Saturday, September 29, 2007

E.t.v. komnir með húsnæði

Síðastliðna viku höfum skoðað fimm íbúðir vítt og breitt um borgina. Þær hafa verið misjafnar að gæðum og misvel staðsettar, allar 50-65 fermetrar og leiguverð á bilinu 875-1200 evrur. Að mörgu er að huga, t.d. því að ýmist eru margs kyns þjónustugjöld innifalin eða ekki, t.d. rafmagn, hiti, gas, sorpgjald, holræsagjald, húsnæðisskattur, vatnsskattur og sameign. Við höfum komist að því að Hollendingum finnst ekki nauðsynlegt að eiga frysti, þeir fara bara oftar út í búð. Okkur ísátvöglunum finnst þetta skrýtið. Sömuleiðis eru eldhús oft án venjulegs ofns en í stað þess er örbylgjuofn sem unnt er að nota sem ofn. Stigahús í eldri hverfum borgarinnar eru þröng og brött og til að koma húsgögnum inn þarf oft að hífa þau upp með kaðli og flytja inn um glugga að framan. Í tengslum við það má oft sjá bita efst á gafli húsa með króki. Salernisaðstaða er oft þannig að klósettið er í sér herbergi og sturta í öðru. Stundum er ekki vaskur í herberginu þar sem klósettið er.
Leigumarkaðurinn hér er tvöfaldur; annars vegar er leigumarkaðsverðið sem ræðst af framboði og eftirspurn og hins vegar hafa sveitarfélögin á sínum vegum húsnæðisnefndir sem unnt er að kalla til ef manni finnst leiguverð of hátt og hafa þær heimilid til að lækka leiguverðið. Réttur leigjenda hér er sterkur en leigusalar hafa ráð undir rifi hverju. Yfirleitt er gert ráð fyrir í leigusamningum að maður fari út eftir sex eða tólf mánuði þannig að ef maður klagar þá verður samningurinn ekki framlengdur. Leigusalar vilja frekar útlendinga því að ólíklegra er að þeir verði með vesen (af því að þeir þekkja ekki reglurnar) og yfirleitt staldra þeir ekki mjög lengi við. Hér er vaninn að menn borgi tryggingu (oft eins til sex mánaða leiga) og stundum er það gert samhli­ða því sem skrifað er undir samning. Síðustu dagar hafa snúist mikið um húsnæðisleit og stundum eru margir um hituna. T.d. komu tíu manns að skoða eina íbúðina á fimmtudag. Okkur býðst nú að leigja íbúð frekar miðsvæðis sem hentar okkur að mörgu leyti. Við erum að spá í að skella okkur á hana. ... Framhald fljótlega þar að lútandi.

Í dag keyptum við Apple-fartölvu fyrir heimilið. Það rigndi svo mikið á leiðinni niður í bæ að við lögðum hjólunum og héltum áfram með sporvagninum. Hittum á heimleið fyrir tilviljun Eyva og settumst inn á kaffihús. Í kvöld ætlum við að slaka á heima. Hollenskunámið hefur gengið vel og á mánudag byrjar vinnan. Ég er spenntur að sjá hvernig verður.

Kveðja, Pétur.

2 comments:

David said...

Pétur. Ég er lengi búinn að ætla að vera að fara að skrifa komment á síðuna ykkar. Bara til að láta vita af mér og svona segja að þetta verður allt í lagi. Núna loksins veit ég hvað ég get sagt þér. Vinsamlegast kíktu á slóðina
http://www.hrafnaspark.net/Blogs/Default.aspx?ID=2044

og þú veist hvað ég er að meina. Sandra er málið!

Árni Grímur said...

Hæjó,
Komnir með makka? þá verðum við að video iChatta. Við verðum að iChatta NÚNA!