Tuesday, May 27, 2008

Newcastle

Ég var í Newcastle síðastliðna helgi. Ásgeir er þar tímabundið við vinnu. Hann leigir herbergi hjá fyrrverandi flamengodansara, Spánverjanum Raúl. Ég kom seint á föstudagskvöldið og var sóttur á flugvöllinn en Ásgeir býr í bæ við hliðina á Newcastle sem heitir Wallsend, samanber að þar endaði rómverskur múr sem markaði norðurenda Rómverska heimsveldisins. Enn í dag er hægt að sjá hluta veggjarins. Á laugardeginum skoðuðum við Newcastle, gengum um götur borgarinnar. Newcastle var verkamannaborg sem byggðist upp kringum kolavinnslu og skipasmíði. Nú til dags stundar varla nokkur þessar atvinnugreinar og flestir vinna við alls konar skrifstofustörf. Hollendingar hafa sérkennandi útlit og það er engin spurning að fólk í Newcastle hefur líka ákveðið yfirbragð; algengt var að sjá fremur kringluleit andlit, roða í kinnum, svolítið spik og karlarnir voru oft með lítið hár á höfði. Á laugardeginum var mikið af eirðarlausum unglingahópum í miðbænum og Goth-stíllinn var í tísku en Gilsinegger-útlitið var hvergi að sjá.
Við horfðum á Eurovision á laugardagskvöldið. Við bjuggumst eiginlega við að Ísland fengi fleiri stig. Verst var að sjá slepjulegt atriði frá Rússlandi hljóta flest stig. Skautarinn var einstaklega hallærislegur. Eftir Eurovision skoðuðum við aðeins næturlífið í Newcastle. Það var frekar dýrt og ekki að öllu leyti samkvæmt nýjustu tísku en skemmtilegt að sjá. Eftir frábæra helgi hjá Ásgeiri, þar sem raunar var einnig haldið upp á afmælið mitt, hélt ég heim á sunnudeginum.
Vinnan gengur sinn vanagang. Flest sýni sem ég hef fengið hafa verið býsna venjuleg. Það er merkilegt hvað það er mikið af sortuæxlum enda hefur þeim æxlum farið mikið fjölgandi. Það er gaman að einn meinafræðingurinn er mikill sérfræðingur í sortuæxlum og erfið tilfelli eru send frá öllu Hollandi og víðar til hans til mats. Það vill nefnilega svo til að oft er erfitt að greina þessi æxli og aðrar skyldar breytingar.
Kveðja, Pétur.

No comments: