsíður sem mér fannst helst þörf á að rifja upp, sit í bílnum á planinu fyrir utan Læknagarð og þá var bíl lagt við hliðina á mér. Þar var gestur kominn á fyrirlesturinn og sér mig, örfáum mínútum fyrir klukkan fjögur, að lesa eigin skrif úti í bíl! Þegar ég kom inn sagði Jón Gunnlaugur, leiðbeinandi: "Gott að þú ert kominn." Kynningin var skondin að því leyti að ég var kynntur sem Bjarni eftir að ég hafði áður verið kynntur sem Pétur rétt áður.
Í Íslandsheimsókninni náði ég ekki að gera ýmislegt sem til hafði staðið. Ég hafði ætlað að djamma pínulítið en var of þreyttur til þess, ég ætlaði í sund en náði því ekki, ég ætlaði í partí á laugardagskvöldið en komst ekki. Ég náði samt að gera heilmikið og er ánægður með að hafa leyst fyrirlesturinn vel af hendi.

Smá ráð til þeirra sem nota flugfélar: Ekki koma 8 mínútum fyrir brottfarartíma út að hliðinu (ég fékk áminningu). Gulli segir að maður verði að vera kominn hálftíma fyrir flug út að hliði, annars megi skilja mann eftir eða láta "standby" farþega fá sætið.

Fyrsti dagurinn í Alkmaar var í dag. Tók lestina út eftir og lenti í smá ævintýri á leiðinni. Flestar lestarstöðvar eru frekar illa merktar í Hollandi og ef maður missir af hinu eina skilti á lestarpallinum er ekki alltaf gott að vita hvar maður er. Ég sat í aftasta vagni lestarinnar, vagninum sem fer til Alkmaar og lestin staðnæmdist á lestarpalli sem ég hélt allt í einu að væri kannski í Alkmaar. Spyr gamla konu: "Is dit Alkmaar?" og hún sagði já. Þá stekk ég út og dyrnar lokast strax á eftir mér. Auðvitað kom í ljós að þetta var 2 stöðvum á undan Alkmaar og horfði ég illilega á konuna gegnum gluggan þegar lestin fór framhjá. Hún hefur sennilega haldið að ég væri að spyrja hvort þetta væri vagninn til Alkmaar. Tók svo næstu lest 10 mínútum seinna og var ekki seinn þar sem ég hafði lagt snemma af stað. Keypti á lestarstöðinni í Alkmaar keypti ég regnhlíf á 4.5 evrur af því að það var farið að rigna. Ég var ekki búinn að nota regnhlífina í mínútu (ég er ekki að ýkja) þegar hún gjörsamlega rústaðist í veðrinu. Fyrst blés undir hana þannig að hún flettist í öfuga átt, við það brotnuðu litlu vírarnir meira og minna og síðan liðaðist prikið af hlífinni og ég kastaði svo draslinu í næstu ruslatunnu. Allt tók þetta ekki meira en 1-2 mínútur. Þar að auki var eiginlega hætt að rigna. Þetta var fáránlegt og fólk í kringum mig gat ekki annað en hlegið.

Allur dagurinn fór í kynningu á spítalanum í Alkmaar. Það var meðal annars stutt skyndihjálparnámskeið, leiðsögn um spítalann og margt fleira. Svo heldur kynningin áfram á morgun.

Kveðja, Pétur.

3 comments:

Egill said...

Til hamingju Pétur! ... það er engin smá vinna á bak við þetta verkefni og ég veit að þú ert mjög feginn að vera búinn með þetta,.. njóttu vel.

kv. Egill

SíSí said...

Heijós - verð að brjóta þetta niður í fernt:
1) Til lukku, til lukku, til lukku með að vera búinn!!!
2) Ég var kynnt sem Sigurdís Halldórsdóttir í mastersvörninni minni - þú sem Bjarni, hvað er að gerast í þessari læknadeild?!?
3) Að koma of seint út í vél - Pógó, lærðirðu ekkert í DK ferðinni okkar í fyrra?!?
4) Regnhlífasagan er brillíant - sé þetta algjörlega fyrir mér :)

Knús
SíSí

Ólöf Viktorsdóttir said...

Til hamingju Bjarni, úps ég meinti Pétur!!!! Frábært hjá þér að vera búinn að klára verkefnið.
Þú ert svo skemmtilegur bloggari, rignhlífarsagan var fyndin :)