Monday, March 23, 2009

Tónleikar

Fór í kvöld á tónleika í Het Concergebouw. Það var píanistinn Sokolov sem spilaði verk eftir Beethoven og Schubert. Mér fannst gaman að hlusta á sónöturnar eftir Beethoven en ég hef aldrei verið sérstakur aðdáandi píanóverka eftir Schubert. Verkið eftir Schubert var langt, næstum endalaust. Sokolov er frábært píanisti. Hann notar sérstakan áslátt sem er mjög mjúkur og fínlegur. Svo er hann svolítið sérstakur. Þetta er gráhærður maður með sítt hár, stóran maga og klæddist auðvitað ekta kjólfötum. Hann gekk inn á sviðið ofan frá, studdi sig við handriðið, hneigði sig fram í sal og aftur í sal og byrjaði svo strax að spila áður en fólk var hætt að klappa. Hann nennti ekki að standa upp til að hneigja sig milli Beethoven-sónata. Svo þegar hann stóð upp hneigði hann sig fram í sal og svo aftur í sal og var byrjaður að ganga út áður hann rétti sig við - hann notaði eiginlega skriðþungann við að halla sér fram í seinna skiptið til að bera sig áfram. Svona hneigði hann sig í hvert skipti. Þá fór hann út af sviðinu til hliðar en ekki upp, eins og venjan er. Þar sem ég sat á fremsta bekk sá ég hvernig hann beið fyrir utan, hlustaði eftir klappinu og kom inn aftur. Hann hikaði ekkert við að spila aukalög, þau voru alls fimm, sem er meira en oftast. Við hliðina á mér var maður sem var mjög upprifinn yfir öllu saman, hann kiptist við að kæti við hvers kyns hljóðeffekta og stundum titraði höfuðið á óskiljanlegan hátt. Hinum megin voru kærustur, sennilega stelpur í tónlistarnámi, sem létu vel að hvor annarri með handstrokum á meðan þær hlustuðu á tónlistina. Uppi á sviði var svo ríka gamla fólkið sem virtist almennt býsna sátt, fyrir kannski utan leiðinlegt en vel spilað verk eftir Schubert.

2 comments:

Anonymous said...

Puh! D-dúr sónatan er ekkert leiðinleg.

Ólöf Viktorsdóttir said...

Ég er ánægð með þig, Pési! Menningarlegur. Maður þarf að taka sér þig til fyrirmyndar :)