Í gær var fyrsti vinnudagurinn. Hér í meinafræðinni mætir fólk milli klukkan átta og hálf níu en þá er stuttur morgunfundur. Í gær fór reyndar allur dagurinn í langa kynningu fyrir nýja starfsmenn á spítalanum. Það er greinilegt að 1. október er allsherjar byrjunardagur því að á kynninguna komu um 60 manns, hjúkrunarfræðingar, meinatæknar, læknar og alls konar annað starfsfólk. Þetta byrjaði auðvitað á því að allir fengu möppu, svo talaði einhver yfirmaður um hvað spítalinn stæði sig vel í samkeppni við hina háskólaspítalana í Hollandi. Því næst horfðum við á stutta mynd um starfsemi spítalans sem hét VUmc frá morgni til kvölds, eiginlega tilgangslaus mynd. Svo var okkur skipt í hópa og hver hópur dreginn um spítalann sem er stærri en ég hélt. Þar er meira að segja lítil ferðaskrifstofa fyrir starsmenn. Í mötuneyti starfsmanna er mjög huggulegt, arinn og notalegheit. Auðvitað er meinafræðin í elsta hluta spítalans. Í hádeginu fengum við mat en á meðan var rannsóknasviðið kynnt fyrir mínum hópi. Ég skildi ekkert af því sem maðurinn sagði. Svo var kynning fyrir lækna á siðfræði og tilkynningaskyldu vegna mistaka og ferlum í tengslum við kærur. Í tölvutíma var nýjum læknum kennt á forrit sem heldur utan um sjúkrasögu, rannsóknaniðurstöður af öllu tagi og lyf - virtist mjög sniðugt. Mér gramdist að sjá að mér hafði hlotnast býsna gömul og aðeins gölluð smásjá til vinnunnar. Ég get reyndar notað hana en ætla að vita hvað ég get gert í þessu. Svo byrjaði vinnan í morgun. Þetta byrjar rólega. Ég fékk um tólf smásjárgler með ýmsum húðtilfellum og kláraði þau með sérfræðingi á deildinni. Ég fékk nógan tíma til að lesa í kringum tilfellin sem var mjög fínt. Dikteraði á hollensku - gekk vel en þetta var stutt og laggott. Tilfelli dagsins voru m.a. (bara fyrir áhugasama): keratosis seborrhoica, keratosis actinica, verruca vulgaris, condyloma acuminata, lentigo simplex, carcinoma basocellulare og carcinoma squamosum. Allnokkuð er af krufningum hér á spítalanum. Dagurinn byrjaði með krufningafundi í meinafræðinni þar sem áhugaverð líffæri frá síðastliðinni viku voru skoðuð. Svo lauk deginum á dánarmeinafundi á skurðdeildinni.
Á morgun göngum við frá leigusamningi fyrir húsnæðið þar sem við verðum frá og með fyrsta september. Meira um þá íbúð síðar.
Kveðja, Pétur.
Tuesday, October 2, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
6 comments:
Er ekki dálítið seint að fá íbúðina í september????
;)
kveðja Helga
Gott að heyra að fyrsti vinnu-vinnudagurinn gekk vel :o)
Ég myndi kveikja í þessari smásjá og heimta svo nýja!
Kv.
Sigurdís
Ertu ekki eitthvað að ruglast á nöfnum Pétur, það heitir Lífeindafræðingur. ;)
Kveðja Sandra Lífeindafræðingur
Úps, jú við fáum nýju íbúðina um mánaðamótin nóvember-desember.
Jú, auðvitað lífeindafræðingur. Ég var bara að athuga hvort þú læsir ekki bloggið!
Ertu búinn að sjá einhver ný og áhugaverð líffæri?
Ég hef svo sem ekki séð ný líffæri en er búinn að uppgötva nýjan landlægan sjúkdóm sem liggur í hálsi landsmanna - nefnist hollenska.
Post a Comment