Wednesday, September 26, 2007

Húsnæðisleit og skráning

Húsnæðisleitin heldur áfram. Í morgun fór ég að skoða íbúð sem er miðsvæðis milli spítalans og miðbæjarins. Þýsk hjón sem leigja íbúðina en eru að flytja í stærri íbúð á hæðinni fyrir ofan sáu auglýsingu frá okkur Ásgeiri og vildu endilega benda okkur á að íbúðin þeirra væri að losna. Hún var bara ágæt, aðalkosturinn er að hún er frekar ódýr. Fyrirhugað er að skoða fleiri íbúðir á næstu dögum. Þessi húsnæðisleit gengur betur en ég bjóst við.

Fékk loks í dag hina langþráðu kennitölu. Nú er loks hægt að ganga frá ráðningasamningnum og nú ætti ég að geta opnað bankareikning. Svo fékk ég loksins tíma hjá útlendingaeftirlitinu. Þangað fer ég eftir tvær vikur og fæ stimpil í vegabréfið. Áður en ég kom til Hollands fór mikill tími hjá mér í að átta mig á hvaða skjöl og vottorð ég þyrfti að hafa meðferðis og í hvaða röð maður ætti að gera hlutina. Til að einfalda fyrir öðrum unglæknum málið er ég að taka saman smá leiðbeiningar jafnóðum sem verða settar inn á heimasíðu Læknafélagsins undir "Holland".

Ég bíð spenntur eftir að heyra frá RIBIZ sem hefur verið tregt til að veita mér lækningaleyfi. Sendi þýðingu á lækningaleyfinu á mánudaginn og vona að það verði ekki meira vesen.

Bekkjarfélagar Ásgeirs komu í heimsókn á sunnudaginn og fengu pönnukökur. Sum þeirra voru hústökufólk þar til þeim var hent út nýlega. Þau voru agndofa yfir litlu íbúðinni okkar á Van Nijenrodeweg. Við erum reyndar mjög ánægðir þar en gott verður að komast í varanlegra húsnæði og fá kassana senda frá Íslandi. Hér rignir nokkuð og m.a. voru regnföt skilin eftir á Íslandi í kössum.

Sit nú í tölvustofu háskólans og er að fara læra. Fékk mér áðan að borða í mötuneyti skólans sem er bæði ódýrt, gott og með mikið úrval. Það er meira að segja hægt að fá sér borðvín með matnum ef maður vill.

Groetjes, Pétur.

2 comments:

Anonymous said...

Hæ! Skráið mig í eitthvað þarna í Hollandi. Bara hvað sem er! Steinkan

Anonymous said...

Gefeliciteerd!

Ik heb een maagpijn
Nú vitum við hvaðan orðið "magapína" kemur.
Hvað kostar Grols?

Gauw tot ziens
Jón Þorkell