Sunday, November 30, 2008

Jólaföndur og tónleikar

Við erum komnir í mikið jólaskap. Ásgeir skipulagði "jólaföndur og dúllerí" og hingað komu ýmsir gestir í dag, drukku heitt súkkulaði, borðuðu hollenskt jólabakkelsi og föndruðu. Gömul handtök voru rifjuð upp, músastigar, jólahjörtu og ýmsilegt fleira. Íslensk jólatónlist hefur ómað allan daginn.

Svo fór ég á píanótónleika í kvöld í Het Concertgbouw að hlusta á Evgeny Kissin, rússneskan píanista. Það er gaman að fara í þetta stóra tónleikahús. Það er frá 19 öld, er skrautlegt en stílhreint. Úr loftunum hanga kristalsljósakrónur, teppin eru rauð og flúr á veggjum. Á veggjunum fyrir utan salinn hanga málverk af listamönnum og inni í salnum má lesa nöfn gömlu tónskáldanna á veggjunum. Kissin spilaði verk eftir Prokofief og Chopin. Fólk átti erfitt með að halda aftur að sér að klappa ekki á milli einstakra Chopin-etýða. Í lokin var hann klappaður margoft upp. Eins og endra nær eftir tónleika segi ég nú við sjálfan mig að ég verði að fara oftar á tónleika. Svo langar mig til að spila sjálfur, hef nú ekki spilað á píanó lengi. Reyni að kippa því í liðinn sem fyrst.

Kveðja, Pétur.

1 comment:

Ólöf Viktorsdóttir said...

Kissin - kúl
Jólaföndur - kúl
Heitt kakó og hollenskt bakkelsi - mjög kúl, langar að smakka svoleiðis.