Heimsótti Garðar bróður í London um helgina. Fór þangað síðastliðið föstudagskvöld eftir vinnu. Þurfti reyndar að skilja ýmislegt óklárað eftir á borðinu enda var föstudagurinn mjög annríkur. Það vakti athygli mína að ferðin með metró frá Heathrow heim til Garðars tók jafnlangan tíma og flugið milli Heathrow og Schiphol. Í London var ýmislegt gert, m.a. fórum við upp í turninn á dómkirkju St. Pauls og á safn Sir John Soane. Það var mjög áhugavert safn. Um er að ræða heimili þekkts arkitekts sem sem breyttist í safn um leið og hann féll frá á fyrri hluta 19. aldar. Hann safnaði fornmunum og raðaði þeim upp á óvenjulegan hátt - svo var hann með múmíulíkkistu í kjallaranum. Mér skilst að hann hafi haldið stórt partí þegar líkkistan var komin ofan í kjallara. Svo hittum við Jakob og Augusto sem hafa það mjög gott í London. Fór líka á Sushi stað með Garðari. Matur á góðum sushi-stað í London er eiginlega orðið að góðri venju.
Þetta viðtal við Geir H Haarde í breska þættinum Hardtalk var merkilegt að ýmsu leyti. Í fyrsta lagi hef ég ekki séð íslenskan stjórnmálamann vera spurðan út úr með þessum hætti. Geir átti í þessum þætti engrar undankomu auðið og gat ekki svarað með skætingi eða snúið út úr eins og maður sér í íslenskum fréttum. Í öðru lagi fannst mér merkilegt að Geir skyldi ekki hafa talað við Gordon Brown eftir að hryðjuverkalögin voru sett á Ísland. Varðandi fyrra atriðið þá held ég að íslenskir fréttamenn séu oft í þeirri erfiðu stöðu að ef þeir eru í ónáð hjá stjórnmálamanni, t.d. vegna erfiðra spurninga, þá fá þeir að gjalda fyrir það, t.d. með því að fá síður að bera upp spurningar. Breski fréttamaðurinn hafði engra hagsmuna að gæta varðandi framtíð sína í fréttamennsku og gat því spurt alls. Þetta var alveg nýtt fyrir mér.
Sunday, February 15, 2009
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment