Friday, March 28, 2008

Föstudagur

Nú er krufningalotunni lokið, a.m.k. í bili. Enn fleiri áhugaverð tilfelli hafa komið í ljós, m.a. "cardiac sarcoidosis" sem til stendur að skrifa grein um. Næsta vika fer í að ljúka krufningaskýrslum og svo fer ég í helgarheimsókn til Ásgeirs. Það var óvænt að mamma hans Ásgeirs ákvað að drífa sig í helgarferð til Barcelona að hitta Ásgeir, hún lendir rétt á eftir.
Ég hef ekkert orðið var við læti út af þessari hollensku mynd um kóraninn og múslimatrú. Ég gerði tilraun til að finna myndina á netinu en hún virðist hafa verið fjarlægð víðast hvar.
Síðdegis í gær fór ég til Utrecht á námskeið í að kódera fyrir meinafræðigagnagrunninn hér í Hollandi. Það er nefnilega svo að allar meinafræðirannsóknastofur í Hollandi nota tölvukerfi þar sem niðurstöður eru skrásettar og fara inn í gagnagrunn. Þannig get ég séð hvort sýni frá sjúklingum sem ég kem að hafi einhvers staðar og einhvern tímann áður farið í rannsókn. Segjum t.d. að ég fái til rannsóknar eitil með meinvarpi. Þá get ég farið í tölvuna og séð hvort sjúklingurinn hafi einhvers staðar í Hollandi farið í aðgerð þar sem sýni sem innihélt frumæxlisvöxt var fjarlægt. Þetta er mjög gagnlegt. Heima á Íslandi eru þrjár meinafræðirannsóknarstofur en gagnagrunnarnir eru ekki tengdir þrátt fyrir smæð landsins. Með því að hafa einn meinafræðigagnagrunn fyrir allt Holland skapast áhugaverðir möguleikar og hægt er að leita að sjaldgæfum sjúkdómum og athuga með fljótlegum hætti tíðni ýmissa sjúkdóma.
Á morgun er svo annað námskeið sem fer fram í Nijmegen. Það er ívið áhugaverðara, dagsnámskeið í taugameinafræði sérsniðið að þörfum unglækna í sérnámi í meinafræði.Eini gallinn er að ég hefði verið til í að sofa út á morgun en þarf í staðinn að vakna klukkan sjö.
Það er fróðlegt að fylgjast með verðbólgu- og niðursveifluástandinu á Íslandi. Menn hafa orðið varir við þetta hér í Hollandi og ég var t.d. spurður um þetta í vinnunni í dag.
Svo datt mér í huga að setja inn tengil á neðangreint lag sem hefur verið vinsælt hér í Hollandi að undanförnu, bara svona til að sýna ykkur hvað er í gangi:
http://www.youtube.com/watch?v=ybmIKkfUzCk&feature=related
Kveðja, Pétur.

No comments: