Tuesday, March 25, 2008

Páskar

Það er lítið að frétta. Yfir páskana hef ég mestmegnis setið yfir tölvunni og unnið í ristilverkefninu, varla farið út. Mestur tími hefur farið í að læra á tölfræðiforritið SPSS og möguleika þess. Mér sýnist ég vera að ná tökum á þessu og nú er kominn nokkur skriður á vinnuna, loksins. Það hefur verið hálfkalt hérna og svo snjóaði lítillega í gær.
Ég ætlaði alltaf að bera saman nokkra hluti varðandi Landspítalann og spítalann þar sem ég vinn.
*Einn munurinn er sá að hér fær maður ekki ótakmarkað magn af spítalafötum heldur aðeins tvö sett af hverri flík sem tölvukerfi skammtar manni. Maður fær ekki hreinan fatnað nema maður hafi skilað inn því sem áður hefur verið úthlutað.
*Það er ágætt tölvukerfi hér þar sem hægt er að nálgast allar rannsóknarniðurstöður, læknabréf, aðgerðarlýsingar og slíkt en mér finnst skrýtið að innlagnarnótur eru ekki pikkaðar inn.
*Í Hollandi eru kennitölur ekki notaðar í heilbrigðiskerfinu. Allir eru reyndar með visst númer en það kemur frá skattinum. Þetta getur valdið ruglingi því að þegar sjúklingur innritast á sjúkrahúsið í fyrsta skipti fær hann númer sem er bara notað þar en ekki á öðrum sjúkrahúsum. Fyrst og fremst er stuðst við fæðingardaga og nöfn. Í meinafræðigagnagrunninum sem nær yfir allt landið getur einstaklingum slegið saman út af þessu. T.d. gerði ég krufningu um daginn þar sem öll líffæri voru til staðar en samkvæmt tölvukerfinu var búið að fjarlægja milta og hluta af ristli. Þarna hafði tveimur einstaklingum með algengt nafn og sama fæðingardag verið ruglað saman.
*Hér er engin stimpilklukka og maður fær alltaf full mánaðarlaun. Einu sinni á ári skilar maður skýrslu þar sem kemur fram hversu marga frídaga maður tók sér og þá er reiknað út hvort maður er í plús eða mínus hvað varðar frídagana.

Kveðja, Pétur.

1 comment:

Anonymous said...

við þurfum endilega að fara kenna útlendingum á kennitölukerfi, mjög sniðugt, gæti verið okkar nýja útrás með Þjóðskránna!

Gulli