Saturday, February 7, 2009

Ögmundur tekur lækna fyrir

Fór á bíó í gær. Sá myndina Milk sem fjallar um réttindabaráttu samkynhneigðra í Kaliforníu á sjöunda og áttunda áratugnum. Fín mynd, vel leikin. Sem Íslendingur gerir maður auðvitað ráð fyrir að geta greitt með korti fyrir bíómiðann en auðvitað var það ekki hægt. Ekki er hægt að borga fyrir alls kyns afþreyingu, veitingar og mat hér í Amsterdam nema með beinhörðum peningum. Ég geri ráð fyrir að þetta sé sparnaðarráðstöfun en Íslendingar eru mun lengra komnir með að nota bara kort, sem mér finnst miklu þægilegra.

Í dag frétti ég að hinn nýi heilbrigðisráðherra hafi mikinn áhuga á því að spara í heilbrigðiskerfinu með því að lækka laun lækna. Þetta fann ég á heimasíðu Ögmundar:

"Langskólamenntað fólk verður að skilja að menntun er ekki og á ekki að vera óskilyrt ávísun á miklu betri kjör en þeir njóta sem búa yfir minni skólamenntun." Svo skrifaði Ögmundur: "Sjálfsagt er að taka viðmið af kostnaði vegna námslána. Lengra nær mín samúð ekki. Vissulega á heilaskurðlæknirinn að hafa bærileg laun. En það gildir líka um starfsmanninn sem hjálpar ósjálfbjarga einstaklingi að komast í gegnum daginn - og nóttina, þótt sá hafi ekki jafnlangt nám að baki og hinn sem mundar skurðhnífinn.
Menntun segir ekki allt um gildi starfa. Þá síður um hve erfið störf eru eða þakklát. Hrokatal er "menntafólki" eða "prófgráðufólki" hvorki til sóma né er það því til framdráttar. Það vita þeir sem best eru menntaðir - og upplýstir. Þeir tala af hógværð. Þeir vita hvers virði réttlátt þjóðfélag er. Kannski er það í þessu sem munurinn liggur á menntamanni annars vegar og prófgráðumanni hins vegar."

Svo kom fram á visir.is: "Ögmundur sagði að niðurskurður í heilbrigðiskerfinu væri óhjákvæmilegur. Hann hefði hins vegar reynt að setja sér skýr markmið í þessum niðurskurði. Reynt yrði að draga ekki úr aðgengi sjúklinga. Reynt yrði að láta þetta ekki bitna á starfsfólki og reynt yrði að hlífa því starfsfólki sem hefði lágar tekjur og miðlungstekjur á kostnað þeirra sem bera mikið úr býtum."

"Reynt yrði að láta þetta ekki bitna á starfsfólki (...) á kostnað þeirra sem bera mikið úr býtum." Er ekki mótsögn í þessari setningu? Ég held að það sé að minnsta kosti þrennt sem Ögmundur áttar sig ekki á. Í fyrsta lagi á því að það verður helst að vera einhver umbun fyrir að leggja á sig langt nám, mikla vinnu og ábyrgðarmikið starf - fólk vill vera metið að verðleikum. Í öðru lagi að eftir langt nám og sérnám eru læknar "gamlir" þegar þeir byrja að geta lagt fyrir og þegar læknar fara á eftirlaun hefur hver króna verið skemur í ávöxtun en hjá þeim sem byrja fyrr að vinna. Í þriðja lagi getur sú staða komið upp að íslenskir læknar vilji síður fara til Íslands að sérnámi loknu séu kjörin orðin töluvert lélegri en það sem erlendis býðst. Ögmundur er fullur af hugmyndum sem ég hef áhyggjur af.

1 comment:

SíSí said...

Úfff... ég er svo sammála þér Pétur!
Þetta er áhyggjuefni. Það er alla vegana á hreinu aðÆ
a. Á meðan maður er í sérnámi þá er erfitt að leggja fyrir, a.m.k. hér í USA þar sem meiri en helmingur launa minna fer í leigu og launin eru lág á meðan fólk er í náminu.
b. Þegar læknar klára sérnámið hér fara launin mikið upp á við, 80.000-100.000 USD á ári auðveldlega og meira í einkageiranum.
c. Af hverju ætti ég að koma heim í grunnlaun 470.000,- + ófyrirsjáanlegar breytingar sem verða á heilbrigðiskerfi/kjörum heilbrigðisstarfsfólks á næstu árum?!?