Thursday, July 10, 2008

Villtist á leiðinni heim

Hélt fyrirlestur í vikunni í vinnunni um eitla í ristilkrabbameini. Til að spara mér tíma ákvað ég að hafa fyrirlesturinn á ensku. Fyrirlesturinn gekk ágætlega. Einum sérfræðingnum þótti reyndar frekar slappt að ég skyldi tala á ensku og sagði að næst yrði fyrirlesturinn á hollensku. Stundum er ég svolítið þreyttur á þessu svo sem ágæta tungumáli - ekki síst undanfarið þar sem ég finn að mig vantar mikið af almennum orðaforða. Ég get talað tungumál vinnunnar en segi frekar oft ha - og ég er búinn að vera hér í 10 mánuði. ... Þetta kemur allt, samt þreytandi að bíða eftir því. Það er ergilegt að missa oft þráðinn þegar ég hlusta á umræður. Ég þyrfti eiginlega að fara að lesa eitthvað á hollensku eða horfa meira á sjónvarp - ég bara nenni því ekki.

Hef verið með ýmis áhugaverð sýni. Fékk eitt sjaldgæft í gær, æxlisvöxt í eyrnagöngunum. Verð væntanlega að baksa með þetta sýni næstu vikurnar á meðan beinið verður í afkölkun og annarri vinnslu fyrir smásjárskoðun.

Hef hjólað ýmsar nýjar leiðir í vinnuna og heim undanfarið. Villtist allsvakalega í gær, vissi ekki hvar ég var og þegar ég spurði til vegar var ég í hinum bæjarendanum og stefndi í öfuga átt.

Kveðja, Pétur.

1 comment:

SíSí said...

Hmmm... myndi nú bara halda að þessir Hollendingar hefðu gott af enskufyrirlestrum af og til!