Monday, February 9, 2009

Hvað gerðist?

Það er merkilegt að lesa skýrslu Gylfa og Jóns, hagfræðinga, um hrun íslenska hagkerfisins (http://www.riskresearch.org/). Svo virðist sem einstakt hrun hafi átt sér stað á Íslandi og ólíklegt er að nokkuð þessu líkt komi til með að eiga sér stað t.d. í Bretland þó að þar kunni af koma allnokkur lægð. Margt af því sem þarna kemur fram hefur komið fram áður með einum eða öðrum hætti en þarna er ágæt samantekt á málinu. Þessi skýrsla sannfærir mig um að nauðsynlegt sé að skipta út fólki í íslensku stjórnkerfi sem átti hlut að málum. Það sem er svo ótrúlegt er hversu meingallað íslenskt stjórnkerfi var og er - það er miklu lélegra en mér hefði nokkurn tímann dottið í hug. Þrátt fyrir að kerfið hafi verið jafnlélegt fyrir 10 árum og það er nú þá er samt magnað til þess að hugsa að staða Íslands þá var ótrúlega góð í alþjóðlegu samhengi. Aðeins á tæpum 10 árum var þessu rústað. Hið jákvæða í þessu er að hrunið getur orðið til þess að lög og reglur á Íslandi verði endurskoðaðar og betrumbættar þannig að flokkshagsmunir og spilling lágmarkist og lýðræði og jafnrétti aukist.

Annars er það að nefna að ég skrapp á tónleika í gærkvöldi. Það var Alexander Gavrylyuk, ungur píanisti sem lék skemmtileg verk eftir Mozart, Brahms, Rachmaninov og Bach. Ég keypti miða á síðustu stundu og fékk sæti aftast uppi á sviði við hliðina á orgelinu. Gat hallað mér til hliðar og fram og sá þá aðeins. Það var gaman hversu duglegur hann var að spila aukalög, eftir smá klapp skellti hann sér í næsta og næsta verk. Dagurinn var frekar erfiður. Það voru tvær krufningar ofan á aðra vinnu. Annar sjúklingurinn var með rosalega ásvelgingslungnabólgu - annað eins hef ég ekki séð.

Pétur.

1 comment:

Anonymous said...

ég ætla að lesa þessa skýrslu yfir í kvöld.. fróðleg lesning
kv Dögg