Sunday, September 9, 2007

Hústökufólkið

Ég er í bekk með tíu manns. Fimm strákum og fimm stelpum. Þessir krakkar eru víðs vegar að úr heiminum. Tvær pólskar stelpur, ein austurrísk, ein sænsk og ein frá Curasao sem er hollensk nýlenda í Karabískahafinu. Tveir strákanna eru frá Ítalíu, einn Skoti, einn Frakki og einn brasilískur strákur. Það er erfitt að finna húsnæði í Amsterdam og fólk grípur oft til ýmissa úrræða. Fimm af þessum tíu krökkum sem ég er með í bekk búa saman í yfirgefinni tveggja herbergja íbúð. Þau höfðu leigt hana tímabundið þegar inntökuprófin stóðu yfir í vor en áður en þau skiluðu lyklunum létu þau skipta um skrá. Íbúðin stóð því tóm þangað til að þau komu aftur hingað núna í haust. Í Hollandi kveða lögin á um að ef húsnæði stendur autt lengur en í ár þá er hverjum sem er heimilt að taka það eignarnámi. En fram að þeim tíma búa þau réttlaus í íbúðinni. Íbúðin er víst ekkert í neitt sérstöku ásigkomulagi og núna á fimmtudaginn var farið að leka frá íbúðinni á hæðinni fyrir ofan, sem líka stendur tóm. Greyin eru í óþægilegri aðstöðu. Ekki geta þau farið til eiganda byggingarinnar og kvartað: “Já sæll. Við búum hérna fimm saman í íbúðinni þinni, þér óafvitandi. Ertu nokkuð til í að láta kíkja á lekann hjá okkur?”
Það eru nú fleiri skemmtilegar húsnæðissögur úr skólanum því Frakkinn í bekknum mínum býr í hjólhýsi sem ég held barasta að hann hafi komið með sjálfur frá Frakklandi.

Það verður spennandi að sjá hvernig okkur Pétri kemur til með að ganga í húsnæðisleitinni.

Kveðja Ásgeir

No comments: