Sunday, April 5, 2009

Ásgeir kominn til Amsterdam

Þá er Ásgeir kominn til Amsterdam. Hann verður hér fram yfir páska. Við skruppum á markaðinn í gær og keyptum blóm. Elduðum svo kjúklingarétt og horfðum svo auðvitað á Lost, byrjuðum þar sem frá var horfið í nýjustu seríunni. Alltaf verður þetta skrýtnara. Er einhver annar en við sem fylgist með þessu? Ásgeir fór síðan eldsnemma í morgun með lest til Þýskalands í prufu fyrir vinnu næsta vetur. Vonum að allt gangi að óskum.

Það var mikið að gera þessa vikuna. Ég brenndi mat við eldamennsku og það kom hrikaleg fýla í íbúðina - var öll kvöld vikunnar að þrífa og lofta til að losan við þennan óáran fyrir utan síðastliðið mánudagskvöld þar sem ég fór í brúðkaupsveislu. Ég klæddi mig eins og Íslendingar gera venjulega þegar þeir fara í brúðkaupsveislu - í jakkaföt, skyrtu og bindi. Þegar ég kom í veisluna sá ég að ég var sá eini sem var svona "formlega" klæddur, að brúðgumanum meðtöldum. Gat nú verið.

Svo hef ég séð ýmis áhugaverð tilfelli í vinnunni, borderline phyllodes tumor, chronich interstitial pneumonia, neuroendocrine brjóstakrabbamein, glycogen-rich brjóstakrabbamein, Brenner tumor í eggjastokki og útbreitt sarcoidosis í krufningu, svo eitthvað sé nefnt sem ég man eftir. Síðan er merkilegt hvað mikið er um af húðkrabbameinum. Venjuleg húðkrabbamein eru svo algeng að þau eru ekki einu sinni talin með þegar fjallað er um það hversu algeng krabbamein eru. Ég sé yfirleitt á bilinu 1-5 á dag. Þar að auki sé ég yfirleitt nokkur sortuæxli á viku. Þetta er hálfgerður faraldur sem tengist væntanlega sólböðum og slíku.

Svo fékk ég um helgina ritrýnda grein um ristilkrabbamein sem ég ásamt leiðbeinendum skrifuðum í Læknablaðið. Þarf nú að breyta greininni í samræmi við ritrýnina en það ætti ekki að taka lengri tíma en daginn í dag.

No comments: