Wednesday, March 3, 2010

Kominn mars

Margt hefur verið brallað síðan síðast.
- Axel og Eric komu í heimsókn, gistu eina nótt, skruppuð á djammið.
- Ásgeir vinnur þessa dagana sem statisti í óperu, ýmist munkur eða fangi.
- Dansverkið IOVIODIO, sem Ásgeir dansar í, var frumsýnt, gekk mjög vel.
- Keyptum borð í IKEA, sem varð til þess að við tókum til í öllum skúffum á heimilinu.
- 2 af 3 hjólum fóru í viðgerð í vikunni.
- Eyjólfur flutti til Utrecht, kom með okkur á djammið og gisti í Amsterdam.
- Ég vann lestarspilið, loksins.
- Ristilgreinin sem ég skrifaði í haust ásamt öðrum var samþykkt til birtingar í International Journal of Cancer.
- Höldum áfram að horfa á Will og Grace á netinu, komnir í seríu 3.
- Höldum einnig áfram að horfa á Lost, núna er 5. sería byrjuð.
- Verð 2 vikur í mars með réttarlæknisfræði-rotation. Þarf þá að fara til den Haag daglega. Á laugardag kúrs í blóðmeinafræði. Í apríl kúrs í cýtólógíu. Auk þess verð ég með fyrirlestur á hollensku meinafræðidögunum í byrjun apríl.
- Var á bakvakt í síðustu viku - aldrei hringt.
- Fylgst með Icesafe ... ætlar þetta aldrei að taka enda?
- Loksins farið að hlýna, ekki jafnkalt heima.
- Pabbi 65 ára.
- Ýmis áhugaverð sýni í vinnunni: 2 granulosa cell tumorar, Chagaz disease í smágirni, Malakoplakia í nýra, Langerhans cell histiocytosis, hepatocellular adenoma, hydrops foetalis, sacrococcygeal teratoma, synovial sarcoma, eosinophilic colitis, eosinophilic oesophagitis, autoimmune gastritis, embryonal rhabdomyosarcoma, ganglioneuroblastoma, ependymoma, retinoblastoma, perineurioma, enchondroma og margt fleira sem ég man ekki í svipinn.

Saturday, January 23, 2010

Tími til kominn

Er ekki kominn tími til að blogga aðeins? Jú, ég held það. Ýmislegt hefur drifið á daga okkar frá síðasta bloggi og þessi færsla verður í símskeytastíl.
- Gulli og Andrés voru hjá okkur yfir áramót. Við Ásgeir vorum báðir í fríi samtímis. Silla og Óli komu í mat á gamlárskvöld. Mikið stuð. Skruppum líka einn daginn í ferð til Gouda og Utrecht. Ævintýraleg dómkirkja í Utrecht.
- Hér var mjög kald í desember og byrjun janúar, sem betur fer orðið hlýrra núna. Allt fram á þessa viku var ís á sýkjunum. Núna rigning í staðinn, samt skárra en snjórinn.
- Var með 2 vikna rannsóknartíma í byrjun janúar - næsta grein fjallar um tímabreytingar á ristilkrabbamein á 35 árum.
- Fórum á Avatar og Sherlock Holmes í bíó, hvorutveggja góðar myndir.
- Matt frá Spáni var hjá okkur eina helgi, djamm.
- Stærðarinnar kaffiboð á sunnudegi.
- Út að borða á Bazar.
- Ásgeir æfir og æfir fyrir frumsýningu um miðjan febrúar.
- Ásgeir var slæmur í bakinu en lagaðist mikið eftir sjúkranudd.
- Skáphurðirnar eru byrjaðar að hrynja af Ikea-innréttingunni í eldhúsinu. Vesen.
- Það lak úr sturtunni okkar niður á næstu hæð. Búið að kítta og laga það.
- 2 hjól af þremur biluð.
- Will og Grace maraþon.
- Þorrablót Íslendingafélagsins í Hollandi.
- Spáð og spekúlerað í Icesave. Meiri skilningur meðal Hollendinga á málinu en áður. Hef reyndar þurft að hlusta á nokkra lélega Icesafe-brandara.
- Ásgeir og Óli verða aukaleikarar í óperusýningu í febrúar. Ásgeir verður fangi en Óli munkur. Þeir verða meðal 75 aukaleikara í stórri uppfærslu.
- Í kvöld: matur hjá Valtý og Eddu í Houten.
- Á morgun: árdegisbítur hjá Guðrúnu og Birni.
Eitthvað fleira? Sennilega en ég man ekki eftir því núna.
Kv Pétur.

Sunday, December 27, 2009

Jólatrénu hent fram af svölum

Þá er kominn þriðji í jólum og við erum reynslunni ríkari. Vitum núna að við getum haldið jól og séð um jólamat. Við fengum hvít jól hér í Amsterdam. Ég var á bakvakt en hún var róleg, fékk aðeins tvö símtöl en þurfti ekki að fara niður á spítala. Á Þorláksmessu keyptum við jólatré. Það eina sem var í boði var jólatré í potti. Kallinn á jólatrésölunni sagði að svona væri þetta orðið nú til dags. Tréð kæmi bara í potti í mold. Ég keypti tréð í grennd við spítalann hélt svo á því út á næstu metróstöð (sem var í 20 til 30 mínútna fjarlægð) og var orðinn búinn í handleggjum og öxlum. Þegar heim var komið var fallega grenitrénu okkar umpottað þannig að það stóð lárétt á stofugólfinu. Síðan skreyttum við jólatréð og tókum upp vídeójólakort sem núna er á youtube. Ég losnaði úr vinnu í fyrra fallinu á aðfangadag og komst loksins heim. Við höfðum hamborgarhrygg með brúnuðum kartöflum á aðfangadag, graflax í forrétt og hrísgrjónagraut ("rísalaman") í eftirrétt. Maturinn tókst vel og við opnuðum svo alla pakkana sem voru undir trénu. Reyndar fórum við að taka eftir því á aðfangadag að tréð var ekki líflaust. Litlir maurar birtust af og til, sennilega vöknuðu þeir til lífsins í hitanum. Ég setti upp límbandsvarnargarð. Hann hélt þessum stöku maurum í skefjum en það dugði samt ekki til. Þá var annar ytri límbandsgarður settur upp svo og þykkt sjampó í stóru undirskálina undir blómapottinum. Við rúlluðum upp maurunum með límbandsrúllu til að ná ryki úr fötum. Þegar þetta reyndist ekki virka sem skyldi var stríðinu við maurana tapað. Þeir voru nú ekkert ógurlega margir (náðum kannski 80 maurum) en við nenntum ekki að standa í þessu og losuðum okkur við tréð í gær. Við tókum skrautið af trénu, settum poka utan um rótina og hentum því fram af frönsku svölunum, ofan af þriðju hæð og niður á gangstétt þar sem tréð hlammaðist í stéttina. Vonandi varð maurunum bylt við þetta. Þarna bíður þetta fallega tré en eftir því að vera hirt af ruslakörlum. Þetta er ábyggilega eina tréð á svæðinu sem er strax komið út. Það gerir svo sem ekkert til. Á næsta ári verður keypt gervijólatré (svo vorum við líka með pínulítið ofnæmi fyrir trénu).
Silla og Óli komu í mat á jóladag (hangikjöt auðvitað). Þau komu m.a. með uppstú, vestfirskar flatkökur og eftirrétt. Fyrr um daginn lágum við í leti og lásum. Í gær var afslöppunardagur og í dag kom Marianna (samstarfsfélagi úr vinnunni) í hádegismat ásamt manni sínum og systur. Við höfum spilað mikið lestarspilið þessi jólin. Mér hefur tekist að vinna Ásgeir einu sinni (af ótal skiptum). Síðan höfum við prufað Heilaspilið sem var í möndlugjöf og annað spil sem Silla og Óli komu með sem heitir Spurt að leikslokum (held ég). Ekki á morgun heldur hinn koma Andrés og Gulli í heimsókn og verða hjá okkur yfir áramótin. Við hlökkum mikið til.

Monday, December 14, 2009

Smá helgarblogg

Stutt blogg í símskeytastíl - klukkan er orðin allt of margt:
- Píanó komið heim í stofu. Við Ásgeir spilum jólalög fjórhent. Urðum að flytja til húsgögn.
- Ásgeir fór á fullt af danssýningum: í Rotterdam á þriðjudaginn, hér í Amsterdam í dag og Groningen á föstudag. Þar missti hannaf kvöldlestinni til Amsterdam. Gafst þá gott tækifæri til að kíkja út á lífið í Groningen með Ingu og fleira fólki úr dansinum.
- Fórum í bæinn um helgina og keyptum jólagjafir.
- Kristjana, frænka Ásgeirs sem er í námi í Delft, kom í kvöldmat í gær og gisti eina nótt. Ásgeir er orðinn snillingur að búa til Risotto. Við spiluðum lestarspilið (rosalega skemmtilegt spil).
- Will kom í kvöldmat.
- Fórum í kaffi til Sillu og Óla í kvöld. Ætlum öll að kaupa árskort á hollensk söfn.
- Búið að rigna heilmikið hér. Í dag þurrt en kalt.
- Ísland næstu helgi - hlakka til.

Sunday, November 29, 2009

Helgarblogg

Enn einni helginni að ljúka. Fór í gær í Body Pump í ræktinni - er allur lurkum laminn í dag, með harðsperrur og stirðleika. Við Ásgeir fengum gesti í mat í gærkvöldi; Renate og Sigrúnu. Renate býr í Rotterdam þar sem hún er í sérnámi í meltingarlæknisfræði og Sigrún er nýflutt hingað og er að læra hollensku áður en hún byrjar að vinna á kvennadeildinni á spítala í Amsterdam. Við Ásgeir fórum líka í bæinn í gær og ég keypti nýja síma og ... píanó! Loksins lét ég verða af því. Þetta var reyndar rafmagnspíanó en samt mjög gott að spila á það, hlakka til að fá það hingað heim næsta föstudag. Í dag fórum við svo niður í bæ á kaffihús og svo á danssýningu. Á morgun ný vinnuvika.

Monday, November 23, 2009

Færri blogg

Hef ekkert bloggað í meira en mánuð. Þetta er einhvern veginn lögmál flestra blogga; smám saman fækkar færslunum. Þetta blogg verður í stikkorðastíl - upptaling á því sem hefur gerst frá því síðast:
*Fór til Den Haag að horfa á kynningu á því verki sem Ásgeir er að æfa og sett verður á svið í febrúar (Danshöfundurinn Gabriela Maiorino).
*Kúrs í ónæmisfræði og bólgu í Groningen.
*Palli Einars kom í helgarheimsókn frá Íslandi.
*Horft á Wil og Grace með Ásgeiri og ýmsar bíómyndir.
*Matarboð hjá Valtý og Eddu í Houten.
*Sigrún Perla flutti til Amsterdam til að fara í sérnám í kvensjúkdóma- og fæðingalæknisfræði.
*Ásgeir dansaði á þremur sýningum ásamt fleirum í verki eftir danshöfundinn Bruno.
*Ferð til Barcelona til að hitta Xavier, afmælisveisla í Pýreneafjöllunum og fjallganga.

Og sennilega eitthvað fleira.

Sunday, October 4, 2009

Ásgeir kominn til Amsterdam, hættur í Alkmaar.

Ásgeir kom á föstudaginn, loksins. Hann var í London á námskeiði og svo vinnubúðum í Gautaborg.
Lífið á Nieuwe Achtergracht er því komið í góðan gír. Framundan er vinna hjá Ásgeiri ásamt öðrum dönsurum hjá danshöfundnum Gabriela Maiorino.

Sjonni var í heimsókn síðustu helgi. Auk þess sem kom fram í síðasta pósti fórum við í tveggja tíma kanósiglingu í frábæru veðri í útjaðri Amsterdam. Endurnar máttu forða sér undan okkur. Svo fórum við í dýragarðinn í Amsterdam - sem reyndist miklu stærri og áhugaverðari en ég átti von á. Þá fórum einnig á píanótónleika. Sjonni skrapp til Haarlem á mánudegi en þar reyndist allt hið áhugaverða vera lokað (alræmdar mándagslokanir sem við vitum núna um).

Hvað fleira? Jú, ég lauk vinnu í Alkmaar eftir ár þar. Þar var haldin kveðjuveisla í lok vinnudags þar sem ég fékk nokkrar gjafir; hollenska brandarabók, mjög flotta bók um brjóstameinafræði, blómvönd og bók þar sem allir starfsmennirnir voru búnir að skrifa hver á sína síðu eitthvað skemmtilegt, svo sem þakkir fyrir gott samstarf og óskir um velgengni í framtíðinni. Þetta var sérlega ánægjulegt og skemmtilegt. Ég sá um léttar veitingar sem Sjonni kom með frá Íslandi; þar var um að ræða alls kyns íslenskt nammi og svo smá smakk af harðfiski, lifrarpylsu og sviðasulta. Ég kem til með að sakna vinnunnar í Alkmaar - þar var mjög gott að vera. En mér finnst gott að þurfa ekki að ferðast 2 og hálfa klukkustund á dag héðan í frá.