Félagslífið hefur verið í miklum blóma þessa helgina. Á föstudagskvöldið fórum við til Kellýar, bandarískrar konu úr bekknum mínum, og skosks manns hennar. Þau búa í De Pijp sem er skemmtilegt hverfi sem okkur Ásgeir langar til að búa í. Í gærkvöldi fórum við að sjá listdans ásamt bekkjarfélögum Ásgeirs. Það var sýning sem var eins konar ádeila á fátækt í Suður-Ameríku og firringu þar að lútandi. Loks koma bekkjarfélagar Ásgeirs hingað í dag í pönnukökur. Þess má reyndar geta að hústökufólkið hefur verið rekið út, er nú heimilislaust og býr inni á vinum og kunningjum.
Á heimleið úr partíinu hennar Kellýar sáum við gamla konu á gangi í myrkrinu. Hún gekk hægum og stuttum skrefum og virtist ekki eiga að vera þarna, illa klædd og klukkan að ganga þrjú um nótt. Við stoppuðum og snerum við. Konan var á inniskóm í þunnum bleikum bómullarfötum. Í ljós kom að hún hét Hettý, var fædd 1915 og hún rataði ekki heim til sín. Hún hélt á handtösku í annarri hendinni og lyklakyppu í hinni. Hún vissi ekki hvað gatan sín hét og sagðist ýmist hafa búið hér í 3 mánuði eða þrjú ár. Hún virtist frekar skýr, gat haldið uppi samræðum en var orðin aðeins gleymin. Við hringdum í lögregluna sem kom fljótlega. Þá kom í ljós að hún bjó rétt hjá og lögreglan fylgdi henni heim.
Hollenskunámið gengur vel. Í partíinu hennar Kellýar tókst mér að tala býsna lengi um húsnæðismál á hollensku við þolinmóða Hollendinga sem voru hjálpsamir. Nýjasta nýtt í hollenskutímunum er að láta okkur syngja hollensk lög. Ásgeir var látinn syngja þetta en ég var látinn syngja þetta. Hvort finnst ykkur skemmtilegra?
Loks fórum við að skoða íbúðina í gær. Það kom okkur á óvart að ólíkt myndunum var fremur óhreint og subbulegt umhorfs. Við ætlum að hugsa málið, okkur finnst íbúðin heldur í dýrari kantinum miðað við sumt annað. Raunar er erfitt að ákveða eitthvað svona m.t.t. þess að við höfum ekki skoðað aðrar íbúðir og vantar því samanburð.
Karlarnir sem komu og hreinsuðu niðurfallið virtust ekki sérlega áreiðanlegir á að líta. Þeir buðu mér annaðhvort að borga 170 evrur og fá nótu eða borga 90 evrur svart. Eftir að þeir höfðu lokið verkinu og allt virtist í lagi tók ég seinni kostinn. Þeir hefðu getað sagt mér að setja dagblöð á gólfið en gerðu ekki þannig að hér var býsna óhreint þegar dökkar eðjuslettur fóru í allar áttir. Var ég nokkurn tíma að þrífa eftir þá, þurfti m.a. að nota brennsluspritt til þess.
Og já, hollenska skyrið Kwark uppfyllir kröfur mínar og ætti að geta komið í stað súrmjólkurinnar sem ég hef fram að þessu borðað.
Kveðja, Pétur.
Sunday, September 23, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment