Sunday, November 18, 2007

Slysó og fleira

Við Ásgeir vorum að koma úr ræktinni. Ég ætla að blogga svolítið áður en ég fer að vinna í ristilverkefninu endalausa. Hef þessa vikuna verið í þjálfun í tengslum við krufningar. Er sjálfur búinn að gera fleiri krufningar en flestir deildarlæknanna hér þannig að þetta er eiginlega bara til þess að sjá hvernig þau gera hlutina enda til mýmargar aðferðir. Hlakka til að fá að gera hlutina einn og án afskipta annarra. Ég þarf að laga mínar aðferðir að þeim venjum sem eru iðkaðar hér. Það er ágætt, þá get ég kannski búið til blöndu af því sem mér finnst gott hér og því sem var betra á Íslandi.
Prófið gekk svo sem ágætlega. Það verður fornvitnilegt að sjá hver árangurinn verður. Spurt var meðal annars um alfa-1 antitrypsínskort, brjóstakrabbamein, sýkingar í miðtaugakerfi, eitlakrabbamein og kjálkasjúkdóma.

Ásgeir var svo óheppinn síðastliðinn fimmtudag að fá fót í andlitið á dansæfingu. Hann fékk skurð á neðri vör, vörina innanverða og heilmikill vökvi kom í annan kjálkaliðinn þannig að hann gat ekki bitið saman. Þurftum að fara á slysadeildina þar sem hann var saumaður að innan sem utan, teknar röntgenmyndir og svo fór hann daginn eftir til sérfræðings í kjálkavandamálum. Þetta er allt batnandi nú á sunnudegi. Okkur þótti afgreiðslan á slysó hér hægfara, erum vanir því að skurðir séu afgreiddir hraðar heima á Íslandi. Hér þurfti að bíða í um tvær og hálfa klukkustund eftir því að fá þetta saumað saman. Okkur fannst það endalaust lengi að líða. Ásgeir má að svo stöddu bara borða mjúkan mat, ekkert hart eða seigt.

Fórum í gær í mat til franskra hjóna sem við höfum kynnst. Þau eru listamenn og reka einnig skóbúð. Við fengum ljúffengan franskan mat að borða. Skruppum í dag í ræktina og tókum til. Helgarnar líða hratt, áður en maður veit af er komin sunnudagur og ný vinnuvika. Við ætlum að reyna að vera duglegri að fara og skoða eitthvað skemmtilegt á laugardögum.

Nú fer að líða að flutningum á nýja staðinn. Þá snýst dæmið við, þ.e. nú hjóla ég í 5-10 mínútur til að komast í vinnuna og Ásgeir í 25 mínútur til að komast í skólann. Á nýja staðnum verður þetta öfugt. Hér er orðið svolítið kalt, hitinn hefur verið 3-7 gráður.

Kveðja, Pétur.

3 comments:

Anonymous said...

Hæ Pétur og Ásgeir!
Takk fyrir síðast :)
Rosagaman að kíkja á ykkur í Amsturdammi - sendi baráttukveðjur til þín í "verkefninu endalausa" Pétur, kannast vel við þetta...

Mbk. Sigurdís

Anonymous said...

Blessaður Pétur,
rektorinn í MR hringdi í mig og sagði að hann hefði frétt að þér hefði gengið mjög vel í prófinu.
Til hamingju
Geiri.

Anonymous said...

Ég vona að hann Ásgeir hafi það gott og sé að jafna sig, þetta kjálkaatvik hljómaði ekkert alltof skemmtilegt.

kv. Egill