Sunday, April 26, 2009

Kosningar

Mér líst ágætlega á niðurstöðurnar úr kosningunum. Hið jákvæðasta er að það er mikil endurnýjun, konum fjölgar og nýr óspilltur flokkur kemst inn á þing. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði miklu í samræmi við það að hafa átt stóran þátt í að koma Íslandi á hausinn, hefði eiginlega mátt tapa fleiri þingmönnum. Það var mjög fínt að Sigurður Kári skyldi detta út en fáránlegt að hinn ömurlegi Árni Johnsen skuli haldast inni (er fólk bilað að kjósa þennan mann?). Af fleirum sem hefðu gjarnan mátt detta út má t.d. nefna Birki Jón Jónsson, Össur Skarphéðinsson, Björgvin G. Sigurðsson, ögmund Jónasson og Guðlaug Þór Þórðarson. Sjálfstæðisflokkurinn er enn og aftur með hlutfallslega fáar konur. Svo var athyglisvert hvernig fjölmiðlar útilokuðu Ástþór í kosningabaráttunni, það var hálfgert einelti.

Annars fylgist maður aðeins uggandi með fréttum af svínaflensunni. Samkvæmt hefur 81 dánið úr flensunni. Í einni fréttinni kom fram að í Mexíkó hefðu 59 (7%) dáið af 854 sem greindust með lungnabólgu. Sjálfsagt er fjöldi þeirra sem smitast en fær lítil eða engin einkenni mun hærri en 854. WHO lýsir yfir áhyggjum þar sem flensan er strax orðin útbreidd og óvanalegir aldurshópar hafa smitast (þ.e. ekki bara ungir og gamlir eins og í flestum flensum).

Hef verið býsna duglegur þessa helgina. Ég setti mér nefnilega það takmark að klára næstu grein um ristilkrabbamein. Ég er ekki viss um að það takist en ég er mjög langt kominn. Svo koma Mamma og pabbi næstu helgi í heimsókn, verða hér í fimm daga. Þau koma á drottningardaginn en það er mikill frídagur hér í landi, hálfgerður sautjándi júní.

No comments: