Saturday, September 15, 2007

Nemendur reknir úr bekknum o. fl.

Þegar við mættum í skólann í gær var okkur tilkynnt að tveir nemendur hefðu verið látnir fara eftir prófið; annars vegar múslimakona með slæðu frá Marokkó og hins vegar strákur frá sama landi. Konan talaði enga ensku og virtist ekki fylgja öðrum í bekknum eftir. Gert var ráð fyrir að þau færu á hægara námskeið. Hálftíma eftir að kennslan byrjaði var bankað upp á og inn kom æstur hollenskumælandi maður með konuna í eftirdragi, sennilega bróðir hennar eða eiginmaður. Upphófst þras sem endaði með því að kennarinn fór út og loks fékk konan að setjast inn og vera með okkur. Í lok dagsins kom yfirmanneskja deildarinnar og sótti þá marokkósku í viðtal. Hver veit hvort hún verður með okkur eftir helgi.
Framhaldssagan: Niðurfallið er enn stíflað en stíflueyðirinn hjálpaði aðeins. Nú er eldhúsvaskurinn nothæfur en rennslið þó býsna lélegt. Næsta skref er að fá stíflulosunarþjónustu ef leigusalinn samþykkir það.
Í gær fórum við Ásgeir í matarboð til Frakka sem er deildarlæknir í meinafræðinni. Þar var par frá Bandaríkjunum, ein frá Marokkó og par frá Frakklandi. Frakkinn er með kínverskri konu. Þau búa í draumaíbúð í draumahverfi, íbúð sem þau keyptu í vor og gerðu upp. Við fengum ostarétt úr frönsku Ölpunum sem var mjög góður. Þetta var mjög skemmtilegt kvöld. Indónesinn í hollenskubekknum býður okkur Ásgeiri í mat í kvöld. Það er sem sagt nóg að gera í félagslífinu.
Kveðja, Pétur.

2 comments:

Bjarki og Helga said...

hæhæ
kók er gott í að leysa upp fleira en tennurnar í manni, það gæti losað stífluna í eldhúsvaskinum ykkar. Pössuðið þið ekki örugglega að leyfa stíflueyðinum sem þið keyptuð að liggja í niðurfallinu í talsverðan tíma áður en þið skoluðuð?? Það gæti líka borgað sig að prufa aðra tegund af stíflueyði, Mr. Muscle hefur reynst okkur vel. Þessir umhverfisvænni eru oft gagnslausir þannig að ef þið finnið einhvern vel eitraðan og umhverfisspillandi þá virkar hann sennilega betur.
Kveðja Bjarki og Helga

Anonymous said...


Það er greinilega mikið drama í þessum skóla. Ég sé fyrir mér að eiginmaðurinn hefur litið út eins og Soup Nazi í Seinfeld.

Ég hef líka prufað Mr. Muscle með góðum árangri, það bókstaflega rauk upp úr niðurfallinu og svo var það fínt á eftir
kv Dögg