Sunday, November 16, 2008

Danssýningar hjá Ásgeiri

Í gærkvöldi fór ég á eina nokkurra sýninga hér í Amsterdam á verkinu Sloth sem Ásgeir dansar í. Danshópurinn varð fyrir því bakslagi að einn dansaranna sneri sig illa á ökkla og því var nýr dansari kallaður til með 2 daga fyrirvara. Þrátt fyrir þetta hafa sýningarnar gengið vel og það var gaman að sjá hvernig verkið hafði þroskast frá frumsýningu. Hér gistu hjá okkur í nokkrar nætur 2 stelpur úr danshópnum, þær Katja og Estelle. Í gærmorgun og í morgun var því mannmargt við morgunverðarborðið, gerðar vöfflur og hrærð egg.

Af vinunni er það að frétta að þar hefa verið ósættir milli meinafræðinganna og yfirmannsins og það hafa verið ítrekaðir fundir á vinnutíma. Ég veit ekki hvað þetta snýst um en það virðist engin lausn í sjónmáli. Það þykir mér miður því að þetta truflar vinnuna. Sá meinafræðingur sem ég átti að vinna með síðastliðinn fimmtudag hafði t.d. engan tíma þann daginn til að skoða með mér það sem skoða skyldi og var því vinnan næsta dag helmingi meiri fyrir vikið. Áhugaverðasta sýnið í vikunni var hóstarkirstilsæxli (thymoma). Annað var vanalegt.

Nú er indónesíski vinur okkar, Herbert, farinn til síns heimalands eftir að hafa gefist upp á að fá atvinnuleyfi hér. Það þykir okkur leitt því að við þekkjum ekki svo marga hér. Annars var gaman í gær því að á sýningu gærkvöldsins komu margir Íslendingar. Ætli maður þurfi að halla sér meira að Íslendingunum hér í borg?

Ég fékk frest hjá skattinum vegna skattskýrslu fyrir 2007 og sendi allt draslið til endurskoðanda sem ætlar að sjá um málið. Er miklu fargi þar með af mér létt.

Kveðja, Pétur.

1 comment:

Anonymous said...

"Ég fékk frest hjá skattinum vegna skattskýrslu fyrir 2007 og sendi allt draslið til endurskoðanda sem ætlar að sjá um málið. Er miklu fargi þar með af mér létt."

já um að gera, örugglega betri tímanýting að láta bara fagmann/endurskoðanda sjá um þetta og einbeita sér í staðinn að því sem þú ert góður/sérhæfður í (semsagt læknaleik).