Sunday, November 2, 2008

Frumsýning og slóttugir leigubílstjórar

Ýmislegt hefur verið á döfinni hjá okkur Ásgeiri. Það er helst að frétta að Katrín, dansnemi, var í heimsókn frá Salzburg og loks var verkið sem Ásgeir dansar í frumflutt. Frumsýningin fór fram í den Haag, fyrsta af 20 sýningum, og tókst mjög vel. Verkið heitir Sloth (leti) og nefnist svo eftir einni höfuðsyndanna sjö. Hver dansari hefur vissan karakter, t.d. er Ásgeir maður sem er ávallt með háleitar hugmyndir og yfirlýsingar en síðan gerist aldrei neitt. Áður hefur sami danshöfundur samið verk í þessari seríu, m.a. Matgræðgi.

Eftir sýninguna komum við seint með lestinni til Amsterdam frá den Haag og metró var hættur að ganga. Þá var fátt annað í stöðunni í kuldanum en að taka leigubíl. Það er nokkuð sem mér er meinilla við því að leigubílstjórar í Amsterdam, aðallega þeir sem bíða á aðallestarstöðinni, eru þekktir fyrir að svindla á ferðalöngum. Við settumst inn í leigubíl og sögðum hvert við vildum fara. Hann neitaði að setja mælinn af stað og vildi bara ákveðið gjald, þ.e. 8 evrum meira en eðlilegt taldist. Svo sagði hann að við gætum bara farið út og reynt að finna ódýrari leigubíl. En það er vonlaust því að bílstjórarnir á aðallestarstöðinni standa saman eins og dæmi hafa sannað. Á endanum tókum við fjárans leigubílinn á verði sem var tæpum 6 evrum of hátt. Það er athyglisvert að leigubílstjórarnir á aðallestarstöðinni virðast allir aðfluttir frá sama landinu í Afríku. Þetta er óþolandi ástand og maður skilur ekki af hverju ekkert er gert í þessu. Aldrei tek ég aftur leigbíl þarna.

Svo kom Herbert í mat í kvöld. Hann er einn fárra vina okkar hér í Amsterdam og kemur frá Indónesíu. Hann hefur búið hér í rúmt ár og ég kynntist honum á hollenskunámskeiðinu í september í fyrra. Hann notaði allan síðastliðinn vetur til að læra hollensku og hefur allt þetta ár reynt að fá vinnu á sínu sviði, þ.e.a.s. einhvað lögfræðitengt (t.d. svokallaður aðstoðarmaður lögfræðings, paralegal). ESB-löggjöfin er hins vegar stíf þannig að ef enginn vill ráða hann á vissum lágmarkslaunum þá fær hann ekki að setjast að. Og nú er staðan orðin sú að hann verður að flytja aftur til Indónesíu.

Kveðja, Pétur.

No comments: