Við Ásgeir hjóluðum til útjaðars Amsturdamms í gær. Ferðinni var heitið til Amsterdamse bos (=skógur) þar sem við leigðum tvo einmenningskanóa. Skógurinn er langt undir sjávarmáli og um allan skóg liggur net af sýkjum. Svo rerum við eftir sýkjunum í frábæru veðri. Á leiðinni heim stoppuðum við á gamla ólympíuleikvanginum í Amsterdam (munið þið ekki eftir ólympíuleikunum í Amsterdam 1928?) þar sem fór fram Hið opna frjálsíþróttamót Amsturdamms. Héldum svo heim, borðuðum indónesískan mat og tókum Will og Grace maraþon, horfðum á svona 5 fimm þætti. Skoðuðum líka íslensku gleðigönguna á netinu sem virtist vera mjög skemmtileg.
Annars höfum við gert ýmislegt skemmtilegt okkur til dundurs. Ásgeir fór á ströndina á fimmtudag og síðustu helgi var auðvitað gleðiganga (gleðisigling!) hér í Amsterdam. Þá var mikið um dýrðir. Við fórum í frábært partí.
Sunnudeginum verður varið í þrif, frágang, matarinnkaup og þvott. Ásgeir heldur til Berlínar á fimmtudag til vinnu og verður þar í tæpar tvær vikur. Á meðan skrepp ég í tvær helgarferðir, fyrst til London og svo til Stokkhólms.
Um daginn gerðist atburður hér í Amsterdam sem staðfesti þá skoðun mína að maður eigi helst ekki að taka leigubíl á aðallestarstöðinni eða Leidseplein (lesist Lækjartorg). Það sem gerðist var að farþegi ætlaði að taka leigubíl á Leidseplein og leigubílstjórinn fór fram á 50 evrur fyrir ferðina (sem er auðvitað rugl innanbæjar því að startgjaldið er 7,5 evrur og ekkert bætist ofan á það fyrstu 2 kílómetrana). Leigubílstjórarnir eru oft einhverjir gaurar sem eru komnir í bæinn til að græða, ósjaldan einhverjir með glæpaferil að baki. Þeir fóru að rífast og það endaði þannig að farþeginn fór í burtu. Þá kom leigubílstjórinn (sem kunni Tai Kwon do) og sló í manninn í höfuðið að aftan, maðurinn féll niður og reyndist svo vera dauður! Við Ásgeir höfum slæma reynslu af leigubílstjórum hér (sjá eldri færslur!) og reynum í lengstu lög að taka ekki leigubíl.
Síðustu viku voru 5 krufningar, þar af voru tveir einstaklingar milli 40 og 45 ára aldurs sem létust úr kransæðastíflu. Það finnst mér ungt. Annars var mikið að gera - og ég sem hélt að það yrði aðeins rólegra þarna á sumrin.
Sunday, August 9, 2009
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Hlökkum svooo til ad fa thig hingad! :)
Post a Comment