Wednesday, January 28, 2009

Janúar

Þá er janúarmánuði alveg að ljúka. Ásgeir, sem er nú á Íslandi fram á vor til að klára BA í dansi við Listaháskólann, kom reyndar hingað um daginn og var hér í tvær vikur til að semja dans. Það verður mikið að gera hjá honum næstu vikurnar, hann þarf að klára að semja dansinn og flytja hann (eitt af lokaverkefnunum við skólann) auk þess sem hann þarf að skrifa BA ritgerð. Svo ætla ég til Íslands eina langa helgi fyrri hluta marsmánaðar þegar þessum hasar er lokið og heimsækja Ásgeir.
Við Ásgeir höfðum það gott hér; fengum gesti í mat, horfðum á vídeó og fórum út. Ásgeir lagaði líka þráðlausa netið (sem skaddaðist er dagbók nokkur datt á boxið) sem er mikill munur. Við ætluðum í bíó eitt kvöldið en sáum þá að það voru komnir tveir þættir af Lost, fimmtu seríu, á netið þannig að við horfðum á Lost í staðinn enda forfallnir aðdáendur. Ýmislegt kom strax í ljós, þetta verður æ meira spennandi.

Það er nóg að gera í vinnunni eins og endra nær. Kom samt frekar snemma heim í dag. Þarf að rumpa af fyrstu greininni um ristilkrabbameinið sem birtist vonandi sem fyrst í Læknablaðinu. Af áhugaverðum sýnum í vinnunni hef ég séð papillary cystadenoma í eistalyppu, lymphoma í ristli, synoviitis villonodularis pigmentosa í fingri og intraosseous ganglion í sköflungi, svo eitthvað sé nefnt. Það hafa líka verið margar krufningar undanfarið, þar hef ég séð hjartaþelsbólgu, iliopsoas hematoma, iliac artery thrombosis og coecal blowout með faecal peritonitis í tengslum við proximal tumorstricturu.

Svo kemst ég varla hjá því að minnast á stjórnmál og efnahagsmál á Íslandi. Það hefur verið fjallað um þetta í hollenskum fjölmiðlum og kona í vinnunni kom að máli við mig og sagði að þetta væri svo skrýtið, áður hafi aldrei verið fjallað um Ísland en nú væri landið oft í fréttum. Þegar mótmælin stóðu sem hæst fyrir utan Alþingishúsið sagði einn við mig að það væri greinilega ekki gáfulegt að reita víkinga til reiði! Ég vona bara að ástandið nái að róast aðeins og stjórnmálamenn einbeiti sér að efnahagsástandinu en ekki flokkapólitík. Vonandi verða kosningar ekki of snemma. Þá ná grasrótarhreyfingar að stofna flokka - enda ekki vanþörf á. Ég kysi ekki neinn af þeim flokkum sem nú er boðið upp á. En hvernig ætli það sé með þá sem búa erlendis? Ég flutti lögheimilið til Hollands, get ég samt kosið og hvernig? Ég þarf að athuga það.

Kv. Pétur.

1 comment:

Anonymous said...

Já þetta er ferlega skrítið ástand hérna á Íslandi núna. Maður er að hluta til orðinn hálf þreyttur á þessum fréttum öllum, en samt er þetta svo spennandi.

Ég er spennt að sjá Davíð fara úr seðlabankanum, fínt væri að fá bara ein seðlabankastjóra sem væri valinn eftir hæfni en ekki politík

kv Dögg