Sunday, February 22, 2009

Sessunautur dauðans

Fór á tónleika í kvöld þar sem Pollini, frægur píanisti, lék sónötur eftir Beethoven, Fantasíu eftir Schumann og Mazurka og Scherzo eftir Chopin. Var svo óheppinn að sitja við hliðina á manni sem var með óþolandi hávær öndunarhljóð. Það hljómaði eins og hann væri sofandi. Auk þess var öndunartíðnin hærri en eðlilegt mátti teljast. Ég neyddist til að bretta upp á vinstra eyrað til að brjálast ekki úr pirringi, við það lagaðist ástandið og gat ég notið tónleikanna eftir það. Reglulega eru tónleikar í þessu stóra tónleikahúsi í seríunni Meistarapíanistar. Sætin eru misdýr - ég hef oft verið seinn að kaupa mér miða og setið í ódýrari sætum þar sem útsýni er takmarkað, horfði til dæmis á bakið á píanistanum í dag, en það var svo sem allt í lagi. Fyrir aftan sviðið eru líka sæti og þeir sem sitja þar fremst, eiginlega á sviðinu næst píanistanum, eru sennilega einhverjir ríkir velgjörðarmenn tónleikahússins. Það eru gamlir menn með hvítt hár eða hár eins og silfurrefir. Menn sem minna á auðkýfinga og fyrirtækisforstjóra úr bandarískum bíómyndum. Við hlið þeirra sitja heldri eiginkonur með uppsett hár sem snúa sér við ef þær verða varar við óhljóð aftar í salnum. Þetta er fyrsta skipti sem ég fer á tónleika með Pollini þannig að ég var svolítið spenntur enda á ég nokkra uppáhaldsgeisladiska með honum. Auðvitað var þetta allt mjög fullkomið, sérstaklega Beethovensónöturnar. Fannst mér þó helst að Scherzó nr. 2 eftir Chopin hefði getað verið betra. Það hljómaði eins og hann væri búinn að spila þetta vinsæla verk milljón sinnum, það vantaði andagiftina og vissum smáatriðum virtist hann ekki gefa gaum. Kannski eru sum verk ekki ætluð eldri píanistum.

Svo las ég grein eftir Einar Má Guðmundsson, rithöfund, grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Hann kemst oft svo vel að orði. Þessi klausa fannst mér til dæmis óborganleg: "Þingið er einsog draugskip þar sem framliðin áhöfnin heldur að hún sé enn í skemmtireisu. Eftir sautján ára stjórnarsetu tala Sjálfstæðimenn einsog þeir hafi bara ekki verið á svæðinu og viti ekki hvaða skelfingar þessi stjórnarstefna hefur leitt yfir þjóðina. Í fréttaskýringaþætti sjónvarpsins eru svæsnustu hægrikenningar, einsog þær að fjármálakreppan stafi af “undirmálslánum” í Bandaríkjunum, bornar fram sem sjálfsagður sannleikur. Takið eftir orðinu undirmálslán, hvernig það rímar við undirmálshópa. Í Bandaríkjunum er þessi skýring notuð til að skella skuldinni á minnihlutahópa en firra stjórnvöld Bushtímans ábyrgð. Afbrigði af þessari kenningu á Íslandi er sú að konan í Breiðholtinu sem keypti sér flatskjá hafi sett Ísland á hausinn, sem sé, að alþýðan geti sjálfri sér um kennt."

No comments: